Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 303 . mál.


Sþ.

544. Tillaga til þingsályktunar



um frjálsan flugrekstur og flug.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa frumvarp til laga um að gefa flugrekstur frjálsan á Íslandi ásamt leyfi til áætlunarflugs, leiguflugs og vöruflutninga innan þeirra marka sem alþjóðalög og samningar leyfa. Frumvarpið verði lagt fyrir næsta löggjafarþing haustið 1990.


Greinargerð.


    Fáar þjóðir heims eru jafnháðar flugsamgöngum og Íslendingar bæði innan lands og þó sérstaklega á milli landa. Flugrekstur hér á landi hefur verið bundinn við leyfi frá ríkisvaldinu frá upphafi. Ríkið er þó smám saman að sleppa hendinni af öðrum rekstri í landinu og má í því sambandi nefna nýlegt frelsi til að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Mikil gróska hefur fylgt nýfengnu frelsi á ljósvakanum.
    Rekstur ferðaþjónustu er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og miklar vonir bundnar við hana í framtíðinni. Ráðgert er að leggja út á nýjar brautir og róa á ný mið. Myndarlegur flugrekstur er ein helsta forsendan fyrir því að þær vonir megi rætast. Þá er nokkurt atvinnuleysi í greininni sem vaxandi samkeppni mun vonandi eyða.
    Áratugum saman störfuðu tvö stór flugfélög á Íslandi og höfðu leyfi til áætlunarflugs á milli landa: Flugfélag Íslands og Loftleiðir. Þann tíma jókst fjöldi erlendra ferðamanna til landsins nokkuð stöðugt og sérstaklega á árunum upp úr 1960 og fram til ársins 1973. Þá voru þessi tvö flugfélög sameinuð í eitt undir nafninu Flugleiðir. Eftir sameininguna stóð fjöldi erlendra ferðalanga nokkurn veginn í stað til ársins 1982 en þá var Arnarflugi veitt leyfi til að fljúga á milli landa ásamt Flugleiðum. Erlendum ferðamönnum tók þá aftur að fjölga og hefur árlegur fjöldi þeirra næstum tvöfaldast síðan þá. Sjá nánar í meðfylgjandi töflu um fjölda erlendra ferðamanna til Íslands 1960–1988.
    Það er því varla nokkur vafi að með samkeppni í flugrekstri á milli landa fjölgar erlendum ferðamönnum og er samkeppnin því vissulega af hinu góða. Ferðaþjónustan þarf á fleiri ferðamönnum að halda til að draga úr atvinnuleysi og taka við nýju fólki á vinnumarkaðnum. Síðast en ekki síst verður að tryggja Íslendingum sjálfum greiðar samgöngur og lág fargjöld bæði innan lands og utan.
    Árið 1992 mun hinn sameiginlegi markaður Evrópu væntanlega verða að veruleika. Þar með losnar eflaust um flugrekstur í álfunni og ekki er enn þá ljóst hvaða áhrif það hefur á flug Íslendinga á milli landa og jafnvel innan lands. Landsmenn hafa því frekar nauman tíma til að búa sig undir þær breytingar og er það skoðun flutningsmanns að þeim verði best mætt með auknu frelsi hér heima fyrir.
    Það eru ýmsar brotalamir á því kerfi sem við búum við nú í flugrekstri og þar ríkir ekki jafnrétti þegnanna. Íslensku flugfélögin sitja ekki við sama borð í þeim efnum og það gengur ekki til lengdar. Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma að sinni en bent er á að aukið frelsi er eina leiðin til að þegnar landsins njóti allir sama réttar á þessu sviði. Það er skylda Alþingis að tryggja öllum sama rétt.
    Þess vegna er hér lagt til að samgönguráðherra hefjist strax handa við að undirbúa frumvarp að lögum um aukið frelsi fyrir íslenska þegna til að stunda flugrekstur og mega fljúga með farþega og vörur á milli landa.



Fylgiskjal.


(Texti er ekki til tölvutækur.)



Repró í Gut.