Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


112. löggjafarþing 1989–1990.
Nr. 10/112.

Þskj. 762  —  19. mál.


Þingsályktun

um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989.


    Alþingi ályktar að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að vinna að framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Stykkishólmi í júní síðastliðnum og prentaðar eru með ályktun þessari sem fylgiskjal.Fylgiskjal.


VESTNORRÆNA ÞINGMANNARÁÐIÐ
Ályktanir 5. fundar ráðsins í Stykkishólmi
13.–15. júní 1989.


I.

    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsstjórna Færeyja og Grænlands og ríkisstjórnar Íslands að þær veiti fé á fjárlögum næstu þrjú ár til vestnorrænu ferðamálanefndarinnar til kynningarstarfs, áætlanagerðar og markaðsrannsókna á sviði ferðamála í löndunum þremur.

II.

    Vestnorræna þingmannaráðið samþykkir að skora á landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands að vinna að því að skipuleggja kennaraskipti á grunnskóla- og framhaldsskólastigi milli landanna þriggja.

III.

    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til Alþingis Íslendinga að skrifstofa Norðurlandaráðs í Reykjavík annist fyrst um sinn verkefni stjórnunarlegs eðlis fyrir ráðið. Enn fremur að Alþingi veiti til þess nauðsynlegt fé og aðstöðu.

IV.

    Vestnorræna þingmannaráðið ályktar að skora á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær geri árið 1992 að sérstöku vestnorrænu ári. Megináherslan verði lögð á jafnréttismál karla og kvenna, umhverfismál og æskulýðsmál. Ráðstefna um jafnrétti verði haldin á Íslandi, ráðstefna um umhverfismál á Grænlandi og um æskulýðsmál í Færeyjum. Enn fremur skorar ráðið á stjórnvöld að þau veiti nægilegt fé til þessara mála og tilnefni hvert einn fulltrúa til að undirbúa vestnorrænt ár 1992.

Yfirlýsing.

    Með tilvísun til ályktunar nr. 4, sem samþykkt var á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Ilulissat 1988, vill ráðið lýsa áhyggjum sínum af hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi og hvetur stjórnvöld viðkomandi landa til að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem birtar eru í ályktuninni, m.a. með því að kalla strax til hóp sérfræðinga til að annast fyrrnefnd umhverfisvandamál. Ráðið skorar því á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær geri allt sem í þeirra valdi stendur til að beita stórveldin þrýstingi í því skyni að flýta afvopnun á Norður-Atlantshafi.
    Ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af auknum siglingum kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta á þessu hafsvæði. Er það mat ráðsins að öllu máli skipti fyrir umhverfi landanna þriggja og tilvist að höfin verði gerð kjarnorkuvopnalaus.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1990.