Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 520 . mál.


Nd.

1211. Nefndarálit



um frv. til l. um Búnaðarmálasjóð.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Nefndin fékk til viðræðna um efni frumvarpsins Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra, Hauk Halldórsson, formann Stéttarsambands bænda, Leif Kr. Jóhannesson, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og Guðmund Sigþórsson úr landbúnaðarráðuneytinu. Umsagnir um frumvarpið bárust frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Stéttarsambandi bænda, búnaðarþingi 1990, Búnaðarsamtökum Vesturlands og Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild landbúnaðarráðherra til að ákveða með reglugerð sérstakt gjald af hvers konar greiðslum, sem eru látnar koma í stað framleiðslu, verði afnumin. Í öðru lagi er gerð tillaga um breytta tekjuskiptingu af búnaðarsjóðsgjaldi þannig að tekjur búgreinafélaga og Stofnlánadeildar eru lækkuð örlítið og mismunurinn látinn renna til Búnaðarfélags Íslands vegna félagslegrar starfssemi þess. Í þriðja lagi er lagt til að 5. gr. verði breytt þannig að heimild sú sem þar er veitt til gjaldtöku nái ekki til búgreinafélaga sauðfjár- og nautgriparæktar. Að lokum er lagt til að bætt verði tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða. Í því fyrra er ákvæði um yfirstjórn forfallaþjónustu bænda en nauðsynlegt er að ákveða skipan hennar. Í því síðara er lagt til að Stofnlánadeild landbúnaðarins haldi óbreyttum tekjum til 30. nóvember nk. Er þetta gert til að fjárhagsáætlanir deildarinnar raskist sem minnst.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Málmfríður Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessari afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 1990.



Alexander Stefánsson,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir,


fundaskr.


Eggert Haukdal.


Pálmi Jónsson.


Þórður Skúlason.


Guðni Ágústsson.


Ingi Björn Albertsson.