Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 370 . mál.


Nd.

631. Frumvarp til laga



um ráðstafanir vegna kjarasamninga.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna

ríkisins, með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 10. gr. orðist svo:
    Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna.

2. gr.

    3. mgr. 10. gr. orðist svo:
    Launagreiðendur greiða 6% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.

3. gr.

    1. málsl. 6. mgr. 12. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984, orðist svo: Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast.

II. KAFLI .


Um breytingu á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna


og húsnæðismálum ríkisstofnana.


4. gr.

    3. gr. orðist svo:
    Þegar starfsmaður, sem lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, taka til, er ráðinn í þjónustu ríkisins skal það gert með skriflegum gerningi. Tekið skal fram hvort um er að ræða skipun, setningu eða ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
    Starfsmaður, sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er ráðinn í starf sem heimilað er til að minnsta kosti eins árs, skal að loknum reynslutíma, sem tiltekinn er í vinnusamningi, teljast ráðinn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti nema starfsmaður óski annars. Nýtur hann þá þeirra réttinda og ber þær skyldur sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, kveða á um.
    Starfsmaður, sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er ráðinn til sumar- eða afleysingastarfa með eins mánaðar gagnkvæmum uppsagnarfresti, nýtur sömu réttinda og ber sömu skyldur og starfsmaður skv. 2. mgr. að öðru leyti en því sem leiða má af lengd uppsagnarfrests.

III. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga,

með síðari breytingum.

5. gr.

    2. mgr. 3. gr. orðist svo:
    Stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki, að undanteknum útihúsum í sveitum, skal vera afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar fasteignaskatts á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.

6. gr.

    Við 5. gr. bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem orðist svo:
    Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð.

IV. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu

og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

7. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr stafliður sem orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 10. og 12. gr. laga þessara er verðlagsnefnd búvöru heimilt að fresta, að hluta eða öllu leyti, framreikningi verðlagsgrundvallar 1. mars 1990 og 1. júní 1990 og útreikningi grundvallarins 1. september 1990 í samræmi við samkomulag Stéttarsambands bænda og aðila vinnumarkaðarins frá 1. febrúar 1990.

V. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

8. gr.

a.    Síðasti málsliður lokamálsgreinar 19. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 25/1984, orðist svo: Með reglugerð skal þeim fjárhæðum breytt a.m.k. árlega miðað við 1. júlí til samræmis við almennar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára.
b.    Við 19. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo:
         Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að aðrar tekjufjárhæðir skv. 1. mgr. gildi um lífeyristekjur en aðrar tekjur.

VI. KAFLI


Um breytingu á lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar,

með síðari breytingum.

9. gr.

    Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
    Á árinu 1990 og 1991 er Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að greiða þeim, sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímibili, sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir. Í reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, skal setja nánari reglur um uppbótina.

VII. KAFLI

Um breytingu á lögum nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum,

með síðari breytingum.

10. gr.

    4. gr. laganna orðist svo:
    Ábyrgð ríkissjóðs tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur í búið skv. 84. gr. laga nr. 3/1878 (sbr. 1. gr. laga nr. 23/1979), sbr. þó 9. gr.:
a.    kröfu launþega um vinnulaun fyrir sex síðustu starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem vinnulaunakröfu fylgir forgangsréttur í búi, þar með talinn hluti launa sem haldið hefur verið eftir af vinnuveitanda skv. IX. kafla laga nr. 86/1988,
b.    kröfu launþega um orlofslaun sem fallið hafa til vegna launa hans á yfirstandandi orlofsári og á næstliðnu orlofsári ef þau áttu að koma til útborgunar á síðustu sex starfsmánuðum launþegans hjá hlutaðeigandi vinnuveitanda, enda falli þessi tímabil innan þeirra tímamarka sem kröfunni fylgir forgangsréttur í búi,
c.    kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda, launþega og vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem kröfunni fylgir forgangsréttur í búi, enda hafi tilraunir til innheimtu verið reyndar af hálfu hlutaðeigandi lífeyrissjóðs þar eð krafan hefði mátt vera honum kunn,
d.    bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings. Sá sem krefst bóta samkvæmt þessum lið skal sýna fram á að hann hafi leitað eftir annarri atvinnu, t.d. með vottorði vinnumiðlunar,
e.    bóta til launþega, sem vinnuveitanda ber að greiða vegna tjóns af völdum vinnuslyss, eða til þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launþega, enda fylgi bótakröfunni forgangsréttur í búi vinnuveitandans,
f.    dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kröfum samkvæmt stafliðum a–e frá gjalddaga þeirra til þess dags sem félagsmálaráðherra ákveður að kröfuna skuli greiða úr ríkissjóði,
g     kostnaðar sem launþegi eða sá er krefst bóta samkvæmt e-lið hefur orðið að greiða vegna nauðsynlegra ráðstafana til innheimtu kröfu sinnar.
    Ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum skv. a- og d-liðum þessarar greinar skal þó ekki nema hærri fjárhæð, miðað við einn mánuð, en sem nemur þreföldum atvinnuleysisbótum eins og þær eru ákveðnar hæstar á hverjum mánuði, án tillits til barnafjölda.
    Ábyrgð ríkissjóðs nær til greiðslna skv. f- og g-liðum 1. mgr. þó að þær kröfur njóti ekki forgangsréttar í búi vinnuveitanda.

11. gr.


    5. gr. laganna orðist svo:
    Eftirtaldir launþegar geta þó ekki krafið ríkissjóð um greiðslu krafna skv. a– d- liðum 1. mgr. 4. gr.:
a.    Þeir sem sæti áttu í stjórn gjaldþrota félags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla. Þetta á þó ekki við um þá sem sæti eiga í varastjórn félags nema þeir hafi gegnt stjórnarstörfum á umræddu tímabili.
b.    Þeir sem átt hafa 5% hlutafjár eða meira í gjaldþrota hlutafélagi.
c.    Forstjóri, framkvæmdastjóri og þeir aðrir, sem vegna starfa sinna hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda, áttu að hafa þá yfirsýn yfir fjárhag fyrirtækisins að þeim mátti ekki dyljast að gjaldþrot þess væri yfirvofandi á þeim tíma sem unnið var fyrir vinnulaununum.
d.    Maki þess sem ástatt er um sem segir í a–c-liðum, svo og skyldmenni hans í beinan legg og maki skyldmennis í beinan legg. Leiði ákvæði þetta til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu að mati félagsmálaráðherra getur hann ákveðið að heimila greiðslu til þessara launþega úr ríkissjóði á grundvelli laganna.

12. gr.


    Eftirtaldar breytingar verða á 7. gr. laganna.
a.    Í stað orðsins „nafnnúmer“ í a- og b-liðum 1. mgr. komi orðið: kennitala.
b.    Á eftir c-lið 1. mgr. komi nýr stafliður sem orðist svo: sundurliðun kröfu, svo sem í vinnulaun, orlof, bætur, vexti, kostnað og til hvaða tímabils krafan nær.
c.    Við greinina bætist ný málsgrein sem orðist svo:
         Sá sem gerir greiðslukröfu á hendur ríkissjóði á grundvelli laga þessara má ekki aðhafast neitt það sem rýrt gæti endurkröfurétt ríkissjóðs á hendur þrotabúi. Er honum óheimilt, án sérstaks leyfis félagsmálaráðherra, að samþykkja að kröfur fái komist að við gjaldþrotaskipti sem ekki hefur verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests. Brjóti launþegi eða umboðsmaður hans gegn þessu ákvæði hefur það í för með sér að ábyrgð ríkissjóðs á kröfu hans fellur niður.

13. gr.


    Fyrri málsgrein 8. gr. laganna orðist svo:
    Sá sem fer með skipti á þrotabúi skal svo fljótt sem auðið er láta félagsmálaráðherra í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í þrotabúið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar ríkissjóðs eftir lögum þessum. Í umsögninni skulu eftirfarandi atriði tilgreind:
a.    hvenær bú hafi verið tekið til skipta og hver fari með málefni þess,
b.    hvenær kröfulýsingarfresti í búið hafi lokið,
c.    hvaða kröfum hafi verið lýst í búið sem ríkisábyrgð kunni að fylgja samkvæmt lögum þessum,
d.    hvort eða að hverju marki viðurkenndur hafi verið forgangsréttur kröfunnar í búið,
e.    hvort skilað hafi verið til innheimtuaðila ríkissjóðs þeim hluta launa sem vinnuveitanda bar að halda eftir samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef það hefur ekki verið gert skal enn fremur eftir föngum gerð grein fyrir þeim fjárhæðum sem vinnuveitanda bar að halda eftir af launum launþega,
f.    hvort ákvæði 5. gr. eigi við um kröfuna eða ekki.

14. gr.


    Í stað orðsins „innköllunar“ í síðari málslið 1. mgr. 9. gr. laganna komi orðin: auglýsingar um skiptalok.

15. gr.

    10. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 51/1989, orðist svo:
    Ef launþegi hefur framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitandans var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ríkisábyrgðar eftir lögum þessum. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans, né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða að hluta framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.

16. gr.

    Á eftir fyrri málslið 1. mgr. 11. gr. laganna komi nýr málsliður sem orðist svo: Þegar félagsmálaráðherra ákveður greiðslu kröfu samkvæmt lögum þessum skal hann jafnframt tilkynna viðkomandi innheimtuaðila ríkissjóðs hvaða fjárhæð hefur verið dregin frá kröfu launþega vegna ákvæða laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

17. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna bætist ný grein sem orðist svo:
    Félagsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig framkvæmd laganna skuli háttað.

VIII. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði VII. kafla taka til krafna í bú sem tekin verða til gjaldþrotaskipta eftir gildistöku laganna.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella ákvæði þeirra inn í meginmál hlutaðeigandi laga og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í því skyni að greiða fyrir kjarasamningum annars vegar milli ASÍ og VSÍ/VMS og hins vegar milli BSRB og ríkisins ákvað ríkisstjórnin 1. febrúar sl. að beita sér fyrir margþættum aðgerðum, svo sem fram kemur í þeim bréfum forsætisráðherra sem fylgja frumvarpi þessu.
    Frumvarp það, sem hér er flutt, er í samræmi við eftirfarandi fyrirheit ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninganna:
    Að beita sér fyrir breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 29/1963, með síðari breytingum.
    Að beita sér fyrir því að hið fyrsta verði lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana.
    Að lækka álagningarstofn fasteignaskatts í sveitum. Oddvitar margra sveitarhreppa hafa undanfarið haft samband við félagsmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga með óskir um að draga úr hækkun fasteignaskatta í sveitum. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti einnig á fundi sínum 19. janúar sl. að óska eftir því við félagsmálaráðherra að frumvarp um það efni yrði lagt fram á Alþingi. Þá hefur Stéttarsamband bænda óskað sérstaklega eftir þeirri breytingu sem felst í 6. gr. frumvarpsins.
    Að beita sér fyrir aðgerðum til þess að koma í veg fyrir hækkun á heildsöluverði hefðbundinna búvara fram til 1. desember 1990, enda standist sú forsenda samkomulags samningsaðila og bænda að verð til framleiðenda hækki ekki á tímabilinu.
    Að einstaklingar, sem verið hafa atvinnulausir í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili, fái uppbót hliðstæða þeirri sem greidd verður til láglaunafólks samkvæmt nýgerðum samningi aðila vinnumarkaðarins.
    Að frítekjumark tekjutryggingar almannatrygginga gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum hækki 1. júlí í 19.000 kr. og 1. janúar 1991 í 21.500 kr.
    Að greiðsluábyrgð ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum við gjaldþrot fyrirtækja verði í 18 mánuði, enda hafi reynt á innheimtuaðgerðir þar sem krafan hefði mátt vera lífeyrissjóðnum kunn. Einnig að hámark greiðsluábyrgðar á launum verði þreföld fjárhæð atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði á mánuði hverjum.
    Sjöundi kafli frumvarpsins var upphaflega saminn af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði 16. ágúst 1989 til að endurskoða lög nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum. Í nefndina voru skipuð Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Lára V. Júlíusdóttir héraðsdómslögmaður, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Ragnar H. Hall borgarfógeti, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Skúli Thoroddsen lögfræðingur, tilnefndur af fjármálaráðuneytinu, og Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, sem skipuð var formaður nefndarinnar.
    Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á upphaflegu frumvarpi nefndarinnar, m.a. varðandi lífeyrissjóðina og tímamörk ríkisábyrgðar, vegna nýgerðra kjarasamninga, enda var það skoðun fulltrúa ASÍ og VSÍ í nefndinni að leita bæri leiða í kjarasamningum til að lagfæra annmarka á lögum um ríkisábyrgð.
    Í minnisblaði félagsmálaráðherra til formanns nefndarinnar, sem dagsett er 4. september 1989, segir að við endurskoðun laganna þurfi eftirtalin atriði m.a. að koma til skoðunar:
1.    Hvort ekki sé unnt að einfalda framkvæmdina frá því sem nú eigi sér stað, t.d. á þann hátt að skiptaráðandi (bústjóri) annist uppgjör á launakröfum til kröfuhafa, en ríkissjóður greiði beint til skiptaráðanda (bústjóra) hlut ríkissjóðs.
2.    Að þau tímabil, sem ríkisábyrgðin tekur til, verði stytt og samræmd.
3.    Að sett verði í lög ákvæði sem takmarki greiðslur til einstaklinga hvort sem miðað er við tíma-, viku- eða mánaðarkaup.
4.    Að sá sem krefst bóta vegna uppsagnarfrests verði að sýna fram á viðleitni til atvinnuleitar, t.d. með vottorði vinnumiðlunar.
5.    Að ákvæði 5. gr., sérstaklega a-, c- og d- liða, verði gerð einfaldari.
6.    Að vaxtaákvæði laganna verði skoðuð með tilliti til einföldunar og samræmingar.
    Á árunum 1985 til 1988 hafa greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á launum farið verulega fram úr áætlun fjárlaga eins og fram kemur í eftirfarandi töflu (upphæðir í þús. kr.):

     Ár                  Greiðslur    Fjárlög
    1985 ............................         8.291    1.700
    1986 ............................         35.036    5.000
    1987 ............................         27.568    10.000
    1988 ............................         79.238    23.000
    1989 ............................         200.218    35.440
    1990 (fjárlög) ..................             140.000

    Þá miklu aukningu, sem orðið hefur á greiðslum úr ríkissjóði á árunum 1988 og 1989, má að mestu rekja til fjölgunar gjaldþrota í landinu og versnandi efnahagsástands. Miðað við greiðslur ársins 1989, sem námu rúmlega 200 milljónum króna, bendir allt til þess að áætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1990 muni hvergi nærri duga.
    Þótt nefndinni hafi verið falið að endurskoða tiltekin ákvæði í lögum um ríkisábyrgð á launum vöktu nefndarmenn athygli á því í þessu sambandi að full ástæða væri til að taka einnig til skoðunar ýmis ákvæði í lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, og lögum um bókhald, nr. 51/1978, ef ætlunin er að ná tökum á vandamálinu í heild.
    Við gildistöku laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, 1. júlí 1992 verða embætti bæjarfógeta og sýslumanna lögð niður í núverandi mynd. Dómsvald, þar á meðal dómsvald varðandi búskipti, flyst til sérstakra héraðsdómstóla, en sýslumannsembættin verða hrein stjórnsýsluembætti. Þannig gera lögin um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds ráð fyrir því að sýslumenn fari með ýmis umsýslu- og umboðsstörf við búskipti, þó síst við gjaldþrotaskipti. Þegar þessi skipan verður komin á telur nefndin því eðlilegt að þau verkefni, sem félagsmálaráðuneytinu eru nú falin í lögum um ríkisábyrgð á launum, verði flutt til sýslumannsembættanna.
    Á vegum dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að frumvarpi til breytinga á skiptalögum, nr. 3/1878, og enn fremur stendur fyrir dyrum endurskoðun á gjaldþrotalögum, nr. 6/1978. Til þess að einfalda enn frekar afgreiðslu á þeim kröfum, sem ríkisábyrgðar njóta, en gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu taldi nefndin nauðsynlegt að færa ákvæði um ríkisábyrgð til samræmis við ákvæði um forgangskröfur við búskipti. Lögin um ríkisábyrgð á launum þurfi því væntanlega að endurskoða að nýju eftir að gjaldþrotalögum, nr. 6/1978, hefur verið breytt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–3. gr.


    Breytingu samkvæmt þessum greinum frumvarpsins er ætlað að tryggja að ellilífeyrisþegar fái hlutdeild í orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi BSRB og fjármálaráðherra, dags. 2. febrúar 1990, enda verði greidd iðgjöld af orlofsuppbótinni á sama hátt og af dagvinnulaunum og persónuuppbót.

Um 4. gr.


    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1974, nema lagatilvísun er færð til gildandi laga og því bætt við að ráðning skuli vera með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
    Í 2. og 3. mgr. er gert ráð fyrir að réttaráhrif tengist ráðningartíma.
    Skv. 2. mgr. er gert ráð fyrir að allir, sem ráðnir eru til starfa hjá ríkinu í starf sem samkvæmt fjárlögum mun vara í 12 mánuði hið skemmsta, skuli njóta að fullu þeirra réttinda sem leiða má af lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að þeir sem ráðnir eru til skamms tíma, svo sem til sumarstarfa eða afleysinga, njóti sama réttar með þeim takmörkunum þó sem leiða má af uppsagnarfrestinum.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að í 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga verði bætt inn orðunum „að undanteknum útihúsum í sveitum“. Þessi breyting hefði í för með sér að fasteignamat útihúsa í sveitum yrði stofn til álagningar fasteignaskatts, en álagningarstofn íbúðarhúsa í sveitum verður hins vegar framreiknað fasteignamat í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laganna.
    Með „útihúsum í sveitum“ er átt við öll hús og mannvirki á bújörðum (lögbýlum) önnur en íbúðarhús, t.d. fjós, fjárhús, hlöður, áburðargeysmlur og vélageymslur.
    Nýmælið, sem fólst í 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989, hækkaði álagningarstofn fasteignaskatts í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, enda var tilgangurinn sá að skapa jafnræði með sveitarfélögum landsins. Jafnframt var gert ráð fyrir því að sveitarfélög lækkuðu almennt álagningarprósentu fasteignaskatts frá því sem áður var, í mörgum tilvikum úr 0,625% (af fasteignamati) í 0,4% (af framreiknuðum álagningarstofni).
    Þegar álagningarskrár voru lagðar fram um áramótin kom í ljós að fasteignaskattar á útihús í sveitum mundu hækka mjög mikið miðað við 0,4% fasteignaskatt. Tilgangur breytingarinnar, sem hér er lögð til, er að draga úr þessari hækkun.

Um 6. gr.


    Á undanförnum árum hefur dregið mjög úr framleiðslu mjólkur og kindakjöts og víða eru útihús aðeins nýtt að hluta eða með öllu ónotuð. Margir bændur hika við að hætta búvöruframleiðslu, m.a. vegna þess að áfram hvílir sú skylda á rekstri jarðanna að greiða afborganir af lánum og gjöld til hins opinbera. Með hliðsjón af búháttabreytingum í landbúnaði og til þess að auðvelda mönnum að hætta búvöruframleiðslu er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að lækka fasteignaskatt eða fella niður þegar svo stendur á.

Um 7. gr.


    Í 10. gr. laga nr. 46/1985 er gert ráð fyrir því að verðlagsgrundvöllur til ákvörðunar búvöruverðs gildi í tvö ár í senn, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. ákvæði 12. gr. Lögin gera þannig ráð fyrir framreikningi verðlagsgrundvallarins, án undanþágumöguleika. Í tengslum við nýgerða kjarasamninga skuldbundu bændur sig til að hlíta óbreyttum verðlagsgrundvelli til 1. desember 1990. Nauðsynlegt þykir að taka af öll tvímæli um heimild verðlagsnefndar til að verða við óskum Stéttarsambands bænda um takmörkun á breytingum á afurðaverði til bænda eins og lögin mæla fyrir um. Því er lagt til að við lög nr. 46/1985 verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða sem gerir ráð fyrir undanþágumöguleika sé þess óskað.

Um 8. gr.


    Sú hækkun á frítekjumarki almannatrygginga, sem gefið var fyrirheit um við gerð kjarasamninga, felur í sér að frítekjumark verður mismunandi eftir eðli og uppruna tekna. Nauðsynlegt þykir að breyta 19. gr. laga um almannatryggingar á þann veg sem hér er lagt til þannig að heimildin til slíkrar mismununar sé ótvíræð.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að einstaklingar, sem verið hafa atvinnulausir í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili, fái uppbót hliðstæða þeirri sem greidd verður til launafólks samkvæmt nýgerðum kjarasamningi.

Um 10. gr.


    Í 4. gr. gildandi laga eru skilgreindar þær kröfur launþega á hendur vinnuveitanda sem falla innan ríkisábyrgðar. Gert er ráð fyrir því að ríkisábyrgðin nái samkvæmt frumvarpinu aðeins til þeirra krafna sem taldar eru í 10. gr. þess.
    Samkvæmt b-lið 10. gr. getur launþegi krafist greiðslu vegna orlofslauna sem fallið hafa til vegna launa hans á yfirstandandi orlofsári og á næstliðnu orlofsári ef þau áttu að koma til útborgunar á síðustu sex starfsmánuðum launþegans. Ákvæðið felur í sér að ríkisábyrgð tekur einungis til orlofskrafna vegna næstliðins orlofsárs hafi sú krafa átt að koma til útborgunar á síðustu sex starfsmánuðum launþegans.
    Ríkisábyrgðin tekur einungis til orlofslauna launþega sem varðveitt hafa verið hjá vinnuveitanda. Ríkisábyrgðin tekur ekki til orlofslaunakröfu launþega þegar vinnuveitandi, stéttarfélag launþega og bankastofnun eða sparisjóður hafa gert samkomulag um vörslu orlofslauna launþegans, sbr. 4. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Bankastofnun, sem orðið hefur að greiða launþega áunnin orlofslaun á grundvelli samnings um vörslu orlofsfjár, á enga kröfu á hendur ríkissjóði samkvæmt frumvarpi þessu, sbr. 15. gr. þess.
    Samkvæmt d-lið frumvarpsgreinarinnar er gert ráð fyrir bótagreiðslum fyrir allt að þriggja mánaða tímabil vegna riftunar eða uppsagnar á vinnusamningi. Samkvæmt núgildandi lögum er hvorki gert ráð fyrir hámarksbótum né takmörkun á lengd bótatímabils. Gert er ráð fyrir því að bótakrafa samkvæmt þessum lið sé rökstudd og verður hún þá tekin til greina að vissu hámarki enda hafi launþegi sýnt fram á að hann hafi leitað sér að atvinnu eftir fyrirvaralausa uppsögn eða gjaldþrot vinnuveitanda. Ákvæði frumvarpsins felur í sér verulega þrengingu frá gildandi lögum og leggur þá kvöð á launþega að hann sýni fram á raunverulegt tekjutap sitt. Ríkisábyrgðin tekur þá til tekjutapsins að vissu marki, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
    Í e-lið greinarinnar er að finna efnislega samhljóða ákvæði e-lið gildandi laga að öðru leyti en því að bætt hefur verið við skilyrði um forgangsrétt í búi vinnuveitanda. Hér er eingöngu um áréttingu að ræða sem þarfnast ekki frekari skýringa.
    Samkvæmt f-lið er gert ráð fyrir greiðslu dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 á kröfum samkvæmt a–d-liðum þessarar greinar. Ákvæðið er til einföldunar á framkvæmd laganna.
    Með g-lið er verið að lögfesta þá framkvæmd gildandi laga að kostnaður, sem launþegi eða sá sem krefst bóta samkvæmt e-lið hefur orðið að greiða vegna nauðsynlegra ráðstafana til innheimtu krafna sinna, njóti ríkisábyrgðar. Í gildandi lögum er það skilyrði sett að hlutaðeigandi sýni fram á að tilraunir til innheimtu hafi hafist áður en starfsemi vinnuveitanda hætti að mestu eða öllu til þess að kostnaður njóti ríkisábyrgðar, en hér er lagt til að það skilyrði verði fellt brott, enda er það í samræmi við framkvæmdina eins og hún hefur verið.
    Í þessari grein frumvarpsins er gert ráð fyrir nýrri málsgrein, sem verði 2. mgr., um hámark mánaðarlegra greiðslna úr ríkissjóði. Upphæð sú, sem ríkissjóður ábyrgist skv. a- og d-liðum 1. mgr. 4. gr., getur ekki orðið hærri en sem nemur þreföldum atvinnuleysisbótum miðað við einn mánuð og er það í samræmi við niðurstöðu kjarasamninga. Viðmiðunarfjárhæðin breytist síðan í samræmi við þær breytingar sem verða á upphæð atvinnuleysisbóta. Ákvæðið skerðir fyrst og fremst hag þeirra launþega sem notið hafa hárra launakjara.
    3. mgr. greinarinnar er óbreytt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Um 11. gr.


    Hér er um að ræða ákvæði um undantekningar frá greiðsluskyldu ríkissjóðs. Lagt er til að sérstakt ákvæði verði tekið upp í a-lið greinarinnar um þá sem hafa verið í varastjórn hlutafélags og verður ríkisábyrgð ekki látin ná til launakrafna þeirra ef þeir hafa raunverulega tekið þátt í stjórnarstörfum í félaginu á því tímabili sem krafa þeirra nær til. Í d-lið greinarinnar, sem fjallar um kröfur tiltekinna ættingja þrotamanns, er lagt til að tekin verði upp sérstök heimild til handa félagsmálaráðherra til að ákveða greiðslu úr ríkissjóði vegna krafna sem ella mundu falla utan ríkisábyrgðar ef sú niðurstaða þykir verulega ósanngjörn. Ætla verður að þetta sé undantekningarákvæði sem sjaldan verði beitt.

Um 12. gr.


    Ákvæði frumvarpsins um nýja málsgrein, sem verði 4. mgr. þessarar greinar, er nýmæli. Samkvæmt 111. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978 geta þeir sem ekki hafa lýst kröfu sinni í bú fyrir lok kröfulýsingarfrests fengið að koma kröfum að við skiptin ef þeir aðeins afla til þess samþykkis 75% kröfuhafa, reiknað eftir kröfufjárhæðum. Nokkur brögð hafa verið að því að kröfuhafar, sem farið hafa með atkvæðisrétt vegna krafna sem ríkissjóður átti eftir að leysa til sín, hafi veitt samþykki sitt til þess að vanlýstar kröfur fengju komist að við skipti, í skjóli þessa lagaákvæðis og þannig stuðlað að því að ríkissjóður fengi lægri fjárhæð upp í kröfur sínar úr viðkomandi búi en ella hefði verið. Með þessu ákvæði er ætlað að tryggja að félagsmálaráðherra taki afstöðu til þess hvort samþykkt verði að vanlýstar kröfur fái komist að í tilvikum sem þessum.

Um 13. gr.


    Hér er lagt til að veruleg breyting verði gerð á verklagsreglum varðandi meðferð krafna sem ríkisábyrgð er talin ná til. Miða þessar breytingar að því að gera úrvinnslu fljótvirkari og einfaldari í framkvæmd en nú er. Hér er sú skylda lögð á þann sem fer með málefni þrotabús að hann láti félagsmálaráðherra í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í þrotabúið er til álita kemur að njóti ábyrgðar ríkissjóðs eftir lögum þessum. Skal þessi umsögn látin í té án þess að fyrirspurn hafi borist varðandi þetta atriði. Í umsögninni skulu tilgreind öll þau atriði sem fyrirsvarsmaður þrotabúsins telur skipta máli varðandi þau atriði, sbr. a–f-liði greinarinnar, og þýðingu hafa í sambandi við ábyrgð ríkissjóðs á kröfunni. Af efni þessarar tilkynningar á félagsmálaráðuneytið síðan að geta ráðið hvort skilyrði séu fyrir hendi til að greiða kröfuna úr ríkissjóði eða ekki. Ekki er ráðgert að greiðsla verði innt af hendi úr ríkissjóði nema fyrir liggi krafa þar að lútandi hjá félagsmálaráðuneytinu.

Um 14. gr.


    Eins og núgildandi ákvæði hljóðar er það markleysa og því er hér lagt til að í stað orðsins „innköllunar“ komi: auglýsingar um skiptalok, og er það í samræmi við 1. málsl. greinarinnar.

Um 15. gr.


    Þetta ákvæði felur í sér nokkra breytingu frá 10. gr. núgildandi laga. Hér er gerður greinarmunur á aðstöðunni eftir því hvenær framsal kröfu á sér stað. Hér er lagt til að ábyrgð ríkissjóðs á kröfu haldist þrátt fyrir framsal hennar ef framsalið hefur átt sér stað eftir að bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta. Þykir ekki ástæða til að binda svo hendur launþegans um meðferð kröfu sinnar að hann geti ekki nýtt sér hana með neinum hætti þar til honum berst greiðsla eftir lögum þessum.

Um 16. gr.


    Þetta ákvæði er til komið vegna þeirrar kerfisbreytingar sem varð á innheimtu opinberra gjalda hjá launþegum með setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ábyrgð ríkissjóðs samkvæmt lögum um ríkisábyrgð á launum nær ekki til þess hluta launa sem launagreiðanda bar að halda eftir til greiðslu opinberra gjalda launþegans, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Engu að síður getur það skipt verulegu máli fyrir launþegann að viðkomandi innheimtuaðili ríkissjóðs fái staðfestar upplýsingar um það þegar greiðsla er innt af hendi eftir lögum þessum hvaða fjárhæð hefur verið dregin frá kröfu hans á þessum grundvelli.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Í síðari hluta 1. mgr. er sérstakt ákvæði varðandi VII. kafla laganna, um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á launum. Rétt þykir að taka af tvímæli um að lögin nái aðeins til krafna í bú sem tekin verða til gjaldþrotaskipta eftir gildistöku laganna.



Fylgiskjal I.


Bréf forsætisráðherra til Alþýðusambands Íslands,


Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna.


(1. febrúar 1990.)



    Vísað er til viðræðna sem ríkisstjórnin hefur átt undanfarna daga við fulltrúa samtaka launafólks, vinnuveitenda og bænda, um kjarasamninga og efnahagsráðstafanir í tengslum við þá. Ríkisstjórnin lýsir stuðningi sínum við markmið kjarasamninganna um lækkun verðbólgu og stöðugleika í efnahagsmálum.
    Í því skyni að greiða fyrir kjarasamningum hefur ríkisstjórnin ákveðið eftirfarandi:

1. Búvörur.
    Ríkisstjórnin er reiðubúin að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hækkun á heildsöluverði hefðbundinna búvara til 1. desember 1990, enda standist sú forsenda samkomulags samningsaðila og bænda að verð til framleiðenda hækki ekki á tímabilinu. Áætlað er að verja þurfi 750 milljónum króna umfram fjárlög í niðurgreiðslur í þessu skyni.
    Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipa starfshóp til að gera ítarlega athugun á kostnaði við framleiðslu, vinnslu og sölu innlendra búvara og gera tillögur um stefnumörkun með það að markmiði að búvöruframleiðslan verði hagkvæmari. Fulltrúar landbúnaðarins og samtaka launafólks og vinnuveitenda eigi m.a. sæti í starfshópnum.

2. Frítekjumark.
    Frítekjumark tekjutryggingarþega gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum hækkar 1. júlí næstkomandi í 19.000 krónur og 1. janúar 1991 í 21.500 krónur.
    Ríkisstjórnin mun halda áfram athugun á samræmingu skattlagningar og frítekjumarks allra tekna gagnvart tekjutryggingu almannatrygginga.

3. Greiðsluábyrgð ríkissjóðs við gjaldþrot.
    Greiðsluábyrgð ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum við gjaldþrot fyrirtækja verði í 18 mánuði, enda hafi reynt á innheimtuaðgerðir þar sem krafan hefði mátt vera lífeyrissjóðunum kunn.
    Hámark greiðsluábyrgðar vegna launa verði þreföld fjárhæð atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði á mánuði hverjum.

4. Lækkun framfærsluvísitölu.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að í febrúar verði dregið úr fyrirhuguðum sköttum og gjöldum eða gjaldskrárbreytingum opinberra fyrirtækja sem svarar 0,3 af hundraði lækkun á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar.

5. Tekjustofnar sveitarfélaga.
    Ríkisstjórnin mun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga beita sér
fyrir endurskoðun á hundraðshluta meðalnýtingar tekjustofna sveitarfélaga sem skilyrði fyrir framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

6. Atvinnuleysistryggingabætur.
    Í endurskoðun á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð, sem nú stendur yfir, verður kannað með hvaða hætti greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði geti nýst til starfsnáms. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að einstaklingar, sem verið hafa atvinnulausir í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili, fái uppbót hliðstæða þeirri sem greidd verður til láglaunafólks samkvæmt nýgerðum samningi aðila vinnumarkaðarins.

7. Lífeyrismál.
    Frumvarp til laga um starfsemi lífeyrissjóða verður lagt fram á vorþingi og milliþinganefnd skipuð til að fjalla um málið í sumar. Gert er ráð fyrir afgreiðslu frumvarps um lífeyrissjóði á næsta þingi.

8. Réttur farmanna til bóta almannatrygginga.
    Réttur íslenskra farmanna til bóta almannatrygginga vegna starfa á skipum á vegum íslenskra skipafélaga, sem skráð eru erlendis, verði athugaður.

9. Félagslegt húsnæði.
    Nefnd félagsmálaráðherra, sem fjallar um félagslega húsnæðiskerfið, mun skila niðurstöðum á næstu dögum. Nefndin mun leggja fram tillögur um endurbætta tilhögun lánveitinga til félagslegra íbúðabygginga og um ráðstafanir og leiðir til að auka framboð leiguhúsnæðis.
    Með hliðsjón af þeim áformum um félagslegt húsnæði, sem kynnt hafa verið, lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna til þess að kanna hvaða leiðir til úrbóta eru færar þannig að félagslega húsnæðiskerfið geti leyst úr brýnustu þörf.

10. Skattlagning fyrirtækja.
    Ríkisstjórnin áréttar fyrri yfirlýsingar um að unnið verði að því að samræma skattlagningu á fyrirtæki því sem gerist í samkeppnislöndunum.

11. Aflamiðlun.
    Svo fljótt sem verða má mun komið á fót aflamiðlun til að stýra útflutningi á óunnum fiski. Í stjórn aflamiðlunar verði fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

12. Samstarf til að tryggja árangur samninganna.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á samstarf við aðila vinnumarkaðarins um aðgát á öllum sviðum efnahagsmála til að tryggja, eins og unnt er, að sá árangur sem að er stefnt með kjarasamningunum náist.
    Ein mikilvægasta forsenda þess er örugg fjármögnun á fjárþörf ríkissjóðs innan lands. Það mun draga úr skuldasöfnun erlendis, sporna við verðbólgu og auka tiltrú almennings á því að varanlegur árangur náist.
    Í þessu skyni óskar ríkisstjórnin sérstaklega eftir auknum kaupum lífeyrissjóða á spariskírteinum á þessu ári umfram kaup þeirra af húsnæðismálastjórn.
    Að óbreyttum rekstrarskilyrðum þjóðarbúsins áformar ríkisstjórnin ekki aðrar breytingar á sköttum og verðlagi opinberrar þjónustu á árinu 1990 en þegar hafa verið kynntar aðilum.
    Í samræmi við bréf Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða til ríkisstjórnarinnar mun hún skipa starfshóp til sameiginlegrar athugunar og aðgerða bankakerfisins og ríkisstjórnarinnar í því skyni að tryggja að vaxtalækkanir til samræmis við hjaðnandi verðbólgu fái staðist til frambúðar. Með slíkum aðgerðum gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að lagður verði grunnur að frekari lækkun raunvaxta.
    Til þess að greiða fyrir að sameiginleg markmið náist mun ríkisstjórnin fela sérstakri nefnd embættismanna að eiga reglulega fundi, minnst einu sinni í mánuði, með launanefnd ASÍ og VSÍ/VMS. Á fundunum skal fara yfir þróun helstu hagstærða, peningamál og ríkisfjármál og munu aðilar í sameiningu leita leiða til að ná fram því jafnvægi sem nauðsynlegt er til að markmið kjarasamninganna náist.



Fylgiskjal II.


Bréf forsætisráðherra til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.


(1. febrúar 1990.)



    Ríkisstjórnin fagnar áformum um lækkun verðbólgu og stöðugleika í efnahagsmálum sem felast í þeim kjarasamningum BSRB og fjármálaráðuneytisins sem nú eru á lokastigi.
    Ríkisstjórnin telur að í slíkum samningum felist mikilvægur stuðningur við þá jafnvægisstefnu í efnahagsmálum sem hún fylgir.
    Í því skyni að greiða fyrir kjarasamningum hefur ríkisstjórnin ákveðið eftirfarandi aðgerðir:

1. Auknar niðurgreiðslur á búvörum.
    Ríkisstjórnin er reiðubúin að beita sér fyrir aðgerðum til þess að koma í veg fyrir hækkun á heildsöluverði hefðbundinna búvara fram til 1. desember 1990, enda standist sú forsenda samkomulags samningsaðila og bænda að verð til framleiðenda hækki ekki á tímabilinu. Áætlað er að til þess þurfi að verja 750 milljónum króna umfram fjárlög í niðurgreiðslur.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa starfshóp til að gera ítarlega athugun á kostnaði við framleiðslu, vinnslu og sölu innlendra búvara og gera tillögur um stefnumörkun með það að markmiði að búvöruframleiðslan verði hagkvæmari. Fulltrúar landbúnaðarins og samtaka launafólks og vinnuveitenda eigi m.a. sæti í starfshópnum.

2. Lækkun framfærsluvísitölu.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á sköttum og gjöldum eða gjaldskrám opinberra fyrirtækja sem svara til 0,3 af hundraði lækkunar á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar.

3. Lækkun raunvaxta.
    Í samræmi við bréf Sambands viðskiptabanka og sparisjóða til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 28. janúar sl. hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipa sérstakan starfshóp sem kanni leiðir til þess að tryggja að vaxtalækkanir til samræmis við hjaðnandi verðbólgu fái staðist til frambúðar.
    Með þessum aðgerðum og öðrum aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum verði á markvissan hátt lagður grunnur að frekari lækkun raunvaxta.
    Ríkisstjórnin er jafnframt reiðubúin að stíga ný skref til lækkunar raunvaxta á spariskírteinum ríkissjóðs og skapa þannig skilyrði fyrir lægri raunvöxtum í bankakerfinu þegar markaðsaðstæður leyfa og tekist hefur víðtækt
samstarf um að efla innlenda lánsfjármögnun ríkissjóðs. Þá lýsir ríkisstjórnin yfir því að hún muni beita sér fyrir bættu eftirliti með starfsemi allra aðila á lánamarkaði til þess að hagsmuna almennings sé gætt.

4. Húsnæðismál fatlaðra.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að á grundvelli úttektar á framkvæmdaþörf í þágu fatlaðra, sem nú er á lokastigi, verði gerð áætlun til nokkurra ára um úrbætur í húsnæðismálum þeirra, bæði í sambýlum og innan félagslega húsnæðiskerfisins.
    Ríkisstjórnin mun veita því forgang að leysa brýnasta vanda fatlaðra sem eru á biðlistum eftir sambýli og hafa sannanlega mikla þörf fyrir vistun samkvæmt mati svæðisstjórna í málefnum fatlaðra og félagsmálaráðuneytisins.

5. Frítekjumark.
    Frítekjumark tekjutryggingarþega gagnvart greiðslum úr lífeyrissjóðum hækkar 1. júlí 1990 í 19.000 krónur og 1. janúar 1991 í 21.500 krónur.
    Ríkisstjórnin mun halda áfram athugun á samræmingu skattlagningar og frítekjumarks allra tekna gagnvart tekjutryggingu almannatrygginga.

6. Atvinnuleysistryggingabætur.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að einstaklingar, sem verið hafa atvinnulausir í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímabili, fái uppbót hliðstæða þeirri sem greidd verður til láglaunafólks samkvæmt kjarasamningi á almennum vinnumarkaði.

7. Samstarf til að tryggja árangur samninganna.
    Ríkisstjórnin telur mikilvægt að efla samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til þess að tryggja að markmið kjarasamninganna um lækkun verðbólgu og stöðugleika í efnahagslífi náist.
    Í því sambandi mun ríkisstjórnin m.a. leggja áherslu á trygga fjármögnun fjárþarfar ríkissjóðs innan lands til að draga úr erlendri skuldasöfnun. Jafnframt verður fylgt aðhaldssamri stefnu í peningamálum og ríkisfjármálum til að koma í veg fyrir þenslu. Í þessu skyni óskar ríkisstjórnin sérstaklega eftir kaupum lífeyrissjóða á skuldabréfum umfram kaup þeirra af húsnæðismálastjórn.
    Til þess að greiða fyrir sameiginlegum markmiðum mun ríkisstjórnin fela sérstakri nefnd embættismanna að halda fundi reglubundið með launanefndum
samningsaðila. Á þessum fundum skal fara yfir þróun helstu hagstærða, peningamál og ríkisfjármál og munu aðilar í sameiningu leita leiða til að ná fram því jafnvægi sem nauðsynlegt er til að markmið kjarasamninganna náist.



Fylgiskjal III.


Bréf forsætisráðherra til Stéttarsambands bænda.


(1. febrúar 1990.)



    Með vísan til samkomulags Stéttarsambands bænda og ASÍ, VSÍ/VMS í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og kjarasamning milli BSRB og ríkisins vil ég taka fram eftirfarandi:
    Að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga mun ríkisstjórnin í samræmi við 3. tölul. samkomulags ofangreindra aðila beita sér fyrir lækkun á álagningarstofni fasteignaskatts í sveitum þannig að hann jafngildi fasteignamati.
    Einnig skal tekið fram að ríkisstjórninni er ljóst að á nýju verðlagsári sauðfjárafurða, sem hefst 1. september 1990, verður annaðhvort að greiða þann launalið sem samkomulag varð um að greiða af niðurgreiðslufé 1. september 1989, á sama hátt eða að öðrum kosti að hækka grundvallarverð um þrjá af hundraði.
    Þá skal staðfest að ríkisstjórnin er reiðubúin til að beita sér fyrir nauðsynlegri löggjöf til þess að halda megi búvöruverði óbreyttu fram til 30. nóvember 1990.