Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær gagnlegu umræður sem hafa orðið um þetta mál. Ég mun fyrsta víkja að tveimur fyrirspurnum sem hv. 10. þm. Reykv. beindi til mín í þessari umræðu. Hann spurði fyrst að því hversu hratt tillögumenn vildu ganga í þessu efni. Ef hv. þm., sem ekki gat verið viðstaddur hér í kvöld af skiljanlegum ástæðum, hefði lesið grg. till. þá kemur þar glöggt fram að við það er miðað að við tökum þátt í efnahagssamstarfi Norðurlandanna og þeirri efnahagsáætlun sem Norðurlöndin hafa gert. Við miðum að því að fylgja þeim eftir en dragast ekki aftur úr eins og hæstv. viðskrh. gerði að stefnumiði ríkisstjórnarinnar í þeirri ræðu sem hann flutti í byrjun umræðunnar.
    Önnur spurning hv. þm. var um það hvort hér væri stefnt að aðild að evrópska myntkerfinu. Því er til að svara að með þessari till. er ekki stefnt að því að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að evrópska myntkerfinu. Það er alveg sjálfstæð ákvörðun sem ég tel að ekki sé tímabær eins og sakir standa. En þessi till. er hluti af heildarstefnumörkun sem þingflokkur Sjálfstfl. markaði sl. haust og landsfundur flokksins gerði síðan að samþykktum sínum í byrjun vetrar. Þar var m.a. gert ráð fyrir því að hluti af nýrri stefnu í efnahags- og atvinnumálum fælist í því að koma á markaðsverðmyndun á gjaldeyri.
    Í tilefni af ræðu hv. 10. þm. Reykv. vildi ég taka þetta fram.
    Ræður hæstv. viðskrh. í þessari umræðu eru sama marki brenndar og þegar hann kemur hér upp eða ritar í blöð. Hann lýsir mjög ákveðið vilja sínum og viðhorfum í þessum efnum en getur ekki varist því að hann situr í ríkisstjórn sem var mynduð í þeim tilgangi að færa Ísland áratugi aftur í tímann og taka upp áratuga gömul vinnubrögð við stjórn efnahagsmála. Fráfarandi aðstoðarmaður hæstv. ráðherra hefur í nýlegu blaðaviðtali í Morgunblaðinu lýst þessari aðstöðu einkar vel. Hann hefur tekið fram að ástæðan fyrir því að hæstv.
ráðherra nær ekki fram sínum málum sé sú að meðal samstarfsflokkanna ríkir ekki einasta viljaleysi, heldur líka fáfræði og einangrunarhyggja. Einkanlega er það formaður þingflokks framsóknarmanna sem hefur fengið þessi ummæli af hálfu fráfarandi aðstoðarmanns hæstv. viðskrh.
    Það vita allir að aðstoðarmaðurinn fráfarandi hefur hér lög að mæla. Það er ekki stjórnarandstaðan sem þarf að upplýsa um þessa aðstöðu, það eru nánustu samstarfsmenn ráðherranna sjálfra sem lýsa stjórnarsamstarfinu og tilgangi stjórnarmyndunarinnar með þessum hætti. Viðurkenna að hún var mynduð til að hverfa aftur í tímann. Í þessu umrædda viðtali sagði einmitt um þessi efni að væntanlega væri hægt að fá samstarfsflokkana til að taka einhver varkár skref í þá átt en ganga þyrfti miklu lengra. ,,Ég held að það sé mjög óæskilegt að þurfa að nauðga þessu upp á samstarfsaðilana óviljuga``, sagði aðstoðarmaðurinn fráfarandi.

    Nú ætla ég ekki að blanda mér í þau innanbúðarmál og vafalaust er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sé ástæðulaust fyrir hann að hafa fyrir því að nauðga sínum skoðunum upp á samstarfsaðilana. Hann kýs frekar að sitja án þess að ná markmiðum sínum fram. En aðstoðarmaðurinn fráfarandi taldi hins vegar heppilegra fyrir þann flokk að leita samstarfs við þá sem raunverulega vilja breytingar. Og ég er sannfærður um að það er meirihlutavilji fyrir því á Alþingi því þó að alþýðuflokksmenn lýsi framsóknarmönnum með þeim hætti sem fram kemur í þessu umrædda viðtali þá er annar armur í Framsfl. sem hefur sýnt miklu meira frjálslyndi, krafist nýrrar efnahagsstefnu og hafnað efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er alveg vafalaust að fyrir hendi er meiri hluti til að takast á við þessi viðfangsefni.
    Það vakti líka athygli að hæstv. viðskrh. sagði að ekki væri hægt að taka ákvarðanir í þessum efnum fyrr en séð væri fyrir endann á viðræðum EFTA við Evrópubandalagið. Þó að þessi mál tengist þeirri þróun sem þar á sér stað og séu því mikilvægari að meiri hluti þjóðar og þings vill stefna að nánu samstarfi við Evrópubandalagið, þá getum við eins og aðrar Norðurlandaþjóðir tekið ákvarðanir um þetta óháð niðurstöðu þeirra samninga. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa ákveðið framkvæmd frelsis í gjaldeyrismálum og tímasett þær ákvarðanir án tillits til niðurstöðu þessara viðræðna. Hér er því hæstv. ráðherra að búa sér til skálkaskjól vegna þess að hann veit að það er rétt sem aðstoðarmaður hans fráfarandi sagði, hann kemur ekki málum sínum fram.
    Það er þess vegna rangt sem hæstv. ráðherra sagði, að málið væri í góðum höndum í núverandi ríkisstjórn. Því miður sýnir reynslan þetta. Hæstv. ráðherra hefur nefnt ýmis mál sem nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir um vegna aðlögunar að hinu evrópska efnahagssamstarfi. Þetta er eitt þeirra, breyting á bönkum í hlutafélög er annað þeirra, breytingar á skattalöggjöf til þess að auðvelda almenningi hlutafjárkaup og auðvelda fyrirtækjum að auka eigið fé sitt eru þriðja dæmið.
    Hv. 10. þm. Reykv. lýsti hér nýlega því ástandi að við sætum uppi með ríkisstjórn sem ekki gæti haft frumkvæði að því máli og því hefðu óbreyttir þingmenn orðið að mynda hér meiri hluta gegn sofandahætti ríkisstjórnarinnar á
því sviði. Fyrir liggur, að því er varðar bankamálin, að hæstv. forsrh. hefur sagt: Meðan þessi ríkisstjórn situr verður bönkunum ekki breytt í hlutafélög. Og fyrir liggur svo mat fráfarandi aðstoðarmanns viðskrh. á möguleikunum til þess að ná fram breytingum í gjaldeyrismálum. Það eru þessar staðreyndir sem liggja fyrir og sýna fram á það að hæstv. ríkisstjórn er ófær um að takast á við þetta verkefni. Þessi till. er flutt til þess að auðvelda hæstv. ráðherra, því ég þykist fullviss um að innra með sér hefur hann góðan vilja til að taka á þessum málum, til þess að auðvelda honum, sýna honum fram á að það er þingmeirihluti sem hann getur stuðst við, hjálpa honum til þess að

knýja afturhaldsöflin, sem aðstoðarmaður hans segir að búi við fáfræði og einangrunarhyggju, til undanhalds, gefa honum færi á því að vinna sigur í málinu. En hann hefur hafnað allri samvinnu til að ná þessu markmiði með því að leggja hér til að till. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Og ég harma þessa neikvæðu afstöðu hæstv. ráðherra.
    Frú forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirra umræðna sem hér hafa fallið um fyrirvarann sem hæstv. fjmrh. gerði við efnahagsáætlun Norðurlanda. Hér lýsti hæstv. viðskrh. því yfir að embættismenn hefðu gert þennan fyrirvara, fjmrh. hæstv. hefði ekki gert hann og hann væri í raun niður fallinn og stæði ekki lengur. Og allar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Austurl. um að fyrirvarinn stæði væru fleipur eitt og stæðu ekki lengur.
    Hæstv. forsrh. flutti svo eina af sínum merkilegu yfirlýsingum, framsóknarlegu yfirlýsingum, ef ég hef skilið hann rétt, því hann sagði að í raun og veru væri fyrirvarinn niður fallinn á vettvangi Norðurlandaráðs vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefði tekið alla fyrirvara fjmrh. upp í eigin samþykktir. Hún þyrfti ekki lengur á því að halda að hafa fyrirvara í Norðurlandaráðsplöggunum af því að hún væri búin að taka fyrirvarana upp í eigin plögg. Með þessu reyndi hæstv. ráðherra að þjóna öllum stríðandi fylkingum í ríkisstjórninni. Það var búið að fella niður fyrirvarana til þess að þóknast hæstv. viðskrh., en þeir stóðu bara í nýjum plöggum til þess að þóknast hv. 2. þm. Austurl. og hæstv. fjmrh. Þetta er framsóknarmennska í lagi og lýsir því mætavel hvernig staðið er að stjórn efnahagsmála nú um stundir.
    Frú forseti. Ég vil enn á ný þakka fyrir þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram. Ég fagna því að af hálfu hins frjálslynda arms í Framsfl. hafa komið hér mjög jákvæðar yfirlýsingar um stuðning við þessi viðhorf. Ég harma hin neikvæðu viðbrögð hæstv. viðskrh. en trúi því að þrátt fyrir það muni meiri hluti meðal þjóðarinnar knýja á um að við tökum á þessum verkefnum eins og öðrum sem tengjast því mikla verkefni sem við eigum fram undan, að aðlaga okkur hinni nýju efnahagsþróun í Evrópu.