Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Klukkuna vantar nú 21 mínútu í tvö. Það var ætlunin í góðu samkomulagi við hæstv. forseta að reyna að ljúka hér störfum í deildinni svona um miðnættið, ekki yrði gert veður út af því þótt eitthvað færi fram yfir miðnættið, ljúka afgreiðslu þeirra mála sem við einmitt nú höfum gert. Hins vegar var vissulega gert ráð fyrir því fyrr í dag að þeirri afgreiðslu yrði lokið miklu fyrr en varð og mætti þá taka fyrir það mál sem forseti hyggst nú taka á dagskrá, yfirstjórn umhverfismála.
    Ég vil aðeins í allri vinsemd benda á að boðaðir eru nefndarfundir kl. 8 í fyrramálið, boðaðir eru þingfundir kl. 10 sem væntanlega standa til kl. 1 eða rúmlega það og annað kvöld er fundur í Sþ. sem væntanlega stendur fram yfir miðnætti. Og ég held að alveg sé ljóst að á föstudag verða langir þingfundir. Þeir hljóta að hefjast fyrir hádegi án þess að ég viti það með vissu og standa vafalaust fram á nótt og einhverjir fundir verða á laugardag, ekki bara þinglausnafundur ef ég spái nú rétt í spilin. Þetta sem ég er að segja miðast auðvitað allt við að þinglausnir verði á laugardag og ekkert annað liggur fyrir en það að þinglausnir verði á laugardag.
    Ég spyr hæstv. forseta hvort honum þyki ekki nóg kveðið hér á þessum fundi og hvort við vinnum nokkuð við það að halda hér áfram lengur en við nú höfum gert. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann gæti ekki fallist á það að við lykjum þessum fundi núna og héldum þá áfram heldur hressari í fyrramálið en við verðum ef við tökum til við að ræða þetta mál sem er fyrst á dagskrá.