Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Fyrir þá hv. þm. sem af ýmsum ástæðum vilja komast burtu úr þessum sal fremur fyrr en seinna vil ég aðeins segja að ég held að ástæðulaust sé fyrir þá að óttast þó að ég hafi nokkuð af gögnum með mér hér upp í ræðustól. Ég hef haft þann hátt á að geyma þær upplýsingar sem ég hef um kvótamálið á einum stað, og það er staður sem ég er með hér í höndum. Ég ætla mér ekki þá dul að fara að lesa það allt saman upp en ætla hins vegar að sjálfsögðu að flytja efnislega ræðu um það sem ég tel máli skipta í þessu sambandi og gera það nokkuð rækilega án þess að vera að orðlengja neitt sérstaklega um það mál.
    Mig langar til þess að vekja athygli á því, virðulegi forseti, hversu mikill munur er á þeim umræðum sem nú fara fram um stjórn fiskveiða og þeim umræðum sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum þegar stjórn fiskveiða var fyrst hér á dagskrá á hinu háa Alþingi. Þá voru umræðurnar fyrst og fremst um ástæðurnar fyrir því að grípa þyrfti til sérstakra aðgerða til að stjórna fiskveiðum, draga úr sókn og minnka afla. Umræðurnar voru fyrst og fremst um það hvert væri ástand fiskstofnanna í sjónum og út frá því hvers vegna þyrfti að grípa til sérstakra ráðstafana til að minnka afla eða draga úr sókn. Nú er þessi umræða gjörsamlega horfin. Það minnist ekki nokkur maður lengur á ástand fiskstofnanna nema svona í framhjáhlaupi. Umræðan er öll orðin um stjórntækið. Stjórntækið eitt er farið að lifa sínu sjálfstæða lífi gjörsamlega án tillits til þess sem var meginatriði málsins í upphafi, þ.e. hvort ástæða sé til að draga eins mikið úr veiðum og sókn eins og látið var í veðri vaka. Þetta er svona svipað og ef sjúklingur leitar læknis vegna veikinda, ímyndaðra eða raunverulegra, og læknarnir sem við honum taka skoða hann og komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé að og hefja svo umræður um þær aðgerðir sem til greina gætu komið til þess að sjúklingurinn næði fullum bata. Eftir því sem umræðurnar um tækin stæðu lengur, hvaða meðul ætti að nota, í hve miklum mæli, hvort grípa ætti til frekari aðgerða, gleymdist sjúklingurinn sjálfur þannig að fyrr en varði væri aðalumræðuefnið orðið meðulin, tækin og tólin en menn væru búnir að gleyma því hvort sjúklingurinn væri hress eða sjúkur, hvort hann væri lifandi eða dauður. Og það er þannig sem umræðan um kvótakerfið hefur þróast. Umræðan snýst öll um sjálf tækin, sjálft kerfið, en meginatriði málsins sem var kjarninn í allri umræðunni þegar lög um stjórn fiskveiða voru fyrst rædd hér á þingi, þ.e. ástand fiskstofna í sjónum, er algjörlega fallið í skuggann, menn eru orðnir algjörlega blindaðir af kerfinu, stjórnkerfinu einu saman og um það snýst öll umræðan. Stjórnkerfið í fiskveiðum er því orðið til stjórnkerfisins vegna en ekki sem tæki til þess að ná einhverjum tilteknum ákveðnum árangri í sambandi við þróun og uppbyggingu fiskstofna.
    Það er þetta sem mér finnst mjög hafa skort á í

þessari umræðu að menn ræddu um, en það er auðvitað ríkust ástæða til þess að fjalla um það grundvallaratriði hvort ástæða sé til þess og rök til þess að draga svo mikið úr fiskveiðum á Íslandsmiðum eins og reynt er að gera með kvótakerfi og öðru. Menn þurfa fyrst að komast að niðurstöðu um það og ræða síðan kerfið á eftir en ekki öfugt og alls ekki þannig, eins og það hefur verið, að menn ræði um stjórnkerfið stjórnkerfisins vegna.
    Mig langar til að fara aðeins nokkrum orðum um hvernig háttar til hér á Íslandsmiðum og hvernig háttað hefur til hér á Íslandsmiðum um áratuga skeið. Strax árið 1924, þegar togaraöldin var að ganga í garð, veiddu menn hér á Íslandsmiðum 320 þús. tonn af þorski. Íslendingar veiddu þá sjálfur 162 þús. tonn og útlendingar veiddu 158 þús. tonn. Þessi afli fór síðan vaxandi ár frá ári. 1925 voru veidd 332 þús. tonn af þorski, 1927 343 þús. tonn, 1928 364 þús. tonn, 1929 398 þús. tonn, 1930 499 þús. tonn. Á því bili helst síðan aflinn til 1933 þegar hann fer upp í 518 þús. tonn og helst þar þangað til dregur úr sókninni vegna styrjaldaráranna. En allan þennan áratug frá árinu 1924 og til ársins 1939 er þorskafli á Íslandsmiðum frá 330 og upp í 590 þús. tonn.
    Ég ætla aðeins að benda mönnum á annan hlut í þessu sambandi. Hvers konar fiskur var það sem menn voru þá að veiða? Hvar stunduðu hinir erlendu togarar sínar veiðar á þessum árum? Hinir erlendu togarar stunduðu sínar veiðar við Ísland á þessum árum fyrst og fremst á grunnslóð. Meginuppistaða í afla þessara togara var smáfiskur. Þeir voru að kraka uppi undir landsteinum í smáfiski á uppeldisstöðvum þorsksins. Ef fiskifræðingar hefðu verið til þá hefðu þeir sjálfsagt bannað þessar veiðar vegna þess að slíkar veiðar mundu að þeirra mati hafa gereyðilagt þorskstofninn. Fiskifræðingar voru engir á þessum árum og þessar veiðar voru svona stundaðar. En samt sem áður varð niðurstaðan sú að þorskafli á Íslandsmiðum var á þessum árum frá 350 og upp í 590 þús. tonn.
    Strax eftir stríðið fer aflinn upp í svipað magn. Árið 1947 er aflinn kominn upp undir 250 þús. tonn, fer síðan ört vaxandi, er á áratugnum 1950--1960 á bilinu 450--550 þús. tonn á hverju einasta ári. Þá er afli Íslendinga sjálfra
um 240--280 þús. tonn en afli útlendinga álíka mikill. Þetta er aflareynslan af Íslandsmiðum. Þetta er sú aflareynsla sem við höfum frá tímabilinu 1924--1939. Þetta er sú aflareynsla sem við höfum frá fimmta áratugnum, frá sjötta áratugnum og frá sjöunda áratugnum. Þetta er sá afrakstur sem sagan segir okkur að Íslandsmið hafi getað skilað og þessu hafa Íslandsmið getað skilað ár eftir ár án þess að aflabrestur yrði.
    Nú er skyndilega komið og sagt: Þetta gengur ekki lengur. Það verður að minnka þennan afla úr 500--600 tonnum á ári niður í 250 og helst neðar og ég spyr: Af hverju? Af hverju þarf að grípa til þessara ráða þegar sagan segir okkur allt annað? Fiskifræðingar segja: Þetta er sagnfræði en ekki fiskifræði. Það er

alveg rétt að það er sagnfræði en ekki fiskifræði hvað hefur gerst í fiskveiðum á Íslandsmiðum alla þessa öld. En sagnfræði kallast öðru nafni reynsla. Það er reynslan af afrakstursgetu fiskimiðanna við Ísland sem þessi sagnfræði er að segja okkur frá. Og ég spyr: Hvers vegna þarf að skera þessa aflareynslu niður, þessa afkastagetu fiskimiðanna, um helming? Við því hefur aldrei fengist fullnægjandi svar. Það svar var gefið fyrst árið 1976 í ,,svörtu skýrslunni`` svokölluðu. Þá var sagt að ef haldið yrði áfram að fiska þorsk í einhverjum svipuðum mæli eins og gert hefði verið áratugina þar á undan mundi þorskstofninn hrynja á örfáum árum, 1--2 árum, og fiskifræðingar kröfðust þess að þegar í stað yrði íslenskum fiskimönnum bannað að sækja þann afla sem feður þeirra og afar höfðu gert í áratugi. Það var ekki hlustað á rök fiskifræðinga nema að mjög óverulegu leyti á árunum 1976, 1977 og 1978 og aflamagnið dróst ekki saman eins og þeir spáðu heldur var á þessum árum milli 350 og 400 tonn.
    En það gerðist ekki sem fiskifræðingarnir sögðu að mundi gerast ef haldið yrði áfram að sækja afla í svipuðu magni eins og gerst hafði á árunum áður. Fiskifræðingarnir sögðu að ef þetta mundi gerast, sem svo gerðist, mundi þorskstofninn hrynja á 2--3 árum og verða alger ördeyða á Íslandsmiðum. En sú ördeyða varð ekki. Og þegar fiskifræðingar eru síðan spurðir: Af hverju gerðist það ekki sem þið sögðuð að mundi gerast ef ekki yrði farið að ykkar tillögum? --- svara þeir og segja: Þær aðferðir sem við notuðum til þess að meta veiðiþol og stofnstærð á þessum árum voru ekki fullnægjandi. En við höfum svo miklu betri aðferðir í dag til þess að meta þetta. Með öðrum orðum, þeir viðurkenna það að ekki voru ástæður fyrir þeim viðvörunum sem þeir létu frá sér fara árið 1976. Þeir viðurkenna það af því að þeir geta ekki annað en viðurkennt það því að reynslan hefur skorið úr. Sagnfræðin skar úr. En þeir segja bara í staðinn: Við erum með svo miklu betri aðferðir til að meta þetta í dag en við vorum með þá að það sem við fullyrðum í dag er miklu réttara en það sem við fullyrtum þá. En engin rök hafa samt sem áður komið fram frá þeim, ekki svo að ég hafi heyrt, um það hvers vegna þurfi að skera niður þann afla um allt að helming sem sagan segir okkur að íslensk fiskimið geti skilað í þjóðarbúið. Þau rök hafa aldrei komið fram, heldur hafa þeir fyrst við þegar þeir eru spurðir um slík svör og rætt um vísindaheiður, rætt um brjóstvit sem ekki beri að taka mark á, rætt um kröfur sjómanna, rætt um að verið sé að gera lítið úr þeirra menntun o.s.frv. o.s.frv. En rök fyrir því að skera afla svo mikið niður eins og þeir leggja til hafa ekki komið frá þeim. Og við skulum gera okkur grein fyrir því hvað þeir eru að segja, með öðrum orðum. Það sem þeir eru að segja er það að ekki sé óhætt að taka í þorskafla við Ísland meira en Íslendingar tóku sjálfir áður en allar útfærslur íslensku fiskveiðilögsögunnar komu til. Með öðrum orðum, þeir eru að óska eftir því að Íslendingar skilji eftir á Íslandsmiðum allan þann afla sem erlendir togarar tóku á Íslandsmiðum fyrir

útfærslu landhelginnar. Það eru tillögur fiskifræðinganna að öll útfærsla íslenskrar fiskveiðilögsögu frá byrjun hafi verið unnin fyrir gýg.
    Þetta eru ekki staðlausir stafir, virðulegi forseti. Tillögur þeirra nú eru um það að ekki sé óhætt að taka nema 250 þús. tonna þorskafla á Íslandsmiðum. Það er sami afli og kom á land, veiddur af íslenskum fiskiskipum, árið 1933. Þá veiddu erlend fiskiskip 271 þús. tonn af þorski við Ísland og það sem fiskifræðingarnir eru að segja okkur núna án þess að styðja það frekari rökum en ég hef rætt um áður er að ekki sé óhætt að taka meiri afla á Íslandsmiðum en Íslendingar tóku árið 1933 og öll sú viðbót sem útlendingar tóku á því ári sem var meiri en afli Íslendinga og allir þeir sigrar sem Íslendingar hafa unnið í landhelgisbaráttunni síðan eigi að verða okkur til einskis gagns. Við eigum að ávaxta það í sjónum, við eigum að láta þann afla óhreyfðan á Íslandsmiðum. Það sem útlendingar tóku áður sé Íslendingum ekki óhætt að nýta. Sá fiskur eigi annaðhvort að verða sjálfdauður eða öllu heldur, sem þeir vilja nú halda fram, að hann sé ekki til.
    Þetta var önnur sú forsenda sem upphaflega var gefin fyrir nauðsyn þess að draga úr afla á Íslandsmiðum og sókn, sú fullyrðing fiskifræðinganna að þorskstofninn við Ísland þyldi ekki þann afla sem sagan segir okkur og reynslan segir okkur að hafi verið sótt í sjó við Ísland alveg frá því að togaraöldin hófst á þessu landi og við þetta land.
    Annað atriði sem hefur verið sameiginlegt báðum þeim stjórnkerfum sem við höfum notað í sambandi við fiskveiðistjórn, sameiginlegt bæði kvótakerfinu og skrapdagakerfinu, er sú kenning að unnt sé að geyma fiskinn í sjónum og ávaxta hann þar eins og fé á bankareikningi. Það sé unnt að geyma smáfiskinn í sjónum ef mönnum er haldið frá veiðum á honum. Hann muni þá vaxa og verða stór og hægt sé að sækja hann nokkrum árum seinna eins og innstæðu sem liggur á kjarabók í banka með margföldum vöxtum og vaxtavöxtum. Þetta er líka kenning sem hefur gengið í gegnum álit og tillögur fiskifræðinga allt frá byrjun gjörsamlega án tillits til þess hvaða stjórnkerfi hefur verið notað, hvort heldur það er kvótakerfi eða skrapdagakerfi.
    Við höfum líka reynslu af þessum búskap. Ætli það hafi ekki verið snemma á sjöunda áratugnum sem var byrjað að beita lokunum á einstökum hólfum og friðunum á smáfiskaslóð hér við Ísland til þess að byggja upp fiskstofnana þannig að hinn smái fiskur fengi frið til þess að vaxa í sjónum og verða stór? Við erum búnir að reyna þetta í 20--25 ár, og skyldi maður nú ekki ætla að þær tilraunir allar saman væru farnar að skila mjög verulegum árangri? En hvernig stendur þá á því að fiskifræðingarnir sjálfir segja okkur að eftir 20--25 ára reynslu af þessum kenningum þeirra sjálfra skuli ekki vera óhætt að veiða nema 250 þús. tonn af þorski? Með öðrum orðum, það hefur farið fyrir smáþorskinum líkt og sparifé landsmanna hér á árunum áður. Menn hafa reynt að leggja hann í banka á vöxtum en

ávöxtunarkjörin hafa verið neikvæð þannig að þegar menn hafa ætlað að taka út úr reikningnum hefur reynst vera minni innstæða á honum þrátt fyrir vextina og vaxtavextina sem áttu að koma en nam verðmæti þeirrar innstæðu sem upphaflega var inn lögð. Og það eru ekki bara Íslendingar sem hafa orðið fyrir þessari reynslu. Hún hefur einnig komið fram á öðrum stöðum þar sem þetta hefur verið reynt.
    Ég ætla ekki að lengja ræðutíma minn með því að fara að vitna í viðtal við Jakob Jakobsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, sem tekið var fyrir nokkrum árum, að því er mig minnir 1985. Þar var hann að dásama fiskveiðistjórnun Kanadamanna og skýra frá því að með takmörkunum sem Kanadamenn hefðu beitt í sókn á þorski, með þeim friðunum sem þeir hefðu gert á smáfiski, væru þeir kerfisbundið að byggja upp þorskstofnana við Kanada og gerðu ráð fyrir því að á árinu 1987 mundi afli á miðunum við Kanada nema 1 millj. tonna. Þá mundu Kanadamenn taka forustuna á fisksölumarkaðinum í Bandaríkjunum og skilja Íslendinga algjörlega eftir eina á báti og ná þeim undirtökum á fiskmarkaðinum í Bandaríkjunum sem Íslendingar hefðu haft.
    Jakob Jakobsson dásamaði þetta mjög og sagði að þessi háttur Kanadamanna væri til algjörrar fyrirmyndar. Ég bendi hv. þm. á að lítið hefur farið fyrir
því síðan að embættismenn Hafrannsóknastofnunar og sjútvrn. hafi rætt um fyrirmyndarríkið Kanada í þessu sambandi vegna þess að sú fiskveiðistjórnun sem þar var fylgt, sá búskapur sem Hafrannsóknastofnunin dásamaði svo sem algjöra fyrirmynd, hefur gjörsamlega brugðist. Það kom engin 1 millj. tonna upp úr hafinu við Kanada árið 1987 eins og Jakob Jakobsson sagði. Það komu rétt um 600 þús. tonn af þorski af þeim miðum og hefur aflinn ekki farið vaxandi síðan heldur þvert á móti. Þetta eru óhreinu börn Hafrannsóknastofnunarinnar. Um þetta vilja þeir ekki ræða.
    Það er fjallað nokkuð um þessi mál í einum fjölmiðli á Íslandi, þ.e. sjómannablaðinu Víkingi. Það virðist vera eini fjölmiðillinn fyrir utan DV þar sem þessi sjónarmið fá að koma fram, þar sem það fæst að segja hvað það er sem reynslan hefur skorið úr um að hafi orðið afrakstur þess búskapar sem ég hef hér rætt um og Hafrannsóknastofnun dásamaði svo á sínum tíma. En það er víðar sem reyndin hefur orðið þessi. Þessi fyrirmyndarbúskapur átti líka að ganga upp í Barentshafinu. Þar var beitt sömu takmörkunum og sömu stjórnaraðferðum og fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar og embættismenn sjútvrn. eru nú að leggja til og hafa barist fyrir undanfarin ár. Þar var það gert með því að draga úr fiskveiðum í stórum stíl, með því að friða smáfisk og banna mönnum að veiða. Og hvað gerðist í Barentshafinu? Þorskurinn sem hrygnir við Lófóten elst upp í Barentshafi, en það nær frá Noregi til Svalbarða og frá Frans Jósefslandi í norðri og austur til Novaja Semlja. Árið 1983 kviknaði mjög sterkur árgangur þorsks í Barentshafi. Árgangarnir sem á eftir komu virtust einnig vera

þokkalegir og norskir fiskifræðingar spáðu því árið 1985 að unnt yrði að veiða 800--900 þús. tonn af þorski á árinu sem nýbyrjað er, á árinu 1989.
    Strax á árinu 1987 kom hins vegar í ljós að ekki var allt með felldu. Stjórntækin sem fiskifræðingarnir í Noregi ætluðu sér að beita virtust vera að bregðast. Þorskurinn var horaður og miklar selavöður gengu upp að norsku ströndinni í ætisleit. Og hverjar voru þá tillögur fiskifræðinganna? Og sjáið þið nú hversu mikið er líkt með tillögum þeirra og þeim tillögum sem fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunar eru nú að gera. Norsku fiskifræðingarnir lögðu til að þorskkvótinn yrði minnkaður og héldu svo áfram að leggja til minni og minni þorskkvóta frá ári til árs uns þeir lögðu til ásamt Alþjóðahafrannsóknaráðinu að kvóti Norðmanna í Barentshafi yrði skorinn niður
í 100 þús. tonn. Barentshafið átti að skila Norðmönnum 900 þús. tonnum en þeir voru komnir með aflann niður í 100 þús. tonn. Þetta er sama þróunin og hefur verið að gerast hér á landi. Ár eftir ár er þess krafist að veiðarnar verði skornar meira og meira niður. Niðurstaðan virðist vera sú, ár eftir ár, að eftir því sem strangar er í taumana tekið verði ástand fiskstofnanna verra og niðurstaðan er ávallt sú sama. Það verður að skera meira niður og svo koll af kolli. Og við stöndum uppi með það, herra forseti, við Íslendingar, að eftir að vera búnir að nýta þessi stjórntæki allt frá árinu 1976 í ýmsum myndum og með ótvíræðum árangri að því er snertir sókn og veiðimagn, þegar við erum búin að reyna þessi stjórntæki, þá stöndum við uppi, eins og norsku útgerðar- og sjómennirnir gerðu, með um það bil helming af þeim afla, að því er fiskifræðingar telja óhætt að taka, sem við tókum á áratugunum 1933--1939 og 1947--1979. Við erum að vísu ekki komnir eins langt niður með árangur stjórnunarinnar eins og Norðmenn sem máttu gera sér vonir um, að áliti fiskifræðinga þegar stjórnunin byrjaði, að fá 800--900 þús. tonn af þorski upp úr miðunum við Norður-Noreg á árinu 1990 en eru nú komnir að áliti þessara sömu fiskifræðinga niður í 100 þús. tonn. Þetta er vissulega rétt hjá fiskifræðingunum. Þetta er sagnfræði en ekki fiskifræði. En það virðist vera að fiskifræðin hafi borið ábyrgð á því að þessi sagnfræði gerðist. Þetta er niðurstaðan af þeirra stjórnháttum.
    Auðvitað hljóta menn að spyrjast fyrir um þetta, hvernig á því stendur að þetta gerðist í Barentshafinu sem þar hefur gerst. Nokkrar skýringar hafa verið gefnar á því, t.d. laugardaginn 6. jan. sl. í dagblaðinu Bergens Tidende og er þar höfð eftir Odd Nakken sú skýring m.a. að ástæðan fyrir þessu sé sú að ekki hafi af hálfu fiskifræðinganna verið neitt tillit tekið til áhrifa af samspili ólíkra fiskstofna, áhrifa af öðrum ákvörðunum sem þeir lögðu til að teknar yrðu. Með gríðarlegri loðnuveiði í Barentshafi var loðnustofninn nærfellt þurrkaður upp. Loðnan er meginæti þorsksins a.m.k. á vissum tímum. Þegar loðnan hvarf úr Barentshafinu hafði hinn voldugi þorskstofn sem þar var fyrir ekki um neitt annað að ræða en að snúa sér að sjálfum sér til þess að finna sér æti, en eins og

allir vita er þorskurinn ránfiskur og lifir á þeirri fiskifæðu sem hann getur komist í. Og þegar hin hefðbundna fæða þorsksins brást átti hann ekki annars kost en að snúa sér í auknum mæli að því að éta minni fisk, m.a. af sínum eigin stofni. Og nú eru norsku fiskifræðingarnir, eins og þessi Odd Nakken, að koma fram með þá kenningu að það kynni nú að vera að eitthvað hafi brostið í þeirra eigin forsendum, m.a. það að með heimildum sem þeir gáfu til loðnuveiða í Barentshafi hafi niðurstaðan orðið sú að þorskstofninn hafi hrunið. Ef skýringar þessa fiskifræðings, Odds Nakken, eiga við rök að styðjast hefur hin hefðbundna fiskifræði beðið alvarlegt skipbrot því þá þarf að viðurkenna að fiskarnir í hafinu lúti sömu líffræðilegum lögmálum og önnur dýr sem lifa í afmarkaðra umhverfi.
    Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að allt önnur lögmál gildi um fiskstofna í úthafinu en gilda um fisk og aðrar lífverur í öðru umhverfi. Fiskifræðingar sem rætt hafa um hafið og fiskveiði í úthafinu hafa lifað eftir þeirri kenningu að þeir þyrftu ekki að taka tillit til vistkerfisins í heild heldur nægði þeim algjörlega að horfa aðeins á þann fiskstofn sem þeir voru að rannsaka í það og það sinnið. Og þeir hafa gert mikið grín að öðrum líffræðingum, svo sem fiskifræðingum sem unnið hafa með vatnafiska, þegar þeir hafa haldið því fram að auðvitað hlytu sömu líffræðilegu lögmálin að gilda í hafinu og annars staðar í vistkerfinu, að enginn einn fiskstofn eða stofn dýra gæti lifað einn og óháður og óstuddur án þess að taka tillit til þess sem væri að gerast í vistkerfi hafsins og í umhverfinu í kringum þá.
    Allir útreikningar og spár sem gerðar hafa verið og lagðar til grundvallar tillögum fiskifræðinga og Hafrannsóknastofnunar hafa verið byggðar á þessu, hafa verið byggðar á því t.d. þegar verið er að rannsaka þorskstofninn að hann gæti lifað svona nokkurn veginn sínu sjálfstæða lífi án þess að taka þyrfti sérstakt tillit til þess hvað væri að gerast í umhverfi hans að öðru leyti. Það er fyrst nú nýverið, m.a. vegna reynslunnar í Barentshafinu, m.a. vegna reynslunnar í Norðursjónum, sem menn eru að komast á þá skoðun að þetta lögmál gildi ekki, það gildi ekkert sérlögmál yfir fiskana í úthafinu umfram aðrar lifandi verur á þessari jörð. Og nú fyrst eru menn byrjaðir að vinna að svokölluðum fjölstofna fiskveiðimódelum, þ.e. þar sem reynt er að taka tillit til fleiri stofna en bara þess sem menn eru að fást við. Þar hafa komið í ljós ýmsar athyglisverðar staðreyndir sem ég hygg að ekki sé nægilegur gaumur gefinn og hefur lítið verið talað um.
    Um þetta mál er nokkuð fjallað í 11. og 12. tölublaði af sjómannablaðinu Víkingi frá sl. ári, frá árinu 1989, í grein eftir Jón Kristjánsson fiskifræðing. Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Nokkuð er orðið síðan menn gerðu sér grein fyrir því að samspil fiskstofnanna gæti haft þýðingu fyrir aflaspár en fyrst nú á allra síðustu árum hefur verið unnt að setja fram tölur í þessu sambandi. Þess vegna byggist mestöll fiskifræðileg ráðgjöf enn á

hefðbundnum aðferðum, en þær byggja á því
að hægt sé að líta á hvern fiskstofn sem einangrað fyrirbæri og að stjórn veiða á einum fiskstofni hafi ekki smitandi áhrif á aðra stofna.
    Þegar á áttunda áratugnum voru Danir farnir að efast um þessar forsendur. Vegna þeirra miklu breytinga sem orðið höfðu á veiðum í Norðursjó á sjötta og sjöunda áratugnum var reynt að nota flókið reiknilíkan, hið svokallaða Norðursjávarlíkan, til þess að rannsaka hvort hluti breytinganna gæti stafað af breyttu samspili fiskstofnanna. Árangurinn varð sá að hluta af hinni skyndilegu aukningu í þorskafla sem varð á síðari hluta sjötta áratugarins mátti skýra með því að síldar- og makrílstofnarnir hefðu verið veiddir upp. Þessar niðurstöður mættu í fyrstu mikilli andstöðu frá erlendum fiskifræðingum. Líkanið var, og það ekki að ástæðulausu, gagnrýnt fyrir að vera of flókið og það byggði á of mörgum ágiskunum um fæðuval fiskanna.``
    Í þessari grein heldur fiskifræðingurinn síðan áfram að skýra þær betrumbætur sem gerðar hafa verið á Norðursjávarlíkaninu sem eru tilraun til þess að leiða í ljós hvaða skýringar kynnu að vera á því að ráðgjöf fiskifræðinganna hafi ekki gengið upp, hvorki í Barentshafi né í Norðursjó, og tilraunin til að skýra það var gerð með þeim hætti að reynt var að skoða samspil fleiri fiskstofna en bara eins, þess sem var verið að rannsaka hverju sinni.
    Það er margt mjög athyglisvert sem kemur út úr nýjustu niðurstöðum af þessu Norðursjávarlíkani. T.d. kemur í ljós og kemur nú mörgum ýmislegt nokkuð á óvart. Ég les tilvitnunina orðrétt, virðulegi forseti, með þínu leyfi, nýjustu niðurstöður úr Norðursjávarlíkaninu og rannsóknum þess:
    ,,Fram kemur að langtímaafli mun aukast með aukinni sókn. Það er auðvitað vegna þess að með því að fjarlægja meira af fiskætum úr Norðursjónum er einnig hægt að veiða fiska sem annars hefðu verið étnir. Þar sem ránfiskarnir éta meira en svarar þyngd þeirra sjálfra á hverju ári er ávinningur í að veiða þá meðan þeir eru litlir áður en þeir ná þeirri stærð að þeir séu að nokkru marki farnir að leggja sér aðra nytjafiska til munns. Þessar niðurstöður eru í hrópandi mótsögn við það sem kemur út ef einstofna líkön eru notuð.``
    Ég vek athygli þingmanna á þessu: Þessar niðurstöður eru í hrópandi mótsögn við það sem kemur út ef einstofna líkön eru notuð. Með öðrum orðum, ef menn reyna að styðjast við Norðursjávarlíkanið þar sem reynt er að taka tillit til samspils fiskstofnanna í sjónum, þá er það niðurstaða þeirrar rannsóknar og þeirra athugana að aukin sókn í þorskstofninn verði til þess, þegar til lengri tíma er litið, að þorskafli fari vaxandi. En minnkandi sókn í þorskstofninn og takmarkanir á veiðum verði til þess, þegar lengra yrði litið, að afli, afrakstursgeta þorskstofnsins, færi minnkandi. Þetta er í hróplegri mótsögn við það sem kemur út úr einstofna fiskveiðilíkönunum sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar nota, en þetta er í algjöru

samspili við það sem reynslan hefur sagt okkur hér á Íslandsmiðum. Um leið og sóknartakmarkanirnar urðu hvassari og harðari, um leið og dregið var úr heimildum til eðlilegra veiða á smáfiski, fór afrakstursgeta þorskstofnsins stöðugt minnkandi uns hún er nú komin niður í helming þess sem hún var á árunum 1933--1939 og 1947--1978/1979. Þannig að þó svo þessi niðurstaða úr Norðursjávarmódelinu sé í hróplegri mótsögn við þær niðurstöður sem verða á einstofna fiskveiðimódelum, þá er hún í algeru samræmi við þá reynslu sem við Íslendingar höfum haft af stjórnun fiskveiða.
    En það er fleira sem kemur á óvart í þessu sambandi. Ég skýrði frá því hér áðan að það hefði verið þumalfingursregla í allri fiskveiðistjórnun á Íslandi, hvaða nafni sem hún nefnist, að það bæri að leggja smáfiskinn á vöxtu í sjónum, láta hann vaxa þar upp og sækja hann síðar þegar hann hefði margfaldað þyngd sína. Ég vil aftur vitna í grein Jóns Kristjánssonar fiskifræðings í sjómannablaðinu Víkingi þar sem hann fjallar um sambærilegt mál. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Fjölstofnalíkan má einnig nota til að segja fyrir um áhrif aukinnar möskvastærðar við veiðar á matfiski. Efnahagsbandalagið hefur lengi reynt að auka möskvastærð veiðarfæra í Norðursjó og beitt fyrir sig rökum sem fengist hafa með hefðbundnum einstofnalíkönum. Hér greinir einstofna- og fjölstofnalíkanið enn á. Hið fyrrnefnda spáir aflaaukningu en hið síðarnefnda aflarýrnun þegar til lengdar lætur.``
    Hér er enn ein mótsögnin við tillögur fiskifræðinga. Þegar menn fara að reyna að taka tillit til áhrifa af samspili fiskstofna í sjónum og þeirra staðreynda að þorskurinn er ránfiskur, kemur það í ljós að takmarkanir á veiðum á smáfiski leiða til aflaminnkunar þegar til lengdar lætur, en frjálsari veiðar á smáfiski leiða hins vegar til aflaaukningar þegar til lengdar lætur. Ég hef ekki orðið var við að þessar staðreyndir, sem varða að sjálfsögðu sjálfan grundvöllinn undir allri fiskveiðistjórn Íslendinga, hafi
nokkurn tíma verið ræddar í tengslum við þessa kvótaumræðu eða í blöðum yfirleitt. Eða finnst mönnum það engin tíðindi þegar það kemur í ljós þegar reynt er að taka tillit til áhrifa samspils fiskstofnanna í sjónum eftir þá reynslu sem menn hafa haft úr Norðursjó, við Kanada, í Barentshafi og á
Íslandsmiðum, þegar reynt er að betrumbæta spátæki fiskifræðinnar, þá koma þveröfugar niðurstöður út á við það sem taldar hafa verið heilagur sannleikur af vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar fram að þessu? Og hverju skyldu þeir svara, þeir ágætu menn þegar þeim er bent á þetta? Þá svara þeir einfaldlega og segja: Norðursjórinn, það eru allt önnur lögmál sem gilda þar en í Atlantshafinu. Í Barentshafinu eru allt önnur lögmál sem gilda en í Atlantshafinu. Og við Kanada eru allt önnur lögmál sem gilda en við Ísland. En það koma engar frekari skýringar á því hvaða allt önnur lögmál það eru sem gilda í Norðursjó, Barentshafi, við Kanada en við Ísland. Þeir skýla sér

bara á bak við sérfræði sína og segja: Auðvitað vita almennir alþingismenn ekkert um það. Þeir hafa aldrei lært fiskifræði. En við vitum það. Og ykkur er óhætt að treysta því sem við segjum.
    Þó hefur það gerst, virðulegi forseti, að okkar ágætu fiskifræðingar hafi fengist til þess að skoða akkúrat þessi mál, þ.e. samspil fiskstofnanna í sjónum og áhrif þess, t.d. á þorskstofninn, sem gerist hvað varðar aðra stofna nytjafiska. Þetta gerðist t.d. með grein sem Ólafur Karvel Pálsson og annar fræðimaður, Kjartan G. Magnússon stærðfræðingur, rituðu í sjómannablaðið Víking, 1. tölublað á þessu ári. Greinin heitir: ,,Um fæðutengsl þorsks og loðnu á Íslandsmiðum.`` Þetta er í fyrsta skipti, virðulegi forseti, a.m.k. sem ég veit til, að gerð hafi verið tilraun til að athuga samspil tveggja fiskstofna á Íslandsmiðum. Og það er ýmislegt athyglisvert sem þar kemur fram. Þar kemur m.a. fram eins og hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þessu fer heildarát þorsks minnkandi með minnkandi loðnuáti. Ef engin loðna er étin er heildarátið aðeins um það bil helmingur af átinu þegar mest er étið af loðnu. Þetta þýðir að við minnkandi framboð loðnu nær þorskurinn ekki að afla sér uppbótarætis nema um það bil að hálfu leyti.``
    Síðan koma hér mjög athyglisverðar upplýsingar um tengsl áts á loðnu við vaxtarhraða þorsks og þorskafla sem skýrir það mjög greinilega að með auknum loðnuveiðum hefur skort fæðu sem þorskurinn hefur haft með hefðbundnum hætti í sjónum. Niðurstaðan er sú að þyngd þorsksins fer minnkandi og segir það sig sjálft hver tengslin eru þar á milli.
    Mér er tjáð að sá loðnuafli sem tekinn var á sl. ári samsvari því að úr hafinu séu tekin fæðuverðmæti er séu fæðuígidi fyrir 100 þús. tonn af þorski. Loðnuafli sá sem af Íslandsmiðum var tekinn á sl. ári er fæða 100 þús. lesta af þorski. Það er um það bil það aflamagn af þorski sem menn hefðu getað tekið af Íslandsmiðum miðað við hefðbundna reynslu undanfarandi áratuga. Vil ég svo biðja menn að doka aðeins við og hugsa um hvort líkur séu nú á því að það séu hagstæð skipti að skipta á 100 þús. tonnum af þorskafla og þeim loðnuafla sem kom upp úr sjó á sl. ári. Ég vil einnig benda mönnum á hvaða áhrif þau skipti hafa á afla og aflasamsetningu einstakra byggðarlaga. Vestfirðir til að mynda hafa engan loðnukvóta. Þeir eiga ekki loðnuskip, þeir fiska ekki loðnu. Þeir fiska hins vegar þorsk og ef ákvörðun væri tekin um að skipta á þessum loðnuafla og 100 þús. tonnum af þorski, eins og kann að hafa verið gert þegar ákvörðun var tekin um að heimila þessar loðnuveiðar, þá hefðu vestfirsku fiskiskipin getað fengið, miðað við kvótakerfið í dag, til viðbótar afla fjögurra skuttogara og munar nú um minna.
    Virðulegi forseti. Vissulega er brjóstvitið engin fiskifræði en það vill nú svo til að Íslendingar hafa verið á umliðnum öldum í nánu sambýli við náttúruna og vita sitt af hverju um samspil þeirra þátta sem þar ráða ferð. Hvað skyldi sá bóndi gera sem fengi fé af fjalli þar sem dilkarnir færu stöðugt minnkandi ár frá

ári? Skyldi hann komast að þeirri niðurstöðu að nú yrði að ráða bót á þessu með því að hætta að skera og fella sína dilka að hausti, setja þá á, reka þá til fjalls að nýju til þess að láta þá vaxa og verða stærri? Skyldi hann komast að þessari niðurstöðu, bóndinn sem þekkir samspil lands og landnytja gegnum aldirnar? Eða skyldi hann komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað hlyti að vera athugavert, annaðhvort við fjölda þess fjár sem rekið væri á fjall ellegar við ástand gróðurfars á afréttinum? Tillaga fiskifræðinga þegar þorskurinn fer stöðugt minnkandi --- þegar menn vega ákveðinn aldur og þyngd þá dregur stöðugt úr þunga þorsksins --- niðurstaða fiskifræðinganna er sú að það eigi að auka ásetuna, það eigi sem sé að auka möguleikana á því að fleiri og fleiri smáþorskar séu á miðunum. Niðurstaða fiskifræðinganna í þessu efni stefnir í þveröfuga átt við niðurstöðu þá sem bóndinn sem landið byggir mundi af reynslu sinni vita að væri rétt. Þessi niðurstaða er í andstöðu við heilbrigða skynsemi. Og mér er alveg sama þó það séu menn með mikla sérmenntun sem haldi slíku fram, það getur ekki verið skynsamleg stjórnun á fiskveiðum sem stefnir í öfuga átt við það sem heilbrigð skynsemi segir okkur.
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins nota tækifærið til þess að skýra frá þessu og taka til umræðu þessa þætti málsins sem nær ekkert hafa verið ræddir í sambandi við þá kvótaumræðu sem farið hefur fram hér og annars staðar að þessu sinni. Ég gæti vissulega tekið fyrir ýmsa aðra þætti, svo sem áhrif kvótakerfisins á byggðarlögin í landinu, áhrif kvótakerfisins í þá veru að
draga úr kostnaði, sem hafa veri° þveröfug við það sem til er ætlast. Ég gæti greint frá áliti fiskideilda, ég gæti greint frá áliti sveitarstjórna á Vestfjörðum. Ég gæti greint frá ítarlegri úttekt sem Kristján Jóakimsson sjávarútvegsfræðingur gerði á áhrifum kvótans á vestfirskar byggðir. Ég ætla hins vegar ekki að gera það. Það eru sjálfsagt nógir aðrir til þess og nógur tími til þess síðar, enda eru þetta staðreyndir sem flestir ef ekki allir vita. Þess vegna ætlaði ég mér eingöngu að ræða þá undirstöðuþætti kvótakerfisins sem ég hef hér drepið á.
    Það væri líka ástæða til þess að gera grein fyrir því hvert var álit ýmissa ágætra alþingismanna þegar kvótafrv. var hér síðast á dagskrá, svo sem þeirra Júlíusar Sólnes, Guðmundar Ágústssonar, Steingríms Sigfússonar og Hjörleifs Guttormssonar. Þetta má lesa m.a. á bls. 1564 í þingtíðindum ársins 1987, á bls. 1579 í sömu þingtíðindum, bls. 3796, 3297 og 3611. En ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara að vitna í þessi ummæli. Ég bendi aðeins á að þarna er þau að finna.
    Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins minnast á eitt atriði í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á meðferð málsins í Ed. sem ég ætla að biðja þá sjávarútvegsnefndarmenn sem hér eru viðstaddir og mál mitt heyra að athuga sérstaklega í sjútvn. Tala ég þá í senn um það frv. sem hér er til umræðu og um frv. sem á eftir að koma á dagskrá

um Úreldingarsjóð fiskiskipa með breyttri fyrirsögn. Við vorum upplýstir um það í mínum þingflokki að ef Hagræðingarsjóður keypti skip til úreldingar, þá keypti hann að sjálfsögðu kvóta skipsins með, eins og hann stæði á þeim tíma sem skipið væri keypt, og gæti síðan ráðstafað þeim kvóta til annarra aðila og þannig fjármagnað sig að nokkru leyti með slíku. Því var haldið fram í mínum þingflokki að Hagræðingarsjóður mundi síðan halda kvóta þessa skips í framtíðinni. Ég sé ekki hvernig það getur gerst vegna þess að kvóta er úthlutað einu sinni á ári. Hann kemur til endurúthlutunar árlega og skilyrði fyrir því að fá úthlutað kvóta er, samkvæmt frv. um stjórn fiskveiða, að sá sem kvóta fær eigi skip. Hvernig getur Hagræðingarsjóður haldið afla kvóta af skipi sem hann hefur keypt og úrelt? Er það mögulegt? Stenst það nánari skoðun að hægt sé að úthluta sjóðnum kvóta við endurúthlutun í byrjun árs út á skip sem hann hefur keypt, tekið út af skipaskrá og annaðhvort látið eyðileggja innan lands eða selt úr landi? Þetta vil ég eindregið óska eftir að verði skoðað sérstaklega í sjútvn.
    Ég vil einnig benda á í þessu sambandi að ef það er niðurstaðan að þetta sé hægt þá komast menn fljótlega í mótsögn við sjálfa sig vegna þess að í öðru ákvæði í þessu sama frv. er gert ráð fyrir því að aldrei megi Hagræðingarsjóður eiga meira en samsvari 5% af heildaraflakvóta. Og ef hann nú heldur kvóta með einhverjum hætti af þeim skipum sem hann hefur keypt og fær síðan til viðbótar refsikvóta allt upp í 12 þús. tonn, þá er hann nú ansi fljótur að byggja sig upp í þetta 5% þak. Ætli hann þurfi þá að úrelda nema þrjá togara eða svo til þess að vera kominn upp í þetta margumrædda þak ef hann getur haldið kvóta úreltra skipa ár eftir ár? Og hvað skeður þá með Hagræðingarsjóðinn? Þá getur hann ekki keypt eitt einasta skip til viðbótar til úreldingar því hann fær ekki kvótann af því skipi sem hann á að kaupa og fjármögnun Hagræðingarsjóðsins til úreldingar vegna kvótasölu af skipum sem hann kaupir er þar með fallin um sjálfa sig. Ef það er rétt að Hagræðingarsjóður geti haldið þeim kvóta sem hann kaupir með úreltum skipum ár eftir ár, þá reka menn sig strax í hitt hornið, sem sé það að eftir örskamman tíma hefur sjóðurinn náð undir sig 5% af heildaraflakvóta og eftir það hefur sjóðurinn ekki færi á að taka frekari þátt í úreldingu fiskiskipa, a.m.k. ekki nema með því að aðrir aðilar leggi honum til fé en honum er ætlað að fá samkvæmt frv.
    Virðulegi forseti. Margar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið í Ed. eru til bóta og sumar til mjög mikilla bóta. Ég vil taka fram í því sambandi að mér finnst leitt og ómaklegt þegar vikið er þannig að hæstv. sjútvrh. að segja að hann hafi verið beygður eða brotinn í þessu sambandi. Margt má um hæstv. sjútvrh. segja en þetta er mjög ómaklegt vegna þess að hann hefur, eins og aðrir, beitt sér fyrir samkomulagi og náð samkomulagi við ýmsa ráðherra um þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir og Ed. hefur staðfest. Það er því mjög ómaklegt eða ásaka hæstv.

ráðherra eða egna eða gera lítið úr honum með slíku orðalagi. Auðvitað á hæstv. ráðherra heiður skilið fyrir það að reyna að ná samkomulagi. Sumt af því sem hann hefur beitt sér fyrir að samkomulag hefur orðið um er til mjög mikilla bóta, annað ekki.
    Það sem er hins vegar að er það að margt af því sem sett var inn í frv. í Ed. er að mestu ókynnt og órætt. Ég segi fyrir mig að kvótamálið er það stórt mál heima í mínu kjördæmi að ég treysti mér ekki til þess að ganga til afgreiðslu málsins með þeim nýju og miklu og að ýmsu leyti þörfu breytingum sem gerðar hafa verið á því í Ed. án þess að fá tækifæri til þess að bera mig saman við stuðningsmenn mína og kjósendur heima í héraði og kanna hvort verið gæti að þær breytingar til mikilla bóta sem gerðar hafa verið í Ed. Alþingis
séu nægilegar til þess að mínir umbjóðendur gætu við unað. Ég treysti mér ekki til að ganga til afgreiðslu málsins öðruvísi en að fá tíma til þess að kanna það en það gefst ekki í önnum síðustu daga Alþingis. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt að afgreiðslu málsins yrði frestað eitthvað fram á sumar eða fram á haust þannig að mönnum gæfist tækifæri til þess að kynna betur og skoða betur frv. eins og það liggur fyrir nú með þeim miklu breytingum sem gerðar hafa verið í hv. Ed. Ef ekki verður á það fallist, virðulegi forseti, þá hef ég látið bóka það í mínum þingflokki og vil skýra frá því hér, lét bóka það alllöngu áður en gengið var til afgreiðslu málsins í Ed., þá tel ég mig ekki eiga annars úrkosti en flytja slíka tillögu hér í þessari hv. deild. Verði sú tillaga ekki samþykkt treysti ég mér ekki til þess að greiða atkvæði með frv. heldur mun greiða atkvæði gegn því við lokaafgreiðslu málsins.