Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 4. minni hl. sjútvn. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vestf. Karvels Pálmasonar, um það að afstaða Borgfl. í þessu máli er forkastanleg. En það er meira en að hún sé forkastanleg, hún er líklegast einhver hin mesta smán sem upp hefur komið í sögu Alþingis.
    Eins og hv. þm. kom inn á þá var Borgfl. hér með brtt., grundvallarbrtt. í sambandi við fiskveiðistjórnun á sínum tíma. Nú hefur þessi flokkur gersamlega snúið við blaðinu og meira en það. Hann tekur ekki einu sinni þátt í því þegar grundvallarbreyting verður á framsetningu tvennra laga sem snúa að stjórn fiskveiða. Þá vill þessi flokkur ekki einu sinni gefa hagsmunaaðilum eða íslensku þjóðinni tækifæri til að fjalla enn nánar um þessi mál á næstu þrem mánuðum eins og frávísunartillaga sú er hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Það er þeim mun sorglegra þegar haft er í huga að einn hv. þm. sem sæti á hér í þessari deild hafði gefið það mjög sterklega til kynna, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að hann væri því hlynntur. Ég segi það að langt má ganga í stjórnmálum og langt má ganga í því að tryggja mönnum völd. En það eru takmörk fyrir því hvað íslenskir stjórnmálaflokkar, íslenskir valdamenn geta lagst á einstaka hv. þm. eða einstaklinga með þeim hætti og raun ber vitni. Ég held að það sé best fyrir alla að ræða sem minnst um þetta mál. Lokaniðurstaða borgaraflokksmannsins í þessu máli mun verða öllum hlutaðeigandi til háborinnar skammar.
    Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. 4. minni hl. sjútvn. Ed. Þann minni hl. mynda Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal. Nál hljóðar sem hér segir:
    ,,Frv. til laga um stjórn fiskveiða er samið af nefnd sem skipuð er fulltrúum þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi samkvæmt lögum nr. 3 8. jan. 1988, um stjórn fiskveiða 1988--1990. Það er í samræmi við þá grundvallarskoðun sjálfstæðismanna að stjórn fiskveiða sé ekki dægurmál. Framtíðarskipan þess hvernig við nýtum auðlindir hafsins verður að byggjast á víðtækri samstöðu og tryggja að framþróun í sjávarútvegi geti orðið með eðlilegum hætti.``
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hv. þm. í öðrum deildum séu ekki að pískra hér fyrir aftan mig meðan ég flyt mitt mál. Ég veit að hv. þm. á ekki að taka til máls í þessari hv. deild en ég held að ég hljóti að óska eftir því með tilliti til þess að ræðumaður fái frið til að flytja sitt mál að umræddur efrideildarþingmaður víki úr sal meðan umræða fer fram milli viðkomandi þingmanna.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að gera grein fyrir mínu nál.
    ,,Framtíðarskipan þess hvernig við nýtum auðlindir hafsins verður að byggjast á víðtækri samstöðu og tryggja að framþróun í sjávarútvegi geti orðið með eðlilegum hætti. Að öðrum kosti er borin von að unnt sé að ná nauðsynlegri hagræðingu í atvinnugreininni

með því að afkastageta skipastólsins verði í samræmi við þann sóknarþunga sem nytjastofnarnir þola. Reynslan sýnir að opinber forsjá dugir ekki í þeim efnum. Fyrst þegar handhafar veiðiheimilda geta byggt á stöðugleika og traustri löggjöf er þess að vænta að langtímasjónarmið verði ofan á varðandi hagkvæma nýtingu fiskstofna. Á það jafnt við um dreifingu sóknarinnar og fullvinnslu aflans að því marki sem samrýmist útflutningshagsmunum okkar í bráð og lengd.
    Illu heilli hefur sjútvrh. horfið frá þessum grundvallarsjónarmiðum við meðferð málsins á Alþingi. Héðan af verður því ekki haldið fram að hann vilji halda fiskveiðimálunum utan við dægurmál stjórnmálanna með því að hann hefur tekið fullan þátt í því skæklatogi sem um málið hefur orðið í ríkisstjórninni og kosið að afgreiða það án samráðs og samvinnu við fulltrúa hagsmunaaðila. Nú er mál að linni og málefni sjávarútvegsins verði tekin úr höndum Framsfl.
    Frv. um stjórn fiskveiða var lagt fram á Alþingi 15. febr. sl. Full eining var um það innan þingsins að það fengi vandaða málsmeðferð. Sjútvn. beggja deilda unnu að athugun málsins og kölluðu fyrir sig fulltrúa hagsmunaaðila. Það var fyrst eftir að málið hafði verið til lokaafgreiðslu í sjútvn. Ed. að ríkisstjórnin tók það til efnislegrar umræðu. Þá kom í ljós að þar [þ.e. í ríkisstjórninni] var mikill ágreiningur um grundvallaratriði. Það var ýmist að fundir í sjútvn. voru boðaðir eða afboðaðir uns fimmtudagurinn 25. apríl rann upp. Þá voru endanlegar brtt. ríkisstjórnarinnar lagðar fram í nefndinni og áttu bæði við frv. um stjórn fiskveiða og frv. um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Tillögurnar fela í sér grundvallarbreytingu á stjórn fiskveiða og verða ekki ræddar né afgreiddar nema í samhengi þar sem frv. tvö mynda eina heild.`` Þetta er meginatriði í sambandi við afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu.
    ,,Fyrsti minni hl. sjútvn., framsóknarmennirnir í sjútvn., hefur tekið upp brtt. ríkisstjórnarinnar óbreyttar og er ekki til viðræðu um efnisbreytingar á þeim. Ekki var haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila. Á fundum sjútvn. kom fram að meðal fulltrúa hagsmunaaðila er mikil andstaða við málið eins og það liggur fyrir í heild.
    Kjarni brtt. felst í þeim ákvæðum að hlutverki Úreldingarsjóðs fiskiskipa skuli breytt í grundvallaratriðum og nafni hans í Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það eru að sjálfsögðu öfugmæli eins og jafnan þegar opinber forsjón á að koma einstökum atvinnugreinum til bjargar. Sannmæli væri að kalla sjóðinn Óhagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Í brtt. ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að skerða fiskveiðiheimildir um 12 þús. þorskígildistonn frá einu ári til annars. Síðan á að gefa útgerðarmönnum kost á að kaupa helminginn til baka við opinberu verði sem næst markaðsverði. Með því er stigið fyrsta skrefið til auðlindaskatts. Þótt þessum heimildum séu þröngar skorður settar í brtt. er eftirleikurinn auðveldur. Það er að rétta skrattanum litla fingurinn

og ekki er það laust sem skrattinn heldur. Allt þetta eiga múrarar að vita upp á sína tíu fingur, segir gamalt orðtak. Allt þetta eiga sjómenn og útgerðarmenn að vita upp á sína tíu fingur. 6 þús. þorskígildistonnum á að verja til þess sem kallað er ,,að koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum``, þó þannig að sum sveitarfélög eiga að
fá aflaheimildir við markaðsverði, sum fyrir eitthvað minna og sum fyrir ekki neitt. Þannig er um hnútana búið að helstu útgerðarstaðirnir verða utan garðs í þessari sérstöku úthlutun.
    Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður geti haldið hjá sér 5% af heildaraflaheimildum, eða um 30 þús. þorskígildistonnum, sem síðan verði seld innan fiskveiðiársins við markaðsverði. Þar er verið að tala um 600--750 millj. kr. Auk þess er árlegt gjald útgerðarmanna til hins nýja sjóðs hækkað um 50% frá Aldurslagasjóði og mun nema tæpum 100 millj. kr. á ári. Stofnfé sjóðsins er um 400 millj. kr. og lánsheimild með ríkisábyrgð að 80% af kaupverði skipa sem sjóðurinn kann að eignast. Ef útgerðarmenn neyta ekki forkaupsréttar á aflaheimildum eða sjóðurinn eignast skip með aflaheimildum á fiskveiðiári skulu þær seljast hæstbjóðanda. Kvóti sem framseldur er til frambúðar skiptist hlutfallslega milli fiskiskipa án endurgjalds.
    Með hliðsjón af árlegum tekjum sjóðsins og starfsreglum hans er ljóst að markaðsverð á veiðiheimildum og fiskiskipum verður hærra en ella. Það er einnig ljóst að ákvæðið um að framselja aflaheimildir til einstakra byggðarlaga er varhugavert. Reynslan hefur sýnt að útgerðarstaðir sem geta boðið fram aflakvóta fyrir landaðan afla draga til sín fiskiskip frá öðrum stöðum. Slíkar ráðstafanir leysa ekki hráefnisskort fiskvinnslustöðva ef dæmið er reiknað í heild en færa hins vegar vandann til. Eina lausnin er sú að setja strangar reglur sem komi í veg fyrir að sjávarafli sé fluttur til vinnslu erlendis. Um það höfuðmál er ekki samstaða í ríkisstjórninni þótt óvissuástandið og ófremdarástandið í þessum efnum nú skaði útflutningshagsmuni Íslendinga stórlega og heildarafkomu fólksins í landinu þegar til lengri tíma er litið.
    Af framansögðu er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða frv. til laga um stjórn fiskveiða og frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa frá grunni með hliðsjón af breyttum viðhorfum. Þess vegna er brýnt að samráðsnefnd sú, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 3 8. jan., um stjórn fiskveiða 1988--1990, verði kölluð saman á ný og skili áliti eigi síðar en 1. ágúst. Þá er svigrúm til að kalla saman aukaþing til þess að afgreiða nýja heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða áður en reglulegt Alþingi kemur saman 10. okt. nk.``
    Þetta, virðulegur forseti, er nál. 4. minni hl. sjútvn. Ég vil í framhaldi af því fjalla nokkuð bæði um það frv. sem hér er til meðferðar og einstök atriði þess sem og ummæli einstakra þingmanna sem fram hafa komið í umræðunni til þessa.
    Vil ég þá, virðulegur forseti, víkja nokkuð að því er hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir, 6. þm.

Vesturl., kom inn á í sinni ræðu áðan. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að hv. þm. sagði m.a. að skynsamlegasta afstaðan til afgreiðslu þessa máls nú væri sú að vísa því aftur til samráðsnefndar. Þetta þýðir, virðulegur forseti, að fimm þingmenn sem eiga sæti í sjö manna sjútvn. efri deildar hafa tekið afstöðu til tillögu til rökstuddrar dagskrár er liggur hér fyrir hv. deild um að slíkt skuli gert. Það þýðir einnig, virðulegur forseti, að það eru aðeins fulltrúar Framsfl. í efri deild sem leggja áherslu á að þetta frv. fái afgreiðslu hér nú. Og það þýðir það einnig, virðulegur forseti, þar sem Borgfl. á ekki fulltrúa í sjútvn. efri deildar, að fimm af sjö þingmönnum sem þar eiga sæti leggja áherslu á þetta atriði. Ég hugsa að það sé mjög óvenjulegt í þingsögunni að atvik sem slíkt hafi átt sér stað, að mikill meiri hluti nefndar leggur áherslu á afgreiðslu máls með ákveðnum hætti en minni hlutinn virðist hins vegar koma til með að ráða ferðinni þegar málið kemur til afgreiðslu í deild.
    Vegna þessa, virðulegur forseti, tel ég rétt að greina þingheimi frá því í ræðu minni í hverju till. til rökstuddrar dagskrár, er ég vísaði til fyrr, felst, þ.e. sú till. sem fimm af sjö nefndarmönnum í sjútvn. efri deildar leggja áherslu á að deildin samþykki. Og með leyfi forseta vil ég gera grein fyrir henni þar sem hún er hér að sjálfsögðu og verður til umræðu, en það er
rétt að hún komi inn í þessari röð. Í till. til rökstuddrar dagskrár segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Frv. til laga um stjórn fiskveiða er samið af nefnd sem skipuð er fulltrúum þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi samkvæmt lögum nr. 3 8. jan. 1988, um stjórn fiskveiða 1988--1990. Frv. var lagt fram á Alþingi hinn 15. febr. sl. Sjútvn. beggja deilda unnu að athugun málsins og kölluðu fyrir sig fulltrúa hagsmunaaðila. Síðan fór málið til lokaafgreiðslu í sjútvn. Ed. Á fundi sjútvn. fimmtudaginn 25. apríl lagði formaður fram endanlegar brtt. ríkisstjórnarinnar við frv. og frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Till. fela í sér grundvallarbreytingu á stjórn fiskveiða og verða ekki ræddar né afgreiddar nema í samhengi. Fyrsti minni hl. sjútvn. hefur tekið upp brtt. ríkisstjórnarinnar. Ekki var haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila. Á fundum sjútvn. kom fram að meðal fulltrúa hagsmunaaðila er mikil andstaða við málið eins og það liggur nú fyrir í heild.
    Af framansögðu er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða frv. til laga um stjórn fiskveiða og frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa frá grunni með hliðsjón af nýjum viðhorfum og þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið. Deildin telur nauðsynlegt að samráðsnefnd sú, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 3 8. jan. 1988, um stjórn fiskveiða 1988--1990, verði kölluð saman að nýju og skili áliti eigi síðar en 1. ágúst n.k. Í framhaldi af því verði aukaþing kallað saman svo fljótt sem verða má til þess að afgreiða heildarlög um stjórn fiskveiða áður en reglulegt Alþingi kemur saman 10. okt. nk.``
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, láta koma hér fram, sérstaklega með tilliti til þeirrar miklu samstöðu sem var um þetta í sjútvn. Ed. Vænti ég þess að

sjálfsögðu að hv. deild samþykki frávísunartillöguna þegar hún kemur til atkvæða.
    Ég vil, virðulegur forseti, víkja nokkuð að ræðu hv. 3. þm. Vestf. Karvels Pálmasonar. M.a. vil ég vekja athygli hv. þm. á því og hæstv. ráðherra --- eini ráðherrann sem hér er mættur þegar verið er að ræða þetta mikilsverða mál er hæstv. sjútvrh. Ég veit að hann getur alveg axlað það fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar, hann hefur burði til þess, en heldur finnst mér það lágkúrulegt af hæstv. ráðherrum úr öðrum stjórnarflokkum að ekki skuli einn einasti þeirra, t.d. úr Alþfl. eða Alþb., svo minnst sé tveggja flokka sem eru í ríkisstjórn, vera viðstaddur. Sérstaklega finnst mér, virðulegur forseti, það vera ámælisvert að ekki skuli neinn af hv. þm. Alþfl. vera hér, þar sem ekki einn einasti hv. þm. Alþfl. hefur tekið til máls um þetta frv. Þá undanskil ég að sjálfsögðu hv. þm. Karvel Pálmason. Þótt hann teljist vera félagsmaður í Alþfl. held ég að varla sé hægt að líta svo á eftir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan um það að hann ætti ekki lengur sæti í þingflokki Alþfl. Að vísu efast ég ekki um að hv. þm. sé góður jafnaðarmaður og sérstaklega góður jafnaðarmaður í þeim skilningi að hann er mikill og góður málsvari íslenskrar verkalýðshreyfingar. Það sem greinilega hefur valdið honum erfiðleikum, virðulegur forseti, í sambandi við þátttöku hans í Alþfl. og sérstaklega þingflokknum, er það að hann hefur látið samviskuna ráða. Það virðist ekki lengur tíðkast á þeim bæ sem sést best á því að hv. þm. Alþfl. hafa ekkert lagt til málanna í sambandi við fiskveiðistjórnun opinberlega. Ég ítreka það, virðulegur forseti, opinberlega. Því ég mun hér í ræðu minni greina mjög ítarlega frá því hvernig sumir hæstv. ráðherrar Alþfl. hafa haldið á þessum málum á bak við tjöldin þar sem menn hafa verið að ráða ráðum sínum um það hvernig ætti að breyta upprunalegu frv. til laga um fiskveiðistjórnun með þeirri niðurstöðu sem hér er til umræðu.
    Það sem hæstv. ráðherrar Alþfl., og ég verð, virðulegur forseti, að harma að ekki skuli einn einasti ráðherra úr röðum Alþfl. vera hér inni og heldur ekki þingmenn úr röðum Alþb. Ég tel að hv. varaþingmaður sem tók sæti í dag sé undanskilinn þar sem hann hefur ekki haft tækifæri til þess að fjalla um þetta og þess vegna skiljanlegt að ... ( Gripið fram í: Hann er í forsetastólnum.) Jú, það er rétt, það er virðulegur forseti. Virðulegur varaforseti, Karl Steinar 4. þm. Reykn., situr nú og stýrir fundi hér. Ég bið hv. þm. afsökunar. Þetta stafar líklegast af því, hv. þm., hvað alþýðuflokksmenn hafa verið afskiptalitlir um þetta mál að ég veitti því ekki athygli að nú situr í forsetastóli hv. alþýðuflokksmaður Karl Steinar Guðnason. Hann hefði nú getað slegið í bjölluna til þess að minna á tilvist sína hér í salnum þegar verið var að fjalla um þetta mál.
    Hv. þm. Sveinn Hálfdánarson vakti athygli á því að hér væri í sal hv. þm. Karvel Pálmason. Ég tók það skýrt fram áðan að hv. þm. Karvel Pálmason væri góður jafnaðarmaður en hann er ekki alþýðuflokksmaður í þeim skilningi sem ég fjallaði um

þá hér. Hann er búinn að segja sig úr þingflokknum, hv. þm. (Gripið fram í.) Ertu búinn að segja þig úr flokknum líka? Virðulegur forseti, ég biðst afsökunar á því að ég hafði litið þannig á að hv. þm. Karvel Pálmason hafi bara sagt sig úr þingflokknum, en er hann búinn að segja sig úr Alþfl.? Það held ég að hann hafi ekki gert. En það hefði kannski verið full ástæða til þess fyrir hv. þm. að gera það.
    Ég vildi, virðulegur forseti, óska eftir því að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., hefði getað verið viðstaddur þessa umræðu. Virðulegur forseti, ég var að óska eftir því, án þess að ég ætli að gera neitt veður út af því, að formaður Alþfl., núv. hæstv. utanrrh., væri viðstaddur. Ég er hér með plögg og fyrirspurnir varðandi það sem ég mun víkja að á eftir sem gefur mjög ríka ástæðu til þess að Alþfl. standi fyrir svörum hér í hv. deild í því máli sem hér er til umfjöllunar. Það er ekki nóg að Alþfl. eigi aðild að ríkisstjórn og þingmenn hans komi svo ekki inn í deildir þingsins og skýri frá því hver afstaða þeirra sé til einstakra mála. Það er ekki nóg að hæstv. ráðherrar séu að kokka það að næturlagi hvernig eigi að breyta grundvallarútfærslu í íslenskri útgerð og fiskvinnslu með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Þessir menn verða að svara fyrir sig fyrir framan þjóðina og okkur hv. þm.
    Varðandi samband okkar, hv. þm. Karvels Pálmasonar og Guðmundar H. Garðarssonar, vil ég svara hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að það samband hefur verið ágætt frá upphafi tíðar. Við áttum mikið og gott samstarf í verkalýðshreyfingunni og við höfum átt mjög gott samstarf hér á hinu háa Alþingi, þó við höfum ekki alltaf verið sammála. Það eru kostir þess að umgangast góða menn að geta sagt þetta og við það get ég staðið.
    Virðulegur forseti. Nú hafa gerst hér allmikil tíðindi. Nú er hv. alþýðuflokksþingmaður Karl Steinar horfinn úr sal og forseti aftur sestur í forsetastól. Nú er því orðið fátt um fína drætti hvað alþýðuflokksmenn áhrærir fyrir utan hv. þm. Svein Hálfdánarson. En ég vil halda áfram þar sem ég lét niður falla varðandi till. þingflokks Alþfl. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það má eiginlega segja að bókun þingflokks Alþfl. þann 23. apríl sl. um frv. til laga um stjórn fiskveiða sem heitir ,,Stefnan í kvótamálum`` og kemur fram í nál. 3. minni hl. á þskj. 1116. hafi raunverulega valdið straumhvörfum í framvindu þessa máls. Þar kemur m.a. fram, eins og fram hefur komið hér í ræðum, sú krafa af hálfu þingflokks Alþfl. að að auki verði tekinn upp auðlindaskattur. Þetta er svo skýrt, virðulegi forseti, að ástæðulaust er að rekja þessa bókun í einstökum atriðum. En það fer ekki á milli mála að þar er sett fram sú krafa að fyrsta skref í auðlindaskatti skuli upp tekið. Það munu hafa verið hugmyndir Alþfl. þá að hér yrði um að ræða 10% til að byrja með en lendingin hjá ráðherrunum varð 5%, 5% skattlagning á íslenska útgerð og íslenska sjómannastétt. Ég mun rekja það nokkuð nánar hér á eftir vegna þess að gert er ráð fyrir því að það geti verið allt að 5%. Það mun

ég koma inn á hér á eftir, hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það er því raunverulega búið að staðfesta þessa kröfu þingflokksins. Ég er hér með undir höndum skjal þar sem ég get rakið nánar útfærslu ráðherra Alþfl. um það hvernig þeir hugsa sér þetta.
    Það sem er alvarlegast er það að með þessu er verið að hefja skattlagningu á fyrirtækjum í útgerð og þrengja afkomu þeirra þegar til lengri tíma er litið. Þetta mun þrengja enn meir, skattlagning hefur alltaf þrengjandi áhrif á stöðu fyrirtækja. Hv. þm. Stefán Guðmundsson neitar þessu. Það er samt staðreynd sem allir vita að skattlagning og sérsköttun í atvinnugreinum kemur alltaf harðast niður á viðkomandi atvinnugreinum og þeim fyrirtækjum og starfsmönnum sem starfa innan viðkomandi greina. Ég bendi á það hvernig sérstakur skattur hefur
verið lagður á verslunarstéttina ár eftir ár. Ég minni á það hvernig hið háa Alþingi hefur margsinnis lagt á sérskatta sem ekki hafa verið afnumdir heldur sífellt verið bætt við þá og þeir auknir. Þetta er því vísirinn að auðlindaskatti, enda hefur það komið fram, m.a. hjá helstu talsmönnum Alþfl. Ég minni á sjónvarpsviðtal við prófessor Gylfa Þ. Gíslason, sem er einn aðalhugmyndafræðingur Alþfl., ekki aðeins í sambandi við álagningu auðlindaskatts heldur einnig í sambandi við efnahagsstefnu Alþfl. Þessi hv. prófessor lýsti því yfir í sjónvarpi fyrir nokkrum kvöldum að það sem væri verið að gera með þessum tveimur frv. fæli í sér alveg ótvírætt fyrsta skrefið í auðlindaskattinum.
    Ég vek athygli á því einnig að þessi frv. virðast eiga að tryggja tvennt: Annars vegar að menn nálgist útfærslu þessara mála út frá sjónarmiði arðseminnar. Það er boðskapur krata og réttlætingin fyrir auðlindaskattinum. Þar er það þá fyrst og fremst peningasjónarmiðið, peningagildið, kaup og sala sem skal gilda. Hins vegar er svokölluð byggðastefna, þ.e. stefna framsóknarmanna, sem felst í svonefndum Hagræðingarsjóði. Hagræðingarsjóður er raunverulega hreinn og klár millifærslusjóður og miðstýringarsjóður. Ef þetta hvort tveggja er skoðað í samhengi og ef maður lítur til lengri tíma útfærslu liggur í augum uppi að það gengur ekki upp. Það er ekki hægt að vera jöfnum höndum með auðlindaskatt annars vegar og byggðastefnu og miðstýringu hins vegar. Þetta er svo augljóst mál að það ætti ekki að þurfa að ræða það. En m.a. þetta stefnir allri framkvæmd og allri útfærslu í sambandi við útgerð í mikla óvissu á næstu árum þannig að menn vita raunverulega ekki hvar þeir standa, í hvora áttina skuli stefnt. Þess vegna er það nauðsynlegt og meira en nauðsynlegt, það er grundvallaratriði að vísa þessu máli í heild aftur til samráðsnefndar. Heilbrigður útgerðarrekstur getur ekki starfað til frambúðar á
grundvelli pólitísks tvískinnungsháttar. Málsaðilar, þ.e. útgerðarmenn, sjómenn, fiskvinnslufólk og Íslendingar yfirleitt, verða að búa við skýra og örugga stefnu í sambandi við fiskveiðar. Þeir verða að búa við meira öryggi um framtíðarþróun þessara mála en þau tvö

frumvörp sem nú liggja fyrir gefa tilefni til.
    Ég minni á það, virðulegi forseti, að á Íslandi eru nú 5--6 þús. fiskimenn á togurum og stærri fiskiskipum. Þessir menn eru í vissum skilningi útverðir Íslendinga í baráttu okkar fyrir efnahagslegu sjálfstæði. Framlag þeirra og útgerðaraðila er íslensku þjóðinni ómetanlegt. Um þetta er ekki deilt því segja má að í störfum þeirra felist upphaf megingrundvallar í tekju- og eignarmyndun íslensku þjóðarinnar á hverjum tíma. Takmörkun fiskveiða með þeim hætti sem við höfum búið við síðan 1984 er nægilega mikil athafnaskerðing gagnvart þeim aðilum sem eiga að standa og bera ábyrgð á þessari starfsemi þótt ekki eigi einnig að skattleggja þá sérstaklega fyrir það að inna þessi erfiðu og vandasömu störf af hendi.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða hér mikið um miðstýringarsjónarmiðin sem koma fram í þessum frv. Mér finnst þau fyrir neðan allar hellur og ekki vera í takt við tímann, frekar í ætt við úreltar austur-evrópskar hugmyndir sem allar þjóðir hafna.
    En þá vil ég, virðulegi forseti, víkja nokkuð nánar að till. og hugmyndum Alþfl. í sambandi við stjórnun fiskveiða og endurtek það, virðulegi forseti, að æskilegt hefði verið að einhverjir af hæstv. ráðherrum Alþfl. hefðu verið viðstaddir, sérstaklega formaður flokksins, hæstv. utanrrh., eða hugmyndafræðingur þingflokks Alþfl. um útfærslu þeirrar efnahagsstefnu sem ég mun nú víkja að, hæstv. iðnrh. og viðskrh.
    Í brtt. 1112, 7. lið c, við 6. gr. segir m.a., með leyfi forseta: ,,1. málsl. 3. mgr. greinarinnar orðist svo: Aldrei skal Hagræðingarsjóður þó fá ráðstöfunarrétt umfram 5% af heildaraflaheimildum af botnfiski eða 5% af heildaraflaheimildum af einstökum tegundum sérveiða.``
    Þetta þýðir, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að Hagræðingarsjóður á að fá þetta til ráðstöfunar. (Gripið fram í.) Já, til þess að gera jöfnum höndum fært að útfæra auðlindaskattshugmyndina til að fullnægja að vissu marki ... ( StG: Nei.) Nei, segir hv. þm. og heldur sig við 12 þús. tonnin. Þar á að útfæra hugmyndina. En er hv. þm. Stefán Guðmundsson svo barnalegur að halda það að þegar þingmenn hafa nú undir höndum grunnhugmyndir Alþfl. um það hvernig á að útfæra þetta ... ( StG: Það verður aldrei með framsókn.) Aldrei með framsókn, sagði hv. þm. Þetta er að mörgu leyti mjög mikilsverð yfirlýsing. Í þessari yfirlýsingu felast ákveðin brigð á loforðum sem alþýðuflokksmenn telja sig hafa fengið því þeir hafa fullyrt, bæði í ræðum og riti, að þeirra stefna hafi sigrað, nú sé búið að stíga fyrsta skrefið í framkvæmd auðlindaskatts á Íslandi. Og þá hljóta menn að spyrja: Hverjir eru marktækir og hverjir ekki? Ég vil halda því fram, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem ég trúi nú í flestum atriðum, að þrátt fyrir allt hafi krötunum tekist að komast inn fyrir, eins og Trójuhestinum forðum, að útfæra sína hugmynd að hluta, þótt ekki sé mikið varðandi auðlindaskattshugmyndina. Efnislega er hún fyrir hendi í þessum frv. Þar er sala á veiðileyfum í samræmi við hugmyndir alþýðuflokksmanna sem gera ráð fyrir því að það geti

verið allt að 5%. En ég tel, virðulegi forseti, þýðingarmikið að upplýsa það sem ekki hefur verið birt. Það eru hugmyndir Alþfl. varðandi útfærslu á sölu veiðileyfa. Þeir munu hafa lagt fram í viðræðunum plagg sem mjög hljótt hefur farið. Það hefur yfirskriftina ,,Ákvæði um sölu veiðileyfa í frumvarpi um stjórn fiskveiða.`` Mér segir svo hugur að þetta plagg hafi verið lagt fram á ráðherrafundi laugardaginn 21. apríl. (Gripið fram í.) Ég segi ekki, hv. þm., að þetta sé skráð í bókina en mér segir svo hugur og ég vil hafa það sem er sannast og réttast eftir því sem næst verður komist.
    Það var mjög fróðlegt að finna viðbrögð hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefáns Guðmundssonar. Þegar ég dró fram plaggið og sýndi hv. þm. það, þá afneitaði hann því að bragði og sagði að framsókn mundi aldrei samþykkja þessa útfærslu. Þessi útfærsla, sem er fagnaðarboðskapur Alþfl. og sérstaklega var getið um í leiðara Alþýðublaðsins fyrir nokkrum dögum, felur það í sér að verið er að taka upp auðlindaskatt. Í þessum leiðara Alþýðublaðsins fimmtudaginn 25. apríl segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Skynsamlegasta leiðin er að leigugjald komi fyrir aðgang að hinni sameiginlegu auðlind. Það er því æskilegt að taka upp í áföngum fram að aldamótum`` --- ég endurtek: Það er því æskilegt að taka upp í áföngum fram að aldamótum leigugjald fyrir afnot veiðiheimlda. Það er enn fremur nauðsynlegt að rjúfa tengslin milli skipa og veiðiheimilda og taka þannig tillit til byggðasjónarmiða og ná fram aukinni hagkvæmni í útgerð. Tillögur þingflokks Alþfl. um að Úreldingarsjóður fengi nýtt hlutverk og nefnist Aflasjóður hafa fengið hljómgrunn hjá formönnum stjórnarflokkanna. Þótt nafnið sé annað,,, --- ég endurtek: ,,Tillögur þingflokks Alþfl. [sem eru þessar hérna] hafa fengið hljómgrunn hjá formönnum stjórnarflokkanna. Þótt nafnið sé annað,,, --- hv. þm.
Páll Pétursson hlýtur að hafa tekið undir þessa tillögu, hann er formaður þingflokks Framsfl. --- ,,Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins, þá eru grunnhugmyndirnar þær sömu. Hinn nýi sjóður á að fá til ráðstöfunar ákveðið hlutfall af þeim veiðiheimildum sem sjóðurinn eignast til kaupa á skipum til úreldingar og helmingurinn framseldur árlega og andvirðinu varið til kaupa á skipum til úreldingar. Hinum helmingnum verður varið til aðstoðar byggðarlögum. Þessi þáttur samkomulags formannanna kemur til móts við þau sjónarmið þingflokks Alþfl. að leigugjald verði tekið fyrir afnot veiðiheimilda og auðveldar þannig að bregðast við staðbundnum byggðavandamálum sem upp kunna að koma vegna sölu fiskiskipa úr sjávarútvegsbyggðum.``
    Þetta þýðir, virðulegi forseti, að það á að millifæra frá þeim sem skila jákvæðum árangri til aðila sem ekki hafa eðlilegar rekstrarforsendur. Þetta er leið framsóknarmanna. En þessar hugmyndir stangast auðvitað á við það að arðsemissjónarmið skuli gilda. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, skýra nánar fyrir þingheimi í hverju veiðileyfishugmyndir alþýðuflokksmanna sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að

taka fyrsta skrefið í að útfæra eru fólgnar. Í þessum tillögum alþýðuflokksmanna sem ræddar voru á ráðherrafundinum laugardaginn 21. apríl var m.a. lögð fram svohljóðandi hugmynd af hálfu ráðherra Alþfl., með leyfi forseta: ,,Ákvæði um sölu veiðileyfa í frv. um stjórn fiskveiða.`` Síðan segir í tillögum alþýðuflokksmanna: ,,Meðfylgjandi eru drög að breytingum að frv. til laga um stjórn fiskveiða sem komi einhvers konar kvótasölu eða veiðigjaldi á í áföngum. Sameiginlegt öllum tillögunum er að aðlögunin taki tíu ár. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort fyrsta fiskveiðiárið, sem er afbrigðilega stutt samkvæmt frv.`` (Gripið fram í.) Ég bið hv. þm. Stefán Guðmundsson að taka eftir þessu orðalagi: ,,Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort fyrsta fiskveiðiárið [þ.e. árið 1991], sem er afbrigðilega stutt samkvæmt frv., telst með í þessari tímaáætlun eða ekki. Ekki er tekin afstaða til þess hvert tekjur af kvótasölu skuli renna en benda má á að eðlilegt og skynsamlegt er að nota a.m.k. hluta þeirra til byggðajafnvægis, t.d. til að bæta byggðarlögum kvótamissi, til úreldingar fiskiskipa og til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi.
    Breytingarnar taka einungis til 7. gr. frv. en auk þess bætist við ný 8. gr. Tillögurnar skulu nú reifaðar lítillega.`` Það er mjög þýðingarmikið fyrir hv. þm. að heyra þessar tillögur því þetta eru tillögur Alþfl. sem framsóknarmenn eru nú að byrja að framkvæma, kannski með því að segja: Þetta eru ekki nema 2--3%. Raunverulega eru það 5% þegar nánar er að gáð og jafnvel meira. En það sem mestu máli skiptir er það að alþýðuflokksmenn telja sig hafa fengið prinsippið samþykkt. Það er meginmálið og með því að afgreiða þessi mál, frv. til laga um fiskveiðistjórnun og úreldingarsjóðsfrv. með þeim breytingum sem hafa verið gerðar, er verið að koma aftan að íslenskum útgerðarmönnum og íslenskum sjómönnum og fiskverkafólki, öllum aðilum sem hafa komið við sögu um það að reyna að sameinast um frv. til laga um fiskveiðistjórnun. ( StG: Úreldingarsjóðurinn var þar í.) Úreldingarsjóðurinn, hv. þm. Stefán Guðmundsson, var aldrei til umræðu í samráðsnefndinni með þeim hætti sem ég er að lýsa nú. Þetta plagg, þessi tillaga ráðherra Alþfl. á umræddum laugardagsfundi 21. apríl var aldrei lögð fyrir samráðsnefndina, en þessi tillaga er meginforsendan fyrir breytingunni á úreldingarsjóðsfrv. Þetta veit hv. þm. Stefán Guðmundsson. ( StG: Í 5. gr. frv.) Þess vegna ætla ég, virðulegi forseti, að lesa nákvæmlega fyrir þingheimi, og ég vænti þess að íslensk þjóð og sérstaklega íslensk sjómannastétt fái að heyra þessar tillögur sem fela í sér beina kjaraskerðingu og afkomuskerðingu fyrir íslenska útgerð og íslenska sjómenn. ( HBl: Og sérstök skattlagning á landslýð.) Já, það er rétt, hv. þm. Halldór Blöndal, að í þessu felst líka sérstök skattlagning.
    Allt tal um að eitthvert miðstýrt kerfi eigi að koma í staðinn fyrir þá grundvallarútfærslu og breytingu sem þarna er á ferðinni hljómar náttúrlega eins og öfugmæli þar sem það er vitað að í öllum vestrænum

ríkjum, og þar á meðal á Íslandi, er grundvallarafstaða fólks sú að hverfa skuli frá miðstýringu yfir í það sem heitir að nálgast svokallað markaðsþjóðfélag eftir því sem kostur er á. Að ætla að segja það á árinu 1990, á sama tíma
sem verið er að byrja hér með auðlindaskatt, að hægt sé í skjóli einhverrar nýrrar byggðastefnu að tryggja að þessi byggðarlög standi jafn vel að vígi, er rangt vegna þess að ég efast um að hv. þm. Framsfl. fái svigrúm til þess að útfæra það þótt þeir vildu. En þeir eru búnir að opna dyrnar og þeirra ábyrgð er mikil. Ég er sannfærður um það að þegar Íslendingum verður það ljóst hvílíkt högg er verið að greiða þeim aðilum sem stunda sjómennsku og útgerð á Íslandi, þá munu þeir snúast gegn þeim mönnum sem eru að predika og leggja fram tillögur um auðlindaskatt. Íslensk sjómannastétt er þjóðinni þýðingarmeiri og mikilvægari en svo að Íslendingar vilji skattleggja þessa duglegu og hæfu menn sem stunda veiðar við Íslandsstrendur.
    En ég ætla, virðulegi forseti, að lesa upp tillögur alþýðuflokksmanna eins og þær lágu fyrir ráðherrum. Þessar tillögur eru grundvöllurinn að framkvæmd auðlindaskattsins. Þetta eru raunverulega tillögurnar sem eyðileggja það að
hægt sé að samþykkja hér á Alþingi nú, ég vil segja sæmilega heilbrigt og eðlilegt frv. til laga um fiskveiðistjórnun. Og eins og hv. þm. Karvel Pálmason sagði, allt er þetta gert til að framlengja líf einnar ríkisstjórnar sem er rangstæð í íslenskum stjórnmálum í dag því að hún nýtur ekki stuðnings eða tiltrúar íslenskrar þjóðar. Þessi stjórn hefði átt að vera farin frá fyrir löngu. Stjórnmálamenn sem kaupa aðra menn til fylgis við sig með ómerkilegum lífsgæðum ættu ekki að sýna sig í umræðum um svona mál. Ég minni hv. þm. á að þetta eru tillögur hæstv. ráðherra Alþfl. á umræddum ráðherrafundi þegar þeir voru að búa til þennan óskapnað sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að taka afstöðu til. Við munum auðvitað greiða atkvæði á móti. En í tillögunum segir svo, virðulegi forseti:
    ,,Tillögurnar skulu nú reifaðar lítillega.
    Gerð L. Kvótaleiga tekin upp í áföngum. Hér er 90% aflaheimilda úthlutað ókeypis til útgerðar samkvæmt óbreyttum ákvæðum frv. en útgerðarmönnum er síðan boðinn hlutfallslegur forkaupsréttur að afganginum, 10%. Ekki er endanlega frá því gengið við hvaða verði forkaupsrétturinn er boðinn. Sé forkaupsrétturinn ekki fullnýttur skal bjóða aflaheimildir upp á almennu uppboði. Með þessu móti er því almenn kvótasala tekin upp á 10 árum,,, segir í tillögum alþýðuflokksmannanna. ,,Handhafar kvóta þurfa árlega að staðfesta óskir sínar um kvóta með því að nýta sér forkaupsrétt sinn. Þeir gjalda í raun árlega gjald eða leigu fyrir kvótann. Forkaupsrétturinn veitir þeim tryggingu um að þeir þurfi ekki að fara út á óvissan kvótauppboðsmarkað til að tryggja sér veiðiheimildir.``
    Þetta er gerð L. Síðan kemur samkvæmt tillögum alþýðuflokksmannanna gerð K, kvótagjald í áföngum.

Hér er gert ráð fyrir --- ég sé að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Alþb., hefur ekki einu sinni séð þessar tillögur. ( MF: Jú, jú.) Nú, hefur hv. þm. séð þær? ( MF: Ég var bara hissa, ég hélt að þú værir að kynna þær sem þínar.) Nei, ég var að undirstrika að þetta eru tillögur Alþfl. Er það ekki rétt, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir? ( MF: Jú.) Jú, sagði hv. þm., staðfest. Það er mjög þýðingarmikið að fá það staðfest hér, bæði af hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Margréti Frímannsdóttur, að ég fer hér með rétt mál, þetta eru tillögur Alþfl. í sambandi við fiskveiðistjórnun á Íslandi í framtíðinni.
    Þá kem ég að --- og ég er margbúinn að taka það fram, virðulegi forseti, að ég er að lesa hér tillögur Alþfl. í sambandi við fiskveiðistjórnun --- gerð K, kvótagjald í áföngum: ,,Hér er gert ráð fyrir því að kvóta sé í raun úthlutað ótímabundið til núverandi handhafa en þeir þurfi síðan að greiða einhvers konar afnotagjald sem væri í fyrstu 1 / 10 af einhvers konar markaðsverði kvóta en færi jafnt og þétt hækkandi í fullt markaðsverð (eða hvað annað verð sem menn vilja miða við) á tíu árum. Áhrifin eru ekki alfarið þau sömu og samkvæmt gerð L [það kemur hér á eftir] á aðlögunartímabilinu. Nær allir mundu notfæra sér forkaupsréttinn samkvæmt K-gerðinni þannig að uppboðsmarkaður hins opinbera yrði í raun óvirkur. L-gerðin örvar því viðskipti með kvóta strax í upphafi. Að lokinni aðlögun er væntanlega enginn munur á þessum tveim kerfum. K-gerðin hefur þó yfirbragð afnotagjalds en L-gerðin ber uppboðskeim.``
    Ég vil nú, virðulegi forseti, hætta hér upplestri og varpa fram þeirri hugmynd: Hvaða maður í þingflokki Alþfl. skyldi nú hugsa svona skipulega og setja þetta fram með svona skipulegum hætti? Mér láðist að geta þess í upphafi að um fjórar gerðir er að ræða. Það er gerð L og gerð K, sem ég hef þegar lesið, og svo kemur gerð FH og gerð FF. Þetta er í sambandi við brtt. kratanna sem framsóknarmenn munu hafa afneitað nema í svona stórum dráttum en þó undirgengist þá prinsippbreytingu að kvótasala skuli eiga sér stað eða veiðileyfisgjald. En hver skyldi nú í þingflokki Alþfl. hafa það hugmyndaflug, þekkingu og tök á útfærslu svona módela í sambandi við --- hvað má segja, útfærslu þjóðhagsmódela eða myndramma eða tillagna? Það er ekki neinn viðvaningur. ( KP: Hver heldur hv. þm. að það sé?) Ég vona að hv. þm. Karvel Pálmason geti upplýst mig um það. ( KP: Eru það joðin?) Ég var nú ekki kominn í joðin enn þá, hv. þm. Þetta hefði alveg eins getað verið JS. ( Gripið fram í: Þá er það orðið Jóhanna.) En þetta er náttúrlega ekkert gamanmál því við skulum ekki gera lítið úr því þegar hámenntaðir menn, sem eru vanir því að gera tillögur um þjóðhagsspár og þjóðhagsáætlanir og hafa langa reynslu í að vera ráðgjafar margra ríkisstjórna, með því miður sorglegum afleiðingum stundum og því miður allt of oft, eins og dæmin samma. Ég er núna m.a. að lesa upp eitt dæmi þessa sem sýnir okkur hvað óraunsæið og barnaskapurinn og ég vil segja menntunin getur leitt menn í gönur. Þó að menntun sé góð getur

menntun verið þess eðlis, ef hún er ekki rétt og skynsamlega notuð, að hún getur skaðað það sem raunverulega býr undir sem er í þessu tilviki útfærsla fiskveiðistjórnunar á Íslandi.
    Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að hagfræðikenningar geta ekki alltaf gilt og passað í sambandi við útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Þó að menntun og hagfræði sé góð út af fyrir sig, þá getur hún ekki ráðið því hvernig veðurfari er háttað á hverjum tíma eða hvernig fiskurinn hagar sér í
sjónum. ( KP: Það er nú ráðherrann sem ræður því.) Það er vandamálið sem margir íslenskir hagfræðingar hafa ekki getað glímt við þegar þeir hafa verið að búa sér til sín fínu módel um íslenskar fiskveiðar og fiskveiðistjórnun. Það eru þessi atriði, þessir þættir sem aldrei ganga upp í öllum þeirra útreikningum vegna þess að þetta er eitt af þeim höfuðvandamálum sem Íslendingar hafa þurft að glíma við, óvissan um það hvað gerist í sjónum, í hafinu í kringum okkur. Við ráðum ekki við náttúruöflin. Þau ráða sér sjálf. Hvernig okkur tekst að hagnýta þau og hagnýta okkar aðstæður miðað við hvernig þær eru er annað mál. Þar skiptir meira máli reynsla og þekking sem íslenskir sjómenn búa að. Þeir eru miklu betur í stakk búnir til að útfæra það hvernig á að haga fiskveiðum við Ísland en einhverjir hagfræðingar eða spekingar sem búa til sín módel um það.
    En þá ætla ég að lesa upp gerð FH. Þetta eru sem sagt tillögur Alþfl. eða þingflokksins. En ég þrengi þetta niður í tillögur hæstv. ráðherra Alþfl., ég held að ég þrengi þetta nú niður í tillögur hæstv. ráðherra til þess að firra ýmsa hv. þm. Alþfl. þeirri ábyrgð að þeir hafi lagt blessun sína yfir það að ráðherrar Alþfl. legðu fram slíkar hugmyndir. Ég geri það af tillitssemi af því að nú eru viðstaddir hér inni í deildinni tveir alþýðuflokksþingmenn, annar að vísu úr annarri deild, en hv. þm. Karl Steinar situr í forsæti. (Gripið fram í.) Nei, þrír, ég bið hv. þm. Svein Hálfdánarson afsökunar. ( Gripið fram í: Fjórir.) Hv. þm. Karvel Pálmason er jafnaðarmaður. Hann er nýlega vikinn úr þingflokki Alþfl. vegna þess að hann telur að Alþfl. fullnægi ekki þeim kröfum sem hann sem jafnaðarmaður gerir til flokksins. ( Gripið fram í: Fjórir jafnaðarmenn.) Alþýðublaðið og þingflokkur Alþfl. er yfirleitt eitt og það sama, það vita allir hv. þm.
    En þá er það gerð FH. ( G ripið fram í: FH, hvað er verið að tala um?) Ég verð að biðja hv. þm. Stefán Guðmundsson um að tala við hæstv. ráðherra Alþfl. um það hvað felist í þessum skammstöfunum. ( Gripið fram í: Eru það ekki frjálslyndir hægri?) Ég bið nú hv. þm. um það að óvirða ekki Fimleikafélag Hafnarfjarðar með því að tengja þá tillögum ráðherra Alþfl. í þessu máli í eitt skipti fyrir öll. Það gæti orðð dýrkeypt fyrir Alþfl. í sambandi við sveitarstjórnarkosningarnar ef þessar tillögur yrðu tengdar Fimleikafélagi Hafnarfjarðar eða hafnfirskum jafnaðarmönnum. Ég er hræddur um að bæjarstjóri Hafnarfjarðar yrði ekki ánægður með það.
    Í gerð FH, sem heitir ,,Kvótafyrning í áföngum,

hlutfallskvóti``, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er farin nokkuð önnur leið sem byggist á fyrningu kvótaeignar. Í upphafi fá menn óbreytta þá aflahlutdeild sem þeir höfðu 1990 en hún er síðan skert strax á fyrsta ári um 10%. Sérhver hlutdeild er síðan skert árlega um 10%. Sá sem á í upphafi rétt á 1% leyfðs heildarafla fær að öllu óbreyttu úthlutað 0,9% aflans á næsta ári, nema hann kaupi sér viðbót af öðrum kvótahandhöfum eða hinu opinbera. Geri hann það ekki verður aflahlutdeild hans á öðru ári 0,9x0,9% eða 0,81%, o.s.frv. Keyptur viðbótarkvóti samsvarar í raun tíu ára kvótarétti og verð á slíkum kvóta ætti því að vera tífalt gjald fyrir innskiptiskvóta. Vegna ávöxtunaráhrifa yrði verðið þó mun lægra í reynd. Þetta fyrirkomulag hefur það fram yfir fyrri gerðir að skapa mönnum öllu meiri stöðugleika. Jafnvel þótt fjárhagur útgerðar leyfi engin kvótakaup eitt árið getur hún fengið 90% af afla fyrra árs svo fremi sem leyfður heildarafli er óbreyttur.``
    Þetta er gerð FH í tillögum ráðherra Alþfl. á umræddum laugardagsfundi þegar þeir voru að kokka það hvernig þeir gætu framlengt líf þessarar ríkisstjórnar eitt ár í viðbót. Ég er að lesa, hæstv. menntmrh., tillögur hæstv. ráðherra Alþfl. um fiskveiðistjórnun, ( Menntmrh.: Ég skal fara þá strax.) um fyrstu skrefin í auðlindaskattsframkvæmd. ( Menntmrh.: Má ég bara ekki bregða mér til hliðar á meðan?) Jú, það er sjálfsagt, ég veit að Alþb. er ekki hrifið af þessum hugmyndum.
    Þá er það gerð FF. Hún heitir ,,Kvótafyrning í áföngum (fastur kvóti).`` Þetta er tilbrigði við gerð FH. Munurinn er sá ...`` ( Gripið fram í: Fastur kvóti?) Ég verð að viðurkenna, hv. þm., að raunverulega er þetta broslegt, en þetta sýnir bara hvað ráðherrar Alþfl. eru langt leiddir og hvað mönnum getur dottið í hug. Við sem erum hér nokkur inni sem höfum komið við sögu í sambandi við sjávarútveg og fiskveiðar á Íslandi brosum að þessu. En þetta er auðvitað ekkert gamanmál þegar maður hefur það í huga að að þessu standa hæstv. ráðherrar Alþfl. og þar á meðal sá ráðherra sem telur sig fremstan allra í sambandi við tillögur og hugmyndir um útfærslu, ég vil segja íslenskrar efnahagsstefnu, svo að ekki sé nú meira sagt. Sá hæstv. ráðherra sem talar hér með mestum þunga um íslenskt þjóðarbú, íslenskt efnahagslíf, íslenskt viðskiptalíf, íslenskt peningakerfi. Hér eru tillögur og hugmyndir hans í sambandi við útfærslu fiskveiðistjórnunar. Þetta er náttúrlega ekkert gamanmál, þetta er raunverulega sorglegt, hvað vísindi geta leitt mann í gönur.
    En þetta er tilbrigði, virðulegi forseti, við gerðina FH samkvæmt tillögum ráðherra Alþfl. ,,Munurinn er sá að kvótaréttur er ekki skilgreindur sem
hlutfall af leyfðum heildarafla heldur sem fast aflamagn. Þetta er hugsanlega skiljanlegra og einfaldara fyrir útgerðina og tryggir henni jafnframt enn meiri festu.`` ( Gripið fram í: Þetta heitir fastur kvóti?) Já, þetta er fastur kvóti. ,,Á þessari gerð eru þá um leið þeir hnökrar`` --- menn kannast við orðalagið --- ,,að ekki er sjálfvirkt unnið að að minnka

leyfðan heildarafla milli ára um meira en 10%. Þetta kann að vera of lítið svigrúm. Þurfi að grípa til meiri skerðingar veiða af fiskifræðilegum orsökum yrði einhver sjóður (sem gæti fengið hlutdeild í kvótasölutekjunum) að kaupa upp kvóta á almennum markaði. En þá virkar þessi sjóður um leið sem einhvers konar aflatryggingasjóður.``
    Og síðan kemur, virðulegi forseti, í framhaldi af þess með skýringum, tillögur um breytingar á frv. sem hér er til umræðu, þ.e. 7. gr. og að við bætist ný grein, 8. gr. Og útfærslan á greinunum er í samræmi við þessar fjórar gerðir. Ég vil segja það, virðulegi forseti, að þegar maður hefur skoðað þetta plagg og lesið það, þá er manni raunverulega ekki hlátur í huga. Og þegar maður hefur það einnig í huga að sá sem gerir þetta plagg er líklega áhrifamesti maðurinn í ríkisstjórn Íslands í dag um efnahagslega ráðgjöf, þá hlýtur manni að hrjósa hugur við því óraunsæi, og ég vil segja og snúa máli mínu til hæstv. sjútvrh., því óraunsæi sem birtist í þessum hugmyndum. Það minnir mig á það að þegar ég var hér þingmaður á árunum 1974--1978 þá var lagt hér fram frv. til laga sem síðar hlaut nafnið ,,febrúarlögin``. Þá fékkst það ekki upplýst, virðulegur forseti, hver var höfundurinn á bak við það frv., illu heilli. En mig er farið að gruna að það sé sami maður sem stóð að baki febrúarlaganna 1978 og sá sem hefur sett fram þessar hugmyndir fyrir hæstv. ríkisstjórn. Og ég vil segja við hv. stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar: Guð hjálpi ykkur að taka fyrsta skrefið á grundvelli þessara hugmynda. Það eruð þið raunverulega að gera með ykkar tillögum um breytingar á Úreldingarsjóði í Hagræðingarsjóð. Hv. þm. Stefán Guðmundsson hristir höfuðið. Ég minnist þess að þegar febrúarlögin voru hér til umræðu og meðferðar árið 1978 þá var ég í svipuðum sporum og hv. þm. Stefán Guðmundsson. Ég vildi ekki viðurkenna ákveðnar staðreyndir sem raunverulega fólust í febrúarlögunum 1978, illu heilli. Ég hefði betur gert mér betur grein fyrir því hvað fólst í þeim lögum. Þess vegna segi ég við hv. þm. Stefán Guðmundsson: Gerðu þér grein fyrir því, virðulegi þingmaður, að það er ekki nóg að segja: Þetta mun aldrei gerast með stuðningi framsóknarmanna. Þið eruð þegar að stíga fyrstu skrefin. --- Nei, segir hv. þm. ( KP: Þetta er grunnurinn.) Þetta er grunnurinn, alveg rétt, hv. þm. Karvel Pálmason.
    Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu. En ég árétta það sem hefur komið fram að það er skilningur alþýðuflokksmanna, sem hefur komið fram í ræðum þeirra, ritum og tillögum, að það er verið að ganga fyrsta skrefið í átt til auðlindaskatts. Einn menntaðasti hagfræðingur landsins, Gylfi Þ. Gíslason prófessor, hefur staðfest það opinberlega fyrir framan þjóðina. Ég vara við þeirri leið sem þarna er farin því hún mun hafa mjög alvarlega afleiðingar í framtíðinni. Við sjálfstæðismenn berum ekki ábyrgð á því sem hér er að gerast.
    Nú er það svo að það eru fleiri en sjálfstæðismenn sem eru á móti þeim frv. sem hér eru til meðferðar.

Það hefur komið fram í frávísunartillögu, sem hv. þm. Skúli Alexandersson og Karvel Pálmason ásamt mér og Halldóri Blöndal
undirrita, þar sem við leggjum til að þessu frv. verði vísað til samráðsnefndarinnar. Einnig hefur hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir lýst yfir hér í ræðu fyrr þegar hún gerði grein fyrir sínu nál. að hún væri sömu skoðunar, að þessi mál þyrftu mikið rækilegri skoðunar við og því væri rétt að vísa þeim til samráðsnefndar að því tilskildu að sjálfsögðu að nefndin tæki þessi mál enn fastari tökum, ræddi þessi nýju og breyttu viðhorf sem fram hafa komið og legði síðan sína tillögu fram fyrir 1. ágúst með það í huga að þing kæmi saman í byrjun september og afgreiddi þá lög um fiskveiðistjórnun á heilbrigðum grundvelli.
    En það eru fleiri en við hv. þm., sem ég gat um áðan, sem leggja þetta til. Það vill svo til að í Alþb. eru margar vistarverur. Ein er sú vistarvera sem núv. formaður Alþb. Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., á skjól í og hún heitir Birting. Jú, Birting heitir félagið. Það er Birting, félag jafnaðar- og lýðræðissinna innan Alþb. Þetta félag er enginn --- Er hæstv. menntmrh. hér? ( Gripið fram í: Hann er farinn.) Ég ætla að beina orðum mínum til alþýðubandalagsmanna. Mundi hv. þm. athuga hvort hæstv. menntmrh. er hér í hliðarsal? Já, hann er þarna. Ég var, hæstv. ráðherra, búinn að skýra frá þeim tillögum sem ráðherrar Alþb. lögðu fyrir hæstv. ráðherra laugardaginn 21. apríl á miklum leynifundi. ( Menntmrh.: Ráðherrar Alþb.?) Nei, Alþfl. ( Menntmrh.: Það er alveg tvennt ólíkt.) Já, ég veit það. En í framhaldi af því ætlaði ég að fá að fjalla um það við hæstv. menntmrh., þar sem hér er ekki staddur hæstv. fjmrh. sem er formaður Alþb., að innan Alþb. ríkir mikil óánægja með það að afgreiða út úr deild frv. til laga um fiskveiðistjórnun og frv. til laga um Úreldingarsjóð. Ég var að segja það, hæstv. ráðherra, að í Alþb. væru margar vistarverur og að núv. hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson
ætti sér skjól í einni þeirra, þ.e. í Birtingu sem er félag jafnræðis- og lýðræðissinna innan Alþb. Það virtist þá vera þörf á því að stofna þarna félag og undirstrika það sérstaklega að þar væru líka lýðræðissinnar. Það er út af fyrir sig mjög gott.
    En ég ætlaði, hæstv. menntmrh., að vekja athygli á því og undirstrika það að þetta félag formanns Alþb., Ólafs Ragnars Grímssonar ... ( Gripið fram í: Hvað er það?) Það er Birting. ( SkA: Ætlar þú að segja félag Ólafs Ragnars Grímssonar?) ( HBl: Ég hélt að Jón Baldvin ætti það.) ( DS: Ég hélt að það væri Reykjavíkurfélag.) Ég sé það, hæstv. forseti, að þingmenn eru frekar ruglaðir í því hvað Alþb. er. En þetta félag, sem er nú móðurfélag og vígi formannsins, styrkleiki þess og máttur er svo mikill að það skeður nú, sem er einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu, að formaður gat ekki tekið afstöðu með sínum eigin framboðslista í Reykjavík vegna þess að þetta félag, Birting, var til staðar. Þannig að formaður Alþb., hæstv. fjmrh., gat ekki tekið afstöðu þegar hann var að spurður hvort hann styddi ekki lista

Alþb. til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. Það er náttúrlega mjög flókið mál sem gefur manni sterka vísbendingu um að Birting sé raunverulega móðurfélag formanns Alþb. Þetta félag hefur gert alveg sérstakar samþykktir í sambandi við afgreiðslu frv. til laga um fiskveiðistjórnun. M.a. hefur talsmaður ráðherra, Mörður nokkur Árnason, sem mun vera einhvers konar upplýsingafulltrúi hæstv. fjmrh., látið taka við sig viðtal í Þjóðviljanum þar sem hann skýrir ... ( Gripið fram í: Er það sá sami og flytur íslenskt mál í Ríkisútvarpinu?) Já, hann mun vera sami maðurinn. Þar sem hann greinir frá ... ( Gripið fram í: Er það hann sem var ritstjóri Þjóðviljans? Er það sami maðurinn?) Já, það mun vera sami maður. Mörður Árnason er, fyrir utan það að vera upplýsingafulltrúi hæstv. fjmrh., fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans. ( Gripið fram í: Má vera að móðir hans hafi verið ritstjóri Þjóðviljans líka?) Virðulegi forseti. Ég held að þessir hv. þm. ættu nú að leyfa ræðumanni að ljúka máli sínu.
    Í þessu sambandi vil ég lesa upp, með leyfi forseta, ályktun sem einn stjórnarmanna í Birting, Mörður Árnason, gerði grein fyrir í Þjóðviljanum fyrir nokkrum dögum. Þar segir m.a.:
    ,,Í ályktun stjórnar Birtingar um sjávarútvegsmál kemur fram að ljóst sé að mikill ágreiningur er um framtíðarskipan í þessum efnum og óeðlilegt við þær aðstæður sem nú eru uppi að samþykkja ótímabundið framhald núverandi kerfis. Þess í stað telur stjórn Birtingar að nýta eigi næstu mánuði og missiri til stefnumótunar í sjávarútvegsmálum sem verði að miðast að gagngerðri endurskipulagningu í greininni.``
    Þarna er mjög sterkt tekið undir sjónarmið meiri hl. sjútvn. Ed., þ.e. okkar Skúla Alexanderssonar, Karvels Pálmasonar, Halldórs Blöndals, Danfríðar Skarphéðinsdóttur og Guðmundar H. Garðarssonar. Ég vek athygli hæstv. menntmrh. á þessu. Þannig að þeir samstarfsmenn sem hæstv. ráðherra á væntanlega innan Alþb., sem eru marktækir og Þjóðviljinn leggur áherslu á að komi sínum skoðunum á framfæri, leggja áherslu á það að þetta mál verði ekki afgreitt hér á þingi núna heldur vísað til samráðsnefndar. ( Forseti: Það er senn að líða að þingflokksfundartíma. Ég þarf að spyrja hv. ræðumann hvort hann sé rétt að ljúka ræðu sinni eða óski að fresta henni.) Ég á nú eftir, virðulegur forseti, að koma með þau áhersluatriði sem við sjálfstæðismenn erum með fyrir utan það sem ég hef þegar sagt. Það var ekki meiningin að tefja þessar umræður, en ég verð því miður, virðulegur forseti, að segja það að sumir af hv. stjórnarþingmönnum hafa gripið það oft fram í fyrir mér að ég hef ekki fengið svigrúm til þess að ljúka máli mínu með þeim hraða sem ég hefði óskað eftir þannig að ekki er við ræðumann að sakast. En að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til þess að ljúka minni ræðu þegar þingflokksfundir eru búnir og við hefjum hér umræður á ný. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður, en það hefði verið full ástæða til þess. Þar sem það er nú samkomulag að menn séu ekki með

málþóf hér, og það var ekki meining mín, þá skal ég reyna að vera stuttorður. Það hefði verið full ástæða til, virðulegur forseti, að ræða hér um einstök atriði í þeim frv. sem hér eru til meðferðar og ég hef vísað til og rætt um.
    Við meðferð þessa máls í nefndum kom fram ósk um það frá ákveðnum nefndarmönnum í sjútvn. efri og neðri deildar að svonefnd Lagastofnun Háskóla Íslands svaraði nokkrum spurningum í sambandi við efni þessa frv., þ.e. frv. til laga um stjórnun fiskveiða. Meðal þeirra atriða sem hv. þm., sem báðu um svör við ákveðnum spurningum, lögðu áherslu á var að því yrði svarað hver væri eignarréttur manna í þessu mikilsverða máli og hefði vissulega verið nauðsynlegt að ræða það. En það kemur fram m.a. í álitsgerð þeirra sem rita undir hana fyrir hönd lagastofnunarinnar, prófessoranna Sigurðar Líndals og Tryggva Gunnarssonar, að telja megi atvinnuréttindi á þessu sviði þess eðlis að þau njóti verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að atvinnuréttindi teljist sem eign. Að vísu segir í álitsgerðinni að sú vernd sé þó takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. ,,Atvinnuréttindi þau sem menn hafa helgað sér á sviði fiskveiða eru eignarréttindi,,, segir enn fremur í þessari
álitsgerð. Einnig segir í álitsgerðinni, virðulegi forseti: ,,Ákvæði frv. stofna ekki til einstaklingsbundins stjórnarskrárvarins eignarréttar fyrir veiðiheimildum. Á hinn bóginn afmarka þau og skilgreina nánar þau eignarréttindi í formi atvinnuréttinda sem við teljum að kunni að vera fyrir hendi.``
    Þetta er mjög athyglisverð niðurstaða sem ég fyrir mitt leyti get fallist á og tel að þessi niðurstaða styrki mjög stöðu þeirra sem þurfa að starfa undir, ég vil segja, þeim lögum sem gilda á hverjum tíma um stjórnun fiskveiða á Íslandi. Það hefði verið æskilegt að ræða um þessi atriði nánar í umræðunni m.a. út frá sjónarmiði nytjaraka, þ.e. út frá hugrænum sjónarmiðum varðandi eignarrétt og stöðu eignarréttar. Og svo einnig út frá hinum hagrænu efnisatriðum. En í stuttu máli sagt þá tel ég þýðingarmikið að þetta skuli hafa komið fram í þessari álitsgerð og mun þessi skoðun fara saman við skoðun margra sem í þessari atvinnugrein starfa sem og annarra.
    Ég vildi, virðulegur forseti, í framhaldi af því sem ég sagði hér áðan um afstöðu manna og stjórnmálaflokka til meðferðar þessa máls hér í Ed. þar sem við, sem myndum meiri hl. sjútvn. Ed., leggjum áherslu á það að vegna þeirrar grundvallarbreytingar sem varð á meðferð frv. til laga um fiskveiðistjórnun við það að úreldingarsjóðsfrv. var tekið inn í myndina með þeim hætti sem tillögur ráðherra gera ráð fyrir og stjórnarsinnar hafa tekið upp allflestir, og með tilliti til þess að það er fullkomlega ástæða til að vísa þessu máli til samráðsnefndar, eins og við leggjum til, þá vil ég vísa til þess að það er ekki aðeins sjónarmið okkar, þessa meiri hl. í sjútvn. Ed., sem mæla með því heldur vil ég leyfa mér að túlka þannig ummæli formanns Landssambands ísl. útvegsmanna í Morgunblaðinu 26. apríl sl. Það er því

fullkomlega ástæða til þess að staldra við og vísa báðum frv. til samráðsnefndarinnar. Að vísu er í umræddu viðtali haft eftir Kristjáni Ragnarssyni, formanni LÍÚ, að útgerðarmenn ættu í flestum tilfellum að geta sætt sig við þær brtt. sem fram væru komnar á frv. sjálfu --- ég undirstrika: á frv. sjálfu. ,,Hins vegar``, og vitna ég þar í ummæli formanns LÍÚ, ,,andmæltu þeir hugmyndum um breytingar á Úreldingarsjóði eða Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Kristján sagði að útvegsmenn teldu að kvótakerfið sem slíkt dygði til að stuðla að fækkun fiskiskipa og aukinni hagkvæmni í útgerð. Því væri þessum sjóði í raun ofaukið.``
    Þetta er náttúrlega mjög þýðingarmikil yfirlýsing af hálfu þessa forustumanns útgerðar á Íslandi og gefur mjög skýra ábendingu um það að auðvitað á að vísa báðum frv. og málinu í heild til samráðsnefndarinnar til frekari umfjöllunar, eins og við höfum lagt til.
    Ég vil, virðulegi forseti, að lokum segja varðandi það atriði sem hv. 5. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson telur að fullnægi sjónarmiði hans til þess að hann geti stutt þessi frv., þ.e. um vald ráðherra og ráðuneytis varðandi framkvæmd laganna og viðurlög, að ég er ekki sammála sjónarmiði hv. þm. Þó að hann hafi fengið það samþykkt að setja eigi á laggirnar einhverja nefnd sem eigi að fjalla um þessi atriði þá eru önnur atriði sem eru það þýðingarmikil að þó að þetta skipti miklu máli þá dugar það eitt út af fyrir sig ekki til þess að réttlæta svona veigamikla breytingu sem felur það raunverulega í sér að hagsmunaaðilum er meinað að fjalla um þessi frv. með þeim hætti sem æskilegt er ef þessu er ekki öllu vísað til samráðsnefndar.
    Í sambandi við svokallað ofurvald ráðuneytisins, þ.e. sjútvrn., þá hefur hæstv. sjútvrh. viðurkennt það m.a. með því að samþykkja að þessi nefnd verði sett á laggirnar, sem fullnægir kröfum hv. þm. Guðmundar Ágústssonar varðandi þetta mál, að það hefur ekki komið skýrt fram hjá þessum aðilum með hvaða hætti þeir ætla að nálgast það að breyta þessum áhersluatriðum frv. Eins og við vitum þá er um að ræða, ég vil ekki kalla það vald ráðuneytisins, öllu heldur afskipti ráðuneytisins, sem geta að vísu leitt til þess að við ákveðnar aðstæður er gripið til þess valds sem við teljum margir hverjir óæskilegt að sé í einu og sama ráðuneytinu. Í því felst ekki neitt vantraust á hæstv. ráðherra í sambandi við afskipti af þeim málum heldur teljum við það stjórnskipulega óæskilegt hver svo sem er ráðherra. Það eru þessi atriði sem við viljum að séu tekin til alvarlegrar endurskoðunar og þau verði þá færð til í stjórnsýslukerfinu eftir því sem við á þegar maður hefur það í huga að í sambandi við upptöku ólöglegs sjávarafla eru verkefni sjútvrn. m.a. fólgin í
eftirfarandi og ef maður tekur frv. eins og þau liggja fyrir og skoðar síðan þau tengsl sem hugsanlega geta komið upp og menn gætu freistast til þess að tengja saman:
    1. Ráðuneytið ákveður heildarafla, gefur út veiðileyfi og úthlutar veiðiheimildum til einstakra

skipa. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna að nánari reglur þurfi um þessi verkefni en koma fram í frv.
    2. Ráðuneytið annast eftirlit með framkvæmd laganna og ræður til þess sérstaka eftirlitsmenn sem hafa mjög víðtækt vald, nokkurs konar lögregluvald. Þetta þyrfti einnig að skoðast enn betur.
    3. Ráðuneytið leggur á sérstakt veiðieftirlitsgjald sem skal standa undir rekstri eftirlitsins að hálfu.
    4. Ráðuneytið úrskurðar hvort um ólöglegan sjávarafla er að ræða og ákveður upptöku hans. Ráðuneytið úrskurðar og um andvirði hins ólöglega sjávarafla. Þessar aðgerðir eru í eðli sínu refsingar og því ígildi dómsathafna að mati okkar sjálfstæðismanna.
    Samkvæmt því sem að framan greinir hefur sjútvrn. mjög mikið vald til að setja efnisreglur um stjórn fiskveiða innan ramma laganna. Ráðuneytið hefur einnig lögregluvald, það hefur vald til ákveðinnar skattlagningar, það hefur rannsóknarvald, saksóknarvald og dómsvald. Þetta er í hnotskurn eins og lesa má út úr frv. og þeirri framkvæmd þessara mála sem hefur verið allar götur síðan 1984. Það er mjög þýðingarmikið að þetta sé tekið til meðferðar og þessu verði breytt þannig að þarna eigi sér stað ákveðinn aðskilnaður sem tryggi að þetta sé ekki allt á einni og sömu hendinni. En ég vil taka það fram að þetta er ekki sagt vegna þess manns sem núna skipar stöðu sjútvrh. heldur sem ákveðnar grundvallarforsendur fyrir því að þess sé gætt sem skyldi að staða málsaðila sé tryggð sem best.
    Það er mat okkar sjálfstæðismanna að með tilliti til þess að núgildandi löggjöf rennur ekki úr gildi fyrr en um næstu áramót þá sé nægur tími til stefnu til þess að vanda málsmeðferð og gefa öllum aðilum kost á ítarlegri umfjöllun, sérstaklega í ljósi þeirra brtt. sem svokölluð ráðherranefnd tók sig saman um og sem hafa raunverulega gerbreytt öllum forsendum frv. til laga um fiskveiðistjórnun. Það er mjög skýrt afmörkuð stefna Sjálfstfl. í sambandi við fiskveiðistjórnun. Flokkurinn vill styðja skipan fiskveiðistjórnunar með framsölu á aflaheimildum þar til ákveðið jafnvægi hefur fengist milli sóknar fiskiskipa og afrakstursgetu fiskstofna. En þegar því marki verður náð þá er það okkar skoðun að ákveða þurfi að nýju skipan þessara mála. Það er einnig skoðun okkar að engin önnur leið sé fær í þessum efnum sem fullnægt getur þeim höfuðskilyrðum að tryggja sem best athafnafrelsi þeirra sem í sjávarútvegi standa jafnframt því sem fiskstofnarnir eru verndaðir fyrir ofveiði og stuðlað að sem mestri hagkvæmni í veiðum. Þessi grundvallarstefna okkar sjálfstæðismanna hefur legið fyrir þó að einstök framkvæmdaatriði kunni að hafa verið álitaefni af okkar hálfu eins og annarra, eins og fram hefur komið hér í ræðum okkar sjálfstæðismanna í sambandi við afgreiðslu þessa frv.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég að það komi skýrt fram að af hálfu sjálfstæðismanna var ákveðinn vilji fyrir því að reyna að leysa hið vandasama mál sem felst í því að ákveða lög um stjórnun fiskveiða fyrir næstu ár. Það var ákveðinn jákvæður vilji til að leysa það í stórum dráttum á grundvelli frv. til laga

um fiskveiðistefnu eins og það birtist deildinni hér í sinni upprunalegu mynd.
    Hæstv. sjútvrh. kaus að leita annarra leiða í sambandi við það að tryggja framgang þeirra meginsjónarmiða sem fólust í frv. Því miður verð ég að segja það að í þeim efnum féll hann fyrir þeirri freistingu, sem sjaldan kemur nú fyrir þann mann, þ.e. hæstv. sjútvrh., að hann fór í hrossakaup við oddamenn annarra flokka sem styðja þessa ríkisstjórn. Þau hrossakaup hafa því miður leitt til þess að þeim grundvallarsjónarmiðum, sem við hefðum talið æskilegt að væru í heiðri höfð, var varpað fyrir róða með þeim alvarlegu afleiðingum sem bæði frv. fela í sér. Þessi frv., ef afgreidd verða, fela í sér aukin ríkisafskipti á sama tíma og það grundvallarprinsipp er viðurkennt að til greina komi, og meira en að til greina komi, að upp hefjist svokölluð auðlindaskattheimta á sjávarútveginn. Formælendur auðlindaskatts hafa þegar lýst yfir ánægju sinni yfir þessum áfangasigri að þeirra mati. En í fáum orðum má segja að auðlindaskattsleiðin feli í sér þegar upp er staðið meiri ríkisafskipti en kerfi framseljanlegra aflaheimilda. Þetta vil ég undirstrika alveg sérstaklega. Þess vegna er það mjög eðlilegt að hér á hinu háa Alþingi og nú í þessari deild sé tekist hart á um þær grundvallarbreytingar sem nú eiga sér stað þótt í smáum stíl séu.
    Í tengslum við þetta á síðan að stofna nýjan sjóð þar sem sköpuð eru skilyrði fyrir stjórnmálamenn og embættismenn að vera með geðþóttaúthlutanir í sambandi við fiskveiðikvótann. Slíkt fyrirkomulag vinnur gegn hagræðingarsjónarmiði eðlilegrar fiskveiðistjórnunar. Sú leið opnar gáttir fyrir mismunun og pólitíska spillingu. Gegn því berjumst við sjálfstæðismenn.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, ljúka mínu máli og ítreka þá skoðun okkar sjálfstæðismanna að frv. eigi að vísa til samráðsnefndar til frekari skoðunar með hliðsjón af þeim grundvallarbreytingum sem hafa orðið á frv. frá því að það var afgreitt út úr nefndinni.