Stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Nokkuð hefur verið talað um það hér í þessari umræðu hvernig að undirbúningi málsins hafi verið staðið. Ég hygg að allir séu sammála um að þetta frv. átti sér langan aðdraganda. Nefndin sem undirbjó það var skipuð sumarið 1988. Ég hef ekki skilið hv. þm. svo hér í dag að málið hafi verið illa undirbúið, nema þá e.t.v. að því leyti að það fórst alveg fyrir að ræða nýjar hugmyndir. Það skortir mjög á forvitni manna til þess að kynna sér nýjar hugmyndir, ræða þær og reyna að útfæra.
    En ég ætlaði að gera örfáar athugasemdir. Ég heyrði reyndar ekki upphaf orða hv. formanns sjútvn. Stefáns Guðmundssonar. En þar sem ég kom hér inn í þingsalinn datt mér helst í hug andlegt eldgos þar sem mér sýndist hv. formaður vera í mikilli geðshræringu. Hann hélt þó ró sinni alveg ágætlega meðan við vorum á hinum fjölmörgu fundum í hv. sjútvn. Eftir því sem ég best gat heyrt sakaði hann okkur kvennalistakonur um ábyrgðarleysi. Ég hlýt að vísa því á bug, því að eins og ég gat um í máli mínu og eins og hann hlýtur að þekkja höfum við reynt að taka hér málefnalega á öllum þeim málum sem fyrir hafa verið lögð, auk fjölda mála sem við sjálfar höfum lagt fram og undirbúið. Við undirbjuggum þær brtt. við þetta frv. sem ég mælti fyrir í dag samkvæmt okkar sannfæringu.
    Ég tel að hann hafi sýnt vanmat og vantrú á sveitarstjórnum og þeirra tengslum við og tilfinningu fyrir þeirri útgerð sem er á hverjum stað. Það verður auðvitað alltaf svo að það verða skip sem sækja aflann. Tillögur okkar gera alls ekki ráð fyrir því að það verði bæjarstjórinn sem er skipstjórinn og hann fari með bæjarstjórnina að sækja fiskinn. Það verða að sjálfsögðu skip sem fara og sækja fiskinn. Það sem við erum að leggja til með okkar brtt. er að sveitarfélögin hafi þar meira um að segja, geti í raun ákvarðað miðað við aðstæður á hverjum stað hvernig þær vilji úthluta þeim veiðiheimildum sem þær
fá frá ráðuneytinu. Ég hef þá trú á sveitarstjórnum að þær skilji nú jafnvel enn betur en ráðuneyti í Reykjavík hvaða þarfir eru á hverjum stað, hvernig er háttað t.d. veðsetningu skipa og ég get ekki séð að samningsstaða sjómanna breytist vegna þess að áfram mun fiskurinn sem þeir draga úr sjó kosta peninga og þeir munu gera sína kjarasamninga með tilliti til þess. ( HBl: Þú kannski bætir því við að það þurfi að takmarka netalagnir í sjónum.) Já, þetta vildi ég láta koma fram hér núna, að mér sýnist í lok þessarar umræðu, mér virðist nú farið að styttast í henni.
    Ég get tekið undir það sem hv. formaður staðfesti, að enn einu sinni stöndum við hér og erum að ræða þetta mál í tímahraki. Við höfum sett okkur ákveðið lokatakmark og ef við ætlum að halda því til streitu, þá er greinilegt að þetta mál muni brátt verða að fara úr okkar höndum. Og það að við skulum ræða þetta í tímahraki nú, eftir allan þennan langa undirbúningstíma, er auðvitað alveg óviðunandi. Þetta

gerðist líka um áramótin 1987--1988. Og það er e.t.v. þess vegna að ekki komast nógu vel á framfæri ýmis sjónarmið og hugmyndir. Ég vil að lokum vara við því að menn sýni ekki hugmyndum og tillögum annarra, hvort sem það eru hv. samþingmenn eða fólkið í landinu, ákveðinn áhuga og forvitni því nýjar hugmyndir kvikna auðvitað alls ekki nema hugurinn sé sístarfandi og opinn fyrir nýjungum.
    En ég vil svo að lokum, vegna orða hv. formanns sjútvn. um tillögur okkar í Kvennalistanum, líka bæta því við að við gerum okkur fulla grein fyrir því að við erum ekki með neitt ráðuneyti á bak við okkur sem útfærir í smáatriðum hverja einustu tillögu. Og við höfum lýst því alveg frá upphafi að auðvitað værum við tilbúnar að skoða nánari útfærslu þeirra, væri fyrir því áhugi að kynna sér þær nánar. Þess vegna styð ég þá tillögu að málinu verði vísað til stóru ráðgjafarnefndarinnar og svo tekið til nánari athugunar og við síðan ræðum þessi mál í ró og næði í haust. Allir hljóta að gera sér það ljóst á þessari stundu að það þarf að skoða hugmyndir betur og gera tilraun til þess að útfæra þær og leggja á þær mat.