Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 04. maí 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég tek undir það sem fram kom hér í ræðu hv. 5. þm. Reykn. Geirs Gunnarssonar þegar hann mælti fyrir tillögu sem við þingmenn Reykn. flytjum við það frv. sem hér er til meðferðar. Það er skoðun okkar að það eigi að verða við þeirri ósk sem fram hefur komið frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þar um er enginn ágreiningur. Við teljum að að vissu leyti sé hægt að rökstyðja með sérstöðu uppbyggingar St. Jósefsspítala og ég get sagt það hér með fullri vissu að hefði mönnum dottið það í hug sem hér er að gerast hefði það verið tekið fram í samningi þeim sem gerður var á sínum tíma, þegar St. Jósefsspítali var eignalega færður frá reglunni yfir til ríkis og bæjar, að til þessa kæmi ekki. Ég þekki nokkuð sögu Landakotsspítalans og þeirra sjónarmiða sem ríktu þegar frá þeim kaupum var gengið og sú sérstaða sem óskað var eftir þá var fyrir hendi þegar St. Jósefsspítali var yfirtekinn af ríki og bæ.
    Hæstv. heilbrrh. sagði að ekkert væri sérstakt varðandi Hafnarfjörð og vék þá t.d. að Keflavík. Það er mikill munur þar á, geysilegur munur, og hann liggur í því að annað bæjarfélagið hefur óskað eftir þessu en hitt ekki. Út frá því sjónarmiði, að óskað er eftir breytingu af einu bæjarfélagi, sýnist mér þess vegna að engin ástæða sé til annars en að verða við því.
    Það kom umsögn frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, frá 14. des. 1989, og í bréfi, sem þeir rita 27. apríl og heilbrrh. hefur fengið afrit af og hv. þm. Geir Gunnarsson lagði fram í heilbrn., er það undirstrikað og þess m.a. óskað að á það verði látið reyna. Ég vildi nú leyfa mér að spyrja formann nefndarinnar hvort ekki hefði verið ástæða til þess þegar málið var þar til umfjöllunar að fá bæjarráð eða bæjarstjóra frá Hafnarfirði til þess að ræða við nefndina og skiptast þar á skoðunum í sambandi við þá beiðni sem frá þeim kemur í bréfinu. Ég veit ekki hvort hv. 5. þm. Norðurl. v. sem var frsm. hér
áðan --- Er ekki rétt að hann er líka formaður? --- má vera að því að hlusta á það sem hér er sagt. Ég get vel ímyndað mér að hann hafi verið í meira spennandi viðræðum en að hlusta, en ég sagði: Hv. þm. Geir Gunnarsson lagði fram í nefndinni bréf til þingmanna með afriti til heilbrrh. Væri ekki ástæða til þess og væri ekki ástæða til þess, og beini ég því þá til forseta deildarinnar í leiðinni, að þessari umræðu verði frestað og nefndin kveðji á sinn fund bæjarstjóra eða bæjarráð eftir því sem hann mundi meta til þess að fá þau sjónarmið þar fram sem liggja til grundvallar þeirri beiðni sem fram kemur í bréfinu og síðan í þeirri tillögu sem þingmenn Reykn., að undanskildum hæstv. forsrh., flytja?