Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 138 . mál.


Sþ.

377. Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar á þskj. 142 um fræðslu um Evrópumálefni.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     „Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að stuðla að fræðslu á meðal almennings um Evrópumálefni áður en til afdrifaríkra ákvarðana kann að koma af Íslands hálfu?“
    Leitað var upplýsinga um efni fyrirspurnarinnar hjá utanríkisráðuneyti og fara svör þess hér á eftir:
    Alþingi, utanríkisráðuneytið og önnur stjórnvöld hafa staðið fyrir umfangsmikilli upplýsingastarfsemi um Evrópumálefni á þessu ári. Evrópunefnd Alþingis gaf út á fyrri hluta ársins fimm hefti um Ísland og Evrópu þar sem fjallað var á aðgengilegan hátt um alla þætti þessa máls sem um ræðir, svo sem þróun viðskipta Íslands og Evrópulanda, þróun mála innan EFTA og EB og sérhagsmuni Íslendinga. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins veittu margvíslega aðstoð við upplýsingaöflun og frágang þessara hefta. Þau samsvara um hundrað blaðsíðna upplýsingariti um Evrópumálefni. Samtals hafa þau verið gefin út í 7.400 eintökum.
    Á vegum öryggismálanefndar hafa verið gefin út tvö rit sem fjalla um þessi mál. Í maí 1987 kom út ritið Ísland og Evrópubandalagið eftir Gunnar Helga Kristinsson og í nóvember 1989 kom út ritið Evrópubandalagið, stofnanir og ákvarðanataka eftir Þorstein Magnússon.
    Utanríkisráðuneytið hefur komið á föstu samráði með helstu hagsmunaaðilum í landinu. Haldnir hafa verið margir samráðsfundir þar sem allar veigamestu upplýsingar varðandi málið hafa verið ræddar. Meðal annars var haldinn upplýsingafundur með fulltrúum þessara aðila í Brussel. Þá hafa einnig einstakir forustumenn úr sjávarútvegi setið fundi með ráðherrum erlendis þar sem þessi mál hafa verið til umræðu. Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur komið upplýsingum og gögnum um þróun mála, þar á meðal nýlegri skýrslu utanríkisráðherra, á framfæri við þessa aðila. Í þessu sambandi má geta þess að helstu hagsmunaaðilar hafa komið á fót eigin upplýsingakerfi og miðlun til félagsmanna sinna. Þessi framtakssemi er mjög lofsverð. Rétt er að þakka Félagi íslenskra iðnrekenda fyrir útgáfu EB-frétta. Þá hefur einnig hlutur annarra ráðuneyta í þróun þessara mála verið mikilvægur, en innan Stjórnarráðsins hefur verið skipulagt víðtækt samstarfskerfi þar sem fulltrúar viðkomandi ráðuneyta fjalla um sín sérsvið.
    Stjórnvöld telja að fjölmiðlar í landinu hafi mikilvægu hlutverki að gegna og séu vettvangur fyrir umræður og umfjöllun um Evrópumálefni, eins og önnur opinber málefni, og hafa því gert sér far um að koma upplýsingum á framfæri við þá. Utanríkisráðuneytið hefur haldið ýmsa fundi með blaða- og fréttamönnum. Í haust var haldinn fundur og þangað boðið fulltrúum allra fjölmiðla. Gerð var grein fyrir mikilvægustu þáttum málsins og þeim afhent greinargerð þar að lútandi. Í nóvember voru einnig haldnir upplýsingafundir með þeim frétta- og blaðamönnum sem þess óskuðu. Upplýsingadeild utanríkisráðuneytisins hefur fengið það forgangsverkefni að vinna markvisst að því að koma öllum þýðingarmiklum upplýsingum um málið á framfæri við fjölmiðla.
    Utanríkisráðherra lét gera ítarlega skýrslu fyrir Alþingi í nóvember um könnunarviðræður EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Skýrslunni hefur verið komið á framfæri við ýmsa aðila, svo sem verkalýðsfélög, samtök vinnuveitenda, sveitarstjórnir og framhaldsskóla.
    Utanríkisráðuneytið telur nauðsynlegt að gert verði frekara átak til að kynna sem flesta efnisþætti málsins. Kynningarstarf af þessu tagi ræðst af því fé sem stjórnvöld telja sig geta veitt til verksins. Innan utanríkisráðuneytisins er nú unnið að athugun á eftirfarandi möguleikum:
    Að gefa út almennan upplýsingabækling sem hægt yrði að dreifa eftir þörfum. Enn fremur hvort hægt yrði að útbúa upplýsingaefni handa skólum og fleiri aðilum.
    Að gera fræðslumynd um þessi mál sem standa mundi sjónvarpsstöðvum, stofnunum, skólum og öðrum aðilum til boða.
    Að halda fræðslufundi um landið þar sem þeir embættismenn, sem helst hafa unnið að málum, sitji fyrir svörum. Jafnframt standi það til boða að þessir embættismenn fari á fundi hagsmunaaðila og annarra, sem þess óska, til að veita upplýsingar.
    Útgáfa sérstaks fréttablaðs um málefni Íslands og Evrópu með tilliti til EFTA og EB sem dreift yrði í stóru upplagi.
    Almenn ráðstefna um þessi mál með þátttöku hagsmunaaðila og sérfræðinga.

    Forsætisráðherra er fyrirspyrjanda sammála um nauðsyn þess að þjóðin, og ekki síst atvinnulífið í landinu, hafi sem gleggstar hugmyndir um hvaða áhrif hugsanleg þátttaka Íslendinga í hinu fyrirhugaða evrópska efnahagssvæði mundi hafa áður en bindandi ákvarðanir verða teknar af hálfu Íslendinga í kjölfar þeirra undirbúnings- og samningaviðræðna sem nú fara í hönd. Er þá jafnt átt við áhrifin inn á við og út á við, kosti þess og galla fyrir Íslendinga, þau tækifæri og þær hættur sem slíkum tengslum kunna að vera samfara, en líka hverjar afleiðingar það kynni að hafa til langs tíma fyrir Íslendinga að sitja hjá í þeirri þróun sem nú er fyrirsjáanleg í Evrópu.