Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 159 . mál.


Sþ.

987. Nefndarálit



um till. til þál. um leiðsögumenn í skipulögðum hópferðum erlendra aðila á Íslandi.

Frá atvinnumálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Bárust umsagnir um hana frá Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, Birnu G. Bjarnleifsdóttur, forstöðumanni Leiðsöguskólans, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Félagi leiðsögumanna, Ferðamálaráði Íslands og Norrænu ferðaskrifstofunni.
    Nefndin telur rétt að breyta tillögunni á þann veg að samgönguráðherra verði falið að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða reglugerð nr. 175/1983, um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni. Í nefndinni eigi sæti fimm fulltrúar og eigi samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Félag leiðsögumanna og Félag íslenskra ferðaskrifstofa hvert að tilnefni einn fulltrúa. Ferðafélög áhugamanna tilnefni síðan einn fulltrúa sameiginlega.
    Eftir endurskoðunina skal reglugerðin m.a. fela í sér:
a.    skilgreiningu á því hvað telst vera skipulögð hópferð,
b.    að skylt verði að hafa leiðsögumann með starfsréttindi Ferðamálaráðs í hópferðum erlendra ferðamanna um landið sem skipulagðar eru í atvinnuskyni af íslenskum eða erlendum aðilum,
c.    í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum unnt væri að veita undanþágur til að ráða aðra í störf leiðsögumanna.
    Nauðsynlegt er að hefjast handa um þessa endurskoðun sem fyrst þannig að ný reglugerð taki gildi eigi síðar en 1. janúar 1991. Einnig er gerð tillaga um breytta fyrirsögn þingályktunartillögunnar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem liggja fyrir á sérstöku þingskjali.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir sat fund nefndarinnar er samþykk þessari afgreiðslu málsins.
    Matthías Á. Mathiesen og Geir Gunnarsson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. apríl 1990.



Árni Gunnarsson,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Pétur Bjarnason.


Sólveig Pétursdóttir,


með fyrirvara.


Hreggviður Jónsson,


með fyrirvara.