Ferill 295. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 295 . mál.


Sþ.

529. Tillaga til þingsályktunar



um nám og þjálfun í öðrum löndum fyrir atvinnulífið.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa þegar í stað áætlun um skipulagt nám og þjálfun Íslendinga í öðrum löndum fyrir atvinnulíf landsmanna, annars vegar til að kynna sér markaði fyrir útflutning og hins vegar til að afla þekkingar sem skortir hér heima. Verkinu sé lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.

Greinargerð.


    Fáar þjóðir státa af meiri möguleikum fólks til menntunar en Íslendingar, enda stendur námsmönnum til boða prýðileg menntun hér heima án endurgjalds og að fá öflug námslán til þess að nema erlendis að vali hvers og eins. Of sjaldan hefur menntun landsmanna því verið beint inn á þær brautir þar sem skórinn kreppir hverju sinni.
    Fólk er sífellt að efast um hvort bókvitið verður í askana látið þegar upp er staðið. Forkólfar atvinnulífsins segja oft að menntunin nýtist ekki atvinnuvegunum sem skyldi því að allt of margir leggi út í nám sem skilar litlum árangri á þessu sviði. Hérna er því lagt til að skipulagt verði nám og þjálfun í öðrum löndum til að efla atvinnulíf okkar þegar heim er komið.
    Annars vegar er það hlutverk þessarar áætlunar að mennta ungt fólk og þjálfa til þess að afla landinu nýrra markaða. Það verði gert með þeim hætti að ungu fólki gefist kostur á að stunda nám í menntaskólum í þeim löndum sem við ætlum okkur að vinna nýjan markað. Unga fólkið vaxi úr grasi í þessum löndum og kynnist þjóðháttum og siðvenjum fólksins af eigin raun á skólaárum sínum. Síðan stundi það háskólanám í helstu verslunarskólum landanna innan um verðandi lykilmenn í athafnalífinu og skuldbindi sig loks til að starfa vissan tíma hér heima. Með þessu móti næst þrefaldur ávinningur. Í fyrsta lagi fá nemarnir úrvals viðskiptamenntun sem gildir víða um heim. Í annan stað kynnast þeir helstu venjum og siðum heimamanna, en það er nauðsynlegur undirbúningur til að vinna íslenskum vörum markaði í landinu og til að vita hvað þýðir að bjóða þeirri þjóð og hvað ekki, hvenær ársins þessi varan getur gengið og hvernig hún er meðhöndluð á heimilum manna o.s.frv. Í þriðja lagi kynnast nemarnir fjölda skólafélaga í landinu sem verða seinna lykilmenn í atvinnulífinu, kaupa inn vörur fyrir stórar verslanakeðjur eða gegna ábyrgðarstöðum í stjórnkerfinu o.s.frv. Þessi kunningsskapur er betri en enginn þegar greiða þarf fyrir viðskiptum á milli landanna. Bretar kalla þetta The Old Boy Network. Á þennan hátt eignumst við Íslendingar brátt stóran hóp af úrvalsfólki sem kann að selja afurðir landsins hvar sem er í heiminum og hefur réttu samböndin til að greiða fyrir þeim viðskiptum. Með því móti mundum við skjóta styrkum stoðum undir útflutninginn og innlend framleiðsla efldist stórlega. Eftirsótt jafnvægi næðist fljótlega í þjóðarbúinu. Þessi vinnubrögð ættu því að borga sig áður en langt um liði.
    Hins vegar er það hlutverk áætlunarinnar að mennta og þjálfa fólk til að öðlast þekkingu á sviðum sem eru Íslendingum meira og minna framandi. Tökum Íslenska álfélagið sem dæmi: Þegar við Íslendingar skrifuðum undir samninginn um álverið við Straumsvík áttum við þegar í stað að kosta hóp af ungu og efnilegu fólki til að læra allt sem lært verður í skóla um álvinnslu og sölu. Vinna síðan í einn eða tvo áratugi í greininni um allan heim og safna alhliða þekkingu á þessu viðfangsefni.
    Að þessu loknu væri unga fólkinu ekkert að vanbúnaði að taka að sér trúnaðarstörf í áliðnaðinum hér á landi með fullri reisn. Setjast í stjórn álfélagsins og gegna lykilstöðum í álverinu og í þeim stjórnardeildum sem álviðskiptin falla undir. Þá hefðum við Íslendingar sjálfir þá þekkingu sem þarf til að halda okkar hlut í samskiptum við erlenda meðeigendur og samstarfsmenn. Við gætum sjálfir tekið þátt í álviðskiptum landsins af fullri þekkingu, en þyrftum ekki að leita á náðir bókhaldara í London til að láta segja okkur hvort sendingar hækka í hafi eða ekki.
    Sama gildir um aðrar greinar í þjóðfélaginu þar sem alþjóðleg þekking er nauðsynleg, en hefur hingað til ekki verið sinnt. Þekking af þessu tagi er fljót að borga sig.