Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um stjórn fiskveiða. Það var 13. júlí 1988 að sjútvrh. skipaði undirbúningsnefnd til að undirbúa nýtt frv. um stjórn fiskveiða. Í þessari undirbúningsnefnd áttu sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi. Þessi nefnd starfaði af miklum dugnaði og þingflokkar voru látnir fylgjast með því starfi þannig að allir þingflokkar fylgdust mjög vel með framgangi þess máls og vissu mjög glöggt hvað var á döfinni. Þegar frv. var lagt fram á þingi á þessum vetri vissu menn mjög gjörla hvað þar var á ferðinni. Margir nefndarmanna í sjútvn. voru í þessari undirbúningsnefnd og voru þar af leiðandi mun betur inni í þessum málum en í flestum málum öðrum sem vísað er til nefnda. Þrátt fyrir það hafa sjútvn. starfað allítarlega að þessu máli og fengið á sinn fund fjöldann allan af fulltrúum frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins. Sjútvn. sendu einnig frv. til umsagnar til mjög margra hagsmunasamtaka víða um land og fengu að hluta til mjög ítarlegar umsagnir um þetta frv. Ekki er því hægt að segja annað en að frv. hafi fengið mjög ítarlega umfjöllun í þjóðfélaginu öllu. Hagsmunaaðilar hafi komið nærri málinu og haft það til umfjöllunar og umsagnar.
    Þegar þetta mál kom síðan í seinni deild og til sjútvn. Nd. var það öllum mjög vel kunnugt þannig að vart þótti ástæða til annars en fara efnislega ofan í þær brtt. sem voru gerðar í fyrri deild og var það gert. Sjútvn. Nd. hélt samtals um tíu fundi um þetta mál, þar af sjö sameiginlega með sjútvn. Ed. Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjútvrn., sat flesta fundi nefndanna. Hann veitti ýmsar upplýsingar varðandi frv. og aflaði gagna samkvæmt óskum sem fram komu á hinum sameiginlegu fundum, m.a. frá Fiskifélagi Íslands. Enn fremur lágu fyrir tillögur þær sem þrír stjórnmálaflokkar í Færeyjum hafa gert um hugsanlega fiskveiðistjórn þar í landi. Þá óskuðu níu alþingismenn eftir áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands á réttarfars-, skattaréttar- og
eignarréttarlegum álitaefnum í frv. Var álitsgerðin unnin af prófessor Sigurði Líndal og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni.
    Eins og ég sagði áðan hélt nefndin þrjá fundi eftir að málið hafði verið afgreitt frá Ed. Kynnti nefndin sér rækilega þær breytingar sem gerðar voru á frv. í meðförum Ed. og ræddi efnislega um þær. Og eins og áður kom fram eru aðrir efnishlutar frv. nefndinni vel kunnir enda hafa þeir verið til umfjöllunar í langan tíma.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir og Stefán Valgeirsson --- og um tíma varamaður Stefáns, Jóhann A. Jónsson --- sátu fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
    Meiri hl. nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í meðförum Ed., séu til bóta. Leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt með áorðnum breytingum.

    Undir þetta nál. skrifa Alexander Stefánsson, Geir Gunnarsson, Guðni Ágústsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.