Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 308 . mál.


Sþ.

979. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Friðriks Sophussonar um könnun á áhrifum lögbundinna forréttinda.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hvað líður könnun á áhrifum lögbundinna forréttinda, sbr. þingsályktun frá 22. apríl 1986? Hvenær verður niðurstaðan kynnt Alþingi?
    Ályktun Alþingis er frá 22. apríl 1986 og hljóðar svo:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna áhrif lögbundinna forréttinda, m.a. einkaréttar, til tiltekinna starfa eða atvinnurekstrar. Í könnun þessari skal einkum leitast við að varpa ljósi á þýðingu einkaréttar eða lögbundinna forréttinda á stöðu þeirra er slíks réttar njóta, áhrif þessa á verðlag og hagsmuni neytenda. Könnuninni skal einnig ætlað að leiða í ljós áhrif lögbundinna takmarkana af þessu tagi á tækniþróun, hagvöxt og atvinnustig. Skýrsla um niðurstöðu könnunarinnar skal lögð fyrir Alþingi.“
    Með bréfi dags. 11. júlí 1986 fól forsætisráðuneytið Þjóðhagsstofnun umsjón með könnun þeirri sem lýst er í ályktuninni. Þjóðhagsstofnun fór þess á leit við Þráin Eggertsson, prófessor við Háskóla Íslands, í byrjun árs 1987 að hann tæki saman greinargerð um þetta efni og var þá áætlað að hún lægi fyrir um mitt það ár. Verkskil drógust af ýmsum ástæðum en nú hefur forsætisráðuneytinu borist greinargerð dr. Þráins Eggertssonar sem hér er birt sem fylgiskjal.
    Í greinargerð dr. Þráins er fjallað um fræðilegar hliðar þessa máls í samhengi við íslenskra aðstæður og vitnað í ýmsar kenningar fræðimanna og kannanir erlendis á afmörkuðum sviðum sem þessu tengjast. Greinargerðinni er skipt í eftirfarandi sex þætti; inngang, lögbundin forréttindi, stöðu þeirra sem njóta forréttinda, áhrif á verðlag og hagsmuni neytenda, áhrif á tækniþróun, hagvöxt, atvinnustig og niðurstöðu. Í niðurstöðu segir m.a.:
    „Í mörgum tilvikum er vandasamt að mæla í krónum og aurum þann kostnað sem neytendur bera af lögbundnum forréttindum. Ef gera á úttekt á hagkerfinu í heild sinni er um að ræða urmul af lögum og reglum sem lúta að atvinnurekstri og vinnu. Ýmsar reglur stjórnvalda lækka viðskiptakostnað og stuðla að hagkvæmum rekstri, en erlendar rannsóknir sýna að hagsmunasamtökum hefur oft tekist að skrumskæla hagkvæmar reglur og sveigja þær sérhagsmunum. Oft þarf því mjög nákvæma og flókna athugun til þess að greina sauðina frá höfrunum, hagkvæmar reglur frá forréttindum einokrarans. Afnám forréttinda getur bætt stöðu neytenda eftir ýmsum leiðum sem oft er erfitt að sjá fyrir. Það er ekki einungis um að ræða verðlækkun, heldur getur aukin samkeppni stuðlað að ýmsum nýjungum, bæði nýjum vörum og þjónustu.
    Með allt þetta í huga er ljóst að úttekt á öllum reglum er lúta að íslensku viðskiptalífi í þeim tilgangi að meta áhrif reglnanna á rekstrarhagkvæmni þjóðarbúskaparins er verk sem mun taka hóp röskra manna mörg ár að framkvæma. Í ýmsum tilvikum yrði trúlega ekki unnt að setja fram óyggjandi niðurstöðu.
    Eigi að síður er mikilvægt að hefjast handa við að grisja frumskóg íslenskra reglugerða, en margt bendir til þess að á Íslandi séu forréttindi og viðskiptahömlur algengari en í mörgum nálægum löndum. Úttekt á reglum atvinnulífsins er verk sem skynsamlegt er að vinna í áföngum. Rétt væri að rannsaka fyrst umgerðina um stærstu greinar hagkerfisins og jafnframt skoða stöðu greina þar sem grímulaus forréttindi blasa við. Tiltölulega auðvelt er að finna fjölmörg dæmi um forréttindi sem augljóslega hafa það hlutverk eitt að einoka markaðinn. Í öðrum tilvikum þarf að rétta reglur sem að hluta eru hagkvæmar en að hluta skaðlegar.“
    Mat Þjóðhagsstofnunar er að könnunin, eins og hún er orðuð í þingsályktuninni, sé ákaflega viðamikil og í sumum atriðum nokkuð óljós. Könnun sem taki á öllum atriðum þingsályktunarinnar og geri þeim viðhlítandi skil sé afar kostnaðarsöm og óhjákvæmilegt að ákveða til hennar sérstaka fjárveitingu. Telur Þjóðhagsstofnun varlegt að áætla þrjár til fjórar milljónir króna til þess í upphafi.
    Ástæða þykir til að geta þess hér að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd til þess að samræma löggjöf um löggildingu starfsstétta og lögverndun starfsheita m.a. með tilliti til þróunar á vinnumarkaði á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Nefndin verður skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Tilnefningar hafa þegar borist frá ráðuneytunum og þess að vænta að nefndin verði skipuð á næstu dögum.



Fylgiskjal.


Þráinn Eggertsson:

Áhrif lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar og vinnu.




(Texti er ekki til tölvutækur.)