Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 252 . mál.


Nd.

1170. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.

Frá minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarp þetta frá því í janúar og leitað umsagna fjölda aðila svo sem fram kemur í áliti meiri hl. nefndarinnar.
    Meiri hluti þeirra umsagnaraðila, sem afstöðu taka, Félag fasteignasala, Neytendasamtökin, Landssamband lífeyrissjóða, Vinnuveitendasamband Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga, lýsir stuðningi við frumvarpið. Því er eigi unnt að draga þá ályktun af umsögnum að rétt sé að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá svo sem meiri hl. nefndarinnar gerir.
    Minni hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 2. maí 1990.



Geir H. Haarde,


frsm.


Alexander Stefánsson.


Eggert Haukdal.






Fylgiskjal I.


Umsögn Félags fasteignasala


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 86/1988,


um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.


(9. mars 1990.)



    Stjórn Félags fasteignasala hefur á fundi sínum fjallað um erindi yðar varðandi greint frumvarp.
    Öll veðskuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins, sem gefin hafa verið út eftir gildistöku laga nr. 54/1986, hafa að geyma ákvæði þess efnis að lánakjör þeirra, þ.m.t. vextir, séu breytileg. Skuldarar bréfanna hafa því allir samþykkt tilgreind lánakjör. Flestar lánastofnanir, svo sem bankar, lífeyrissjóðir og verðbréfafyrirtæki, hafa sambærileg ákvæði í sínum veðskuldabréfum. Ef ekki eru ákvæði um breytilega vexti er annar valkostur algengur, sá að hafa vextina fasta eða óumbreytanlega allan lánstímann líkt og gert er í svokölluðum fasteignaveðbréfum sem eru skiptanleg fyrir húsbréf Byggingarsjóðs ríkisins. Almenna reglan við innheimtu veðskuldabréfa er sú að þau eru innheimt samkvæmt þeim ákvæðum sem bréfin hafa að geyma og á hún jafnt við alla skuldara sambærilegra lána. Samningar skulu standa og á það jafnt við um báða samningsaðila. Þessi regla á jafnt við í lánssamningum og öðrum samningum. Afar mikilvægt er að þessi regla sé haldin til þess að tiltrú manna á gildi samninga fari ekki forgörðum.
    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 5. desember sl. var afar óheppileg að því leyti til að þar fór hún á undan með slæmu fordæmi sem slævir vitund fólks fyrir því hvernig halda skuli samninga. Sambærilegir lánssamningar eru skyndilega túlkaðir á mismunandi vegu. Hvers eiga þeir að gjalda sem leystu út lán sín fyrir 5. desember?
    Ákvörðunin hafði einnig slæm áhrif á fasteignamarkaði og urðu fasteignasalar áþreifanlega varir við það í störfum sínum. Ef ákvörðun þessi verður ekki endurskoðuð mun hún fyrirsjáanlega hafa alvarleg áhrif þegar frá líður. Kaupverð fasteigna er í sífellt vaxandi mæli að verða meira eða minna verðtryggt. Allir kaupsamningar um nýbyggingar eru að fullu verðtryggðir. Með
tilkomu húsbréfanna greiðist kaupverðið mun hraðar en áður og allt stefnir í að innan fárra ára verði kaupverð allra eldri íbúða einnig að fullu verðtryggt. Þetta er afar eðlileg þróun því að engin rök eru fyrir því að seljandi láni kaupanda stóran hluta kaupverðsins án verðtryggingar. Í öllum öðrum lánssamningum þurfa skuldarar að greiða verðbætur eða vexti sambærilega verðbótum.
    Þessi þróun mun aftur leiða til þess að nauðsynlegt verður að núvirða þau lán sem á íbúðum hvíla og kaupendur yfirtaka. Öll lán Byggingarsjóðs ríkisins eru bundin við tiltekna fasteign og getur seljandi (skuldari) því ekki flutt lánið með sér og komist þannig hjá núvirðingu þeirra. Flest lán Byggingarsjóðs, veitt eftir gildistöku laga 54/1986, eru frekar há og um leið hátt hlutfall af verði íbúða. Það gefur auga leið að seljandi, sem skuldar lán með 4,5% vöxtum, kemur lakar út úr núvirðingu þessari heldur en seljandi, sem skuldar lán með 3,5% vöxtum, sem þó er úr sama lánaflokki.
    Af þessu mál ljóst vera að sú ávörðun ríkisstjórnarinnar frá 5. desember sl., sem fyrr er lýst, mun verðfella eignir þeirra sem skulda lán með 4,5% vöxtum í samanburði við eignir þeirra sem fengu lán fyrir 5. desember og bera 3,5% vexti. Hér er því verið að mismuna lántakendum illilega.
    Félag fasteignasala tekur ekki afstöðu til þess hver vaxtahæð lána Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera, en í ljósi þess sem að framan er lýst telur félagið afar áríðandi að öll lán í sama lánaflokki beri sömu vexti.
    Félag fasteignasala er þar af leiðandi fylgjandi því að greint frumvarp verði að lögum og telur það bæta úr óþolandi mismunun sem lántakendur hafa orðið fyrir.

Virðingarfyllst,


Þórólfur Halldórsson,


formaður.





Fylgiskjal II.


Dr. Pétur H. Blöndal, formaður
stjórnar Landssambands lífeyrissjóða:



Umsögn


um frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 86/1988, um


Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.


(15. mars 1990).



    Landssamband lífeyrissjóða hefur verið beðið um umsögn um ofangreint frumvarp, en það kveður skýrt á um að ekki megi vera mismunandi vextir á lánum innan sama lánaflokks hjá Byggingarsjóði ríkisins.
    Landssamband lífeyrissjóða styður ofangreint frumvarp með eftirfarandi rökum:
1.     Greiðslubyrði ungs fólks er oftast þyngst fyrstu árin. Þess vegna er það óeðlilegt að þeir sem taka lán eftir 15. nóvember sl. skuli greiða hærri vexti en hinir sem flestir eru komnir á lygnan sjó fjárhagslega.
2.     Ef vextir á öllum lánum hefðu verið hækkaðir jafnt hefði miklu lægri vaxtahækkun skilað meiri tekjum til byggingarsjóðsins sem ekki mun veita af tekjunum.
3.     Eftir ofangreinda vaxtahækkun 15. nóvember sl. eru í gangi á fasteignamarkaði nákvæmlega eins skuldabréf, sem þó bera mjög mismunandi vexti. Þetta kemur til með að rugla fólk í ríminu og valda því tjóni, því nýrri bréfin eru um 16% verðmeiri en hin gömlu þó að bæði líti eins út.
    Það eina sem mælir með framkvæmdinni hjá Húsnæðisstofnun er samanburður eldra húsnæðiskerfisins við nýja húsbréfakerfið varðandi vexti. En mönnum hefði verið í lófa lagið að gefa út nýjan lánaflokk sem bæri hærri vexti.