Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 168 . mál.


Sþ.

190. Tillaga til þingsályktunar



um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi.

Flm.: Geir H. Haarde, Halldór Blöndal, Ingi Björn Albertsson,


Guðmundur H. Garðarsson, Pálmi Jónsson, Hreggviður Jónsson,


Kristinn Pétursson, Eggert Haukdal.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að heimila Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins án tafar að hefja forkönnun á mögulegri staðsetningu og gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Íslandi.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var flutt í þinglok á síðasta vori en hlaut eigi afgreiðslu og er því endurflutt nú lítt breytt. Málefni þetta kom þó oftar en einu sinni til umræðu á síðasta þingi og var á ný til umræðu í sameinuðu þingi hinn 9. nóv. sl. í tilefni af fyrirspurn frá Guðmundi H. Garðarssyni, 14. þm. Reykv.
    Fyrir ári bar fyrsti flutningsmaður tillögunnar fram fyrirspurn um málið til utanríkisráðherra og óskaði skriflegs svars. Því var útbýtt á Alþingi 8. des. í fyrra. Í svari ráðherra sagði m.a.: „Þetta mál er nú til vandlegrar athugunar í utanríkisráðuneytinu og liggur næst fyrir að taka þarf ákvörðun um hvort heimiluð verði forkönnun í samvinnu við Atlantshafsbandalagið með svipuðum hætti og dönsk stjórnvöld hafa heimilað að því er Grænland varðar. Sú ákvörðun verður tekin þegar niðurstöður þessara athugana liggja fyrir.“
    Tæpu ári síðar svarar utanríkisráðherra sambærilegri fyrirspurn Guðmundar H. Garðarssonar munnlega þannig: „Forræði þessa máls er í höndum utanríkisráðherra eins og upplýst hefur verið og um það segi ég það eitt á þessu stigi málsins að ég mun taka mínar ákvarðanir að athuguðu máli, könnun á öllum staðreyndum og málsatvikum, þegar ég tel það tímabært.“
    Ekkert kom hins vegar fram í máli ráðherra um það hvernig þeirri „athugun“ hefði miðað sem hann sagði í fyrra að væri þá hafin. Verður að teljast mjög undarlegt að athugun á þessu máli skuli hafa farið fram í svo langan tíma án þess að fyrir liggi nokkur niðurstaða.
    Hinn 10. febr. á þessu ári barst utanríkisráðherra bréf frá Manfred Wörner, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, varðandi þetta mannvirki og birti ráðherra bréfið opinberlega. Í því kemur m.a. fram að „flugvöllur sá sem tillaga liggur fyrir um muni á engan hátt gegna hernaðarhlutverki á friðartímum. Flugvöllurinn yrði mannaður og starfræktur af óbreyttum borgurum og ekki talinn herflugvöllur nema á stríðstímum.“
    Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., tók málið upp utan dagskrár á Alþingi 20. febr. sl. og spurði utanríkisráðherra m.a. að því hvort hann hygðist veita umbeðna heimild til forkönnunar og þá hvenær. Í ítarlegri ræðu ráðherra um málið kom fram eftirfarandi svar við þessari spurningu: „Svarið við því er að ég mun kynna málið rækilega í ríkisstjórn og utan hennar. Að því loknu mun ég taka um það ákvörðun, en það liggur ekki á að taka þessa ákvörðun því við höfum til þess allgóðan tíma. En ef ég að lokinni mjög rækilegri umræðu um málið hef ekki sannfærst um hið gagnstæða hyggst ég heimila að könnunin fari fram.“
    Utanríkisráðherra las einnig í ræðu sinni við þetta tækifæri minnisblað um málið sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi skömmu áður. Í niðurlagi þessa minnisblaðs segir svo: „Augljóst er að niðurstöður ítarlegrar úttektar á mögulegri staðsetningu fullkomins alþjóðlegs flugvallar eru íslenskum stjórnvöldum mikils virði án tillits til þess hvort bygging slíks flugvallar yrði leyfð. Því þarf ríkisstjórnin að taka leyfisveitingu til slíkrar könnunar til málefnalegrar umfjöllunar og ákvörðunar.“
    Í minnisblaðinu, sem lagt var fyrir ríkisstjórnina í febrúar, segir ráðherrann sem sé að ríkisstjórnin þurfi að taka leyfisveitingu til forkönnunar til ákvörðunar. Þetta orðalag vekur óneitanlega upp spurningar þótt ráðherrann hafi hins vegar síðar í ræðu sinni hinn 20. febr. svarað spurningu Matthíasar Á. Mathiesens um það hvar ákvörðunarvald í þessu máli liggi með þessum hætti: „Ég tel ekki aðeins að mér sé heimilt að taka afstöðu til óska bandalagsins um að framkvæma forkönnun á hugsanlegum möguleikum á staðsetningu varaflugvallar hér á landi um leið og sama könnun fer fram á öðrum stöðum, þ.e. Grænlandi eða Færeyjum hugsanlega. Mér er skylt að taka afstöðu til þessa máls og tilkynna Atlantshafsbandalaginu svar mitt. Ég mun að sjálfsögðu kynna málið áfram og ræða það málefnalega og rækilega innan ríkisstjórnarinnar við samstarfsaðila svo sem eðlileg vinnubrögð bjóða í stjórnarsamstarfi. En forræði málsins er í mínum höndum að því er þetta varðar, á því tel ég engan vafa leika.“
    Þessi sami skilningur varðandi forræði málsins var síðan áréttaður í umræðunum 9. nóv. sl. eins og fram kemur hér að framan. Ástæðulaust er að draga þann skilning í efa. En vegna þess dráttar, sem orðið hefur á því að utanríkisráðherra taki ákvörðun sína er, að dómi flutningsmanna, eðlilegast að Alþingi taki sjálft ákvörðun í málinu svo sem þingsályktunartillaga þessi gerir ráð fyrir.
    Í umræðunum 9. nóvember upplýsti utanríkisráðherra að forkönnun á hugsanlegum varaflugvelli á Grænlandi væri lokið og hefðu niðurstöður legið fyrir í ágústmánuði síðastliðnum. Sú forkönnun á Grænlandi virðist hafa tekið skemmri tíma en utanríkisráðherra hefur tekið sér til athugunar á því einu hvort heimila beri slíka könnun hér á landi.
    Bersýnilegt er að engar efnisforsendur eru fyrir slíkri frestun á ákvörðun í þessu máli heldur er hún eingöngu til komin vegna pólitískra aðstæðna í núverandi ríkisstjórn. Einn stjórnarflokkanna, Alþýðubandalagið, virðist hafa fengið neitunarvald í málinu, en það hefur sem kunnugt er lýst algerri andstöðu við forkönnun jafnt sem framkvæmdir á þessu sviði, svo sem ítrekað var á nýafstöðnum landsfundi Alþýðubandalagsins.
    Margt bendir til þess að á Alþingi sé mikill meiri hluti fyrir því að heimila margumrædda forkönnun eins og hugur utanríkisráðherra virðist þrátt fyrir allt stefna til. Flutningsmenn telja eðlilegt að á það verði látið reyna í atkvæðagreiðslu í sameinuðu þingi. Frekari dráttur á þessari einföldu ákvörðun er algerlega ástæðulaus. Eðlilegt er því að Alþingi taki af skarið og feli utanríkisráðherra að heimila forkönnunina enda er margyfirlýst, m.a. af honum, að slík könnun felur ekki í sér neinar skuldbindingar af hálfu íslenskra stjórnvalda varðandi framhald málsins.