Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 178 . mál.


Nd.

201. Frumvarp til laga



um veiðieftirlitsgjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal með reglugerð ákveða sérstakt gjald – veiðieftirlitsgjald – fyrir veiðileyfi sem veitt eru á grundvelli ákvæða laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, eða annarra laga er kveða á um veiðar í íslensku fiskveiðilögsögunni.
    Gjald þetta rennur til reksturs veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins og skal fjárhæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins.

2. gr.

    Fyrir önnur veiðileyfi en þau er um getur í 3. gr. skal gjaldið miðast við áætlað verðmæti þess afla sem leyfið heimilar veiðar á. Fyrir skip, sem velja sóknarmark við botnfiskveiðar, skal gjaldið miðast við aflamarkskost skipsins. Skal ráðherra áætla hlutfallsleg verðmæti einstakra tegunda sjávardýra í þessu sambandi fyrir upphaf vertíðar eða veiðitímabils. Aldrei skal gjald samkvæmt þessari málsgrein vera hærra en 0,5% af áætluðu verðmæti afla sem viðkomandi veiðileyfi heimilar veiðar á.

3. gr.

    Fyrir botnfiskveiðileyfi báta undir 10 brl. og leyfi til veiða, sem ekki eru bundnar tilteknu aflamarki, skal greiða fast gjald og getur ráðherra ákveðið það með hliðsjón af mögulegu aflaverðmæti og eðli veiðanna.

4. gr.

    Útgerð skips skal endurgjaldslaust sjá veiðieftirlitsmönnum sjávarútvegsráðuneytisins fyrir fæði og aðstöðu um borð meðan þeir stunda eftirlitsstörf.
    Sé talin sérstök þörf á eftirliti um borð í fiskiskipi vegna þess að aflinn er unninn um borð eða vegna eðlis veiðanna, t.d. við tilraunaveiðar, getur sjávarútvegsráðuneytið krafið útgerð skips um endurgreiðslu kostnaðar vegna eftirlitsmanns um borð í skipinu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Verkefni veiðieftirlitsins hafa stóraukist á undanförnum árum með tilkomu aukinna takmarkana á veiðiheimildum fiskiskipa. Kemur hér m.a. til að við hefur bæst eftirlit með 800 til 1200 smábátum. Þessi aukning hefur leitt til þess að hafa þarf eftirlit með 1400 til 1800 skipum í stað 600 áður. Einnig eru landanir smábáta tíðari en stórra skipa sem veldur aukinni eftirlitsþörf á löndunarstað. Nauðsynlegt hefur reynst að stórauka eftirlit um borð í fiskiskipum, einkum togurum, vegna mikils smáfisks í afla. Þá hefur skipum, sem fullvinna afla um borð, fjölgað mikið. Í frumvarpi því til fjárlaga, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir að rekstur veiðieftirlitsins verði borinn uppi af eftirlitsgjaldi sem greitt verði af þeim aðilum sem fá aðgang að fiskveiðilögsögunni. Færð hafa verið fram þau rök að eðlilegt sé að þeir aðilar, sem leyfi fá til að nýta sameiginlega fiskstofna þjóðarinnar, standi undir kostnaði við nauðsynlegt eftirlit með að reglur og lög, sem sett eru til verndar auðlindinni, séu virt.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 79/1975, um aukatekjur ríkissjóðs, ákveður fjármálaráðherra gjöld fyrir veiðileyfi með sama hætti og önnur leyfisgjöld. Gjöld þessi renna í ríkissjóð og námu u.þ.b. 6,3 milljónum króna á árinu 1988. Með þessari grein er lagt til að það verði sjávarútvegsráðherra er ákveði þessi gjöld og að þau renni ekki ósérgreind í ríkissjóð heldur verði sérstaklega ætluð til að standa undir rekstri veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins. Skal ráðherra miða ákvörðun um fjárhæð gjaldsins við að hún standi að fullu undir kostnaði við veiðieftirlitið. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að 57 milljónir króna þurfi til þessa viðfangsefnis. Samkvæmt þessu þurfa heildartekjur af veiðileyfisgjöldum rúmlega að nífaldast frá því sem var á sl. ári.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að stærstur hluti veiðieftirlitsgjaldanna verði miðaður við það aflamagn sem hverju skipi er heimilað að veiða að teknu tilliti til mismunandi aflaverðmætis tegunda. Í framkvæmd yrðu veiðiheimildir af einstökum tegundum færðar til svonefndra þorskígilda og gjaldið miðað við þau. Miðað við úthlutuð þorskígildi á árinu 1988 og áætlanir í fjárlagafrumvarpi næsta árs um rekstrarkostnað veiðieftirlits lætur nærri að gjaldið nemi 11–12 aurum á hvert þorskígildiskíló. Gjald vegna skipa er velja sóknarmark við botnfiskveiðar skal samkvæmt grein þessari miðast við það aflamark er skipið átti kost á, enda er ekki kveðið á um hámarksafla allra tegunda í sóknarmarkinu. Loks er í greininni lagt til að hámark veiðieftirlitsgjalds verði lögbundið.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að fast gjald verði ákveðið fyrir leyfi til botnfiskveiða smábáta sem og fyrir þau veiðileyfi þar sem ekki er kveðið á um leyfilegan hámarksafla, t.d. leyfi til grásleppuveiða og ýmissa tilraunaveiða. Fast gjald yrði einnig ákveðið vegna leyfa til veiða með sérstök veiðarfæri eins og dragnót. Lagt er til að ráðherra verði m.a. gert að taka mið af líklegu meðalaflaverðmæti við ákvörðun þessara gjalda en ekki þykir ástæða til að binda þessi gjöld sérstöku hámarki frekar en gildir um leyfisgjöld samkvæmt lögum nr. 79/1975 almennt.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að tekin verði af tvímæli um að útgerðum beri að sjá veiðieftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir sinna skyldustörfum um borð. Þetta er í samræmi við viðteknar venjur.
    Þegar afli er unninn um borð í veiðiskipi, t.d. frystiskipi, er almennt séð meiri þörf á eftirliti en í öðrum fiskiskipum. Verður að telja eðlilegt að útgerðir þessara skipa standi sérstaklega undir þessum aukna tilkostnaði. Sama getur átt við í öðrum tilvikum eins og t.d. þegar heimilaðar eru undanþágur frá almennum reglum til veiða í tilraunaskyni. Sá tilkostnaður, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst laun og ferðakostnaður veiðieftirlitsmanna en um fæði og aðstöðu fer skv. 1. mgr. Gjald samkvæmt þessari málsgrein kemur til viðbótar almennu gjaldi skv. 2. gr.

Um 5. gr.


    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.