Öryggi á vinnustöðum
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þessi breyting á lögunum hafði algjörlega farið fram hjá mér og það hafði aldrei flögrað að mér að til greina gæti komið að banna 18 ára hraustum strákum og stúlkum sem stunda íþróttastarf og annað því um líkt að vinna meira en 10 tíma á sólarhring. Þetta er náttúrlega svo yfirnáttúrlega vitlaust að manni líður hálfilla, manni verður bumbult. Og að halda því fram að 16--17 ára strákar í sjávarplássum megi ekki stunda neina vaktavinnu gengur náttúrlega ekki heldur. Ég held þess vegna að það sé alveg óhjákvæmilegt að fresta þessu máli þannig að þingmönnum gefist kostur á að lesa lögin og bera saman við breytingartillögurnar. Og það er auðvitað í mínum huga algjört aukaatriði hvað stjórn Vinnueftirlitsins segir. Ég veit ekkert hvaða menn eru í þeirri stjórn og ber ugglaust fulla virðingu fyrir þeim mönnum. (Gripið fram í.) En þeir marka náttúrlega ekki mínar skoðanir og þess vegna fer ég fram á þetta í fullri vinsemd. Ég viðurkenni að hafa vanrækt þingstörf með því að hafa ekki lesið frv. og veit að þessi afsökun er kannski ekki mjög vaskleg, en eigi að síður fer ég fram á, til þess að mér gefist kostur á að lesa lagatextann betur og íhuga málið í heild betur, að umræðunni verði frestað.