Átak gegn einelti
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um átak gegn einelti. Till. er að finna á þskj. 919. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. og menntmrh. að beita sér fyrir því að gert verði átak gegn einelti meðal barna og unglinga. Skipaður verði samstarfshópur fólks sem hefur reynslu af starfi með börnum og unglingum og honum falið að skila áætlun um úrbætur gegn einelti fyrir 1. mars 1991.``
    Flytjendur tillögunnar auk mín eru allar þingkonur Kvennalistans.
    Vernd barna og unglinga er málaflokkur sem krefst sífelldrar athugunar og viðbragða þegar ástæða þykir til. Mikið starf hefur verið unnið og er verið að vinna í sambandi við illa meðferð á börnum. Er þess skemmst að minnast að vinnuhópur á vegum menntmrn. skilaði í vetur greinargóðri skýrslu um illa meðferð á börnum, en út frá öðrum forsendum og með öðrum megináherslum en þeim sem hér er lagt til að hugað verði rækilega að. Í þeirri skýrslu var sjónum beint að kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum sem nær alltaf er ofbeldi fullorðinna gagnvart börnum og unglingum en ekki í hópi barna og unglinga innbyrðis eins og tíðast er um einelti. Mun ég víkja nánar að þessum atriðum á eftir en fara yfir nokkur atriði úr greinargerð og flétta þar inn í önnur atriði sem ég tel nauðsynlegt að fram komi við þessa umræðu.
    Ofbeldi meðal barna og unglinga hefur verið mjög til umræðu á þessum vetri ekki síst vegna tíðra blaðafregna um götuofbeldi í Reykjavík. Ofbeldi á götum úti er sýnilegt og því er mikil umfjöllun um það og oft á tíðum afskaplega ómálefnaleg. Hljóðara hefur verið um aðra tegund ofbeldis, einelti, sem er þó að flestra mati mun algengara en ofbeldi á götum úti. Einelti er mjög alvarlegt ofbeldi. Má geta þess að allt að 80% þeirra barna og unglinga sem koma í unglingaathvörfin í Reykjavík búa við félagslega einangrun, en það er einmitt sá hópur sem verður helst fyrir einelti.
    Í þessu sambandi langar mig til að vitna í blað sem gefið er út á vegum unglingaathvarfanna og heitir ,,Dúndur``. Við spurningunni ,,Hvað er unglingaathvarf?`` gefa m.a. tveir unglingar þetta svar: ,,Þetta er staður þar sem unglingar hittast þrisvar í viku. Þar ræða þeir vandamál sín og skemmta sér. Sumum okkar er strítt í skóla. Sum okkar eiga erfitt heima fyrir eða eiga í vandræðum með lærdóminn. Mörg okkar eru einmana og eiga erfitt með að eignast félaga.``
    Ég held að þessi orð segi sína sögu um hvernig þessir unglingar skynja sig sjálfa. Það er ánægjulegt til þess að vita að starfsfólk unglingaathvarfanna er ekki í vafa um að mikið er hægt að gera fyrir börn og unglinga sem hafa orðið fyrir einelti, styrkja sjálfsmynd þeirra og efla þau á annan hátt. Unglingarnir sjálfir orða þetta svo í viðtali sem ber yfirskriftina ,,Fínt að vera hópur``. --- ,,Maður fær

hjálp við að leysa ýmis vandamál, t.d. ef maður á einhver vandamál í skóla eða heima. Maður fær líka hjálp við að læra að hegða sér almennilega, t.d. gagnvart öðrum krökkum. Svo er líka gaman að koma hingað og þá sleppur maður við að vera eins mikið einn.``
    Þegar þau eru spurð hvað sé skemmtilegast við að vera í athvarfi er svarið: ,,Að hittast þrisvar í viku, það er tilbreyting að komast hérna niður eftir. Svo er bara gott að vera í þessum hóp og notalegt að vera saman.``
    Mig langar að doka aðeins við þessi orð. Í ársskýrslu unglingaathvarfanna í Reykjavík fyrir árið 1988 kemur fram að unglingaathvörfin henti mjög vel félagslega einangruðum unglingum. Þar kynnist þeir oft í fyrsta sinn að þeir eru ekki einir í heiminum með sín vandamál, eins og komist er að orði í skýrslunni. Það er afskaplega sláandi að lesa þar jafnframt að sumir unglingarnir eru að upplifa það í fyrsta sinn að tilheyra félagahóp. Þetta er nöturleg staðreynd í samfélagi okkar en hún er veruleiki og við henni þarf að bregðast, m.a. með því að ráðast til atlögu gegn einelti.
    Nokkrum tilviljunum er háð hvort börn og unglingar sem verða fyrir einelti fái aðstoð nógu snemma til að auðvelt sé að liðsinna þeim. Ef gripið er í taumana nógu fljótt er hægt að rjúfa vítahring sem annars kann að skapast. Skipuleg fræðsla fyrir starfsfólk skóla um einkenni eineltis er ekki fyrir hendi nú. Kennarar eru þó í góðri aðstöðu til að finna fórnarlömb eineltis þekki þeir einkennin. Sömu sögu má raunar segja um foreldra og fóstrur. Auk þess geta þeir haft veruleg áhrif á samskiptamunstur innan bekkjardeilda eða annarra hópa og minnkað líkur á að einelti endurtaki sig ef vel tekst til.
    Fagfólk, sem starfað hefur með unglingum, telur tiltölulega auðvelt að greina einkenni eineltis í hópi barna og unglinga og því sé fræðsla eitt af lykilatriðum þess að hægt sé að gera átak gegn einelti. Sérfræðiráðgjöf fyrir kennara og kennaranema, fóstrur og fóstrunema og jafnvel fyrir foreldrafélög mundi því vera ein þeirra leiða sem samstarfshópur athugaði gaumgæfilega.
    Ýmsar ytri aðstæður, svo sem hönnun skólalóða og gæsla í frímínútum, geta skipt sköpum um hvort börnum og unglingum sé búið öryggi í frímínútum eða þar séu aðstæður sem ýta undir einelti. Reynsla annarra þjóða, sem glíma við sama vanda, hefur orðið til þess að farið er að huga gaumgæfilega að
tómstundaaðstöðu í skólum með það í huga að veita orku barna og unglinga útrás í uppbyggjandi leikjum og starfi. Ætla má að hægt sé að gera einfaldar úrbætur og bæta gæslu á leikvöllum án mikils tilkostnaðar og ekki ólíklegt að í heild gæti slík fjárfesting leitt til sparnaðar ef hægt væri að koma í veg fyrir ofbeldi og einelti á skólavöllum. Á sama hátt verður einnig að líta á fleiri staði þar sem börn safnast saman í stórum hópum, t.d. skólabíla.
    Rétt er að vekja athygli á því að hér er verið að benda á tiltölulega ódýrar leiðir til að ná miklum

árangri til hagsbóta fyrir börn og unglinga, ekki síst þá sem eiga undir högg að sækja. Ef vel tekst til yrði hér um að ræða öflugt forvarnarstarf sem byggðist fremur á skynsamlegri stefnumörkun en dýrum björgunaraðgerðum þegar skaðinn er skeður.
    Afleiðingar eineltis eru oft mjög alvarlegar fyrir þau börn og unglinga sem fyrir því verða. Margir þeirra unglinga sem síðar leiðast út í ofneyslu áfengis og annarra vímuefna hafa orðið fyrir einelti þegar þeir voru yngri. Verulegu máli skiptir því að ná fljótt til flestra fórnarlambanna.
    Þeir sem leggja aðra í einelti eiga einnig við vandamál að stríða. Breytt samskiptamynstur í félagahópi, t.d. í skóla, getur einnig hjálpað þeim.
    Vernd barna og unglinga, velferð þeirra og góð líðan verður samt sem áður aldrei metin til fjár. Það er skylda löggjafarvaldsins að tryggja öryggi og vellíðan allra þegna sinna og gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín.
    Ég tel ekki rétt að leggja fram fastmótaðar tillögur um skipan þess hóps sem ég æski að settur verði á laggirnar. Hins vegar veit ég að auðvelt væri að skipa hann fjölda fólks með staðgóða þekkingu á málinu og tillögur um úrræði.
    Við undirbúning þessa máls hafði ég samráð við fólk sem býr yfir mikilli kunnáttu í þessum málum, bæði skólafólk og fóstrur, foreldra og friðarömmur, starfsfólk unglingadeildar í Reykjavík og unglingaathvarfa, auk sálfræðinga við Sálfræðideild skóla og úr Barnaverndarráði. Allt þetta fólk býr yfir mikilli þekkingu, hver með sínum hætti, byggðri á faglegum grunni eða reynslu af samskiptum við börn og unglinga og oftar en ekki á hvort tveggja við. Það sem er kannski enn mikilsverðara er að þetta fólk, sem ég naut samstarfs við, er uppfullt af hugmyndum um hvernig best yrði staðið að átaki gegn einelti og því skipt í áfanga sem auðvelt væri að hrinda í framkvæmd einum eftir annan. Þekking á innlendum aðstæðum og reynsla þeirra sem glímt hafa við sama vanda erlendis er gott veganesti þessa fólks. Það er sannfært um að hægt yrði að gera mikið gagn fyrir tiltölulega lítið fé.
    Þess utan er eðlilegt að draga nokkurn lærdóm af því starfi sem þegar hefur verið unnið með öðrum áherslum, en varðar einnig velferð barna og unglinga. Eitt af því er vinnuhópur sá á vegum menntmrn. sem ég vék að í upphafi máls míns. Þessi vinnuhópur skilaði í vetur greinargóðri skýrslu um illa meðferð á börnum á grunnskólaaldri með sérstöku tilliti til kynferðislegs ofbeldis. Þar með var hreyft máli sem allt of lengi hefur legið í þagnargildi. Er vel að nú skuli menn vera farnir að horfast í augu við svo alvarleg málefni er varða barnavernd. Á grunni þessa hóps var síðan skipaður annar starfshópur og honum falið að móta tillögur til úrbóta varðandi menntun kennara í því skyni að betur verði hægt að mæta illri meðferð á börnum á grunnskólaaldri, eins og segir í fréttatilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér af þessu tilefni þann 20. mars sl.
    Mér þætti eðlilegt að sá hópur sem fylgir eftir

starfi hins fyrri og hefur einkum það hlutverk að fjalla um fræðslu fyrir kennara og kennaranema hefði samstarf við þann hóp sem ég legg til að stofnaður verði um átak gegn einelti. Það kynni að koma í veg fyrir tvíverknað að því leyti sem lýtur að fræðslu þessarar starfsstéttar. En hún er einungis einn hluti þess sem sérfróðir aðilar telja vert að huga að ef gert verður átak gegn einelti. Vel mætti hugsa sér að einhver fulltrúi tengdi þessa hópa, án þess að það kæmi niður á starfi hvors hóps fyrir sig.
    Ég tel mjög mikilsvert að draga ekki of lengi að gera átak gegn einelti og vonast til þess að þetta mál hreyfi við því að nú fari menn að hyggja að úrræðum. Ég vonast eindregið til að nefnd sú sem fær málið í hendur treysti sér til að senda það til umsagnar nú þegar þannig að fyrir liggi álit og ábendingar umsagnaraðila þegar þing kemur saman í haust. Þá verður eftirleikurinn auðveldari verði málið endurflutt í haust, eins og ég geri mér vonir um.
    Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að fara fram á að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.