Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég fékk þessa sömu spurningu frá hv. þm. Halldóri Blöndal þegar þetta mál var hér til umræðu. Ég upplýsti hv. þm. þá um að það fjármagn sem er til ráðstöfunar í greiðsluerfiðleikalán í Húsnæðisstofnun mundi duga fyrir þeim umsóknum sem þá lágu fyrir og það stendur að það mun duga fyrir þeim umsóknum sem liggja fyrir. Mér er ekki kunnugt um að það vanti 200--300 millj. til þess að geta afgreitt greiðsluerfiðleikalán það sem eftir lifir ársins vegna þess að þær umsóknir liggja ekki fyrir í Húsnæðisstofnun þannig að hægt sé að leggja mat á hvort það er þessi upphæð sem hv. þm. nefnir eða einhver önnur. Ef þarna fara að safnast inn umsóknir vegna greiðsluerfiðleikalána sem nauðsynlegt er að afgreiða þá verður það mál að sjálfsögðu tekið upp í ríkisstjórninni.
    Að því er varðar síðari spurningu hv. þm. um húsbréfakerfið. Þegar það opnast núna 15. maí fyrir það fólk sem vill nýta sér húsbréfakerfið til kaupa á eldri íbúðum spurði hv. þm. hvort ástæða væri til að ætla að raunvextir mundu hækka við það. Ég tel ekki ástæðu til þess að ætla það.