Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarni málsins, þessi þingskapaumræða er til þess að þoka málum áleiðis. Ég vorkenni ekki þeim forsetum sem hafa setið hér í allan vetur og eru núna komnir í spreng með dagskrána. Ég hefði fyrir mína parta verið reiðubúinn að sitja hér lengur og oftar og halda stærri og lengri fundi til þess að þoka málum áfram svo við þyrftum ekki að lenda í spreng á síðustu dögum. Nú súpum við seyðið af því að hafa ekki tekið hvern dag fyrir og lokið hverjum vinnudegi áður en sá næsti hófst.
    Ég vil sérstaklega þakka hv. alþm. Páli Péturssyni. Ég hef oft á stundum þolað ýmsan samanburð, en að vera tekinn til jafns við alla ríkisstjórnina er eiginlega meira en ég hef hingað til fengið þó svo að eftir nánari íhugun þá hvarfli kannski að manni að þetta sé meint öðruvísi en ég skil það. Þrátt fyrir það er ég þingflokksformanninum þakklátur fyrir samanburðinn og mér þykir vænt um að heyra að hans sjónarmið er hið sama og mitt, þ.e. að ríkisstjórnarmál hafi ekki forgang fram yfir mál einstakra þingmanna.
    Við vorum að enda við það, með handauppréttingu, að samþykkja með afbrigðum 13. málið á dagskrá, nýtt mál sem kemur á sama tíma og fjöldinn allur af málum liggur fyrir. Málum sem hafa ekki verið rædd og munu ekki verða afgreidd á þessu þingi. Þau munu annaðhvort hvíla í nefndum eða hreinlega ekki komast til nefnda eða verða rædd í nefnd. Það er þetta sem er kjarni málsins. Því eigum við ekki að bæta nýjum málum á dagskrá á meðan við klárum ekki þau sem fyrir liggja. Það á engum að leyfast að koma með mál eftir að frestur er útrunninn til að skila inn þingmálum og treysta á það að sjálfkrafa verði rétt upp höndin til þess að hleypa málum inn á dagskrá. Það gengur ekki lengur.
    Í febrúarmánuði, ef ég man rétt, fengu þingflokkar boð um að skipa þingmenn í nefnd til að endurskoða þingsköp. Ég spurðist fyrir um afdrif þessarar nefndar áðan og var sagt að flokkar hefðu tilnefnt allir nema Sjálfstfl. Þess vegna eru það nú eindregin tilmæli mín héðan úr þessari pontu að Sjálfstfl. annaðhvort tilnefni mann hið bráðasta til að vinna að breyttum og bættum þingsköpum eða þá að forseti láti ekki þennan minnihlutahóp stjórna ferðinni öllu lengur heldur láti meiri hluta Alþingis koma saman til þess að endurskoða þingsköp og laga þau og bæta, þá væntanlega með það fyrir augum að þing gangi hraðar og forsetar þurfi ekki að hasta á þingmenn núna í þingskapaumræðu sem þó lýtur að því að þoka málum áfram.