Lánasýsla ríkisins
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra það hér úr ræðustól að hv. 1. þm. Reykv. telur að starfsemin í fjmrn. standi til bóta og er það vel ef augu hans opnast fyrir því að sumir hlutir eru að þróast á betri veg. En eitthvað hefur hann lesið illa fræði þau sem hv. 8. þm. Reykv. hefur verið einn harðasti talsmaður fyrir og ég hygg að honum væri hollt að kynna sér dálítið betur kenningar hans um það að reka eigi ríkissjóð með halla. Þjóðin eigi að eiga meira í eignum ríkisins, það sé hið eina rétta. Og þar sem þar er á ferðinni mjög reyndur maður sem hefur lengi helgað sig efnahagsmálum í íslenskri umræðu tel ég að það sé lágmark hófsemdar hjá þeim sem yngri eru og ætla nú að feta í fótspor fyrirrennaranna að kynna sér fræðin áður en þeir fara að predika hér úr ræðustóli um viðhorf hv. 8. þm. Reykv.