Ferill 218. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 218 . mál.


Nd.

440. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 67/1971, ásamt síðari breytingum, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1989.

Frá 1. minni hl. heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur athugað mál þetta á tveimur fundum og fengið kunnáttumenn til viðtals um frumvarpið þar á meðal tvo af höfundum þess. Frumvarpinu er ætlað að ná fram 100 millj. kr. sparnaði í kostnaði almannatrygginga vegna tannlækninga.
    Fyrsti minni hl. telur eðlilegt að leitað sé leiða til að draga úr þessum kostnaði sem nemur árlega hundruðum milljóna króna. Hins vegar telja undirritaðir nefndarmenn ekki að frumvarp þetta feli í sér einföldustu eða réttlátustu leiðirnar til þess. Að auki hefur í nefndarstarfinu komið fram að hinn áætlaði sparnaður, sem nást á með frumvarpinu, er algerlega byggður á ágiskunum. Raunar sýna tölur sem nefndinni bárust á síðari fundi hennar um málið að kvöldi 20. des. að kostnaður almannatrygginga vegna tannréttinga nam rúmlega 62 millj. kr. á árinu 1988. Harla ólíklegt verður að telja að unnt reynist að spara 60 millj. kr. á þessum lið á árinu 1990 þrátt fyrir miklar verðlagsbreytingar og einhverja magnaukningu. Ljóst er því að reikningslegur grunnur frumvarpsins varðandi fyrirhugaðan sparnað er á sandi byggður. Á hinn bóginn mun frumvarpið hafa í för með sér umtalsverðan kostnað vegna þess flokkunarkerfis sem lagt er til og eftirlits með því.
    Tannlæknafélag Íslands hefur gert tillögu um 50 millj. kr. sparnað sem fælist í því að í stað þess að greiða allan kostnað við tannlækningar 6–15 ára barna greiði hið opinbera 90%. Undir þessa tillögu vill 1. minni hl. nefndarinnar taka. Ekki náðist þó samkomulag í nefndinni um að flytja breytingartillögu þessa efnis.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að nú er starfandi á vegum heilbrigðisráðuneytisins sérstök nefnd er vinnur að því að semja frumvarp til laga um skipulagða tannlæknaþjónustu. Er gert ráð fyrir að nefndin ljúki störfum nægilega tímanlega þannig að unnt verði að leggja frumvarpið fyrir næsta
Alþingi. Greinilegt er að það frumvarp, sem nú er til meðferðar, er aðeins lítill hluti þessa máls. Þar sem í ljós er komið að sparnaðarforsendur frumvarpsins standa á brauðfótum og að málið þarfnast mun betri athugunar við leggur 1. minni hl. til að þær greinar frumvarpsins, sem lúta að þessum þætti, falli brott.
    Meiri hl. nefndarinnar hefur kynnt breytingartillögur við frumvarpið sem allar varða önnur efnisatriði en hið upphaflega frumvarp. Fyrsti minni hl. styður efni þessara breytingartillagna og mun greiða þeim atkvæði.

Alþingi, 20. des. 1989.



Geir H. Haarde,


frsm.


Ragnhildur Helgadóttir.