Innflutningur dýra
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. landbn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um þetta frv. og fengið til viðtals við sig Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra og Brynjólf Sandholt yfirdýralækni.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Nefndin vill þó benda á að í 4. gr. frv. eru aukaorð, greinilega komin þar af vangá. Það er í næstneðstu línu þar sem sagt er: ,,Skal nefndin gera tillögu um hvaða kyn og tegund ...`` Orðin ,,og tegund`` eru aukaorð þarna inni og tengjast ekki þeirri hugsun sem í greininni er og því eðlilegt að þau verði felld burt við prentun.
    Nefndin fjallaði aðeins um þann þátt 13. gr. að í stað ,,búfjárræktarnefndar``, til þess að fá staðfesta viðurkenningu svo sem í greininni segir, komi ,,landsráðunautur``. Það varð ofan á að leggja ekki til að þessu yrði breytt, enda er landsráðunautur í þessari nefnd. ( EgJ: Formaður hennar.) Já, og er formaður hennar og verður honum þar af leiðandi skylt að afgreiða þetta mál þó ekki sé nefnt að hans þáttur sé beinn í þessari viðurkenningu.