Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan að það komi fram að ég veit ekki um nokkurn mann í fjvn. sem mælti gegn því að þetta mál, kaupin á Hótel Borg, yrði leyst út úr nefndinni. Ég hef lýst því yfir bæði hér og annars staðar að ég er á móti því að Alþingi eyðileggi Hótel Borg. Ég tel að Hótel Borg eigi að vera áfram hótel til gagns fyrir miðborgina, ég hef aldrei farið leynt með það. En aldrei nokkurn tíma hef ég haft á móti því að málið væri rætt í þingsal því ég tel að öll mál eigi að ræða hér í þingsal.
    Fjvn. þvældist ekkert sérstaklega fyrir þessu máli, en mér sýnist það því miður vera verkefni nefndanna almennt að þvælast fyrir málum. Má ég kannski í því sambandi taka hæstv. utanrmn., sem er nefnd sem hv. alþm. stýrir sem hóf þessa umræðu. Samkvæmt málaskránni eru þar a.m.k. fjögur mál sem koma fyrr á dagskrá, með lægri númer en kaupin á Hótel Borg, sem ekki eru enn þá afgreidd. Ekki dettur mér í hug að segja að hv. þm. Jóhann Einvarðsson sé að þvælast fyrir neitt sérstaklega með þessari afgreiðslu. Nefndarstörf eru ekki hraðvirkari en þetta, því miður.
    Ég held að endurskoða ætti hlutverk nefndanna frá grunni til þess að mál fáist rædd, því það hlýtur að vera hlutverk nefndar að skila frá sér málum. Þetta er sá vettvangur þar sem mál eiga að koma til atkvæða, það er þingsalurinn sjálfur, en það getur ekki átt að vera hlutverk Alþingis að geyma og svæfa mál í nefndum. Hingað í salinn eiga þau að koma og hér skulu þau útkljáð. Það hlýtur að vera hinn raunverulegi farvegur og hin eðlilegu vinnubrögð hér á þinginu.