Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 116 . mál.


Sþ.

120. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á áhrifum steinatöku í náttúru Íslands og hertar reglur í þeim efnum til náttúruverndar.

Flm.: Árni Johnsen, Salome Þorkelsdóttir, Egill Jónsson,


Kristinn Pétursson.



    Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að láta Náttúrufræðistofnun Íslands kanna áhrif steinatöku á náttúru Íslands. Hert verði eftirlit með steinatínslu til varnar náttúruskemmdum og tollgæslu falið að fylgjast með útflutningi á íslenskum steinum.


Greinargerð.


    Allt bendir til þess að steinatínsla sé nú orðin til skaða á nokkrum stöðum á landinu og vitað er að erlendir ferðamenn og íslenskir aðilar flytja út íslenska steina í stórum stíl og selja á erlendum markaði. Í erlendum ritum steinasafnara hefur það aukist undanfarin ár að birt eru kort og greinar frá Íslandi um forvitnilegustu steinatínslusvæði og er þar víða um að ræða svæði sem eru með sjaldgæfum steintegundum og í sumum tilvikum svæði þar sem bannað er að tína steina. Engin sérstök könnun hefur farið fram á vegum íslenskra vísindamanna. Dr. Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, telur fulla ástæðu til þess að kanna skipulega áhrif steinatöku á náttúru Íslands og er Náttúrufræðistofnun Íslands reiðubúin til þess að taka það verkefni að sér. Samkvæmt kostnaðaráætlun dr. Sveins má áætla að slík könnun kosti um 170 þús. kr. (verðlag í des. 1986).
    Meðfylgjandi er kostnaðaráætlun frá Náttúrufræðistofnun á könnun sem hægt er að draga ályktanir af og grípa til aðgerða eftir og einnig fylgir greinargerð dr. Sveins Jakobssonar um málið.






Fylgiskjal I.


Náttúrufræðistofnun:

Athugun á áhrifum steinatöku á Íslandi.



     Aukakostnaður (verðlag des. 1986):
    Laun BS-jarðfræðings, 2 mánuðir
67.000

             Laun BS-jarðfræðings, yfirvinna
13.500

    Laun BS-jarðfræðings, dagpeningar í 30 daga
33.000

    Akstur, 3.000 km
35.000

    Ýmislegt, útbúnaður o.fl.
20.000

              
———–

             Alls
168.000





Fylgiskjal II.


Dr. Sveinn Jakobsson:

Greinargerð um steinatöku á Íslandi.


(5. des. 1986.)



    Steinn (steintegund) merkir í þessari greinargerð það sem á ýmsum öðrum málum heitir mineral: það fasta efni eða efnasamband sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og ekki er af lífrænum toga.
    Ísland hefur um langan aldur verið vel kynnt vegna fallegra holufyllinga, þ.e. steintegunda sem myndast hafa í holrými bergs við jarðhitaummyndun. Algengustu holufyllingarnar eru kvarssteinar, kalsít (silfurberg) og geislasteinar. Hér á landi eru þekkt 12 afbrigði kvars, 2 afbrigði kalsíts, en geislasteinar skiptast í 20 tegundir. Auk þess eru fágætari tegundir holufyllinga, en þær skipta mörgum tugum.
    Holufyllingar er einkum að finna í bergmyndunum frá tertíertíma. Þessi svæði eru mikilvægust: Austurland, frá Hornafirði í Borgarfjörð eystri; Suðvesturland, frá Esju í Norðurárdal í Borgarfirði; Austur-Barðastrandarsýsla, frá Kollafirði í Gufufjörð; og Eyjafjarðarsýsla, frá Svalbarðsströnd í Siglufjörð. Síðan eru margir einstakir staðir utan þessara svæða sem of langt mál yrði að telja upp hér.
    Bergmyndanir eru víðast hvar viðkvæmar fyrir steinatínslu. Stafar þetta af því að endurnýjun er mjög hæg. Það dæmi skal tekið að sé venjuleg fjallsskriða hreinsuð af holufyllingum má ætla að nokkrir áratugir líði áður en allt er komið í samt horf á ný.
    Ásókn í þessar holufyllingar hefur aukist til muna, einkum undanfarinn áratug. Fyrir þessu eru eftirfarandi ástæður helstar: Áhugi almennings á steinafræði hefur vaxið mjög hér á landi, samfara auknum ferðalögum innan lands. Áhugi útlendinga á íslenskri steinafræði hefur aukist, m.a. vegna greina sem birst hafa í erlendum tímaritum um íslenska steinafræði.
    Ástæða er til að ætla að steinatínsla sé nú orðin til skaða á nokkrum stöðum á landinu, einkum í Berufirði, Eskifirði, Breiðdal, Hvalfirði og á Hjallahálsi (milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar). Auk þess hefur öll umgengni á þessum stöðum versnað. Yfirleitt er útlendingum kennt hér um, en telja má öruggt að áhrif þeirra séu orðum aukin. Stór hópur Íslendinga fæst nú við steinasöfnun. Þannig eru nú 75 íslenskir steinasafnarar á skrá hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, en ætla má að þeir fari í söfnunarferðir reglubundið. Hitt ber á að líta, að söfnun útlendinga er alvarlegri að því leyti að sýnishornin hverfa úr landi.
    Örðugt er að leggja hér fram ákveðnar tillögur til úrbóta án þess að kanna þessi mál nánar. Einar Þórarinsson, safnvörður í Neskaupstað, hefur rannsakað steinatöku á svæðinu frá Borgarfirði eystri til Hamarsfjarðar (skýrsla, mars 1981), en nauðsynlegt er að kanna allt landið í þessu tilliti, og þá ekki síður óbyggð svæði sem byggð. Sem dæmi má nefna að steinatínsla er veruleg í Hvalfirði, en engar kvartanir hafa borist þaðan vegna þess að ekki er um byggð svæði (bújarðir) að ræða.
    Athuga þarf gaumgæfilega hvort friða eigi ákveðin svæði fyrir steinatínslu. Steintegundir eru mjög mismunandi að stærð, sama tegundin er í sumum tilvikum aðeins brot úr millimetra í þvermál, í öðrum tilvikum tugir sentimetra á lengd. Það er því ekki gerlegt að friða ákveðnar tegundir. Huga þarf að þýðingu fræðslustarfs í samráði við Náttúruverndarráð. Einnig má athuga hvort herða eigi eftirlit með farangri útlendinga, einkum á Seyðisfirði.