Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 72 . mál.


Sþ.

262. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Birgis Ísl. Gunnarssonar um sparnað í menntamálum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Fyrirhugað var að lækka útgjöld til menntamála á þessu ári um 4% frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Á hvaða liðum hefur verið sparað? Óskað er nákvæmrar sundurliðunar.

    Þegar fjárlög fyrir árið 1989 voru samþykkt með 4% sparnaði frá fjárlagafrumvarpi sama ár var skólaárið 1988 til 1989 um það bil hálfnað. Það var því ljóst strax að sparnaði í skólakerfinu yrði ekki við komið að neinu marki fyrr en síðari hluta ársins 1989. Aðgerðir ráðuneytisins miðuðu að því að ná þar fram mun meiri sparnaði á síðari hluta ársins, allt að 10%. Í öðrum stofnunum tengist fjárhagsárið meira almanaksárinu og þess vegna var hægt að dreifa sparnaðinum með jafnari hætti yfir árið. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu aðgerðum menntamálaráðuneytisins til að ná fram umræddum sparnaði.

A. Ýmsar stofnanir.
    Stofnanir á vegum ráðuneytisins, aðrar en skólar, fengu almenn fyrirmæli um að draga úr launakostnaði miðað við forsendur fjárlagafrumvarps 1989 um 4%. Ljóst var að í fæstum tilvikum var hægt að skera niður föst laun og beindist því sparnaðurinn frekar að verkefnaráðningum, afleysingum og yfirvinnu.

B. Háskóli Íslands.
    Í Háskóla Íslands hefur sparnaður einkum beinst að kennslu og rekstri deilda. Alls eru felld niður 46 námskeið auk þess sem gert hefur verið átak í því að sameina og stækka hópa í verklegum tímum og dæmatímum. Valnámskeið eru felld niður þar sem frekast er unnt og öll slík námskeið þar sem nemendur eru færri en sex. Þá hafa einnig verið gerðar ráðstafanir til að minnka prófvinnu. Gætt er ýtrasta aðhalds í kaupum á rekstrarvörum og hefur verið lögð meiri
vinna nú en áður í að ná fram afslætti vegna magnkaupa. Vegna mikillar fjölgunar nemenda á haustmisseri 1989 er erfiðara en ella að ná fram tilætluðum sparnaði en þó stefnir í að sparnaður geti orðið um 1,3% á þessu ári.

C. Framhaldsskólar og sérskólar.
    Ljóst var frá upphafi að sparnaði umfram það sem fólst í gildandi fjárlögum yrði ekki komið við að neinu marki á vorönn 1989 þar sem allt skipulag skóla er ákveðið a.m.k. eina önn fram í tímann og ráðningarsamningar bindandi til loka skólaársins.
    Heildarkennslumagn á vorönninni var því um eða rétt innan við þau mörk, sem fjárlög settu, en laun kennara eru rétt um 85% af rekstrarkostnaði framhaldsskólanna.
    Fyrir upphaf haustannar var hins vegar lagt allt kapp á að takmarka kennslumagn og náðist verulegur sparnaður þótt undanfarin ár hafi kennslustundafjöldi miðað við nemendafjölda verið dreginn talsvert saman í flestum skólum.
    Kennslumagn á nemanda á haustönn er að jafnaði 1,9% undir viðmiðun F'89 og er þá eftir að taka tillit til þess að eftirköst verkfalls sl. vor valda verulegri röskun á öllu yfirstandandi skólaári. Nemendur, sem misstu niður einstaka áfanga á vorönn, hafa mjög margir sóst eftir að ná þeim upp á þessum vetri og samkvæmt upplýsingum, sem fengist hafa frá nokkrum stærstu skólunum, er viðbót við kennslu af þessum sökum 1,5–2%. Að teknu tilliti til aðstæðna er því sparnaður á yfirstandandi önn um það bil 3,5%.
    Á hinn bóginn hefur svo kostnaður við skólahaldið aukist verulega af ýmsum ástæðum og eru þessar helstar:
1.     Nemendur við upphaf haustannar eru 4,4% fleiri en miðað var við í fjárlögum, bæði vegna þess að hlutfallslega fleiri hafa innritast í framhaldsskóla en undanfarin ár og eins vegna hins að nemendur, sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu þegar lokið námi, sitja enn í skólunum.
2.     Samningur, sem gerður var á síðasta ári um umsjón með námshópum, hækkar kennslukostnað um það bil 1,55%. Ekki var ljóst fyrr en í lok ársins að þessi samningur kæmi til framkvæmda og var því ekki gert ráð fyrir umræddum kostnaðarauka í fjárlögum yfirstandandi árs.
3.     Ýmsar aðrar breytingar á kjarasamningum og sérstakar bókanir valda kostnaðarauka sem ætla má að sé um 1%. Þar má nefna sérstakar greiðslur fyrir P-áfanga og yfirferð og samningu stöðu- og endurtektarprófa.

D. Grunnskólar.
    Skólaárið í grunnskólum er samfellt og skipulagt að hausti og var því ljóst að mjög erfitt eða nánast útilokað var að ná fram svo miklum sparnaði sem til var ætlast á fyrri hluta ársins 1989. Ráðuneytið lagði því áherslu á að ná meginhluta sparnaðarins á síðari hluta ársins. Aðgerðir menntamálaráðuneytisins til að ná fram umræddum sparnaði voru helstar þessar:
1.     Frestað var aukningu á forskólakennslu sem heimiluð var í fjárlögum.
2.     Gefin voru tilmæli til fræðslustjóra um að draga úr greiðslum vegna skemmri forfalla, sérstaklega í eldri árgöngum.
3.     Einnig voru gefin tilmæli um að kvótastörf yrðu skert um 4% miðað við heilt ár.
4.     Hætt var haustið 1989 að reikna sérstakar stundir til sundkennslu og þær færðar inn í viðmiðunartöflu undir íþróttir.
5.     Frestað var gildistöku ákvæðis bókunar í kjarasamningi um greiðslur til kennara fyrir árganga- og fagstjórn.
6.     Auk þess var fræðslustjórum gert að beita ýtrasta aðhaldi og gera tillögur um aukinn sparnað sem tæki mið af aðstæðum í hverju fræðsluumdæmi. Þær tillögur hafa ekki borist, en gert er ráð fyrir að hvorki sé heimilt að flytja kennslustundir á milli skólahverfa né nota kennslustundir sem falla niður í ákveðnum greinum, t.d. í tónmennt, í aðrar greinar í sama skóla.
    Eftir að tekið hefur verið tillit til millifærslna af lið grunnskóla almennt (umsjón með námshópum, árganga- og fagstjórn, framhaldsdeildir, sérkennsla o.fl.) kemur í ljós að tekist hefur að ná fram tilætluðum sparnaði að fullu í öllum fræðsluumdæmum nema Reykjavík og hugsanlega Vesturlandi. Má áætla að í Reykjavík náist 2–3% sparnaður þrátt fyrir fjölgun nemenda í haust og á Vesturlandi takist að spara 3,5% og jafnvel 4% að fullu.