Ferill 309. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 309 . mál.


Sþ.

723. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um alþjóðlega ráðstefnu um verndun hafsins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Verður haldin hér á landi alþjóðleg ráðstefna um verndun hafsins á þessu ári, sbr. þingsályktun frá 18. mars 1987?

    Í svari forsætisráðherra, sem byggðist á áliti Siglingamálastofnunar ríkisins við fyrirspurn sama fyrirspyrjanda um sömu ályktun á síðasta þingi, sagði m.a. svo:
        Ætla má að lágmarksundirbúningur fyrir alþjóðlega ráðstefnu um mengun sjávar, þar sem eingöngu yrði fagleg umfjöllun, sé um 12 mánuðir frá því að ákvörðun er tekin um að halda hana hér. Með vísun til þess og hins að mikið er að gerast á þessum vettvangi hér á landi eða í næsta nágrenni okkar seinni hluta þessa árs og fyrri hluta árs 1990 sýnist ekki skynsamlegt að stefna að því nú að halda slíka ráðstefnu fyrr en í fyrsta lagi seinni hluta árs 1990 eða fyrri hluta árs 1991. Undirbúningur að ályktunarhæfri ráðstefnu tæki eflaust mun lengri tíma og jafnvel álitamál hvort fagleg ráðstefna þyrfti ekki einmitt nú að koma til áður en boðað yrði til slíkrar ráðstefnu.
    Hér á landi eru fyrirhugaðir eftirfarandi alþjóðlegir fundir og ráðstefnur um mengunar- og umhverfismál:
    1. Seinni hluta janúarmánaðar hefur utanríkisráðuneytið boðið fulltrúum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, sem sæti eiga í umhverfismálanefnd bandalagsins (Committee on the Challenges to Modern Society), til hringborðsumræðna í Reykjavík um mengun úthafa dagana 17.–18. apríl nk.
    Drög að dagskrá hringborðsumræðnanna voru undirbúin í samráði við Geislavarnir ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins og Hafrannsóknastofnun. Þar er gert ráð fyrir að fjallað verði um mengun í hafi af völdum þungmálma, frávirkra lífrænna efna og geislavirkra efna.
    Fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu kynnti tillögu Íslendinga sérstaklega á fundi umhverfismálanefndarinnar í Brussel 5. febrúar sl. Til þessa hafa engin formleg svör borist frá aðildarríkjum bandalagsins. Óvíst er því um endanlega tímasetningu þessarar ráðstefnu og hvort af henni verður.
    2. Ársfundur Óslóar- og Parísarsamninganna 1990 í Reykjavík 11.–23. júní 1990.
    3. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að fimmta norræna ráðstefnan um umhverfismenntun (umhverfisfræðslu), „Miljö 91“, fari fram í Reykjavík 12.–14. júní 1991.
    Á 8. áratugnum stóðu Norðurlöndin fyrir sameiginlegu átaki til að efla umhverfisfræðslu í skólum. Í framhaldi af því var ákveðið að efna til ráðstefnu annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndum. Fyrsta ráðstefnan var í Stokkhólmi 1983, önnur í Ósló 1985, sú þriðja í Helsinki 1987 og sú fjórða í Kaupmannahöfn vorið 1989. Á þessum ráðstefnum hafa verið rúmlega 1.000 manns. Í Kaupmannahöfn voru t.d. 1.200 manns, þ.e. 500 Danir og 700 frá öðrum Norðurlöndum, þar af 13 Íslendingar. Umfangsmiklar sýningar og skoðunarferðir eru hluti af þessum ráðstefnum, enda er lögð mikil áhersla á að kynna og ræða um það sem verið er að gera á sviði umhverfismenntunar.
    Auk framangreindra funda eru fjölmargir fundir og ráðstefnur fyrirhugaðar, um mengunar- og umhverfismál, sem Ísland er aðili að á næstu mánuðum og árum erlendis. Má í því sambandi nefna alþjóðlegan fund sem haldinn verður í Bergen 8.–16. maí nk., að frumkvæði Norðmanna, til að fylgja eftir Brundtland-skýrslunni. Á síðasta þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar 9.–20. október sl. var samþykkt ályktun þess efnis að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu næsta haust til að ganga frá alþjóðasamningi um samstarf og skipulag vegna hreinsunar olíu úr sjó þegar mengunaróhöpp verða. Ákveðið er að halda ráðstefnuna 19.–23. nóvember 1990 í höfuðstöðvum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í London. Þá er fyrirhugaður fyrsti ráðherrafundur Óslóar- og Parísarnefndanna um varnir gegn mengun sjávar í júní 1992.
    Með hliðsjón af framansögðu og þeim sjónarmiðum, sem fram komu í svari við fyrirspurn sama fyrirspyrjanda á síðasta þingi, er af hálfu Siglingamálastofnunar ríkisins talið heppilegt að stefna að ráðstefnu vísindamanna um varnir gegn mengun sjávar í apríl eða maí 1991 og hefja þegar athugun og undirbúning með það að leiðarljósi.
    Af hálfu stjórnvalda hefur umhverfisráðherra verið falið að vinna að undirbúningi ráðstefnu um varnir gegn mengun hafsins við Ísland á grundvelli nefndrar þingsályktunar, frá 18. mars 1987, í samvinnu og samráði við Siglingamálastofnun ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Geislavarnir ríkisins og Háskóla Íslands.