Mannanöfn
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. hér að þessu sinni. Það kemur væntanlega til umfjöllunar í nefnd þar sem ég á sæti. En ég vildi aðeins að það kæmi fram við þessa umræðu að auðvitað er nauðsynlegt að hafa hér vissar grundvallarreglur og svo hefur verið lengi í íslensku réttarfari. Það hafa verið lög um mannanöfn til býsna lengi. En mér sýnist að með þessari löggjöf ætli löggjafinn sér að seilast ansi langt til að hafa --- ja, ég veit ekki hvort ég á að segja að hafa vit fyrir fólki eða hafa stjórn á þessum hlutum sem eru mjög persónulegir og einstaklingsbundnir og mjög nánir auðvitað hverjum einstaklingi. Það er ýmislegt hér sem mætti nefna í þeim efnum, t.d. sýnist mér að mannanafnanefnd sé beinlínis mannanafnadómstóll. Hún á að ráða þessu. Ég fæ ekki annað séð.
    Í öðru lagi vildi ég nefna hér það sem stendur í 1. gr.: ,,Hverju barni skal gefa eiginnafn, eitt eða tvö.`` Má barn ekki bera þrjú eiginnöfn? Það er kannski ekki algengt en það hefur ævinlega verið til hér á landi að ég hygg. Og hvað er það sem í rauninni mælir gegn því ef menn svo kjósa? Þetta mál þarf auðvitað mikillar umræðu við í nefndinni, sýnist mér, en hún mun auðvitað stefna að því að ná um það niðurstöðu og afgreiða það hvort sem það verður með miklum breytingum eða litlum og hitta vonandi að máli þá menn og þær konur sem hafa komið hér við sögu. En mér sýnist ýmislegt vera hér sem ekkert er óeðlilegt að menn hafi mjög ólíkar skoðanir á.