Raforkuver
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Frsm. minni hl. iðnn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð vegna orða hæstv. iðnrh. Það er rétt athugasemd sem hann gerði varðandi erlendu skuldirnar. Þarna hefur í raun og veru misprentast, erlendar skuldir eru um helmingur, held ég, af landsframleiðslu. Ég hef ekki töluna um skuldir vegna virkjanaframkvæmda, en ég hygg að hún sé a.m.k. ríflega helmingur af erlendum skuldum. En ég hef ekki töluna og okkur greinir greinilega á um þetta, mig og iðnrh., og við þurfum að afla okkur þessara upplýsinga. Ég þakka fyrir þessa athugasemd því hún er réttmæt.
    Hins vegar ætla ég ekki að verja meiri tíma nú í þessari umræðu til að lýsa mínum sjónarmiðum og okkar kvennalistakvenna, ég hef þegar gert það. Skoðanir okkar kvennalistakvenna og hæstv. iðnrh. stangast greinilega á í þessum málum. Þó við getum verið sammála um ýmis önnur atriði e.t.v. þá greinir okkur verulega á um þetta mál. Ég verð eiginlega að segja að hæstv. iðnrh. er afar slyngur áróðursmeistari fyrir sínu máli. Hann vefur það inn í mjög falleg orð sem höfða sífellt til náttúrunnar. Ég er ekki að draga í efa að umhverfisvernd sé hjarta hans nær. Hins vegar er ég sannfærð um að þetta er ekki aðferðin til þess að vernda náttúruna og umhverfið. Þess vegna finnst mér í raun orð hans um margfeldisáhrif, að þeim væri betur lýst sem væta seytlaði um engi og orð hans um hinn bjarta, ljósa og létta málm, allt finnst mér þetta vera hálfgerð öfugmæli í raun og veru. En ég skil vel að hann vilji koma sínu máli áleiðis því þetta virðist vera honum hjartans mál, en ég vil endurtaka: Okkur greinir á um mikilvægi þessa máls.