Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 49 . mál.


Sþ.

985. Nefndarálit



um till. til þál. um aukin verkefni sveitarfélaga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sendi hana fjölmörgum til umsagnar, þar á meðal til margra sveitarfélaga. Eftirtaldir umsagnaraðilar mæltu með samþykkt tillögunnar: Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, bæjarstjórn Blönduóss, bæjarstjórn Siglufjarðar, bæjarráð Borgarness, bæjarráð Stykkishólms, Fjórðungssamband Norðlendinga, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, bæjarráð Njarðvíkur, bæjarráð Hafnarfjarðar, bæjarráð Ólafsfjarðar, bæjarstjórn Egilsstaða, bæjarstjórn Dalvíkur, bæjarstjórn Akureyrar. Eftirtaldir umsagnaraðilar mæltu ekki með samþykkt tillögunnar eða töldu ekki tímabært að hefja þá vinnu sem hún gerir ráð fyrir: Bæjarstjórn Sauðárkróks, Fjórðungssamband Vestfirðinga, bæjarstjórn Ísafjarðar, Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, bæjarstjórn Ólafsvíkur, bæjarstjórn Neskaupstaðar, bæjarráð Vestmannaeyja, bæjarráð Keflavíkur, bæjarstjórn Akraness, bæjarráð Selfoss. Á fund nefndarinnar kom Húnbogi Þorsteinsson, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneyti.
    Lögð var fram í nefndinni skýrsla með upplýsingum um byggðamál á Norðurlöndum, tekin saman af Sigurði Helgasyni, fyrrv. sýslumanni, fyrir Byggðasamtökin Útvörð. Er þar sérstaklega gerð grein fyrir lýðræðislega kjörnum héraðsstjórnum og þróun byggðamála á Norðurlöndum að undanförnu. Einnig lá fyrir nefndinni skýrsla tekin saman fyrir Samband sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi (ágúst 1989): Felst lausnin í fylkisstjórn? Skýrsla starfshóps um þriðja stjórnsýslustigið.
    Nefndin er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að stuðla að frekari valddreifingu í þjóðfélaginu með því að sveitarfélög, héraðsnefndir eða önnur samtök, sem mynduð kunna að verða, taki við verkefnum frá ríkinu enda sé tryggt að nauðsynlegir tekjustofnar fylgi. Undirbúningur slíkrar verkefnatilfærslu þarf að vera vandaður og taka mið af fenginni reynslu hér á landi og í nágrannalöndum. Aðdragandi að lagasetningu um þessi efni hefur verið langur hér á landi eins og gerðist við lagasetningu á síðasta ári um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Því telur nefndin réttmætt að stjórnvöld, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga, hefji könnun á því hvernig best verði staðið að tilfærslu á verkefnum og tekjustofnum. Í samræmi við þetta flytur nefndin breytingu á tillögunni á sérstöku þingskjali og leggur til að hún verði samþykkt þannig.
    Kristinn Pétursson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. apríl 1990.



Hjörleifur Guttormsson,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.


Guðni Ágústsson.


Birgir Ísl. Gunnarsson.