Gjald af erlendum lánum vegna skipasmíða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Halldór Blöndal (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur látið í veðri vaka að hann hafi tekið þetta mál upp við fjmrh. og vonir hafi staðið til þess að fjmrh. mundi endurgreiða það lántökugjald sem hér um ræðir vegna innlendra skipasmíða. Fjmrh. hefur lýst því yfir í Sþ. að ekki séu lagaheimildir fyrir því að til slíkrar endurgreiðslu geti komið. Og nú hefur Ed. tekið af skarið um að það sé ekki vilji meiri hluta deildarinnar að til endurgreiðslu geti komið þannig að nú er búið að slá svörtu striki undir að um nokkrar þvílíkar heimildir geti verið að ræða. Meiri hluti deildarinnar getur því velt því fyrir sér hvaða erindi frv. á til ríkisstjórnarinnar, hvað orðin ,,að vísa til ríkisstjórnarinnar`` þýða í þessu samhengi. Hreinskilnari og hreinlyndari menn hefðu einfaldlega fellt frv. og ekki verið með þetta yfirklór sem felst í vísan frv. til ríkisstjórnarinnar. Þetta var fellt. Til endurgreiðslu getur ekki komið héðan af nema málið verði að nýju tekið upp á Alþingi.