Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 509 . mál.


Sþ.

892. Tillaga til þingsályktunar



um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum.

(Lögð fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



    Alþingi ályktar að flýta skuli framkvæmdum við fyrirhugaða jarðgangagerð á Vestfjörðum umfram það sem fyrirhugað er samkvæmt fyrirliggjandi vegáætlun. Skal öllum undirbúningi verksins hraðað þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu 1991. Þá skal heimilt að auka framkvæmdahraða við verkið svo að því ljúki á fjórum til fimm árum í stað a.m.k. sjö árum, eins og áformað var.
    Ríkissjóði skal heimilað að taka lán í þessu skyni, allt að 1.300 millj. kr., á árunum 1990–1994, samkvæmt nánari ákvæðum sem sett eru í lánsfjárlög hverju sinni og skulu lánin ásamt verðbótum endurgreiðast af því fjármagni sem er til stórverkefna samkvæmt vegáætlun.
    Vextir og lántökukostnaður skulu greiðast árlega úr ríkissjóði sem sérstakt byggðarframlag.
    Ríkisstjórnin skal láta fara fram könnun á möguleikum þess að afla sérstaklega lánsfjár og/eða tekna til að standa straum af kostnaði vegna ákvörðunar um að flýta framkvæmdum og skila áliti til næsta Alþingis.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Jarðgöng á Vestfjörðum voru sett í vegáætlun 1989–1992 og er í áætluninni gert ráð fyrir að framkvæmdir við verkið hefjist árið 1992. Miðað er við að verktími sé sjö ár.
    Að undanförnu hafa umræður í þjóðfélaginu um byggðamál og byggðastefnu aukist, ekki síst í kjölfar erfiðleika í atvinnulífi á landsbyggðinni. Þá hefur þróunin í fólksflutningum heldur ekki verið heillavænleg. Vestfirðir eru vafalítið hvað verst í sveit settir í þessu tilliti og það er því brýnt að snúa við þeirri þróun sem nú á sér stað og afstýra því tjóni sem yfirvofandi byggðarröskun hefur í för með sér.
    Fáum dylst sú mikla þýðing sem jarðgöng á Vestfjörðum geta haft fyrir þróun atvinnulífs og í menningar- og félagslegu tilliti. Með tengingu byggðarlaga er allur grundvöllur atvinnu- og félagslífs treystur því með stærri einingum næst oftast meiri hagkvæmni. Því má heldur ekki gleyma að framkvæmdir á einu sviði geta haft í för með sér sparnað á öðru. Glöggt dæmi um þetta er samspil samgöngumannvirkja. Bætt vegakerfi getur gert flugvöll óþarfan og þegar litið er á Vestfirði sérstaklega (eða norðurhluta þeirra) má benda á að í öllum byggðarlögunum fjórum, sem ætlunin er að tengja með jarðgöngum samkvæmt frumvarpi þessu, eru áætlunarflugvellir, en með góðum og öruggum vegasamgöngum getur einn flugvöllur hæglega þjónað þessu svæði, með möguleika á einum varaflugvelli. Svipaða sögu er að segja um hafnirnar, a.m.k. hvað snertir vöruflutninga um þær. Fleiri mannvirki má nýta betur, svo sem eins og skóla, heilsugæslustöðvar, menningarmiðstöðvar, opinberar stjórnsýslubyggingar og margt fleira.
    Núverandi rannsóknaáætlun hefur miðast við að jarðgangagerð á Vestfjörðum verði boðin út veturinn 1991–1992 og framkvæmdir hefjist sumarið 1992. Miðað hefur verið við að framkvæmdir taki allt að sjö árum og þá gengið út frá að fjármagn dygði aðeins til vinnu á einum stað í göngunum í einu, þ.e. fyrir eitt „úthald“, en tæknilega er vel framkvæmanlegt að vinna á fleiri stöðum í einu. Ef unnið væri á tveimur stöðum í einu mestan hluta verktímans er líklegt að hann styttist úr sjö árum í fjögur til fimm ár. Miðað við upphaf framkvæmda sumarið 1991, eða einu ári fyrr en reiknað er með í vegáætlun, yrði væntanlega reynt að taka göngin í notkun seint á árinu 1995.
    Til að unnt sé að vinna þetta verk á fjórum til fimm árum í stað sjö þarf annaðhvort að hækka verulega framlag úr Vegasjóði meðan á framkvæmdum stendur eða afla fjár með öðrum hætti. Á þessu ári þarf þó aðeins að leysa lánsfjárþörf að upphæð 47 m.kr. Miðað er við að fjárhæðin verði tekin inn á fjáraukalög fyrir árið 1990 nú á komandi hausti.
    Ætla má að aukakostnaður vegna meiri framkvæmdahraða við jarðgöng á Vestfjörðum nemi um 430 m.kr. miðað við byggingarvísitölu 164.9 stig. Eftir að göngin hafa verið opnuð fyrir umferð er áætlað að það sparist um 25 m.kr. á ári í viðhaldskostnaði, einkum snjómokstri. Á fjármögnunarskeiði framkvæmdarinnar munu því sparast um 75 m.kr. í viðhaldskostnaði.
    Hér verður ekki farið út í að fjölyrða um ýmsan annan sparnað, beinan og óbeinan, sem skjótar úrbætur í samgöngumálum af því tagi sem hér um ræðir á norðanverðum Vestfjörðum og jákvæða byggðaþróun, sem vonandi fylgir í kjölfarið, hafa í för með sér. Óhætt er þó að fullyrða að slíkur sparnaður getur orðið verulegur fyrir einstaklinga, atvinnulíf og opinbera aðila.
    Einn sá þáttur í þessu sambandi, sem vert er að hugleiða, er að þegar verktökum býðst að vinna verkið hraðar eru verulegar líkur á hagstæðari tilboðum en ella. Má benda á að fengjust 10% hagstæðari tilboð af þessum sökum lætur nærri að sá sparnaður, að viðbættum sparnaði í viðhaldi (snjómokstri), vegi upp lántökukostnað vegna fyrirhugaðs framkvæmdahraða.
    Þá hlýtur að verða að telja að hvert ár með svo mikilum framkvæmdum og tilheyrandi fjárfestingu nýtist ekki og verði dýrt vegna lengri framkvæmdatíma, þó vissulega sé umdeilanlegt hvaða ávöxtunarkröfur eigi að miða við í því tilviki.
    Ýmsir möguleikar hafa verið ræddir til öflunar fjár vegna flýtingarinnar.
    Samgönguráðuneytið hefur m.a. unnið tillögur um staðbundna gjaldheimtu í formi sérstaks eldsneytisgjalds og fyrir liggur mikill stuðningur forráðamanna sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum ef það má verða til að flýta framkvæmdum. Einnig hefur verið rætt um útgáfu skuldabréfa, en eins og kunnugt er var fjár á sínum tíma m.a. aflað til Djúpvegar og hringvegar með sölu happdrættisskuldabréfa. Þá er sá möguleiki einnig fyrir hendi að heimamenn greiði að einhverju leyti af lánum, sem tekin verða vegna meiri framkvæmdahraða, með vegatekjum kjördæmisins á næstu árum eftir gangaframkvæmdirnar.