Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir til umræðu áform ríkisstjórnarinnar um það að knýja stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins til þess að haga rekstri þess fyrirtækis með öðrum hætti en þeim sem stjórnendur fyrirtækisins telja skynsamlegan. Út á þetta ganga einfaldlega áform hæstv. ríkisstjórnar. Það eru áform um það að koma í veg fyrir að rétt bærir stjórnendur fyrirtækisins geti fengið að taka þá ákvörðun sem þeir telja eðlilegasta og skynsamlegasta frá sjónarhóli þess fyrirtækis sem þeir bera ábyrgð á rekstrinum á. Þetta er í hnotskurn það mál sem við erum hér að glíma við.
    Það er mjög haft á orði að deilan um áburðarverðið standi um það hvort staðið verði við gefin fyrirheit varðandi kjarasamninga. Ég hygg að hér sé málum að verulegu leyti snúið við. Sannleikurinn er sá að ef farið yrði að ráðum ríkisstjórnarinnar nú þá væru það svik við þau fyrirheit sem kjarasamningarnir gáfu. Kjarasamningarnir í vetur voru tímamótasamningar að því leytinu að þar var gerð tilraun til þess að snúa af braut þeirrar efnahagsstefnu sem hæstv. ríkisstjórn hafði mótað og hefði haft í för með sér áframhaldandi óðaverðbólgu, óvissu um atvinnurekstur, óvissu um atvinnuástand og þannig mætti áfram telja. Þessir kjarasamningar sem voru gerðir voru hins vegar liður í því og fyrsta skrefið í því að hægt væri að feta sig áfram inn á braut lægri verðbólgu nokkurn veginn í samræmi við það sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar. Forsendan fyrir því var sú að ekki yrði í framtíðinni haldið áfram á braut skuldasöfnunar, erlendrar og innlendrar skuldasöfnunar. Umframeyðslan yrði stöðvuð og í rekstri fyrirtækja yrði lögð áhersla á festu og ábyrgð.
    Ef við skoðum nú áform hæstv. ríkisstjórnar þá er ljóst að í öllum þessum þremur meginþáttum kjarasamninganna er um að ræða andstöðu ríkisstjórnar. Ef ríkisstjórnin nær fram vilja sínum þá er ljóst að Áburðarverksmiðjan verður rekin með eitthvað á annað hundrað millj. kr. halla á þessu ári sem getur ekki þýtt annað í bráð og lengd en að Áburðarverksmiðjan verður að mæta þessum halla með auknum lántökum þvert ofan í það sem kjarasamningarnir byggðust á. Þeir byggðust á því að við fetuðum okkur af braut skuldasöfnunar. Áform hæstv. ríkisstjórnar miðast að því að við höldum áfram á þessari skuldasöfnunarbraut, aukum skuldirnar í rekstri fyrirtækis sem er grundvallarfyrirtæki fyrir landbúnaðinn í landinu. Telja menn að áform af þessu tagi séu líkleg til þess að stöðva þá umframeyðslu sem átt hefur sér stað í okkar þjóðfélagi? Vitaskuld ekki. Það er alveg deginum ljósara að svo er ekki. Hafi það verið ætlun hæstv. ríkisstjórnar að standa þannig að málum að áburðarverð hækkaði ekki nema um 12% þá bar auðvitað ríkisstjórninni að skapa þær forsendur að hægt væri að koma þannig til móts við fyrirtækið Áburðarverksmiðju ríkisins að það gæti verðlagt vöru sína með þessum hætti. Þessi lögþvingunarleið sem hér á að fara er auðvitað liður

í því að brjóta niður þetta grundvallarfyrirtæki bænda í landinu. Þetta er tilræði við bændastéttina í landinu. Hér er ekki verið að gera bændum greiða vegna þess að, eins og málið er í pottinn búið, það stendur einfaldlega þannig að allt bendir til þess að vandi þessa árs og vandi síðasta árs muni fyrr en síðar lenda á bændunum í landinu og þar með neytendunum.
    Það liggur ekkert fyrir um það núna á hvern hátt hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka á þessu vandamáli. Aðeins óljósar yfirlýsingar, óljós fyrirheit og bókanir sem engin handfesta er í, enda hafa stjórnendur fyrirtækisins sjálfir bent á þá staðreynd.
    Hér er nefnilega tekist á um grundvallaratriði, um það grundvallaratriði hvort það eigi að standa við fyrirheit kjarasamninganna. Það var ekki ætlun þeirra sem stóðu að ábyrgum kjarasamningi nú að þeir ættu að byggjast á einhverjum gervilausnum, eins og hér er verið að leggja til. Menn vissu og vita það nákvæmlega, bæði á vettvangi ASÍ og Vinnuveitendasambandsins, að lausn af því tagi að ýta vandanum sem við er að glíma í þjóðfélaginu yfir á einstök fyrirtæki með jafnóábyrgðum hætti og hæstv. ríkisstjórn er hér að leggja til verður aldrei grundvöllur kjarasáttar í landinu. Það verður ekki grundvöllur neinnar þjóðarsáttar að eyðileggja fyrirtæki bænda með þessum hætti. Eða halda menn að bændur hefðu komið að þessu verki með svo afdráttarlausum hætti í vetur ef þá hefði grunað að það ætti að eyðileggja fyrirtæki þeirra með því að pína það til mörg hundruð millj. kr. hallareksturs á árinu? Vitaskuld ekki.
    Það gefur auga leið að þessi áform hæstv. ríkisstjórnar eru ógnun við þá þjóðarsátt sem hefur tekist í landinu. Það á ekkert skylt við framlag til þjóðarsáttar að haga sér með þessum hætti. Samningarnir gengu út á það að stöðva skuldasöfnunina í landinu, víkja af braut umframeyðslunnar. Hér er hins vegar haldið áfram á braut skuldasöfnunar og umframeyðslu og þess vegna er með þessu háttalagi vegið að rótum og forsendum kjarasamninganna og um leið veikt það fyrirtæki bænda sem þeir þurfa mjög á að halda í rekstri sínum.