Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 432 . mál.


Nd.

753. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Geir H. Haarde, Friðrik Sophusson, Pálmi Jónsson,


Birgir Ísl. Gunnarsson, Hreggviður Jónsson, Eggert Haukdal.



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I með lögum nr. 79/1989 orðist svo:
    Hafi maður fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur skv. C-lið 69. gr., sbr. B-lið 11. gr. laga nr. 49/1987 og C-lið 9. gr. laga nr. 92/1987, skal hann halda þeim rétti og fá greiddar húsnæðisbætur í samræmi við ákvörðun skattstjóra til loka þess tímabils er ákvörðun skattstjóra tók til, þó í engu tilviki lengur en til ársins 1993, ef bætur voru ákvarðaðar á grundvelli skattframtals 1988, og til ársins 1994 ef þær voru ákvarðaðar á grundvelli skattframtals 1989.
    Maður, sem hefði átt rétt til húsnæðisbóta vegna húsnæðisöflunar á tímabilinu frá 1. janúar 1989 til 14. júní 1989, getur með framtali 1990 sótt um að fá ákvarðaðar húsnæðisbætur. Fái hann ákvarðaðar bætur skal hann halda þeim rétti og fá greiddar húsnæðisbætur í samræmi við ákvörðun skattstjóra til loka þess tímabils er ákvörðun skattstjóra tók til, þó aldrei lengur en til ársins 1995.
    Þeir sem fá húsnæðisbætur geta aldrei notið vaxtabóta samtímis. Maður, sem áður hefur fengið ákvarðaðar húsnæðisbætur, getur, meðan hann á rétt til bótanna, óskað eftir því við skattstjóra með framtali sínu að fá úrskurð um vaxtabætur. Réttur til húsnæðisbóta fellur að fullu niður hjá þeim sem þannig fær ákvarðaðar vaxtabætur.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 79/1989 falli brott.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
    Þrátt fyrir gildistökuákvæði í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 117/1989 skulu reglur lokamálsliðar 3. mgr. C-liðar 69. gr. laganna um áfallnar uppsafnaðar verðbætur, sbr. lokamálslið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 117/1989, ekki koma til framkvæmda fyrr en við ákvörðun vaxtabóta á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við ákvörðun húsnæðisbóta frá og með álagningu gjalda á árinu 1990 og við ákvörðun vaxtabóta á árinu 1990 vegna tekna á árinu 1989 og eigna í lok þess árs.

Greinargerð.


    Það er grundvallaratriði í skattarétti með siðuðum þjóðum að skattar séu ekki hækkaðir eða skattþegnum íþyngt að öðru leyti með afturvirkum hætti. Á síðasta ári var lögum um tekjuskatt og eignarskatt hins vegar tvívegis breytt þannig að í ljós hafa komið íþyngjandi afturvirk áhrif. Þessi atriði varða ákvarðanir manna um kaup og sölu á íbúðarhúsnæði á árunum 1988 og 1989. Með frumvarpi þessu er lagt til að þessum atriðum verði breytt þannig að afturvirknin hverfi og lögin gildi einungis fram í tímann en ekki einnig aftur fyrir sig.
    Annars vegar er um að ræða afturvirka íþyngingu gagnvart þeim sem gerðu ráðstafanir til húsnæðisöflunar á árinu 1988 og á fyrri hluta árs 1989 í trausti þess að þeir nytu húsnæðisbóta í sex ár eins og gildandi lög gerðu þá ráð fyrir. Þessi breyting kom til með lögum nr. 79 sem birt voru í Stjórnartíðindum 14. júní 1989, en tóku gildi 15. nóvember það ár og voru látin ná til skattframtals fyrir tekjuárið 1988 sem senda bar skattyfirvöldum mörgum mánuðum fyrr. Með þessari breytingu var ákveðinn hópur manna, sem aflað hafði sér húsnæðis á árinu 1988, sviptur rétti til húsnæðisbóta í allt að fimm ár og þeir, sem öfluðu sér húsnæðis á tímabilinu 1. janúar 1989 til 14. júní 1989, í allt að sex ár.
    Hins vegar er um að ræða afturvirka íþyngingu gagnvart aðilum í húsnæðisviðskiptum sem reikna máttu með því að áfallnar verðbætur af yfirteknum lánum reiknuðust sem vaxtagjöld eins og tíðkast hafði lengi. Skilgreiningu á þessu atriði var breytt með lögum nr. 117 28. des. 1989 og ný, þrengri skilgreining látin gilda gagnvart vaxtagjöldum sem til féllu á árinu öllu.
    Báðar þessar breytingar stangast á við grundvallaratriði í réttarfari og lýsa siðleysi stjórnvalda og virðingarleysi í garð skattþegna. Þær hafa og lítt verið kynntar almenningi. Engu er líkara en að skáka hafi átt í skjóli þess að fáir hafa þessi mál á hraðbergi og einstaklingarnir, sem hagsmuna eiga að gæta varðandi þessi tilteknu atriði, eflaust ekki mjög margir. Það breytir hins vegar ekki eðli málsins. Fastlega má því búast við að einhverjir verði til þess að leita réttar síns í þessum efnum fyrir dómstólum verði lögunum ekki breytt í þá veru sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hin afturvirku ákvæði verði felld brott úr lögunum þannig að þeir einstaklingar, sem hér eiga hlut að máli, nái rétti sínum. Lögin verði óbreytt að öðru leyti. Framtalsfrestur vegna tekjuársins 1989 er að vísu runninn út en leggja verður þá skyldu á herðar skattyfirvalda að þau tryggi að þær ívilnanir, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, nái til réttra aðila verði það að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að aðilar sem fengu úrskurðaðar húsnæðisbætur á árinu 1989 vegna húsnæðisöflunar á árinu 1988 geti haldið þeim í sex ár eins og aðilar sem fengu þessar bætur úrskurðaðar á árinu 1988. Einnig er lagt til að þeir, sem öfluðu sér húsnæðis frá 1. janúar 1989 til 14. júní 1989, áður en lög nr. 79/1989 voru birt, í góðri trú um að þeir ættu rétt á húsnæðisbótum í sex ár, geti fengið þessar bætur áfram.
    Um alla þessa hópa á það við að þau lög, sem í gildi voru þegar viðkomandi gerðu fjárhagslegar ráðstafanir vegna húsnæðiskaupa, gerðu ráð fyrir húsnæðisbótum í sex ár. Í núgildandi lagaákvæðum segir á hinn bóginn að þeir, sem fengu bæturnar 1989 (vegna húsnæðisöflunar 1988), fái þær aðeins í það eina skipti en hverfi síðan inn í vaxtabótakerfið ef þeir uppfylla skilyrði þess að öðru leyti. Aðilar, sem öfluðu sér húsnæðis á árinu 1989 fyrir lagabreytinguna, tapa alveg rétti sínum til húsnæðisbóta þó að þeir hafi hvorki vitað né mátt vita um þá kerfisbreytingu sem síðar varð með tilkomu vaxtabótanna. Því var komið aftan að þessu fólki.
    Augljóst er að einhver hópur þess fólks, sem á árinu 1988 og snemma árs 1989 gerði í góðri trú ráð fyrir húsnæðisbótum í sex ár, mun ekki eiga rétt á vaxtabótum samkvæmt þeim reglum sem um þær gilda. Núgildandi lög brjóta rétt á þessu fólki með siðlausum, afturvirkum hætti og geta haft af því verulega fjármuni.
    Húsnæðisbætur nema nú 53.400 kr. fyrir einstakling miðað við lánskjaravísitölu 1. desember sl. Hjón eiga í flestum tilfellum rétt á tvöföldum bótum. Íþyngingin getur því að hámarki numið 640.800 kr. á núvirði ef hjónin áttu bæði rétt á húsnæðisbótum og gengust undir skuldbindingar vegna húsnæðisöflunar snemma árs 1989, en uppfylla ekki skilyrði nýrri laga um vaxtabætur. Lagt er til með 1. gr. frumvarpsins að frá þessari afturvirkni verði horfið.
    Að auki er hér lagt til að þeir, sem fengu úrskurðaðar húsnæðisbætur á árunum 1988 og 1989 eða fá þær úrskurðaðar á þessu ári, geti hvenær sem er meðan þeir eiga rétt á bótunum óskað með framtali sínu eftir að fá í stað þeirra úrskurð um vaxtabætur. Þetta er nýmæli því að í gildandi lögum fá þessir aðilar aðeins eitt tækifæri til að óska eftir tilflutningi milli bótakerfa og geta ekki breytt til síðar þótt það væri þeim þá hagkvæmara.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að brott falli ákvæðið um að þeir, sem fengu úrskurðaðar húsnæðisbætur á árinu 1989, fái þær aðeins á því ári. Þessi breyting er afleiðing ákvæða í 1. gr.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að ný og þrengri skilgreining vaxtagjalda, sem kom inn í lögin í desember 1989, verði ekki látin gilda um ákvörðun vaxtagjalda sem til féllu á árinu 1989. Hin nýja skilgreining í lokamálslið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 117/1989 er svohljóðandi: „Hvorki teljast til vaxtagjalda hjá seljanda áfallnar uppsafnaðar verðbætur af lánum sem kaupandi yfirtekur við sölu íbúðar né heldur uppsafnaðar áfallnar verðbætur á lán skuldara sem hann greiðir á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfs.“ Í greininni er gert ráð fyrir að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en við ákvörðun vaxtabóta á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs í stað þess að gilda aftur fyrir sig eins og lögin gera nú ráð fyrir.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.