Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 106 . mál.


Nd.

110. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Geir H. Haarde, Birgir Ísl. Gunnarsson, Eggert Haukdal,


Friðjón Þórðarson, Friðrik Sophusson, Kristinn Pétursson,


Ólafur G. Einarsson, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason,


Pálmi Jónsson, Ragnhildur Helgadóttir, Þorsteinn Pálsson.



1. gr.

    83. gr. laganna, sbr. 16. gr. laga nr. 97/1988, orðast svo:
    Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2.500.000 kr. greiðist enginn skattur. Af eignarskattsstofni yfir 2.500.000 kr. greiðist 0,95%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sú hækkun á eignarsköttum, sem samþykkt var á síðasta Alþingi, verði afnumin og hinn almenni eignarskattur til ríkisins verði á ný í einu þrepi, 0,95%.
    Ríkisstjórnin beitti sér á síðasta þingi fyrir hækkun hins almenna eignarskatts úr 0,95% í 1,2% og einnig fyrir sérstöku viðbótarskattþrepi á skattlausa eign einstaklinga yfir 7 milljónir kr. og hjóna yfir 14 milljónir kr. Eignarskattur á lögaðila var hækkaður í 1,2%. Því var skattur á einstaklinga í hærra eignarskattsþrepinu hærri en skattur á fyrirtæki. Er það nýjung í skattamálum hérlendis og athyglisvert framlag af hálfu ríkisstjórnar sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju.
    Þessi illræmda skattahækkun kom til framkvæmda við álagningu skatta á síðasta sumri. Kom þá í ljós, svo sem spáð hafði verið, að hækkunin kom sérstaklega illa við ekkjur, ekkla, einstæða foreldra og aðra þá sem standa einir að heimilisrekstri. Í mörgum tilvikum margfaldaðist það óréttlæti sem þetta fólk mátti áður búa við. Skattahækkun þessi var í daglegu tali nefnd „ekknaskatturinn“ enda var í mörgum tilfellum um hreina árás á ekkjur og einstæðinga að ræða þótt stjórnarandstaðan hafi undir þinglok á síðasta vori náð fram tímabundinni leiðréttingu fyrir einstaklinga sem sitja í óskiptu dánarbúi.
    Þetta frumvarp hefur það að markmiði að afnema ekknaskattinn og koma eignarskattinum á ný í fyrra horf. Það er svo önnur spurning, sem svara þarf sérstaklega, hvort í þeirri skipan, sem áður var, hafi verið fólgið nægilegt réttlæti gagnvart einstaklingum miðað við hjón. Um það atriði fjallar frumvarpið ekki, heldur miðar það eingöngu að því að afturkalla þá hrikalegu hækkun sem ríkisstjórnin og stuðningslið hennar á Alþingi komu fram á síðasta þingi.



Fylgiskjal I.


Dæmi um breytingu eignarskatta milli áranna 1988 og 1989


fyrir einstaklinga og hjón.



(Tölvutækur texti ekki til.)





Fylgiskjal II.

Sigurður Tómasson,
löggiltur endurskoðandi:



Álagning eignarskatts á einstaklinga.


(Morgunblaðið 29. júní 1989.)



    Umræður um eignarskattinn að undanförnu hafa orðið tilefni margra spurninga. Ein er þessi: Hvers vegna er svona mikill munur á álögðum eignarskatti hjóna annars vegar og einstaklinga hins vegar þegar um sömu eign er að ræða? Hefur þetta alltaf verið svona?
    Almennt orðað svar er svona:
    Álagningarreglur núgildandi skattalaga — sem hafa verið í gildi frá álagningarárinu 1980 — gera ráð fyrir mismun. Mismunurinn hefur hins vegar aldrei verið svo mikill sem nú verður við álagningu 1989.
    Og þetta vil ég reyna að skýra nánar.
    Samkvæmt skattalögum (= lög um tekjuskatt og eignarskatt) eru hjón sjálfstæðir skattaaðilar hvort um sig og skal þeim ákveðinn tekjuskattur og eignarskattur hvoru í sínu lagi. Einstaklingurinn er að sjálfsögðu skattlagður sem einn.
    Álagning eignarskattsins fer síðan fram þannig að skuldlausri eign hjóna er skipti í 2 jafna hluta og síðan er fylgt eftirfarandi útreikningi bæði hjá hjónum (sem 2 einstaklingum) og einstaklingum:
    Af fyrstu kr. 2,5 millj. af skuldlausri eign greiðist enginn skattur. Af næstu kr. 4,5 millj. af skuldlausri eign greiðist 1,2%. Af skuldlausri eign yfir kr. 7,0 millj. greiðist 2,7%.
    Í lögunum eru þessar álagningarreglur orðaðar öðruvísi og sagt að af eignarskattsstofni yfir 7.000.000 greiðist að auki 1,5%. Þessi að auki 1,5% eignarskattur leggst ofan á lægra hlutfallið (1,2%) og þannig næst 2,7% af skuldlausri eign yfir 7,0 millj. kr.
    Í þessum reglum verða til tvenn skattleysismörk fyrir hjón umfram einstaklinginn. Hin fyrri er að hjón geta átt 5,0 millj. króna skuldlausa eign (2 x 2,5 millj.) án þess að greiða eignarskatt en einstaklingurinn greiðir eignarskatt strax við 2,5 millj. króna markið. Í þessu felst að þegar álagning á hjón hefst við 5,0 millj. króna markið er þegar búið að leggja á einstaklinginn kr. 30.000 í eignarskatt (kr. 25.000 x 1,2%).
    Síðari skattleysismörkin eru að hjón geta átt 14,0 millj. króna skuldlausa eign (2 x 7,0 millj.) án þess að greiða „að auki 1,5%“ við 14,0 millj. króna markið er þegar búið að leggja á einstaklinginn kr. 105.000 vegna „að auki“ eignarskatts (kr. 7.000.000 x 1,5%).
    Skattleysismörkin og stigshækkunin gera það þannig að verkum að álagning eignarskatts getur orðið allt að 135.000 hærri á einstakling en hjón enda þótt um jafnháa skuldlausa eign sé að ræða.
    En hver var þessi mismunur áður?
    Skattleysismörk eignarskatts álagningarárið 1988 voru kr. 1.997.750. Álagningarhlutfall var 0,95%. Engin stigshækkun var þá á eignarskattinum. Mismunur álagningar gat því orðið mestur kr. 18.979 (kr. 1.997.750 x 0,95%).
    Mismunur á eignarskattsálagningu einstaklings annars vegar og hjóna hins vegar hefur þannig breyst frá því að geta orðið mestur kr. 18.979 og upp í að vera mestur kr. 135.000.
    Það er auðvitað fyrst og fremst þessi mismunur sem hefur orðið kveikjan að umræðunni um eignarskattinn og því viðurnefni sem eignarskatturinn fékk — „ekknaskatturinn“.
    Þessi breyting á skattalögunum var samþykkt á Alþingi í desember 1988. Sú lagagrein sem breytt var og veldur hækkuninni á mismun í skattlagningu eftir hjúskaparstöðu er í sinni endanlegu mynd þannig:
    „Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2.500.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af eignarskattsstofni yfir 2.500.000 kr. greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 7.000.000 kr. greiðist að auki 1,5%.“
    Lagagreinin felur í sér mikla hækkun eignarskatts en sýnist að öðru leyti vera það meinleysisleg að fáum dettur í hug að í henni felist það misræmi milli álagningar hjóna annars vegar og einstaklinga hins vegar sem fyrr segir frá. Breytingin sem gerð var á álagningu eignarskatts var hluti af frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir meðal annars að hækkun tekjuskatts og eignarskatts „er liður í þeirri viðleitni að ná betra jafnvægi í ríkisfjármálum á næsta ári en verið hefur að undanförnu“.
    Að því er varðar hjón og einstaklinga var þessu jafnvægi best náð með 900 milljón króna nettóhækkun á tekjuskatti og 5–600 milljón króna hækkun á eignarskatti. Skýringar sem fylgdu frumvarpinu voru 20 blaðsíður og þar af rúmlega 19 og hálf um tekjuskattinn en tæplega hálf blaðsíða um eignarskattinn. Tólf línuritsskreyttar síður voru um tekjuskattinn en engin um eignarskattinn. Alls konar töflur sýndu hækkun eða lækkun tekjuskatts miðað við fjölskyldustærð, atvinnu og tekjustig. Eignarskattinn og hækkunina þar þurfti alls ekkert að skýra og síst af öllu að minnast á hækkunina eftir hjúskaparstöðu. Þetta hlaut því að vera eitthvað lítið og ómerkilegt mál í augum þeirra þingmanna sem samþykktu hækkunina fyrst ekki þurfti meiri kynningu á málinu. Þannig var lagagreinin samþykkt með þeim afleiðingum sem væntanlegir álagningarseðlar munu sýna. Jafnvægi í ríkisfjármálum náðist. Það verða því um 12.350 einstaklingar sem eiga að gjalda sinn eignarskatt umfram aðra svo jafnvægið í ríkisfjármálum verði enn betra.
    Ef við nú umorðum frumvarpið og þá breytingu sem misræminu veldur og setjum þetta fram á einföldu máli yrði þetta orðað þannig:
    Auk þess sem eignarskattur hækkar mjög verulega hjá öllum gjaldendum er lagt til — svo enn betra jafnvægi náist í ríkisfjármálum — að álagningu verði hagað þannig að í stað þess að einstaklingar greiði mest kr. 18.979 hærra en hjón verði einstaklingum gert að greiða allt að kr. 135.000 meiri eignarskatt en hjón af skuldlausri eign sömu fjárhæðar. Þessu markmiði verði náð með því að reikna eignarskatt manna þannig: Af fyrstu 2.500.000 kr. af eignarskattsstofni … o.s.frv.
    Hversu margir af þeim þingmönnum sem í desember 1988 samþykktu skattalagabreytinguna mundu gera það í dag ef tillagan lægi fyrir á þann hátt? Svari nú hver fyrir sig.
    En hvort málið sem notað er — þingmál eða almennt mál — þá eru afleiðingarnar hinar sömu. Á næsta Alþingi hlýtur stofnunin að taka þetta mál fyrir og leiðrétta afturvirkt. Því verður tæplega trúað að það hafi verið ætlun löggjafans að standa þannig að málum um hækkun eignarskatts sem hér að framan hefur verið lýst.



Fylgiskjal III.

Geir H. Haarde:


„Ekknaskatturinn“ og Ólafur Ragnar.


(Morgunblaðið 23. júní 1989.)



    Fátt hefur vakið meiri athygli í þjóðmálaumræðu undanfarið en borgarafundur sá gegn eignarskattshækkunum ríkisstjórnarinnar sem haldinn var fyrir troðfullu húsi á Hótel Borg í síðustu viku. Ekki síst var það athyglisvert með hvaða hætti fjármálaráðherra, sem veit upp á sig hina mestu skömm í þessu máli, brást við. Hann hvorki kom á fundinn til að standa fyrir máli sínu né svaraði ræðumönnum að fundi loknum. Þess í stað boðaði hann til sérstaks blaðamannafundar fyrir borgarafundinn til að koma höggi á fundarboðendur, dreifa villandi upplýsingum og reyna þannig að deyfa áhrif fundarins í fjölmiðlum. Óhætt mun að fullyrða að þetta upphlaup hafi ekki orðið hinum slæma málstað ráðherrans til framdráttar.
    Ráðherrann gerði m.a. mikið úr því að aðeins 25% framteljenda greiddu eignarskatt. Þessi tala er gróflega villandi. Samkvæmt upplýsingum frá í fyrra greiddu um 48 þúsund manns eignarskatt af 182 þúsund framteljendum, en í hópi framteljenda eru að sjálfsögðu tugir þúsunda unglinga í foreldrahúsum, námsmanna og fleiri aðila sem skila framtali en greiða af eðlilegum ástæðum enga skatta. Þess vegna er út í hött að tala um fjórðung framteljenda í þessu sambandi. Hlutfall starfandi fólks og fólks á eftirlaunum, sem greiðir eignarskatt, er að sjálfsögðu mun hærra. Það er aumur málstaður sem verja þarf með málflutningi af þessu tagi.

Hækkun eignarskatts greiðist á fimm mánuðum í haust.
    Skatthlutföllum í eignarskatti var breytt þannig á Alþingi fyrir jólin að hið almenna skattþrep var hækkað úr 0,95% í 1,2% eða um 26% að raungildi. Þessi hækkun lendir á öllum þeim sem eignarskattinn greiða, tæplega 50 þúsund manns. Við þá hækkun bætist hækkun fasteignamats, sem var að meðaltali 28% á íbúðarhúsnæði, en sú breyting er að sjálfsögðu ekki sérstaklega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þá var bætt við sérstöku „stóreignaþrepi“, 2,7% á eignir umfram 7 milljónir króna hjá einstaklingi en 14 milljónir króna hjá hjónum. Til viðbótar kemur síðan 0,25% álag vegna Þjóðarbókhlöðunnar á eignir umfram 4,25 milljónir króna, en þetta álag er óbreytt frá í fyrra. Hæsti eignarskattur á íbúðarhúsnæði getur því farið í 2,95%.
    Þessum gríðarlegu hækkunum var að sjálfsögðu harðlega mótmælt við meðferð málsins á Alþingi og síðar. Þess var hins vegar e.t.v. ekki að vænta að almenningur gerði sér strax grein fyrir því hve miklar hækkanir hér væru á ferðinni, því eignarskatturinn er ekki lagður á fyrr en í lok júlí. Nú styttist í álagninguna og mun fólk þurfa að standa undir hækkununum með fimm greiðslum frá og með ágústmánuði. Hinn almenni borgari hefur smám saman verið að átta sig á þessu og það er ekki að undra að reiði fólks brjótist nú út og hópur ekkna hafi tekið sig saman um að mótmæla hinum gríðarlegu hækkunum á eignarsköttum. Fullyrðingar ráðherra í sjónvarpi um að hækkunin verði „þúsundkall“ á mánuði að meðaltali verða geymdar þar til álagningarseðlarnir berast en gleymast ekki þessu fólki.
    Eignarskatturinn hérlendis er þeirrar gerðar að hann leggst með meiri þunga á einstaklinga en hjón, þótt um jafnverðmæta eign sé að ræða. Það er vegna þess að hjón njóta fríeignamarks sem tveir einstaklingar. Þannig byrjar einstaklingur, einhleypingur, einstætt foreldri eða fráskilinn að greiða eignarskatt við 2,5 milljóna króna eign en hjón við 5 milljóna króna eign. Í
þessu efni hefur verið fyrir hendi óréttlæti sem fór vaxandi eftir því sem skatthlutfallið var hækkað. Þó keyrði fyrst um þverbak við skattalagabreytingu þá sem stjórnarliðið og hluti Borgaraflokksins samþykktu á Alþingi í vetur.

Sjálfstæðisflokkurinn knúði fram tilslökun.
    Í grein er ég skrifaði í Mbl. 19. janúar sl. tók ég m.a. dæmi af hjónum með 10 milljón króna eign. Af þeirri eign hefðu hjónin þurft að greiða rúmlega 51 þúsund krónur í eignarskatt og Þjóðarbókhlöðuálag á þessu ári miðað við óbreytt skattalög. Þessi hjón þurfa nú að greiða 64 þúsundir króna vegna hins hækkaða álagningarhlutfalls. Hækkunin er rúmlega 25% en hækkun fasteignamats kemur síðan til viðbótar. Falli annað hjónanna frá var svo um hnúta búið í lögunum frá því í desember að skattur á eftirlifandi maka hefði hækkað í tæplega 150 þúsundir króna, sem sagt meir en tvöfaldast við það eitt að annað hjónanna féll frá. Það er þetta sem menn hafa leyft sér að kalla „ekknaskatt“, þótt það sé rétt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni að það heiti er ekki til í lagatexta, ekki frekar en t.d. orðið „matarskattur“, sem heitir að réttu lagi söluskattur á matvæli.
    Fjármálaráðherra stærði sig af því á blaðamannafundi sínum að eignarskattslögunum hefði verið breytt á nýjan leik nú í vor og ekkjum og ekklum gefin 5 ára aðlögun að þeim eignarskattsstiga, sem hann fékk samþykktan á Alþingi fyrir jól. En fjármálaráðherra er hér „að verma sitt hræ við annarra eld“. Það var síður en svo honum að þakka að ekkjum og ekklum sem sitja í óskiptu búi var veitt þessi aðlögun, heldur var það fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar, ekki síst þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem þessi breyting var gerð.
    Þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu þráfaldlega bent á óréttlætið í þeim lögum, sem ráðherra knúði fram fyrir jól, og sama höfðu einstakir þingmenn Kvennalista og Frjálslynda hægriflokksins einnig gert. Ragnhildur Helgadóttir og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu frumvarp á þinginu í apríl um að milda ekknaskattinn. Kristín Halldórsdóttir og fleiri þingmenn Kvennalistans, sem séð höfðu að sér í máli þessu, fluttu og frumvarp sem gekk í sömu átt. Fjármálaráðherra streittist hins vegar gegn breytingunni fram á síðasta dag. Hann féllst þó loks á þá kröfu Matthíasar Bjarnasonar í fjárhags- og viðskiptanefnd að meginefnið í frumvarpi sjálfstæðismanna yrði fellt inn í frumvarp um ráðstafanir vegna kjarasamninga, en þó þannig að ívilnunin yrði ekki ótímabundin, eins og frumvarp sjálfstæðismanna gerði ráð fyrir, heldur bundin við 5 ár. Einnig var tekið upp skilyrði um óskipt bú úr frumvarpi kvennalistakvenna.

Ekknaskatturinn er lægri en ráðherra ætlaðist til.
    Það er því holur tónn í sjálfshóli ráðherra nú þegar hann hælist um yfir þessari breytingu. En hitt er rétt þessi lagabreyting, sem stjórnarandstaðan knúði fram gegn vilja ráðherra, leiðir til þess að fólk sem missti maka sína á árunum 1984–1988 fer mun skár út úr eignarskattsbreytingunum en Ólafur Ragnar Grímsson ætlaðist til. Bæði tókst að knýja fram þessa leiðréttingu nú og fyrir jólin tókst að fá mörkin í hinu svokallaða stóreignaþrepi hækkuð úr sex milljónum í sjö. Getur hver og einn séð fyrir sig hver skattþyngingin hefði orðið hefði ráðherrann fengið öllu því framgengt sem hið upphaflega frumvarp hans í desember gerði ráð fyrir.
    Enginn vafi er á því að mörgum mun bregða í brún þegar þeir fá eignarskattsseðilinn sinn í hendur eftir u.þ.b. mánuð. Eflaust munu hinir sómakærari stjórnarþingmenn einnig hrökkva við þegar það rennur upp fyrir þeim hvað fjármálaráðherra plataði þá í vetur til að samþykkja. Á því er heldur enginn vafi að þessar hækkanir í nafni jafnréttis og félagshyggju munu óhjákvæmilega leiða til hækkunar á húsaleigu og gera þannig hag leigjenda enn verri en áður. Eflaust þykir stjórnarherrunum það ekki athugavert.
    Hitt er ljóst að almenningi þykja aðfarir ríkisstjórnarinnar í þessu máli mjög svo athugaverðar og það hlýtur að verða forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að afmá þann minnisvarða sem fjármálaráðherra hefur reist sér í þessu máli.

    P.s. Það er í samræmi við aðrar blekkingar ríkistjórnarinnar í skattamálum að hún skuli telja lögákveðna hækkun barnabóta og persónuafsláttar 1. júlí og þar með hækkun skattleysismarka sérstaka aðgerð af sinni hálfu til að „styrkja grundvöll nýgerðra kjarasamninga“. Eru menn búnir að gleyma því hvernig þessi sama stjórn með fjármálaráðherra í broddi fylkingar lækkaði skattleysismörkin um síðustu áramót og hækkaði þar með skatta lágtekjufólks?



Fylgiskjal IV.


Ályktun borgarafundar sem haldinn var á Hótel Borg 13. júní sl.



(Tölvutækur texti ekki til.)