Búnaðarmálasjóður
Föstudaginn 04. maí 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Mér þykir vert að taka fram að varðandi það sem ég sagði, að búnaðarþing hefði þurft að leita eftir því að fá frv. til umfjöllunar, þá átti ég þar ekki við landbrh. Ég hef ekki heyrt það að hann hafi haft neitt á móti því og hann hefur reyndar lýst öðru yfir. Ég vil ekki að menn standi í þeim misskilningi að ég hafi haldið því fram hér að hæstv. landbrh. hafi ekki viljað að umfjöllun færi fram um málið á búnaðarþingi.
    En það haggar ekki því að þær ábendingar sem komu fram á búnaðarþingi, svo óvenjulegt sem það kann að virðast því að við höfum mikla og góða reynslu af því að setja fram vel rökstuddar tillögur og sjálfur hef ég fengið reynslu fyrir því að þær hafa mikil áhrif í Alþingi, en þær tillögur sem búnaðarþing setti fram og aðvaraði sérstaklega um komust ekki inn fyrr en við afgreiðsluna í Nd. Alþingis. Eins og málið var lagt hér fram var því ekki tekið neitt mið af því hvað búnaðarþing vildi í þessum efnum og ég endurtek það sem ég sagði áðan, að ég er þakklátur þeim mönnum sem gengust fyrir því að þær breytingar komust á og að málið er með þeim hætti vel ásættanlegt.