Raforkuver
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Okkur hæstv. iðnrh. greinir á um það sem ég hef hér einkum rætt um, að það verði ekki horfið frá því að Alþingi ákveði virkjanaraðir og vald til þess ekki fært í hendur iðnrh.
    Hæstv. ráðherra sagði að það væri kostur við það að þetta vald væri í höndum ráðherra, að með því fengist meiri sveigjanleiki fyrir rás atburða í sambandi við virkjunarmálin ef forsendur breytast og annað slíkt. Ég hygg að þetta séu ekki rök í þessu máli vegna þess að það sé eðlilegt og alltaf hljóti að gefast svigrúm og tími til þess að leggja slík stórmál fyrir Alþingi sem stórvirkjanir eru. Hæstv. ráðherra taldi þessa afstöðu mína í ósamræmi við þá afstöðu, sem fram kom við 1. umr. hjá mér, að það væri eðlilegt að breyta ákvæðum laga sem kveða svo á að ekki sé heimilt að virkja, reisa orkuver sem er meira en 2 mw. nema með samþykki Alþingis.
    Ég færði rök fyrir því hvers vegna ég teldi að þessi mörk væru allt of þröng og það ætti að leyfa meira frjálsræði í þesssu efni. Ég sé ekki að það sé neitt ósamræmi í þessari afstöðu minni til smávirkjana og afstöðunni til stórvirkjana. Við verðum að hafa í huga að það er mikill munur þar á. Það er mikill munur hvort um er að ræða 2 mw. virkjun eða 200 mw. virkjun.