Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 48 . mál.


Sþ.

192. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar G. Þórarinssonar um framleiðslu og sölu laxaseiða frá Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
1.    Hvaðan og af hvaða stofni eru hrogn sem Laxeldisstöðin í Kollafirði hefur notað til klaks?
    Svar óskast ár fyrir ár frá 1961 til dagsins í dag.
2. Hver hefur framleiðsla seiða verið ár fyrir ár frá 1961 til dagsins í dag?
3. Hvernig hefur seiðunum verið ráðstafað:
    a.    til hafbeitar í Kollafirði,
    b.    til fiskeldisstöðva, hvaða stöðva og hve mikið til hverrar,
    c.    til sleppinga í ár, í hvaða ár og hve mikið í hverja?
    Svar óskast ár fyrir ár frá 1961 til dagsins í dag.


    Sem svar við fyrirspurninni er hér birt ritið Frá starfsemi Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði. Uppruni laxastofnsins í stöðinni, seiðasölur, hafbeit og seiðaframleiðsla, eftir Þór Guðjónsson (Rit Veiðimálastofnunar, 1989:22).

Inngangur.
    Ríkisstjórnin samþykkti 1961 að reisa skyldi tilraunastöð fyrir klak og eldi laxfiska. Næstu tvo áratugina þar á undan höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir með laxfiskaeldi, fyrst af tveimur bændum norður í Kelduhverfi á árunum 1941 til 1946, í Borgarfirði 1944 og í Árnessýslu 1946. Vorið 1950 lagði höfundur fram áætlun um stóra klak- og eldisstöð við Elliðaárnar sem ætlað var að yrði í sameign Rafmagnsveitu Reykjavíkur, ríkisins og Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Land fékkst þó ekki undir stöðina við árnar og komst hún því ekki í framkvæmd. Fiskeldi var hafið að Laxalóni við Reykjavík 1951 með aðaláherslu á regnbogasilung og við Elliðaárnar 1952 með laxeldi í lítilli stöð sem Rafmagnsveita Reykjavíkur kom upp. Tveir eða þrír aðilar aðrir hófu eldi laxfiska á sjötta áratugnum. Mest var þetta í smáum stíl. Ráðist var jafnan í þessar tilraunir með litlum undirbúningi. Þegar hér var komið sögu var lítil þekking og reynsla á laxfiskaeldi í landinu. Var því ljóst að mikil þörf var á því að hefja tilraunastarfsemi á því sviði og þróa upp slíkt eldi við íslenskar aðstæður.
    Tilgangurinn með að koma upp tilraunaeldisstöð af umræddu tagi var aðallega tvíþættur. Annars vegar var að ala seiði laxfiska til að nota til fiskræktar, þ.e. til að sleppa í ár og vötn til að auka veiði, og til matfiskeldis og hins vegar til að gera tilraunir og rannsóknir á klaki og eldi laxfiska, m.a. með að sleppa gönguseiðum í sjó og kanna endurheimtu þeirra sem kynþroska laxa úr sjó, þ.e. hafbeit.
    Tilraunastöð í fiskeldi var valinn staður í Kollafirði á Kjalarnesi, Kjósarsýslu. Var jörðin keypt sumarið 1961 í þeim tilgangi. Hefur hún ýmsa kosti til að bera fyrir slíka starfsemi svo sem lindarvatn, árvatn, jarðhita og aðstöðu við botn Kollafjarðar fyrir nauðsynlegan útbúnað til að sleppa laxaseiðum í sjó og heimta lax af hafi (hafbeit). Auk þess er jörðin í nánd við aðalumferðarmiðstöðvar landsins.
    Hafist var handa við að reisa tilraunastöðina í septemberbyrjun 1961 fyrir lánsfé. Unnið var í fyrstu við vatnsveitur og að koma upp klakútbúnaði í gamalli heyhlöðu. Hófst laxaklak þar um haustið. Næstu ár voru smíðaðir eldiskassar, grafnar út útitjarnir, þær stærstu klæddar með sniddu, gerðir að- og frárennslisskurðir, fjárhúsi breytt í eldishús með tólf steinsteyptum þróm og gengið frá tjörnum við sjávarkambinn í Kollafirði með sleppi- og móttökubúnaði fyrir lax. Allt var þetta gert á ódýrasta hátt miðað við að starfsemin færi fram að miklu leyti undir beru lofti eins og slíkt fiskeldi í nágrannalöndunum var oftast rekið um þær mundir.
    Á fyrstu árunum í rekstri stöðvarinnar var um að ræða algjöra tilraunastarfsemi. Starfsmenn þurftu að kynnast notagildi útbúnaðarins og prófa sig áfram þar til hagkvæmustu not fengjust. Þetta tók að sjálfsögðu tíma. Ör starfsmannaskipti voru ekki til að flýta fyrir þróuninni. Á fyrstu tíu árum starfsemi stöðvarinnar voru fimm stöðvarstjórar. Tveir þeirra dóu í starfi á þessu tímabili. Veðurfarið í Kollafirði reyndist mjög erfitt fyrir fiskeldi undir beru lofti. Vatnsrennsli var ofanjarðar. Af því leiddi tíðar hitasveiflur, óhreinindi í vatni í úrkomu og krapamyndanir í snjókomu og skafrenningi sem ollu rennslistruflunum. Mikið starf fór í að lagfæra galla sem fram komu við rekstur stöðvarinnar. Var það gert eftir því sem þörf var á og fé fékkst til. Fljótlega kom í ljós að flytja þurfti mikinn hluta eldisins undir þak, auka nýtingu jarðhitans við upphitun á eldisvatni og leiða vatn í pípum að stöðinni í stað þess að það rynni ofan jarðar. Þessu var kippt í liðinn á fyrstu tíu árum í starfsemi stöðvarinnar og reyndar mörgu fleiru sem þörf var á að lagfæra. Þurfti m.a. að vinna upp tækni við upphitun á lindarvatni fyrir eldisfisk með heitu borholuvatni sem var nýtt hér á landi. Um beina blöndun við lindarvatn var ekki að ræða vegna brennisteinsinnihalds í borholuvatninu.
    Síðla árs 1984 varð vart við nýrnaveiki í laxaseiðum sem seld höfðu verið frá Kollafjarðarstöðinni til annarrar eldisstöðvar. Voru seiðasölur frá Kollafjarðarstöðinni bannaðar 1985 og 1986 var seiðum ekki sleppt í hafbeit. Á árum 1986 og 1987 var eldisbúnaði í stöðinni breytt, eldisrými aukið og fleira var fært til betri vegar eftir kröfum tímans. Þá var einnig byggt 400 fermetra eldishús til kynbótatilrauna á hafbeitarlaxi.

Uppruni laxastofnsins.
    Á árunum 1961–1965 var aflað laxahrogna til stöðvarinnar víðs vegar að af landinu. Á þessum árum var erfitt að fá keypt laxahrogn. Fáein klakhús voru þá starfandi. Þau fengu hrogn úr laxi úr ám í nágrenni við klakhúsin. Hrognaöflunin til þeirra gat verið stopul. Helst var á vísan að róa með útvegun laxahrogna hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem rak klakhús við Elliðaárnar. Í nokkrum tilvikum voru bændur fengnir til að draga á fyrir lax í heimaám sínum til hrognaöflunar. Voru þeim lögð til veiðarfæri og laxakistur til að geyma laxinn í þar til hann var tilbúinn til kreistingar. Ánum var síðan bætt upp hrogntakan með því að sleppa í þær sumaröldum seiðum eða gönguseiðum.
    Á áðurnefndum árum fengust alls 5,3 milljónir laxahrogna til stöðvarinnar. Úr nágrenni Reykjavíkur kom rúmlega helmingur hrognanna, þ.e. 51,9% úr Elliðaánum, 2,2% úr Leirvogsá og 2,0% úr laxi sem gengið hafði í Kollafjarðarstöðina 1964 og 1965. 12,8% voru upprunnin úr tveimur ám á Vesturlandi, 21,0% úr fjórum ám á Norðurlandi og 9,7% úr ám í Árnessýslu, sjá töflu 1. Á árinu 1969 var tæplega helmingur hrogna í stöðinni fenginn að eða tæp 300.000. Hrognin voru úr Sæmundará, Laxá í Aðaldal og úr ám í Árnessýslu. Tvisvar síðar fengust smáslattar af laxahrognum, í annað skiptið úr Laxá í Aðaldal og í hinu tilvikinu úr Fossá í Árnessýslu. Að öðru leyti voru notuð hrogn til klaks úr laxi sem gekk inn í Kollafjarðarstöðina. Laxastofninn í stöðinni er þannig blanda af mörgum laxastofnum úr ám víðs vegar að af landinu. Erfitt mun að áætla framlag laxastofna úr einstökum ám til Kollafjarðarstofnsins, þar sem dauði í hrognum og seiðum á fyrstu árunum var mjög mismikill. Auk þess má ætla að náttúran hafi valið úr upprunalegu stofnunum það sem hæfast hefur reynst til að lifa af við lífsskilyrðin í hinu nýja umhverfi.

Seiðasölur.
    Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld var álitið að mikil framför væri að því að nota seiði til fiskræktar sem hefðu verið alin lengri eða skemmri tíma áður en þeim var sleppt í stað kviðpokaseiða eins og gert var þá hér á landi. Besta árangurs væri að vænta af því að sleppa gönguseiðum. Þegar Kollafjarðarstöðin tók til starfa var kviðpokaseiðum og að hluta til sumaröldum seiðum sleppt í árnar. Sumaralin seiði höfðu oftast verið í eldi í þrjá til fjóra mánuði eða frá því í maí eða júní og fram í ágúst eða september, en þá var þeim sleppt í árnar. Gátu slík seiði verið 4–5 sm að lengd og álíka stór og ársgömul seiði sem alist höfðu upp í ánum. Eftir 1970 var farið að ylja upp klakvatn á laxahrognum í stöðinni. Var það mikil framför fyrir fiskræktina. Styttist klaktíminn um nálægt þrjá mánuði og var því kleift að hefja eldi fyrr sem því svaraði. Laxaseiðin náðu 4–5 sm lengd í júní og var þeim þá sleppt í árnar í stað þess að sleppa í ágúst eða september, en við það ávannst það að seiðin fengu sumarið í ánni og styttist vera þeirra þar þannig um eitt ár.
    Á fyrstu starfsárum stöðvarinnar voru mikil afföll á seiðum meðan starfsmenn voru að reyna sig áfram með útbúnað stöðvarinnar og kynnast áhrifum veðurfarsins á reksturinn. Með vaxandi reynslu dró úr afföllum einkum eftir að eldi minni seiðanna var að fullu flutt undir þak 1967 og jöfn og stöðug not fengust sama ár af heitu vatni úr borholu til að ylja eldisvatnið. Mikil framför var 1965 við tilkomu erlends þurrfóðurs. Fyrstu árin tók það tvö eða þrjú ár að ná seiðum upp í göngustærð. Síðar varð algengara að það tæki eitt eða tvö ár og enn síðar að mestur hluti næðist upp í göngustærð á einu ári.
    Seiðum úr stöðinni hefur verið ráðstafað ýmist til fiskræktar í ám landsins, til fiskeldisstöðva eða í hafbeit, sjá skrár yfir seiðasölur á árunum 1964–1986. Áhersla hefur alla tíð verið lögð á að vera til taks til að þjóna fiskrækt og fiskeldi innan lands eftir því sem við hefur verið komið á hverjum tíma. Hefur það náð til urriða og bleikju auk laxins. Laxaseiði voru seld ýmist í formi kviðpokaseiða (pokaseiða), smáseiða, sumaralinna seiða, seiða af millistærðum (oftast 7–10 sm að lengd) og gönguseiða. Eftirspurnin eftir seiðum á ólíkum þroskastigum var breytileg frá ári til árs. Sala á kviðpokaseiðum var aðallega 1974, 1975 og 1978 og seinni árin á smáseiðum sem voru í eldi í 1–3 vikur. Af seiðum 10 sm eða minni var mest selt af sumaröldum seiðum sem eru jafnan 4–5 sm að lengd, eins og áður var greint frá. Sala á gönguseiðum var mikilvægur þáttur í seiðasölu stöðvarinnar flest árin frá 1967–1984.
    Reynt var að áætla seiðasölur fyrir fram, en það reyndist stundum erfitt því að verulegur hluti pantana barst oftast skömmu áður en afgreiðsla átti að fara fram. Pantanir til innlendra aðila voru látnar ganga fyrir pöntunum erlendis frá. Í nokkrum tilvikum voru þó hrogn og seiði seld til útlanda. Sala sumaralinna seiða var frá 11.600 árið 1982 upp í 148.920 árið 1981, en oftast var árleg sala milli 40.000 og 80.000 eða í tíu skipti og í sex skipti fór hún yfir 100.000. Gönguseiðasalan sveiflaðist úr 24.120 árið 1969 upp í 128.220 árið 1973. Oftast var salan milli 40.000 og 90.000. Þegar sala á sumaröldum seiðum var mikil gat hún orðið til þess að framleiðsla gönguseiða árið eftir varð minni en áætlað var. Sala gönguseiða gat haft áhrif á seiðafjöldann sem sleppt var í hafbeit í Kollafirði því að gönguseiðum sem ekki seldust var sleppt í hafbeit.
    Með árunum fjölgaði fiskeldisstöðvum. Seldu þær í vaxandi mæli seiði til fiskræktar. Áætlað var að t.d. árið 1974 hafi um helmingur gönguseiða sem sleppt var í íslenskar ár verið úr Kollafjarðarstöðinni. Á næstu árum minnkaði hlutfall stöðvarinnar í heildarseiðasölunni. Samkvæmt úttekt á seiðasölu á landinu 1979 var sleppt 2,8 milljónum kviðpokaseiða af laxi, þar af 955.000 í Lárvatn á Snæfellsnesi. Það ár var sleppt 480.000 sumaröldum laxaseiðum og 212.000 gönguseiðum. Kollafjarðarstöðin seldi á því ári 71.000 sumaralin seiði og millistærð af seiðum og rúmlega 63.000 gönguseiði til fiskræktar, og 40.000 gönguseiðum var sleppt í hafbeit í Kollafirði.
    Ef meta á árangur af seiðasleppingum í ár landsins verður m.a. að hafa í huga að það er mikið vandaverk að sleppa seiðum, ef góður árangur á að nást. Það þarf að velja réttan tíma til að sleppa, þekkja ákjósanlegustu staðina í ánum fyrir seiði af mismunandi stærðum, dreifa seiðum hæfilega miðað við stærð þeirra og þroska og sjá um að vel fari um seiðin í flutningi á sleppistaði. Vitað er að oft á tíðum hefur ýmislegt verið ábótavant við seiðasleppingar þrátt fyrir veittar leiðbeiningar þar um, bæði munnlegar og skriflegar. Kaupendur hafa séð um að sleppa seiðum í árnar eða aðrir sem þeir hafa fengið fyrir sig til þeirra hluta, en sjaldnast hafa þær verið framkvæmdar af fagmönum.

Hafbeit í Kollafirði.
    Árið 1963 var fyrstu gönguseiðunum, 300 að tölu, sleppt í Kollafirði til sjógöngu. Árið eftir var sleppt 1.000 gönguseiðum og næstu fjögur ár frá 11.300 til 16.000 hverju sinni. Vorið 1969 komst tala slepptra seiða upp í 125.700 og í 95.000 árið 1970. Á árunum 1971 til 1984 voru gönguseiðasleppingar oftast frá 40.000 og upp í 70.000. Á árunum 1985 til 1989 jukust þær verulega að undanskildu árinu 1986, en þá var engu sleppt svo sem fyrr segir, eða frá 180.000 árið 1985 upp í 300.000 árið 1989, sjá töflu 2.
    Endurheimtur frá einstökum sleppingum voru mjög mismiklar allt frá 0,5% árið 1971 til 14% árið 1973. Telja verður að endurheimtuprósentur í töflu 2 séu of lágar. Vitað var hve mörgum seiðum var sleppt á hverju ári til sjógöngu innan tjarna stöðvarinnar, en seiðin gengu ekki öll út úr tjörnum í sjó. Ekki var vitað hve mörg seiði voru eftir hverju sinni, enda var ekki komið tölu á þau.
    Á fyrstu árunum var hluti seiðanna alinn upp í göngustærð við rafljós þegar ekki var bjart. Uxu þau hraðar við slíkar aðstæður. Niðurstöður af merkingum og tilraunum í stöðinni sýndu að seiði sem höfðu verið alin upp við rafljós allan veturinn áður en þeim var sleppt skiluðu sér mjög illa úr sjó sem kynþroska laxar. Í ljós kom að þau aðlöguðu sig ekki veru í sjó nema í mjög litlum mæli. Vorið 1969 var 125.700 gönguseiðum sleppt í stöðinni eins og áður sagði. Um 88.000 þeirra voru eins árs seiði af göngustærð sem höfðu verið alin við rafljós allan veturinn fyrir sleppingu. Sé gert ráð fyrir að sama hlutfall hafi skilað sér af ómerktum seiðum og af merktum eins árs gönguseiðum frá sama ári eða 0,12%, þá hefðu um 100 laxar komið út úr 88.000 seiðasleppingunni. Af hinum hlutanum eða af 37.700 gönguseiðum ættu þannig að hafa skilað sér tæplega 4.100 laxar úr sjó eða 10,9%. Vorið 1970 var sleppt 95.000 gönguseiðum. Endurheimta á laxi úr sjó árið 1971 var sú lélegasta sem fengist hefur í stöðinni hvað hundraðshluta snertir. Skýringar á lítilli endurheimtu það ár er frekast að leita til þess hve stór hluti seiðanna, sem sleppt var árið 1970, var eins árs seiði sem alin voru við rafljós veturinn fyrir sleppingu.

Seiðaframleiðsla.
    Laxaseiðasalan í Kollafirði hefur aðallega verið með tvennum hætti, annars vegar seiði 10 sm eða minni og þá mestmegnis sumaralin seiði, 4–5 sm að lengd, og hins vegar gönguseiði, 10–15 sm að lengd. Þau eru jafnan 10–40 g að þyngd. Minni seiðin hafa verið notuð til fiskræktar í ám og til framhaldseldis í eldisstöðvum og gönguseiðin til fiskræktar, í hafbeit og í matfiskeldi nú síðari ár. Í töflu 3 er seiðum skipt eftir stærðarflokkum. Að vísu er skiptingin ekki nákvæm öll árin, þar sem seiði af mismunandi stærðum, 10 sm eða minni, eru sum árin talin með sumaröldum seiðum. Á árunum 1964 til 1984 var meðal árleg sala á sumaröldum seiðum 71.967. Á árunum 1967 til 1984 voru seld að meðaltali 67.443 gönguseiði og í Kollafirði sleppt að meðaltali 39.559 gönguseiðum á tímabilinu 1963–1984. Þegar teknar eru með gönguseiðasleppingar til ársins 1989 er árlega meðaltalið 68.627. Meðalársframleiðsla stöðvarinnar á gönguseiðum á árunum 1963 til 1984 var 94.276, en þegar talin er með framleiðslan til ársins 1989 er hún 115.318 gönguseiði.

Lokaorð.
    Við samantekt þessa er stuðst við skýrslur stöðvarinnar, greinar um hana og um tilraunir sem framkvæmdar hafa verið í stöðinni, svo og við reynslu höfundur. Skrá yfir rit varðandi umrætt efni er að finna í ritinu Hafbeit, ráðstefna í Reykjavík, seinna bindi, 1988, bls. 326–329. Skal vísað til rita í nefndri skrá um frekari upplýsingar um starfsemi Kollafjarðarstöðvarinnar.


Töflur.


(Texti ekki til tölvutækur.)