Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég rita undir nál. sem hér er til umræðu varðandi staðfestingu á breytingu á samningi um EFTA. Ég gerði í raun grein fyrir fyrirvörum mínum við þetta mál við umræðu þegar hæstv. utanrrh. mælti fyrir málinu, en efnislega eru mínir fyrirvarar hliðstæðir við það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. 12. þm. Reykv. Ég tel að við Íslendingar þurfum að gæta að okkur þegar sett er fram krafan um algera fríverslun með fisk, að við missum ekki tök á ráðstöfun fiskafla og þar með þróun fiskvinnslu í landinu.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að alger fríverslun með fisk, útfærsla á þeirri kröfu, hlýtur að þýða það að Íslendingar hafa ekki tök á því að hlutast til um ráðstöfun fiskafla upp úr sjó á Íslandsmiðum. Um þetta verður tæpast deilt og um þetta fékk Evrópustefnunefnd lögfræðilegt álit. Það er jafngott að íslensk stjórnvöld horfist í augu við þetta þegar farið er með þetta mál á alþjóðavettvangi, samningaumleitanir þar að lútandi. Auðvitað er ég algerlega samþykkur því að við njótum sömu kjara með okkar fiskafurðir og gilda um iðnaðarvörur í fríverslun. Það hlýtur að vera krafa Íslendinga í samningum við viðskiptabandalög, hver sem þau eru, sanngirniskrafa. En ég held að við séum heldur illa í stakk búin, a.m.k. eins og nú er, til þess að takast á við algera fríverslun sem ekki gæfi okkur svigrúm til að setja fram fyrirvara varðandi ráðstöfun á fiskafla á Íslandsmiðum, sem veiddur er af íslenskum aðilum á okkar fiskimiðum, sem gerðu það hugsanlega kleift fyrir erlenda aðila að kaupa aflann upp úr sjó og flytja hann til útlanda án viðkomu í landinu.
    Ég hef bent á það og gerði það í hv. utanrmn. að það hafa verið að falla dómar í Norður-Ameríku í deilum milli Bandaríkjanna og Kanada þar sem Bandaríkjamenn kröfðust þess að tekið væri tillit til ákvæða í GATT-samningum í sambandi við frjálsa löndun á fiskafla, veiddum í Kanada, löndun á afla í Bandaríkjunum án þess að hann kæmi á land í Kanada. Um þetta féll dómur fyrir einum tveimur árum síðan, að vísu ekki einhliða Bandaríkjamönnum í vil en þó í áttina að þeirra kröfum. Síðan hefur sama mál verið tekið upp á grundvelli svokallaðs fríverslunarsamnings milli Bandaríkjanna og Kanada og það er alveg ljóst að staðan fyrir fiskveiðiþjóð til þess að reisa þarna rönd við, ef um algera fríverslun er að ræða með fisk og fiskafurðir, er veik og menn þurfa því að gæta vel að sér í þessum efnum.
    Ég vísa varðandi þessa afstöðu til samþykktar sem landsfundur Alþb. gerði 19. nóv. sl. þar sem sagði orðrétt í samþykkt landsfundarins um málefni Evrópu:
    ,,Íslendingar gera kröfu um fríverslun með fisk án tolla og styrkja. EFTA-ríkin hafa fallist á þá stefnu en langt virðist í land að hún hljóti undirtektir innan Evrópubandalagsins þar sem með sjávarútvegsmál er farið svipað og landbúnað. Gæta verður þess í samningum um þessi mál að fríverslun gangi ekki svo langt að við missum möguleika til þess að stýra

ráðstöfun fiskaflans og tryggja að vinnsla haldist í landinu.``
    Virðulegur forseti. Þetta er efnisleg afstaða mín til þessa máls, sá fyrirvari sem ég geri. Ég er ekki með þessum orðum að gera því skóna að það séu að opnast dyr fyrir fríverslun með fisk og fiskafurðir hjá Evrópubandalaginu á grundvelli þeirrar kröfu sem EFTA-ríkin hafa sett fram. Það þarf áreiðanlega mikið að gerast til þess að svo verði og verður mikið vatn til sjávar runnið áður en það mál verður komið í viðunandi höfn út frá okkar hagsmunum.
    Við þurfum við meðferð þessa máls og þegar reist er krafa á alþjóðavettvangi að gæta þess sem best hvert við erum að fara og það sem auðvitað þarf að gera hér heima fyrir í allt öðrum mæli en gert hefur verið er að stilla saman okkar sjávarútvegshagsmuni, móta hér samstæða sjávarútvegsstefnu þar sem tekið er á öllum þáttum með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna Íslendinga allt frá veiðum til markaðar. Það væri verðugt verkefni fyrir Alþingi að beita sér að mótun slíkrar stefnu.