Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 507 . mál.


Nd.

890. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.

Flm.: Guðni Ágústsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.



    Aftan við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: Stjórn stofnunarinnar er þó heimilt að fella niður barnsmeðlög að hálfu eða öllu leyti ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara. Nánari ákvæði um þetta atriði skulu sett í reglugerð.

Greinargerð.


    Í íslensku samfélagi er það samdóma álit þegnanna að einstaklingur, sem á í vandræðum, eigi skilið hjálp og stuðning þar sem það á við. Og í umræðu allri í þjóðfélaginu undanfarin ár, er snertir samfélagslega aðstoð til handa þeim er lenda í klóm ávana- og fíkniefna og í kjölfarið upplifa andlega, líkamlega og félagslega ógæfu sem endar oftar en ekki með hjónaskilnaði eða sambúðarslitum, hefur viðhorf samfélagsins þróast í þá átt sem betur fer að sá ógæfumaður eigi skilið stuðning og hjálp meðan hann er að ná sér á strik og verða aftur ábyrgur þegn í samfélaginu. Þessi aðstoð er t.d. oft í formi niðurfellingar á opinberum gjöldum, samið er um skuldbreytingar hjá lánastofnunum og samið um greiðslu meðlaga hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga.
    Sá liður, sem reynist mönnum oft erfiður við að glíma og semja um, eru barnsmeðlög. Oft er um að ræða menn sem í gegnum óreglu og fjármálaerfiðleika eða af því að langvinn veikindi hafa steðjað að eru með uppsöfnuð meðlög fyrir marga mánuði og jafnvel ár.
    Árið 1987 var gerð sú breyting á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga að heimilt er að fella niður dráttarvexti af meðlagsskuld ef viðkomandi á við erfiðar félagslegar aðstæður að búa. Samt sem áður eru menn með það mikla skuld í höfuðstól að niðurfelling dráttarvaxta hrekkur ekki til.
    Og hvað gera þessir einstaklingar ef þeir sjá ekki fram á að geta greitt sín meðlög? Þeir vinna yfirleitt vinnu þar sem ekki eru dregin af þeim gjöld, þar tapast ekki bara meðlagsgreiðslur heldur einnig önnur opinber gjöld. Þeir fara úr landi og missa þar með tengsl við börn sín og eru flóttamenn í þeim skilningi að þeir ráða ekki við að stofna heimili eða starfa með eðlilegum hætti og yfirgefa oft land sitt þess vegna. Það sem er þó alvarlegast er að þeir missa móðinn og við tekur endurtekin óregla og innlagnir á meðferðarstofnanir og síðar leita þeir á náðir félagsmálastofnunar bæjarfélags síns.