Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 288 . mál.


Nd.

522. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 59/1987, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Geir H. Haarde, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson,


Jón Sæmundur Sigurjónsson.



1. gr.

    Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Það skerðir ekki rétt foreldris til greiðslu fæðingarstyrks frá Tryggingastofnun ríkisins skv. 1. mgr. þessarar greinar þótt samið sé við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingarstyrk að hluta til eða að fullu.

2. gr.

    Við a-lið 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Þeir sem ekki njóta slíks réttar geta samt sem áður samið við launagreiðendur um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingardagpeningum, að hluta til eða að fullu, án þess að skerða rétt sinn til greiðslu fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði þeirra taka til þeirra foreldra sem eru í fæðingarorlofi 1. febrúar 1990 eða síðar og fá greiðslur skv. 16. og 26. gr. almannatryggingalaga, sbr. lög nr. 59/1987.

Greinargerð.


    Lög nr. 59/1987 tóku gildi þann 1. janúar 1988 og fjalla um tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. 1. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 16. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingarstyrks til allra mæðra hvort sem þær eru heimavinnandi eða við störf á almennum vinnumarkaði. Þó segir í 2. mgr. 1. gr.:
    „Ákvæði greinar þessarar taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum, þann tíma er óskert laun eru greidd.“
    2. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 26. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingardagpeninga til foreldra í fæðingarorlofi sem verið hafa á vinnumarkaði. A-liður 2. gr. hljóðar svo:
    „Foreldrar í fæðingarorlofi, sem lögheimili eiga á Íslandi, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.“
    Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs greiðir Tryggingastofnun fæðingarstyrk ásamt fæðingardagpeningum, það síðarnefnda í samræmi við ákveðinn vinnustundafjölda. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi, sbr. t.d. opinberir starfsmenn, eiga þó ekki rétt á þessum greiðslum frá Tryggingastofnun. Upphæð fæðingarstyrks er ákveðin fjárhæð og hækkar með sama hætti og aðrar bætur lífeyristrygginga. Fæðingardagpeningar eru tvöfaldir sjúkradagpeningar einstaklings eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Þessar greiðslur nema nú samtals um það bil 50 þús. kr. á mánuði, en þá er um hámarksgreiðslu að ræða. Full laun foreldris á hinum almenna vinnumarkaði geta því numið mun hærri fjárhæð. Í slíkum tilvikum er ekki óeðlilegt að einstaklingur semji við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og greiðslum frá Tryggingastofnun, enda hluti af því samningsfrelsi er hér ríkir lögum samkvæmt.
    Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar hefur hins vegar synjað öllum fæðingarorlofsgreiðslum ef viðkomandi umsækjandi hefur hlotið einhverjar viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda. Stofnunin virðist byggja álit sitt á túlkun ákvæða 2. mgr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 59/1987 um óskert laun og að leggja niður launuð störf, í samræmi við túlkun tryggingaráðs á eldri fæðingarorlofslögum og álit lögfræðinga hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Enn fremur að ætti að breyta þessari túlkun hefði þurft að taka það skýrt fram í fæðingarorlofslögunum og athugasemdum með frumvarpinu þar sem hér sé um mjög mikilvæga breytingu að ræða.
    Það virðist vafasamt að telja aldur lagatúlkunar alfarið mælikvarða á réttmæti hennar í tilfellum sem þessum. Engin bókun tryggingaráðs þar til nú nýverið var til um þetta efni og ekkert skriflegt til að styðjast við, hvorki frá tryggingaráði né ráðuneytinu. Enginn stafur er heldur til um það hvað teljast óskert laun, en laun þurfa að vera óskert til að útiloka greiðslur frá Tryggingastofnun. Það hefur enn fremur komið í ljós samkvæmt upplýsingum nefndarmanna er sömdu fæðingarorlofsfrumvörpin á sínum tíma að menn voru sammála um að hlutagreiðslur frá vinnuveitanda, til að launþegi héldi óskertum launum, gætu á engan hátt útilokað bótarétt eða greiðslur frá Tryggingastofnun. Þessi skilningur var enn fremur staðfestur í umræðum á Alþingi 9. nóv. sl. með ummælum Ragnhildar Helgadóttur, en hún var í ráðherratíð sinni flutningsmaður þeirra frumvarpa sem áður er getið. Auk þess hefur það fordæmi skapast að Tryggingastofnun greiðir bankamönnum athugasemdalaust fæðingarorlof þrátt fyrir viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda.
    Samt sem áður hefur Tryggingastofnun haldið þessari lagatúlkun til streitu og nýlega, eða 26. jan. sl., hafnaði meiri hluti tryggingaráðs umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur þar sem móðir hafði fengið greiddan mismun á fullum launum og fæðingarorlofsgreiðslum, m.a. á þeirri forsendu að ný túlkun laganna yrði ekki síður vafamál en núgildandi túlkun. Slík afgreiðsla, þar sem einum er gert að hlíta slíkri túlkun en öðrum ekki, hlýtur að skapa verulega réttaróvissu og mismunun gagnvart foreldrum.
    Jafnframt má benda á að iðgjöld lífeyristrygginga eru greidd af atvinnurekendum; þeir greiða 2% af reiknuðum launum til lífeyristrygginga og kaupa sér þar með tryggingu. Einnig hlýtur það að teljast óeðlilegt að Tryggingastofnun eða tryggingaráð séu að hafa afskipti af því hvað um er samið á almennum vinnumarkaði.
    Réttur til fæðingarorlofs er slík grundvallarmannréttindi að ekki verður unað við neina réttaróvissu í þeim efnum. Til þess að taka af allan vafa um réttmæti umræddrar lagatúlkunar er lagabreyting samkvæmt frumvarpi þessu lögð hér til. Lagaákvæði munu þannig taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Ef frumvarp þetta verður samþykkt þykir rétt og sanngjarnt að gera ráð fyrir því að þeir foreldrar, sem eru í sex mánaða fæðingarorlofi þegar frumvarpið er lagt fram, njóti þess réttar sem það mælir fyrir um.