Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 394 . mál.


Nd.

688. Frumvarp til laga



um breytingu á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands í hlutafélög.

Flm.: Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson, Ingi Björn Albertsson,


Kristinn Pétursson, Ólafur G. Einarsson.



1. gr.

    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun eins hlutafélagsbanka um Landsbanka Íslands og annars um Búnaðarbanka Íslands. Skal hlutverk þessara hlutafélagsbanka vera að hafa á hendi hvers konar viðskiptabankastarfsemi og starfsemi í tengslum við hana.
    Í þessu skyni er ríkisstjórninni heimilt:
a.    að leggja Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eignir, skuldir og skuldbindingar hvors banka um sig til þess nýja hlutafélagsbanka sem stofnaður verður um viðkomandi banka,
b.    að láta fara fram mat á eignum annars vegar Landsbanka Íslands og hins vegar Búnaðarbanka Íslands til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hvors hins nýja hlutafélagsbanka um sig. Við stofnun eru öll hlutabréf í báðum hlutafélagsbönkunum í eigu ríkisins.

2. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga um viðskiptabanka, nr. 86/1985, og 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum, gilda ekki um tölu stofnenda og tölu hluthafa í hlutafélagsbanka skv. 1. gr.
    Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um viðskiptabanka um takmörkun atkvæðisréttar gilda ekki að því er varðar eignaraðild ríkisins að hlutafélagsbanka skv. 1. gr.

3. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga rétt á starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka skv. 1. gr. við stofnun hans. Nú tekur maður, sem áður gegndi starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka skv. 1. gr. og fellur þá niður réttur hans til launa það sem eftir er af uppsagnarfresti hans hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands ef hinu nýja starfi fylgja jafnhá eða hærri laun en hann áður hafði, en ella greiðist launamismunurinn til loka uppsagnarfrestsins.
    Um ráðningu bankastjóra, aðstoðarbankastjóra, útibússtjóra og forstöðumanna endurskoðunardeilda hlutafélagsbanka skv. 1. gr. skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka.

4. gr.

    Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem stofnað er til áður en bankarnir eru lagðir niður með yfirtöku hlutafélagsbanka á þeim skv. 1. gr. þessara laga, sbr. og 2. mgr. Ríkisábyrgð á innstæðum í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands fellur þó niður tveimur árum eftir yfirtöku hinna nýju hlutafélagsbanka á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sbr. 9. gr. Ríkissjóður ábyrgist jafnframt nýjar innstæður í hlutafélagsbanka skv. 1. gr. til sama tíma.
    Ríkissjóður yfirtekur ábyrgð Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands á skuldbindingum Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka Íslands og Eftirlaunasjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands sem stofnast hafa til fyrir gildistöku laga þessara eða stofnast munu fram að yfirtökudegi, sbr. 9. gr. Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands og Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands flytjast eigi til hlutafélagsbanka skv. 1. gr. og taka sjóðirnir eftir yfirtökudag eigi lengur við iðgjöldum en skulu starfræktir áfram til lúkningar þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla.
    Nú tekur maður, er áður gegndi starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka skv. 1. gr. og skal þá réttur hans til elli- og örorkulífeyris og réttur maka hans til maka- eða barnalífeyris eða annar réttur skv. reglugerðum um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands og Eftirlaunasjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, sem í gildi er á yfirtökudegi, sbr. 9. gr., eigi vera lakari en hefði verið ef hann hefði áfram greitt iðgjald til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbanka Íslands eða Eftirlaunasjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands þann tíma er hann starfar hjá viðkomandi hlutafélagsbanka skv. 1. gr. Ríkissjóður og viðkomandi hlutafélagsbanki skv. 1. gr. skulu hlutfallslega greiða það sem á vantar að greiðslur úr Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands eða Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands og greiðslur, sem réttur hefur stofnast til úr þeim lífeyrissjóði, sem viðkomandi starfsmaður greiðir til meðan hann starfar hjá viðkomandi hlutafélagsbanka skv. 1. gr., séu samanlagt jafnháar og greiðslur hefðu numið úr Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands eða Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands samkvæmt þeirri reglugerð sem í gildi er á yfirtökudegi, sbr. 9. gr., ef viðkomandi starfsmaður hefði greitt til annars sjóðsins eftir því sem við á. Skal greiðsluhlutfall ríkissjóðs annars vegar og viðkomandi hlutafélagsbanka samkvæmt 1. gr. hins vegar af þessum mismun vera hið sama og hlutfallslegur starfstími viðkomandi starfsmanns hjá hvorum hlutaðeigandi aðila um sig. Ríkissjóður, viðkomandi hlutafélagsbanki skv. 1. gr. og Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbanka Íslands eða Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands skulu semja sín á milli um nánari framkvæmd þessa ákvæðis og skal við það miðað að einn aðili annist útborganir vegna viðkomandi starfsmanns, en endurkrefji síðan hina og hlutaðeigandi lífeyrissjóð eftir því sem við á.
    Eftir gildistöku laga þessara skulu reglugerðir um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka Íslands og Eftirlaunasjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands endurskoðaðar með tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af lögum þessum. Fjármálaráðherra skal tilnefna einn fulltrúa í stjórn hvors sjóðsins í stað formanns bankaráðs og eins bankastjóra viðkomandi ríkisbanka uns endurskoðun reglugerðar um sjóðina er lokið, en við þá endurskoðun skal miðað að stjórn sjóðanna verði framvegis skipuð jafnmörgum mönnum frá fjármálaráðherra og þeim sem hafa greitt til þeirra. Heimilt skal að fela Tryggingastofnun ríkisins umsjón með rekstri sjóðanna, ávöxtun á fé þeirra og greiðslur úr þeim.

5. gr.

    Innlánsreikningar í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands skulu flytjast til hlutaðeigandi hlutafélagsbanka nema innstæðueigendur óski annars. Skulu Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands sjá um opinberar auglýsingar til viðskiptavina sinna vegna þessa.

6. gr.

    Greiðslustaðir skuldaskjala í eigu Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka
Íslands skulu flytjast í viðkomandi hlutafélagsbanka eftir yfirtöku þeirra á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Almenn opinber auglýsing til viðskiptavina nægir til þess að gera þetta kunnugt.

7. gr.

    Ríkisstjórninni skal heimilt að selja hlutafé ríkissjóðs í hlutafélagsbanka skv. 1. gr. Söluverð hlutabréfa skal ákveðið með tilliti til eiginfjárstöðu, afkomu og afkomuhorfa viðkomandi hlutafélagsbanka á hverjum tíma. Heimilt skal að bjóða hlutabréf ríkissjóðs til sölu á Verðbréfaþingi Íslands. Eigi skal árlega selja meira en nemur 25% af upphaflegri hlutafjáreign ríkisins í viðkomandi hlutafélagsbanka.
    Heimilt er að auka hlutafé hlutafélagsbankanna með útgáfu nýrra hlutabréfa.

8. gr.

    Lög þessi koma í stað stofnsamnings skv. II. kafla laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Stofnfund hlutafélagsbanka skv. 1. gr. skal halda innan mánaðar frá gildistöku laga þessara og skal leggja drög að samþykktum fyrir hlutaðeigandi hlutafélagsbanka fram á stofnfundinum.

9. gr.

    Einn hlutafélagsbanki skv. 1. gr. yfirtekur Landsbanka Íslands 1. júlí 1990 og telst Landsbanki Íslands lagður niður frá og með þeim degi og annar hlutafélagsbanki skv. 1. gr. yfirtekur Búnaðarbanka Íslands 1. janúar 1991 og telst Búnaðarbanki Íslands lagður niður frá og með þeim degi.

10. gr.

    Þar sem Landsbanki Íslands eða Búnaðarbanki Íslands hafa tilnefnt stjórnarmenn eða verið falið að reka sjóði eða stofnanir eða falið að sinna verkefnum samkvæmt öðrum lögum tekur viðkomandi hlutafélagsbanki við þeim réttindum eða skyldum.

11. gr.

    Viðskiptaráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun hlutafélagsbanka skv. 1. gr. og fer með eignarhlut ríkisins í honum. Alþingi skal þó fyrir stofnfund og hvern aðalfund hlutaðeigandi hlutafélagsbanka kjósa þá fulltrúa er viðskiptaráðherra hyggst bjóða fram til kjörs í bankaráð og svarar til eignarhlutar ríkisins.

12. gr.

    Viðkomandi hlutafélagsbanki skv. 1. gr. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

13. gr.

    Um hlutafélagsbanka skv. 1. gr. skulu að öðru leyti en leiðir af ákvæðum laga þessara gilda ákvæði laga um viðskiptabanka og laga um hlutafélög eftir því sem við á.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.


    Umboð núverandi bankaráða Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands skulu haldast þar til viðkomandi hlutafélagsbanki tekur yfir, sbr. 9. gr.
    Ríkisstjórninni er heimilt að veita ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum hlutafélagsbanka skv. 1. gr. sem stofnast gagnvart erlendum aðilum í allt að eitt ár eftir stofnun þeirra.


Greinargerð.


    Með setningu núgildandi laga um viðskiptabanka og annarra laga á sviði fjármálalífsins var löggjöfin færð til nútímalegs horfs. Aukin samkeppni viðskiptabankanna hefur m.a. leitt til samruna þriggja banka sem áður höfðu keypt Útvegsbankann hf. Á næstu árum má enn búast við harðnandi samkeppni ekki síst vegna fyrirsjáanlegra breytinga á viðskiptum og bankaþjónustu á sameiginlegu markaðssvæði EB-ríkjanna. Gera má ráð fyrir að þegar á þessu ári verði tekin afstaða til framtíðarskipulags þessara mála í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Flest bendir til þess að niðurstaðan verði sú að lánastofnanir geti starfað utan heimalandsins, stofnað þar útibú eða keypt hlut í starfandi lánastofnunum.
    Viðskiptaráðherra hefur upplýst að tímasett áætlun um heimildir fyrir erlendar lánastofnanir til að starfa hér á landi séu til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Til að styrkja samkeppnisstöðu innlendra viðskiptabanka er nauðsynlegt að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Þannig mætti leggja grunn að dreifðari eignaraðild og öflun nýs eigin fjár. Segja má að slík breyting á rekstrarformi núverandi ríkisviðskiptabanka og stækkun og samruni einkabankanna séu forsendur aðlögunar að breyttum viðskiptaháttum.
    Íslenska ríkið hefur verið óvenjulega umsvifamikið í bankakerfi landsins sé leitað samanburðar við nágrannalöndin. Til skamms tíma átti ríkið og rak þrjá stærstu viðskiptabankana.
    Oft hafa komið fram hugmyndir um að ríkið seldi hlut sinn í einum eða öllum þessum bönkum og þeir störfuðu á sama grundvelli og flest fyrirtæki landsins. Þessum hugmyndum hefur einkum verið andmælt á þeim forsendum að nauðsynlegt væri fyrir ríkið að eiga verulegan hlut í bankakerfinu til þess að koma í veg fyrir misnotkun lánsfjármagns og veita einstökum fyrirtækjum og atvinnuvegum stuðning. Auk þess hefur verið talið að yfirráðum yfir bönkunum fylgdu mikil völd sem sjálfsagt væri að stjórnvöld sætu að.
    Áhrif stjórnvalda hafa leitt til þess að ríkisbankarnir hafa ekki að öllu leyti verið reknir á venjulegum viðskipta- og bankalegum forsendum. Afleiðingin af þessari stefnu hefur vægast sagt verið óheppileg þar sem stjórnvöld hafa í reynd allt of oft haldið atvinnufyrirtækjum í taprekstri með stjórnvaldsaðgerðum á einu sviði, en á hinn bóginn litið á bankana sem stjórntæki til þess að koma í veg fyrir stöðvun fyrirtækjanna og viðhalda þar með taprekstrinum. Þannig hefur þessi stefna ekki verið til hagsbóta fyrir atvinnulífið þegar lengra er litið.
    Þessi stefna hefur ekki verið til góðs fyrir bankana þar sem rekstur þeirra hefur í mörgum atriðum ekki fengið að þróast eðlilega og ljóst að bankarnir eiga mörg verkefni fram undan við að auka hagræðingu í rekstri sínum þegar samkeppni eykst.
    Með því að leggja til að ríkisbankarnir verði seldir er verið að taka brott eitt stjórntæki til þess að halda atvinnufyrirtækjum í taprekstri. Einnig er með því verið að skapa skilyrði fyrir auknum sveigjanleika og nútímalegra bankakerfi þar sem sjálfstæðir bankar hafa mun meira svigrúm til þess að bregðast við breytilegum aðstæðum en ríkisbankar.
    Annað sjónarmið, sem jafnframt ræður miklu um sölu bankanna, er að í þeim hefur ríkið bundið mikið fé sem gæti nýst betur til annarra þarfa en að eiga og reka banka. T.d. mætti ráðstafa því til framfaramála sem fyrst og fremst tengjast því að byggja upp á landsbyggðinni í atvinnumálum og græða upp landið svo að nefndar séu hugmyndir sem fram hafa komið.
    Lögð er áhersla á að eignarhald í hlutafélagsbönkunum verði sem allra dreifðast við sölu bréfanna og því er ekki gert ráð fyrir að selja megi meira en 25% árlega af upphaflegri hlutabréfaeign ríkisins. Jafnframt er gert ráð fyrir að gefa megi út ný hlutabréf til að styrkja eiginfjárstöðuna.
    Farin er sú leið hér í þessu frumvarpi að gera lagaákvæði um sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hliðstæð því sem gert var með myndun hlutafélags um Útvegsbanka Íslands og heimildarákvæði um sölu hlutabréfa í honum. Sambærileg ákvæði munu því gilda um starfsfólk bankanna og skuldbindingar þeirra við breytingu þeirra í hlutafélagsbanka eins og gilti við sams konar breytingu á Útvegsbanka Íslands.
    Þannig skulu innstæður flytjast sjálfkrafa milli úr hvorum ríkisbanka yfir í viðkomandi hlutafélagsbanka og sömuleiðis greiðslustaðir skuldaskjala.
    Miðað er við að hlutafélagsbanki verði stofnaður um Landsbanka Íslands 1. júlí 1990 og annar verði stofnaður um Búnaðarbanka Íslands 1. janúar 1991.
    Eitt veigamikið frávik er þó á hlutafélagsbönkum samkvæmt frumvarpi þessu og lögunum um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands. Lagt er til að Alþingi kjósi þá stjórnarmenn sem viðskiptaráðherra býður fram sem fulltrúa ríkisins í bankaráð viðkomandi banka á stofnfundi eða aðalfundum. Þetta þýðir að viðskiptaráðherra tilnefnir ekki sjálfur bankaráðsmenn eins og gilti fyrir Útvegsbanka Íslands hf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.



Um 1. gr.


    Í grein þessari er ákvörðun um stofnun hlutafélagsbanka sett fram.

Um 2. gr.


    Þetta ákvæði er nauðsynlegt vegna þess að einn aðili, ríkið, myndar hlutafélagið upphaflega.

Um 3. gr.


    Samhljóða sama ákvæði vegna starfsmanna sem áður unnu hjá Útvegsbanka Íslands og fullkomin sátt virðist hafa náðst um.

Um 4. gr.


    Sama og gildir um 3. gr.

Um 5. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Með ákvæði þessu er mörkuð sú stefna að bankarnir skuli seldir, en jafnframt reynt að tryggja, svo sem föng eru á, að eignarhald á þeim verði dreift. Þá er gert ráð fyrir þeim möguleika að auka hlutaféð með útgáfu nýrra bréfa til að styrkja eiginfjárhlutfall bankanna.

Um 8. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um. 9. gr.


    Hér er mörkuð sú stefna að koma þessum breytingum í framkvæmd svo fljótt sem auðið er.

10. gr.

    Þarfnast ekki skýringa.

11. gr.

    Hér er lagt til að Alþingi kjósi fulltrúa ríkisins í bankaráð. Í lögunum stofnun hlutfélagsbanka um Útvegsbanka Íslands er viðskiptaráðherra falið að skipa bankaráðsmenn.

Um 12. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um. 14. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Þarfnast ekki skýringa.