Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Gleðilegt sumar. Það fór ekki fram hjá neinum að hæstv. utanrrh. var að koma úr loftinu þegar hann kom hér í þingsalinn og fór hér upp í ræðustól áðan. Ég held að hann hafi ekki séð, hafi flogið það hátt. Það var eins og hann væri ofan skýja þegar hann flutti sína ræðu. Hæstv. ráðherra var að segja þjóðinni hvers mætti vænta ef það yrði nú álver sem yrði byggt á Íslandi. Ég mun koma svolítið betur að því síðar.
    Það var mikil glansmynd sem hv. þm. Guðni Ágústsson flutti yfir okkur hér áðan. Mér datt í hug að það væri ósköp líkt og var sagt um einn bónda sem var heylítill, að þegar hann setti kýrnar út þá setti hann á þær græn gleraugu. Hvernig er umhorfs í þjóðlífinu? Hafið þið athugað auglýsingarnar þar sem verið er að auglýsa íbúðir og annað í hundraðatali? Hafið þið heyrt um fólkið sem er með 60--70 þús. kr. á mánuði eða enn þá minna? Hafið þið heyrt um að menn eru að keppast um álver? Þó vill það enginn. Þó vill það enginn, ef í boði væri eitthvað annað. En stjórnvöld, ráðamenn þessarar þjóðar, standa þannig að málum að því er ekki boðið annað. Og vegna þess að hv. þm. Guðni Ágústsson var með þessa glansmynd vil ég segja frá því að ég fékk áðan skeyti sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga átelur harðlega þann seinagang sem er á afgreiðslu málefna loðdýrabænda og skorar á stjórnvöld að koma í veg fyrir frekari gjaldþrot þeirra á meðan unnið er að lausn þeirra mála.`` Ég kem með þetta sem sýnishorn af því ástandi sem er í þjóðfélaginu þó menn sem eru hér innan dyra virðist ekki átta sig á því hvað er utan veggja.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð settu mín samtök það á oddinn að það yrði sett inn í stjórnarsáttmálann að mörkuð yrði sérstök fiskvinnslustefna. Við lögðum áherslu á það að þetta kæmi inn. Að vísu var tregða á því, en okkur var ljóst, og er það kannski enn þá ljósara nú, að
þetta er stærsta mál þjóðarinnar. Enda segir í lögum um þetta efni að þjóðin eigi þessa auðlind, fiskimiðin. Í framkvæmd er það þannig að það eru þeir sem eiga skipin. Og það er komið svo langt að þeir eru farnir að telja sér það til eigna á framtölum sínum. Við höfðum mann sem vann í þeirri nefnd sem fjallaði um fiskvinnslustefnuna og kvótamálin og hann kom með sitt álit. Ég var að vísu ekki alveg sáttur við það. Mér fannst að það væri stigið skemmra skref en ég hefði viljað, þ.e. að til byggðanna eða fiskvinnslunnar yrðu færð 30% í fyrsta skrefi til þess að fiskvinnslufólkið hefði einhvern rétt líka. Það er alltaf verið að tala um hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Er það ekki fólkið? Er það ekki fólkið sem vinnur í frystihúsunum? Er það ekki þjóðin öll?
    Við vildum líka koma í veg fyrir að seldur yrði óveiddur þorskur, a.m.k. út úr hverju byggðarlagi, og við vildum í þriðja lagi að ef ætti að flytja út óunninn fisk á annað borð þá ættu allir að fá vissa prósentu

hvort sem hún yrði 10% eða 15% eða hver hún væri. Þeir sem væru t.d. í Grímsey eða á Austfjörðum sumum hverjum, Vestfjörðum eða annars staðar hefðu þá leyfi til að leigja þennan útflutningskvóta sinn og fengju fyrir það greiðslu til þess að jafna aðstöðuna.
    Það er alls ekki nóg að kenna ríkisstjórnina við jafnrétti og félagshyggju. Athafnir verða að fylgja orðum. Ég viðurkenni að ekki er allt vont við það frv. sem við erum nú að fjalla um, það er langt í frá. En þetta eru afgerandi atriði og þess vegna höfum við allan tímann lagt þunga áherslu á að farið yrði eftir óskum fólksins, þessari auðlegð væri skipt á milli og byggðirnar gætu samið við þá sem eiga skipin: Ef þið landið hjá okkur, þá fáið þið að veiða okkar kvóta.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta efni en vil þó segja það að þessi Hagræðingarsjóður er lítið skref, 6000 þorskígildi sem er hægt að skipta á milli þeirra sem verst eru settir, en það er skref og getur komið fáum að gagni en e.t.v. bjargað einhverjum byggðum. Og það er í vissum tilvikum líka skref að sveitarfélögin eigi forkaupsrétt að skipum. En fyrir þau sveitarfélög sem allt fé er farið frá og einstaklingum sem þar búa, hvaða gagn er það fyrir þau að hafa þennan rétt? Það verður þá eitthvað að fylgja með til þess að málum sé bjargað í þeim tilvikum.
    Ég er alveg hneykslaður á þeim sem eru enn þá að tala um sjóðina og harma það að þessi ríkisstjórn reyndi að bjarga þeim byggðarlögum sem voru illa sett þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fór frá. Getur það verið að einhverjir þessara manna harmi það að þeir eða þeirra vinir gátu ekki náð þessum fiskvinnslustöðvum og þessum skipum undir sig, er það það sem þeir eiga við? Hvað er það? Þetta er það mál sem rís náttúrlega langhæst hjá þessari ríkisstjórn og menn verða að vera menn til þess að viðurkenna það sem vel er gert en líka að reyna ekki að breiða yfir það sem er illa gert.
    Það urðu nokkrar umræður um raforkuvirkjanir hér á þingi í gær. Ég kom með útreikning á því hver orkan þyrfti að vera, þ.e. ef það er meiningin að virkja og selja orkuna á kostnaðarverði. Ég ætla ekki að fara mikið út í það. Ég mun skrifa hæstv. iðnrh. bréf og birta þessa útreikninga. En með því móti að
reikna þetta þannig út að taka þá 15 virkjunarmöguleika sem nú er búið að gera áætlun um og með 9% vöxtum eins og vextir eru yfirleitt nú orðið erlendis, þá þyrfti að selja þessa orku til stóriðjunnar á upp undir 2,30 íslenskar krónur. Og hver ætli vilji borga það verð? En það getur vel verið að menn ætli að borga þetta niður með einhverjum hætti, það kann að vera.
    Þorsteinn Pálsson, hv. 1. þm. Suðurl., talaði um sundurlyndi í þjóðfélaginu. Af hverju er sundurlyndi í þjóðfélaginu? Það er vegna þess að það er misrétti, það er mikið misrétti í þjóðfélaginu eins og ég kom að áðan. Af því skapast sundurlyndi.
    Ég flutti þáltill. nú og í fyrra um að gerð yrði athugun á lágmarksframfærslukostnaði í landinu og óskaði eftir því að Hagstofunni yrði falið þetta

verkefni. Þessi tillaga fær ekki náð fyrir augum þeirrar nefndar sem um þetta á að fjalla og afgreiða það. Hvers vegna skyldi það vera? Getur það verið að menn séu hræddir við að sjá framan í þær tölur, getur það verið? Eða hvers vegna er setið á svona sjálfsagðri tillögu ár eftir ár?
    Það er dálítið sérkennilegt mál sem hefur komið á borð mitt. Það er tilraunastöðin á Reykhólum. Það er verið að leggja hana niður. En það eru gildandi lög í landinu að þessi stöð eigi að starfa áfram, það er ekki búið að fella þau úr gildi. Svo er sett inn í fjárlög þessi grein, ,,að selja fasteignir tilraunastöðva Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem ónauðsynlegar verða vegna breytinga á starfsemi stofnunarinnar sökum fyrirhugaðra breytinga á skipulagi tilraunastarfseminnar, og verja andvirði þeirra til uppbyggingar á starfseminni annars staðar.`` Þetta er eina tilraunastöðin þar sem er ósýkt fé. Ég hef bréf frá Álafossi þar sem lögð er mikil áhersla á að þessari starfsemi verði haldið áfram. Og þar kemur fram hvað þeir telja þessa starfsemi mikilvæga. En þessa stöð á að leggja niður þó að tilraunastöðin á Keldnaholti haldi áfram að bólgna út.
    Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð talaði ég um það við hæstv. landbrh. að þarna yrði að færa til og færa þessa tilraunastarfsemi út til fólksins, út á landsbyggðina. Það hefur ekki verið gert.
    Tími minn er senn búinn og þess vegna vil ég segja það að ég tek undir með hæstv. landbrh., allt það sem hann sagði um EB og þá samninga sem þar eru í gangi. Ég vara við að ganga langt í þeim samningum og ég vara við að gengið sé langt í þeim viðræðum sem eru í gangi. Ég vil svo að endingu segja: Ég vona að þetta sumar, sem loksins er nú komið, verði gott og gjöfult þjóðinni.