Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég leyfi mér að biðja um orðið hér um þingsköp til þess að spyrjast fyrir um 249. mál Alþingis, frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði sem flutt er af fjárveitinganefndarmönnum í þessari hv. deild og allir nefndarmenn standa að. Frv. þetta var lagt fram hinn 21. des. sl. og vísað til hv. fjh.- og viðskn. þann 21. mars. Mig langar að spyrjast fyrir um það hverju það sæti að þetta mál, sem undirbúið er af fulltrúum allra flokka í fjvn. og er þar algert samkomulagsmál, skuli ekki vera tekið fyrir hér í hv. deild. Hversu oft þetta mál hefur verið tekið fyrir í hv. fjh.- og viðskn. er mér ókunnugt um og ég leyfi mér að spyrjast fyrir um það hvenær það var þar síðast fyrir tekið. Enn fremur leyfi ég mér að spyrjast fyrir um það hjá hv. formanni fjvn., 1. flm. málsins, hv. 5. þm. Vestf., hvort hann ætli að sætta sig við það að mál sem lögð hefur verið í jafnmikil vinna og þetta af hálfu fulltrúa allra flokka í fjvn. verði látið sofna hér á þessu þingi.
    Ég þarf ekki að ítreka það að mál þetta er flutt af ærinni þörf og ærnu tilefni. Ég skal ekki rekja það tilefni í þessari ræðu að öðru leyti en því að með frv. er ætlast til að komið verði á breyttri skipan á meðferð ríkisfjármála þannig að þau lög sem hér er stefnt að því að setja verði tæki til þess að taka framkvæmd ríkisfjármála styrkari tökum en verið hefur nú um skeið. Ég held að engum blandist hugur um að á því sé full þörf. Fyrir því eru ærin dæmi nú á síðustu árum og ný dæmi eru ætíð að bætast við sem sanna það að á því er full þörf. Þau ætla ég ekki að rekja í þessari ræðu minni fyrr en ég hef heyrt svör þeirra hv. þm. sem hér eiga hlut að máli.
    En ég hlýt að leggja á það afar sterka áherslu að mál af þessu tagi, sem hefur þá sérstöðu að vera undirbúið af fulltrúum allra flokka sem sæti eiga í fjvn. og flutt á vegum þeirra í heild, verði afgreitt hér á þessu hv. Alþingi.