Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í umræðunni um álmálið í dag og í kvöld hafa komið fram rökstuddar efasemdir um að álver og orkusala til þess muni skila þjóðarbúinu arði. Ýmsir óttast að við séum að taka á okkur þungan bagga í fjármálum og umhverfismálum. Undir þennan ótta og þessar efasemdir tek ég.
    Mótrök þeirra sem vilja reisa álver og trúa því að við munum ná hagstæðum samningum, án þess að spilla náttúru okkar, finnast mér ekki sannfærandi. Raunar hefur glöggt komið fram hér í dag að slakað verði á ýtrustu kröfum um mengunarvarnir. Það er mjög háskalegt ef af verður.
    Ég er ekkert undrandi á því að heyra þann ótta og þær efasemdir sem ég hef skynjað í máli ráðherra innan stjórnarinnar og ég vona að afstaða þeirra sé annað og meira en orðin tóm. En fyrst og fremst set ég spurningarmerki við nauðsyn þess að leita að lausnum á atvinnumálum með byggingu stóriðjuvera.
    Í nafni atvinnusköpunar virðast menn reiðubúnir til að bæta enn einum áhættuþættinum inn í þjóðarbúskapinn. Er ekki nóg að búa við sveiflur í sjávarútvegi, viljum við líka taka þátt í álverðslotteríinu? Ég held að í happdrættinu sé ekki einungis að finna vinninga heldur séu menn að kaupa miða fyrir allt of háar fúlgur án þess að eiga eiginlega nokkra von um vinning. Ætli þátttaka í happdrættum yrði ekki mikil ef menn gætu keypt sér eitt stykki miða með öruggum vinningi eins og menn virðast halda að þeir séu að gera? Þannig er það ábyrgðarhluti að kaupa ekkert annað en happdrættismiða fyrir matarpeningana því það er jú raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.
    Ég tek undir með þeim sem hafa áhyggjur af byggðarröskun vegna staðsetningar álversins. Í raun hefði orðið byggðarröskun hvar sem álveri hefði verið fundinn staður. Á Keilisnesi er vandinn sá að vinnuaflið leitar í enn ríkara mæli á suðvesturhornið og var þó ekki á það bætandi. En staðsetning álvers hefði orðið vandamál hvar sem því hefði verið valinn staður, í strjálbýlum byggðum vegna þenslu á byggingartíma og síðan spennufalls í lok framkvæmda. Það vandamál þekkjum við mætavel í kjölfar mikilla virkjanaframkvæmda, t.d. á Suðurlandi og við Blöndu. Raunar mun bygging álvers valda þenslu hvar sem það verður byggt, einnig á Keilisnesi, og spáð er auknu atvinnuleysi fyrst eftir að framkvæmdum lýkur á suðvesturhorninu, þótt ekki sé þess vænst að hún yrði jafnmikil og í fámennari byggðum. Allt er þetta gert í nafni atvinnuuppbyggingar. Ég veit mætavel að atvinnuleysi er alvarlegt vandamál víða á Suðurnesjum. En ég vildi óska þess að íbúum þar væri boðin betri og raunhæfari lausn en álver. Suðurnesjamenn hafa löngum kvartað undan því að þeir hafi orðið útundan í atvinnumálum vegna þess að þeim sé einatt vísað upp á völl, og þá er ég að meina Keflavíkurflugvöll, ef syrtir í álinn. Þetta er æði klén atvinnustefna og ber hvorki vott um stórhug né hugkvæmni.
    Nú bendir sem betur fer ýmislegt til að hernaðarumsvif á Reykjanesi minnki. Atvinna Íslendinga hjá hernum mun þá minnka í kjölfarið. Út af fyrir sig held ég að flestir fagni þeirri þróun. En upp á hvað er Suðurnesjabúum boðið? Er þeim boðið upp á endurreisn í hinni hefðbundnu atvinnugrein, fiskvinnslunni, frumvinnslu og fullvinnslu sjávarafurða, atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi ef vel verður á málum haldið? Er þeim boðið upp á nýsköpun svo sem ferðaþjónustu, hefðbundna og óhefðbundna, upplýsingavinnslu, vetnisframleiðslu og aðra nýtingu orkunnar á Suðurnesjum?
    Ég veit að fólk á Suðurnesjum býr yfir ýmsum hugmyndum og á ýmsar óskir um fjölbreytta atvinnu. En er þetta það sem hlúð er að? Er hlustað á frumkvæði fólks og ferskar hugmyndir? Nei, það er nú eitthvað annað. Álver er það eina sem mönnum hugkvæmist að ota að íbúum Reykjaness og þar með er verið að festa svæðið í sessi sem stóriðjusvæði með mengun og einhæfri atvinnu. Ekki samrýmist það vel uppbyggingu í ferðaþjónustu.
    Eftir undarlegt karp um staðarval fyrir álver þora fáir annað en að láta eins og þeir hafi himin höndum tekið. Og er nema von að Suðurnesjabúar óttist að hér eftir verði jafnvel enn erfiðara en fyrr að fá fyrirgreiðslu til raunverulegrar nýsköpunar í atvinnulífi? --- Þið fenguð álverið, hvað eruð þið að kvarta, er svarið sem búast má við að Suðurnesjamenn fái að heyra æði oft á næstu árum.
    Þrátt fyrir að umræðan um álver hafi nálgast heilaþvott á stundum er athyglisvert að einungis 46,2% aðspurðra í nýrri skoðanakönnun DV skuli lýsa stuðningi sínum við álsamninga þá sem Jón Sigurðsson gerði nýverið. 25,3% voru andvígir þeim, 25,8% voru óvissir og 2,7% vildu ekki svara, svo maður tíundi þetta nú nákvæmlega. Af þeim sem tóku afstöðu lýstu 2 / 3 sig fylgjandi samningum en þriðjungur var á móti.
    Með þessum niðurstöðum úr könnun DV voru einnig birtar athugasemdir sem fólk lét falla. Ætli þær túlki ekki hug fólks nokkuð vel? Ég þykist a.m.k. þekkja þar enduróm ýmissa radda sem við kvennalistakonur heyrðum á ferð okkar um ýmis kjördæmi landsins núna í haust. Ég tek hér dæmi með og móti, með leyfi forseta:
    Karl í Reykjavík sagðist 51% fylgjandi undirskrift Jóns Sigurðssonar. Kona í Reykjavík kvað illa komið í álmálinu þar sem álverið yrði ekki á landsbyggðinni. Karl á Akureyri sagði að staðsetning álversins á Keilisnesi væri hárrétt frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Kona á Akureyri kvað Íslendinga hljóta að geta fundið upp á einhverju betra en álveri. Karl á Austurlandi kvaðst guðs lifandi feginn að álverið færi ekki austur. Kona í Grindavík sagði að álverið gengi endanlega frá sjávarútvegnum á Suðurnesjum.
    Ég deili áhyggjunum með konunni í Grindavík.
    Uppbygging álvers mun væntanlega einnig koma illa niður á nýsköpun og vöruþróun. Hætt er við að erfitt verði að fá fé til rannsókna á nýjum atvinnumöguleikum, til vöruþróunar í fiskvinnslu þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi. Ég vil sem dæmi nefna gífurlega söluaukningu sjávarréttaverksmiðjunnar Mörsku á Skagaströnd, sem nú annar aðeins tveimur borgum í Frakklandi. Svo vel hefur vöruþróun gengið þar, þrátt fyrir ýmis erfið ytri skilyrði.
    Þá verður erfitt að sækja fé til uppbyggingar ferðaþjónustunnar, sem er gífurlega atvinnuskapandi og skilar nú þegar um 15% gjaldeyristekna okkar af útfluttum vörum og þjónustu í þjóðarbúið. Þess má geta að tekjur af ferðaþjónustu jukust um 27,2% milli áranna 1988 og 1989.
    Væri ekki nær að hlúa að þeirri atvinnugrein sem lofar svo góðu í stað þess að fara út í áhættubúskap eina ferðina enn og stofna vaxandi atvinnugrein, svo sem ferðaþjónustu, í hættu í leiðinni? Mig langar til að vitna í orð eins matvælaframleiðanda orðum mínum til áréttingar, en í Morgunblaðinu einmitt þann 4. okt. sl., sama dag og skrifað var undir óskilgreint plagg --- hvort sem það var nú samningur eða fundargerð --- segir Egill Thorarensen svo, með leyfi forseta:
    ,,Íslenskir matvælaframleiðendur eru alltaf að koma sterkar og sterkar inn í myndina hjá erlendum innkaupastjórum víða um heim. Menn eru farnir að líta til Íslands vegna lítillar mengunar hér og þess vegna er svolítill uggur í fólki vegna byggingar nýs álvers. Ég er hræddur um að það mál eigi eftir að hafa slæm áhrif á matvæla - og ferðamannaiðnað, sem gætu annars orðið verulega umfangsmiklar greinar hér. Að mínu mati er verðugra að vera þekkt þjóð fyrir matvælaframleiðslu og eftirsótt ferðamannaland heldur en fyrir að framleiða ál,`` segir Egill.
    Atvinnustefna sem byggist á álveri kemur illa niður á þeim svæðum sem út undan verða, en spillir ekki aðeins fyrir atvinnugreinum heldur einnig svæðum. Hún kemur raunar einnig illa niður á þeim Reyknesingum sem ekki munu leita eftir starfi í álveri, og þeir eru býsna margir. Þessari röksemd er oft viskað burtu og vísað til margfeldiáhrifa sem álver muni hafa. Margfeldiáhrif vegna álvers eru ekkert meiri en margfeldiáhrif 600 nýrra starfa í öðrum greinum, kannski minni. Ekki má gleyma því að hætta er á að býsna mörg störf leggist niður eftir að álver hefur risið vegna þess að álverið geti um einhverja stund boðið betur í mannskapinn. Það er aldrei hugsað um það tap sem slíku mundi fylgja, þau margfeldiáhrif sem þar verða að engu og þau verðmæti í húsnæði og tækjum sem geta farið fyrir lítið ef álverið tekur t.d. mannafla frá sjávarútveginum. Það er ekki hægt að treysta því að þegar byggð er upp svo einhæf atvinna sem stóriðja er þá fái einmitt þeir sem helst vantar vinnu eitthvað við sitt hæfi. Ég leyfi mér að vitna til greinar Lilju Mósesdóttur hagfræðings í nýjasta tölublaði Vísbendingar en þar bendir hún réttilega á hverjir það séu sem skráðir eru atvinnulausir. Það eru konur.
    Árið 1986 var það raunar ekki svo heldur hefur þessi tilhneiging einkum verið á síðustu árum, þótt eflaust hafi verið mjög mikið dulið atvinnuleysi meðal kvenna. 1986 var skráð atvinnuleysi karla og kvenna á landinu álíka mikið eða um 0,7%. Nú er atvinnuleysi meðal kvenna 2,6% að meðaltali yfir landið en 1,6% hjá körlum. Ef við lítum á atvinnuleysi á

Suðurnesjum --- þar á jú að fara að reisa álver ef við berum ekki gæfu til að breyta þeirri stefnu --- er munurinn milli kynja jafnvel enn meiri. Frá því í janúar og fram í september á þessu ári hefur atvinnuleysi karla á Suðurnesjum verið um 1% en atvinnuleysi kvenna þrefalt meira eða um 3%. Skyldi þessar atvinnulausu konur dreyna um álver? Tæplega. Hér er þó síst um ofáætlun að ræða því það er einkum meðal kvenna sem dulið atvinnuleysi er. Ég vitna í grein Lilju Mósesdóttur, með leyfi forseta, en hún segir:
    ,,Skráningin er nátengd bótarétti --- þ.e. skráning atvinnuleysis --- og því vantar mjög oft þá einstaklinga á atvinnuleysisskrá sem ekki eiga rétt á bótum en leita atvinnu, eins og t.d. heimavinnandi fólk, verktakar, fólk sem nýlokið hefur námi og fólk sem ekki kærir sig um smánargreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.``
    Ég yrði ekki undrandi þótt fyrstnefndi hópurinn, heimavinnandi fólk sem fyrst og fremst er konur, væri langstærsti hópurinn af þessum.
    Hversu mjög sem reynt hefur verið að telja okkur trú um að störf í álveri henti konum ágætlega þá hefur reynslan sýnt að það eru ekki konur sem sækja vinnu í stóriðjuver. Jafnvel störfin sem skapast aukreitis með tilkomu álvers eru fyrst og fremst karlastörf. Þau tengjast höfninni, uppskipun og flutningi á sjó og landi, ef marka má orð fulltrúa úr ráðgjafarnefnd iðnrn. um álver.
    Sú ferðaþjónusta sem við kvennalistakonur bindum svo miklar vonir við er atvinnuskapandi og margfeldiáhrif hennar eru kunn. Aukning starfa í ferðaþjónustu kemur landsbyggðinni, þar á meðal Suðurnesjum, enn betur en höfuðborgarsvæðinu. Aukning ársverka í ferðaþjónustu var um 38% á árunum 1981 -- 1987, en 123% úti á landsbyggðinni á sama tíma. Auk þess skilaði aukningin sér í öðrum störfum, svo sem fólksflutningum, ferðaleiðsögn, verslun og þjónustu af ýmsu tagi. Ég vil auk þess vekja athygli á því sérsviði innan ferðaþjónustunnar sem Suðurnesjamenn hafa einkum rennt hýru auga til en það eru heilsuverndarhótel af ýmsu tagi. Við vitum öll hve svæði eins og Bláa lónið eru vel fallin til slíkrar ferðaþjónustu. Á aðalfundi Útflutningsráðs sl. vor flutti Grímur Sæmundsson athyglisvert erindi um möguleikana í þessari gerð ferðaþjónustu. Hann sagði m.a. í erindi sínu, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel tvímælalaust að hægt sé að kynna og markaðssetja heilsuferðir til Íslands sem stæðu frá einni til þremur vikum án þess að fjárfest væri í nokkru öðru en markaðsmálum.``
    Á meðan allt of litlu fé er varið til vöruþróunar og markaðsmála og allt of miklu fé og orku til stóriðjudrauma er ekki von að framfarir verði og hagvöxtur aukist. Það er hægt að auka hagvöxt án þess að ganga á auðlindir okkar en til þess þarf verksvit. Fiskvinnslan á erfitt uppdráttar um þessar mundir. Þúsund störf í fiskvinnslu hafa tapast á einu ári. Það er um 14% allra starfa í þessari atvinnugrein. Því miður mætir þeim er vinna að nýsköpun í fiskvinnslu stundum lítill skilningur opinberra aðila. Væri hluta þess fjár sem

eytt er til stóriðjukönnunar eða til að bjarga fallítt fyrirtækjum varið til nýsköpunar í fiskvinnslu, undirbúningsvinnu og fyrirhyggju stæðum við án efa betur. Það er hægt að búa til verðmæta vöru úr hráefni sem áður var hent. Svo ég vitni nú aftur til Mörsku á Skagaströnd, þá tókst þar með vöruþróun að lækka framleiðslukostnað á saltfiskrúllum sem seldar eru á 22 kr. stykkið, úr 39 kr. niður í 13 kr. Ber ekki að hlúa að því sem við ættum að vera stoltust af: Vinnslu fisksins okkar, kynningu landsins okkar í skipulagðri ferðaþjónustu og nýtingu menntunar okkar með því að huga að sérhæfðum verkefnum sem gefa gott í aðra hönd, hvort sem um er að ræða vetnisframleiðslu eða upplýsingadreifingu? Er það ekki betra hlutskipti en að vera eilíflega í hópi þjóða með lítt þróað atvinnulíf sem byggja allt sitt á frumvinnslu hráefnis með öllum þeim sveiflum sem henni fylgja?
    Því miður hefur álversumræðan orðið til að drepa öðrum og betri hugmyndum á dreif, ekki bara þessum heldur ótal mörgum öðrum. Mér finnst skorta alvarlega á framsýni og fyrirhyggju í atvinnumálum Íslendinga. Ég tíunda þetta hér vegna þess að enn hefur ríkisstjórnin enga bindandi samninga gert ef marka má orð ýmissa hér í dag. Enn er von til þess að skynsamlegt mat fari fram á kostum og göllum álvers og annarrar atvinnuuppbyggingar og þá meina ég skynsamlegt mat sem tekur tillit til alls sem þarf. Mér þykir það alvarlegt mál ef mengunarvarnir eiga að byggjast á því að mæla hin og þessi efni. Ég sakna þess að heyra ekkert um það til hvaða úrræða væri hægt að grípa ef mengun mældist of mikil. Ég undrast að heyra að allt sé í lagi með mengun ef hún bara fýkur burt. Og ég óttast það verulega ef mengunarvarnir eru það fáfengilegar að lélegur vinnumórall eigi að geta spillt þeim, eins og hér hefur komið fram í dag. Því miður er hætt við að á láglaunasvæði eins og á Íslandi, því það er vissulega láglaunasvæði, geti komið upp harðvítugar vinnudeilur. Við þekkjum dæmin, jafnvel þótt erfið störf í stóriðju yrðu eitthvað betur borguð en almennt gerist.
    Ég hygg að niðurstaða skynsamlegs mats mundi ekki verða að við reistum álver heldur byggðum upp fjölbreytta og arðvænlega atvinnu handa konum og körlum og ég er viss um að sá hagvöxtur sem á því byggðist væri heilbrigðari en það sem við leitum nú í.