Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 55 . mál.


Sþ.

106. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar um uppgjör á framkvæmdum á vegum sveitarfélaga á árinu 1989.

     1. Vísað er til 75. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en greinin fjallar um kostnaðaruppgjör milli ríkis og sveitarfélaga og er þannig:
    „Ríkissjóður greiðir sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Við mat á þessum skuldbindingum ríkissjóðs skal miða við núgildandi lagaákvæði um hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði fyrrgreindra mannvirkja svo og sérsamninga sem gerðir hafa verið við einstök sveitarfélög um skólamannvirki.
    Þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum, sem unnar eru á árinu 1989, skal þó miðuð við þau framlög sem eru á fjárlögum 1989.
    Náist ekki samkomulag milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga eða félagasamtaka hins vegar um kostnaðaruppgjör skv. 1. og 2. mgr. geta aðilar fyrir 1. janúar 1992 lagt málið til endanlegs úrskurðar nefndar sem starfa skal meðan unnið er að kostnaðaruppgjöri samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af menntamálaráðherra, einum tilnefndum af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti Íslands. Meiri hluti ræður úrslitum mála, en fáist ekki meiri hluti skal oddamaður skera úr.
    Um skiptingu fjár samkvæmt þessari grein skal fara eins og mælt verður fyrir um í fjárlögum fyrir árið 1990–1993, enda verði greiðslu lokið að fullu á því árabili.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd þessarar greinar.“
    Varðandi það atriði sem spurningin fjallar sérstaklega um vísast til laga nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir í 13. gr. að verja skuli allt að 8% af vergum tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stofnframkvæmda hjá fámennum sveitarfélögum og skv. 15. gr. skal þessum framlögum varið til að greiða hluta af stofnkostnaði sveitarfélaga við grunnskóla, íþróttamannvirki, félagsheimili, vatnsveitur og dagvistarheimili fyrir börn. Í reglugerð skal meðal annars setja nánari reglur um útreikning þessara framlaga og hvaða skilyrðum sveitarfélög þurfa að fullnægja til að hljóta þau.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiða hluta í tilteknum framkvæmdum sveitarfélaga 1989 sem reynast umfram það sem ríkissjóður tekur þátt í. Af hálfu ráðuneytisins er stefnt að því að þetta verði að öðru jöfnu forgangsverkefni þegar skipt verður því fjármagni sem þarna verður til ráðstöfunar. Ekki liggja enn fyrir endanlegar upplýsingar um hvaða upphæðir hér er um að ræða, en lögð verður áhersla á að ljúka þessum greiðslum sem mest á næsta ári.
     2. Fyrstu drög að reglugerðinni voru samin síðastliðinn vetur og kynnt í þeim þingnefndum sem fjölluðu um frumvarp til nýrra tekjustofnalaga. Þessi drög voru síðan send Sambandi íslenskra sveitarfélaga í apríl og óskað eftir breytingartillögum og athugasemdum. Sérstaklega var óskað eftir því að landsbyggðarmenn fjölluðu um málið.
    Reglugerðardrögin bárust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í lok september og þá með nokkrum breytingartillögum og nánari útfærslu á ýmsum atriðum. Undanfarið hefur verið unnið að því í ráðuneytinu að ganga að fullu frá reglugerðinni og er stefnt að því að gefa hana út nú um miðjan nóvember.
    Ekki er búið að ganga endanlega frá því hvaða stærðarmörk verða sett sem skilyrði fyrir framlögum úr Jöfnunarsjóðnum. Samkvæmt tekjustofnalögunum skulu svokölluð stofnkostnaðarframlög ganga til fámennra sveitarfélaga, framlög til reksturs grunnskóla til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög til að standa undir auknum rekstrarkostnaði við grunnskóla vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og framlög skv. e-lið 13. gr. laganna til að bæta dreifbýlissveitarfélögum upp annan aukinn kostnað vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Þar verður fyrst og fremst um að ræða hluta af launakostnaði tónlistarskóla. Auk framantalinna framlaga verða veitt úr sjóðnum tekjujöfnunarframlög og þjónustuframlög. Varðandi tekjujöfnunarframlögin þá er ekki gert ráð fyrir ákveðnum stærðarmörkum sem skilyrði fyrir framlögum, en ekki er búið að ákveða stærðarmörk vegna þjónustuframlaganna.
     3. Lauslega áætlað mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafa til ráðstöfunar 1.500 millj. kr. á næsta ári. Þar af eiga 8%, eða 120 millj. kr., að renna til stofnkostnaðarframlaga.