Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég get fullvissað hv. 1. þm. Norðurl. v. um að ég þjáist ekki af neinum meltingartruflunum. Hann hlýtur að hafa fundið það einhvers staðar annars staðar en hjá mér. Það liggur fyrir samkvæmt upplýsingum hv. þm. að málið hefur verið tekið fyrir þrisvar sinnum í nefnd. Það var tekið fyrir þegar málinu var vísað til nefndarinnar. Síðan var það tekið fyrir á fundi sem stóð annað tveggja í --- einn segir í sjö sekúndur, annar segir í allt að einni mínútu. ( PP: Báðir skrökva því.) Hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður nefndarinnar, ber brigður á hvort tveggja og heldur að það hafi verið eitthvað ívið lengri fundur. Og á þriðja fundinum er málið tekið fyrir þegar þessi afgreiðsla er gerð sem hér liggur fyrir með rökstuddri dagskrá. Það liggur alveg ljóst fyrir að nefndin hefur vanrækt að taka þetta mál til eðlilegrar meðferðar og eðlilegrar afgreiðslu. Þetta verður þó ekki til þess að málið verði stöðvað því að þó að hv. nefnd hafi vanrækt að vinna verk sín á þessum vetri hvað þetta mál varðar stöðvar það ekki þetta mál og það er vissa fyrir því að þetta mál verður tekið upp á næsta haustþingi.
    Það er mikill misskilningur hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. ef hann heldur að með þessu sé verið að auka eitthvað völd eða virðingu fjvn. í störfum. Auðvitað er það fjvn. til virðingar að hafa yfir allar pólitískar línur tekið saman slíkt mál sem þetta og unnið það vandlega. En það eykur ekki völd fjvn. Það er mikill misskilningur og sannar það enn að hv. þm. hefur ekki kynnt sér þetta mál sem honum auðvitað bar að gera sem formanni í þeirri nefnd sem málið fékk til meðferðar.
    Það er einnig meira og minna útúrsnúningar að það hafi verið eitthvert sérstakt tilefni til þess að fá lögfróða menn til að fjalla um þetta mál. Auðvitað var eðlilegt af hálfu hv. nefndar að leita til lagamanna en málið er m.a. samið og yfirfarið af færum lögfræðingum, tveimur virtum lögmönnum og
prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, þeim Stefáni Má Stefánssyni og Sigurði Líndal. Það eru því vitaskuld útúrsnúningar að ekki hafi komið lagamenn að því að setja saman þetta frv. Og þó eðlilegt hafi verið af hálfu hv. nefndar að leita álits slíkra manna sem vitaskuld hefðu þá staðfest það að hér var gott mál á ferðinni og eðlilega samið þó við höfum lagt til að gera á því smávægilega breytingu, þá er það útúrsnúningur að málið hafi verið illa unnið og þurft þess vegna að senda það til einhverrar sérstakrar meðferðar lagamanna.
    Ég vil svo endurtaka það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Vesturl., að hér er um þýðingarmikið mál að ræða og eitt af hinum stærri málum þingsins. Á því er full þörf að koma annarri skipan á meðferð ríkisfjármála en verið hefur síðustu árin sem enn og glöggt kom fram í máli hv. formanns fjvn. þegar hann mælti í gær fyrir áliti meiri hl. um fjáraukalög fyrir árið 1988. Meðferð ríkisfjármála á því ári, einkanlega á síðari hluta ársins eftir að núv. hæstv. ríkisstjórn tók við störfum, varð til þess að fjvn. sem er kunnug

þessum málum og meðferð þeirra sá sig knúða til að bregðast við með þeim hætti sem hér hefur verið gert, að flytja það frv. sem hér er lagt til að vísa frá með rökstuddri dagskrá.
    Ég hlýt að lýsa óánægju minni með þessa niðurstöðu þó að hún verði að sjálfsögðu ekki til þess að stöðva þetta þarfa mál sem a.m.k. flestir hér á hinu háa Alþingi álíta að sé mikil nauðsyn á að fá lögfest.