Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Svör félmrh. hæstv. eru önnur nú en um daginn. Þá sagði hæstv. félmrh. að þessir fjármunir væru bundnir miðað við þær fjárhæðir sem lágu fyrir í janúar eða febrúar, ég veit ekki hvort það hefur verið mismæli þá, ég skal ekki um það segja. En ég fullyrði að sú fjárvöntun sem ég var að lýsa er raunveruleg. En það má kannski leika sér að orðum. Þær umsóknir sem liggja fyrir. Ég hef spurt fyrir fólk og mér er sagt að peningar séu búnir. Það þýði ekki að sækja um. Og það kallar auðvitað á beina spurningu til hæstv. ráðherra: Er hugsanlegt að Húsnæðisstofnun gefi upp þau svör ef menn vilja sækja um greiðsluerfiðleikalán að fjármunir séu ekki fyrir hendi? Það þýði ekki að sækja um meira á þessu ári. Er það hugsanlegt?
    Mig minnir, herra forseti, að einhvers staðar hafi komið fram að þeir peningar sem eru eftir í þessu skyni, það standa í mér tölur eins og 10 eða 15 millj., það er kannski vitleysa, kannski eru eftir 40 millj. --- Væri hægt að fá upplýst frá ráðherra hversu miklir peningar eru eftir til áramóta? Hvað er búið að úthluta miklum fjármunum til erfiðleikalánanna á þessu ári? Hvenær var þeim úthlutað og hversu miklir peningar eru til ráðstöfunar það sem eftir lifir ársins?
    Ráðherrann er í þeirri góðu trú að þetta sé allt saman í lagi. Mér skilst að ráðherrann búist ekki við því eftir svörum hennar síðast að neinir séu í erfiðleikum lengur, ríkisstjórnin sé búin að leysa þetta allt saman. Forsrh. talaði um að sjávarútveginum veitti ekki af því að lepja einhvern rjóma. Kannski hæstv. ráðherrann sé þeirrar skoðunar að búið sé að láta þvílíkt magn af rjóma á einhverja undirskál fyrir það fólk sem hefur átt í erfiðleikum að það sé búið að torga nægju sína eða eitthvað svoleiðis. Ég held að það sé ekki tilfellið. Ég held að húsnæðisráðherrann segi ekki alla söguna. Það er hægt að bera svör hennar saman þegar ræða hennar kemur út, hvað ráðherrann sagði nú og hvað hæstv. ráðherra sagði síðast þegar ég spurði. Má vera að mig misminni en ég tók svo eftir að þeir fjármunir sem Húsnæðisstofnun hefði til þessara lána hefðu miðast við þær umsóknir sem lágu fyrir. Mér finnst hafa verið sagt svo í febrúar, í öllu falli á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.